Barði Barðason skipstjóri 1865

Siglfirðingur - 27. febrúar 1948

Barði Barðason skipstjóri. fæddur 25. janúar 1865. — Dáinn 21. febrúar 1948.

Barði Barðason fæddist að Kvíabekk í Ólafsfirði 25/1 1865.
Faðir hans var Barði Barðason skipstjóri, sonur Guðmundar Brynjólfssonar verzlunarstjóra hér við Siglufjarðarverzlun og konu hans Sigurlaugar Þorleifsdóttur frá Bæ á Höfðaströnd.

En móðir Barða Barðasonar 1865 var Guðrún Jónsdóttir, systir þeirra Guðmundar Vonarformanns og Jóns á Brúnastöðum í Fljótum.

Höfðu þau Barði eldri og Guðrún fellt hugi saman á ungum aldri, en fengu eigi að njótast og lézt Guðrún eigi löngu eftir að sonur þeirra fæddist.

Barði Barðason (1865) yngri fór ungur í fóstur til Jóns „bóndans" á Siglunesi, valinkunns sæmdarmanns, og ólst þar upp til fullorðins ára.

Þar giftist hann 13/111884 Ingibjörg Þorleifsdóttir, fæddri 10/10 1867, dóttur Þorleifs bónda á Siglunesi Þorleifssonar og konu hans Halldóru Jónsdóttur.

Er Ingibjörg enn á lífi hér í Siglufirði, og hafði hvorugt þeirra hjónanna átt heimili annarsstaðar en hér í Siglufirði alla ævina.

Ingibjörg Þorleifsdóttir og Barði Barðason  -- Lósmynd: Kristfinnur (?)

Ingibjörg Þorleifsdóttir og Barði Barðason -- Lósmynd: Kristfinnur (?)

Þau Barði og Ingibjörg eignuðust saman 7 sonu, en af þeim náðu þrír fullorðinsaldri,

  • Jón Barðason er drukknaði 27/10 1936, en á lifi eru
  • Barði Baraðason skipstjóri og útgerðarmaður og
  • Þórhallur stýrimaður, báðir giftir og búsettir hér í Siglufirði, en hjá þeim hafa foreldrar þeirra dvalið síðasta árið. —

Sambúð þeirra Barða og Ingibjargar hefir verið hin farsælasta. —
Útgerð var mikil f rá Siglunesi á uppvaxtarárum Barða þar, og þá stóð einnig hákarlaútgerðin frá Siglufirði með hvað mestum blóma Barði vandist því snemma við sjómennsku og rúmt tvítugur er hann orðinn skipstjóri á Siglnesingi.

Fékk hann orð fyrir að vera ágætur sjómaður og sérstaklega fyrir það, hve öruggur hann var í leiðarreikningum, sem þá mun hafa þótt nokkuð skorta á hjá sumum hákarlaskipstjórunum. — Var hann skipstjóri á þilskipum um eða yfir 20 ár og farnaðist það ávallt vel. — Á vetrum fékkst Barði við seglasaum á þilskipin héðan, en eftir að hann hætti skipsstjórn, var hann um fjölda mörg ár síldármatsmaður hér og rækti það starf með fágætri samvizkusemi og árvekni.

Er mér sem þessar línur rita ljúft að minnast samvinnu við hann á því sviði og raunar á fleiri sviðum. Þá eigi sízt í bindindismálum, því að þeim vann hann lengi og af einlægni og heilum hug. . Barði var ágætlega greindur maður og mátti kallast vel að sér, en hann var mjög hlédrægur og dulur í skapi. Bar því minna á hæfileikum hans en annars.

Og lítt vildi hann gefa sig að opinberum málum, en enginn þurfti til þess að hugsa, að hann kvikaði frá þeirri stefnu, sem hann hafði tekið í hverju máli sem var, því stefnuna markaði hann ávallt að hverju máli gerhugsuðu. Var oft gaman að ræða við Barða um landsmál, og eigi síður þótt skoðanir skyldi 'á, því hann var rökfimur vel, víðlesinn og stálminnugur.

Barði heitinn var af sterkum og kyngóðum ættum kominn og í ætt hans var gáfufólk. Hann var m.a. í föðurætt náskyldur skáldinu Grími Thomsen. Föðursystur hans tvær, sem ég þekkti vel, voru óvenju gáfaðar konur, ekki sízt Geirlaug, sem hér lézt háöldruð fyrir nokkrum árum, ein gáfaðasta kona, sem ég hefi kynnzt. Barði var ekki úrkynjaður kvistur af þeim stofni.

Og hann var gagnvandaður maður í hvívetna og drengskaparmaður hinn mesti; óhlutdeilinn um annarra hagi og kaus að lifa í friði við alla menn. Með Barða er í valinn fallinn einn af merkustu fulltrúum hinnar eldri kynslóðar hér í Siglufirði. Ég flyt hinum látna heiðursmanni og vin mínum alúðar þökk fyrir langa og ánægjusama samfylgd á lífsleiðinni og trygga vináttu og einnig eftirlifandi ekkju hans háaldraðri. Minningin um hann er mér hugstæð og kær. Og þess óska ég Siglufirði, að sveit vor megi á öllum tímum eiga sem flesta þá menn er jafnheitt unna bænum og vilja jafn einlæglega heill hans og Barði Barðason.

Jón Jóhannesson