Tengt Siglufirði
Bergur Guðmundsson Fæddur 25. september 1900 - Dáinn 5. maí 1988
(Guðm. Guðm.)
Bergur Guðmundsson fyrrv. kennari lézt á ellideild sjúkrahúss Siglufjarðar, 87 ára að aldri. Hann fæddist á Þrasastöðum, fremsta bæ í Stíflu, einum af fegurstu dölum Skagafjarðar, áður en virkjunarframkvæmdir lögðu þar nokkrar jarðir í eyði.
Örlögin höguðu því svo, að þegar Bergur var átta ára gamall, varð hann að kveðja hinar fögru æskuslóðir sínar, foreldra og systkini, og hverfa til nýrra heimkynna
Foreldrar hans voru Guðmundur Bergsson bóndi á Þrasastöðum, Jónssonar b.s.st., og konu hans Guðnýjar
Jóhannsdóttur, b. á Sléttu Magnússonar.
Það óhapp vildi til á Þrastastöðum, skömmu eftir að sjötta barn þeirra hjóna fæddist, að íbúðarhúsið
brann til kaldra kola og fjórar kýr köfnuðu í fjósi.
Guðmundur Bergsson, sem var kunnur hagleiksmaður og smiður góður, byggði bæ sinn að nýju með aðstoð vina sinna, sem voru boðnir og búnir til þess að rétta honum hjálparhönd. En meðan á þessum erfiðleikum stóð var Bergur sendur að Hamri í Fljótum, til Björns Sölvasonar og konu hans, Guðrúnar Margrétar Símonardóttur, sem bjuggu þar myndarbúi og höfðu eignast fjögur börn en misst þau öll í bernsku.
Þegar að því kom að foreldrar Bergs gátu tekið hann aftur til sín, voru hjónin á Hamri ófus að láta hann fara og sótti Guðrún það fast að fá hann til fósturs, en hún taldi til frændsemi við fjölskylduna á Þrasastöðum. Bergur ólst því upp á Hamri hjá Birni og frænku, eins og hann kallaði þau, en auk hans ólu þau hjón upp þrjá aðra drengi. Björn og Guðrún voru barnelsk og gerðu vel við fósturbörn sín.
Bergur mun hafa saknað foreldra sinna og systkina og fékk að vera með þeim um hver jól fyrstu árin sín á Hamri. Hann hélt síðar nánu sambandi við öll systkini sín og eftir að þau höfðu stofnað sín eigin heimili bjó hann hjá bræðrum sínum meira og minna og bræðrabörnum, en Bergur kvæntist aldrei.
Bergur Guðmundsson lauk kennaraprófi árið 1926. Hann var kennari við barnaskóla Siglufjarðar um árabil og kenndi þar m.a. leikfimi, en hann hafði sótt íþróttanámskeið hjá ISÍ. Hann stundaði einnig nám einn vetur við Búnaðarskólann á Hólum og var heimiliskennari þar um tíma. Bergur var tollvörður á Siglufirði og síðar á Norðfirði, en þá bjó hann hjá Jóni bróður sínum sem er búsettur þar.
Sonur Bergs og Ólínar Kristinsdóttur er Haukur Bargsson f. 29. júlí 1931. -
Ólína veiktist og lést þegar Haukur var á unga aldri og ólst
hann upp á Óslandi í Höfnum hjá Ólafi Ketilssyni og konu hans Steinunni Oddsdóttur og Evu dóttur þeirra hjóna.
Börn Hauks Bergssonar vélvirki búsettur í Reykjavík
og Ástu Karlsdóttur konu hans eru: Sigurður tölvufræðingur, kvæntur Kristínu Axelsdóttur, Ólafur Steinar verkfræðings kvæntur Þóru Hafsteinsdóttur, Bergur pípulagningamaður
ókvæntur, og Eva sem er yngst og enn í heimahúsum.
Bergur Guðmundsson dvaldi síðustu árin á ellideild sjúkrahúss Siglufjarðar ásamt Þorvaldi bróður sínum
og Kristjönu konu hans. Þau sakna nú Bergs, sem spilaði við þau_ og stytti þeim stundir með glaðværð sinni og gamansemi. Útför Bergs föðurbróður okkar fór fram frá
Siglufjarðarkirkju á björtum og fögrum vordegi. Við þökkum honum góðvild og elskusemi í okkar garð í gegnum árin, og sendum Hauki og fjölskyldu hans innilegar kveðjur.
Margrét, Ástrún og Gyða Jóhannsdætur