Jón Kjartansson, forstjóri, fyrrum bæjarstjóri

Einherji - 1985

Fimmtudaginn 21. nóvember 1985 andaðist Jón Kjartansson, forstjóri, fyrrum bæjarstjóri á Siglufirði, á heimili sonar síns í Hamborg. Hann var jarðsettur að viðstöddu miklu fjölmenni, frá Háteigskirkju, þriðjudaginn 3. desember.

Með Jóni er genginn einn mætasti sonur Siglufjarðar, Á bæjarstjórnarfundi 12. desember minntist forseti bæjarstjórnar, Bogi Sigurbjörnsson, Jóns í upphafi fundar, en forseti var jafnframt sérstakur fulltrúi bæjarstjórnarinnar við útför Jóns í Reykjavík.

JÓN KJARTANSSON, forstjóri Kveðjafrá Siglufirði

Fimmtudaginn 21. nóvember 1985 varð Jón Kjartansson fyrrum bæjarstjóri í Siglufirði bráðkvaddur. Með Jóni Kjartanssyni er genginn einn mætasti sonur Siglufjarðar, sem ætíð var reiðubúinn af fórna kröftum sínum fyrir málefni Siglfirðinga og Siglufjarðar. Þegar fréttin um lát þessa trausta og góða vinar Siglfirðinga barst til bæjarins, var fólki efst í huga söknuður og þakklæti.

Söknuður vegna vinar í stað, sem ætíð leit á Siglfirðinga sem eina heild, hvort sem var heima eða heiman og þakklæti fyrir öll þau fórnfúsu og óeigingjörnu störf sem hann innti af hendi í þágu bæjarbúa allt sitt líf. Jón Kjartansson var fæddur 5. júní 1917, og var því 68 ára er hann féll frá. Fyrstu 40 ár ævi sinna átti hann heima á Siglufirði, eða þar til hann gerðist forstjóri Áfengisverslunar ríkisins árið 1957. Á Siglufjarðarárum sínum gegndi Jón margvíslegum störfum, þar til hann gerðist bæjarstjóri Siglfirðinga árið 1949.

Jón Kjartansson - Ljósmynd Kristfinnur

Jón Kjartansson - Ljósmynd Kristfinnur

Bæjarstjórastarfinu gegndi hann til ársins 1958. Á þessu tímabili voru miklir erfiðleikar hjá bæjarfélaginu, vegna brotthvarfs síldarinnar, og þeirra áfalla sem bæjarfélagið varð fyrir þegar atvinnulífið hreinlega lagðist í rúst. í störfum sínum sem bæjarstjóri sýndi Jón hversu gífurlegur baráttumaður hann var, er hann barðist fyrir enduruppbyggingu og endursköpum atvinnulífs bæjarins á þessum tíma.

Hann hafði forgöngu af hálfu bæjarfélagsins um togaraútgerð og að frystihúsrekstur og fiskvinnsla var hafin, sem sókn til nýrrar atvinnuuppbyggingar, á þessum tíma. Sá sem þetta skrifar minnist skemmtilegrar frásagnar Jóns, af ótrúlegri baráttu hans í Reykjavík, þegar hann fór suður, eins og sagt var, til þess að sækja togarann Hafliða. Síldarverksmiðjur ríkisins, fyrsta stóriðjan á Íslandi, hafa verið og eru, stærsti aflgjaldi atvinnulífsins á Siglufirði.

Þessu fyrirtæki tengdist Jón snemma, fyrst sem sendisveinn, en innan við tvítugt orðinn verkstjóri. I stjórn þessa fyrirtækis hefur hann átt sæti um árabil, og síðari ár sem varaformaður stjórnarinnar. í stjórnarstörfum sínum hjá þessu stóra fyrirtæki, sýndi hann eins og endra nær í störfum sínum, dugnað, árvekni og fyrirhyggju, og fullyrða má að starfsemi Síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði væri ekki með þeirri reisn sem nú er, hefði Jóns Kjartanssonar ekki notið við.

Það var því örugglega með mikilli ánægju, sem þessi sanni vinur Siglufjarðar ræsti nýja tölvustýrða vélbúnaðinn hjá S.R. í haust við hátíðlegt tækifæri, og þar með eina fullkomnustu verksmiðju í heimi á þessu sviði. Með þessum fáu og fátæklegu orðum vil ég fyrir hönd Bæjarstjórnar Siglufjarðar og Siglfirðinga allra þakka Jóni Kjartanssyni öll þau ómetanlegu störf, sem hann hefur innt af hendi í þágu Siglufjarðar. Siglfirðingar sakna vinar í stað. Þórnýju, börnum, tengdabörnum og barnabörnum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Bogi Sigurbjörnsson forseti bæjarstjórnar
------------------------------------------------
JÓN KJARTANSSON, forstjóri Kveðja frá framsóknarmönnum á Siglufirði

Jón Kjartansson forstjóri andaðist 21. nóvember 1985 á heimili sonar síns í Hamborg. Jón fæddist á Siglufirði 5. júní 1917, sonur Kjartans Jónssonar byggingameistara og konu hans frú Jónínu Tómasdóttur kaupkonu. Jón ólst upp á Siglufirði og tók próf frá Samvinnuskólanum árið 1935. Það ár varð hann verkstjóri hjá Síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði og var það til ársins 1942, að hann tók við skrifstofustjórn hjá Þormóði Eyjólfssyni h/f.

Jón hafði á þessum árum auk þess margvísleg önnur störf á hendi, hann var umboðsmaður Samvinnutrygginga, Flugfélags Íslands, rak síldarsöltun og tók þátt í útgerð o.fl. Jón tók mjög virkan þátt í starfi Framsóknarfélags Siglufjarðar á þessum árum. Hann var kosinn formaður í félaginu í febrúar 1948 og form. trúnaðarráðs 1949. Það ár var Jón ráðinn bæjarstjóri Siglufjarðar og gegndi hann því starfi í tvö kjörtímabil.

Það voru erfið ár, eftir hvarf síldarinnar, við þær ytri aðstæður, þegar Siglufjörður var ekki lengur sú gullkista landsmanna, sem hann hafði verið undanfarna áratugi. Bæjarbúar voru þá á fjórða þúsundið og kreppa í atvinnulífinu. Reyndi þá mjög á Jón og sýndi hann þá einstakan dugnað, ósérhlífni og útsjónarsemi við endurreisn atvinnulífsins. Stofnuð var Bæjarútgerð Siglufjarðar, keyptur annar togari og Skeiðfossvirkjun stækkuð um helming svo nokkuð sé nefnt. Fleyg urðu sum samskipti Jóns við stjórnvöld á þessum árum, svo aðgangsharður gat hann verið við þau, því ekkert var Siglufirði of gott.

Á Jón hlóðust margháttuð störf. Hann var í miðstjórn Framsóknarflokksins. frá 1946, sat í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins frá 1947. Varaþingmaður á 9 þingum og eftir fráfall Skúla Guðmundssonar 1969 þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra til 1971. Árið 1957 flytur fjölskyldan til Reykjavíkur og tekur Jón við forstjórastarfi Áfengisverslunar ríkisins sem síðan verður Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, sem hann sinnti til dauðadags. Hlóðust á hann margháttuð störf.

Hann var í blaðstjórn Tímans, Blaðaprents h/f, formaður í Siglfirðingafélaginu, ræðismaður Finnlands, svo eitthvað sé nefnt. I dagsins önn var gott að hitta Jón. Alltaf var hann með hugann við Siglufjörð, fólkið heima eins og hann gjarnan tók til orða, atvinnulífið og mannlífið allt.

Ekkert var honum óviðkomandi sem snerti Siglufjörð. Fjölmargir Siglfirðingar sem fluttust til Reykjavíkur fengu hjá honum hvatningu og uppörvun, auk annarrar hjálpsemi við búsetuskiptin, þar er nú skarð fyrir skildi. Ég minnist hans í haust þegar enduruppbygging S.R 46 var tekin í notkun og loðnuveiðar hófust, hversu glaður hann var þegar viss áfangi var tekinn í notkun og S.R 46 verksmiðjan sem hann sá risa varð tæknivæddasta verksmiðja landsins.

Hann hafði óbilandi trú á íslensku hugviti og dugnaði. Hann var ætíð fullur bjartsýni, góðvild og hjálpsemi voru hans bestu eiginleikar, þannig minnumst við hans. Um leið og ég þakka fyrir persónuleg kynni og samstarf, vil ég fyrir hönd Framsóknarfélaganna á Siglufirði senda eftirlifandi konu frú Þórnýju Tómasdóttur og ástvinum hugheilar samúðarkveðjur.

Sverrir Sveinsson.
--------------------------------------------------------------

Neisti 23 desember 1985

Jón Kjartansson, fæddur 5. júní 1917 — Dáinn 21. nóv. 1985 Jón Kjartansson fyrrum bæjarstjóri á Siglufirði og forstjóri Áfengisverslunar ríkisins varð bráðkvaddur úti í Þýskalandi 21. nóv. Útför hans fór fram í Reykjavík þriðjudaginn 3. des. s.l. að viðstöddu miklu fjölmenni.

Með Jóni Kjartanssyni er til foldar hniginn sómakær drengskaparmaður, sem átti hug allra sem kynntust honum. Hann var hrókur alls fagnaðar, skemmtilegur og glaðvær og átti fjölmarga vini um allt land. Jón unni fæðingabæ sínum og sýndi það í verki bæði heima og er hann var að heiman. Við andlát Jóns minnast Siglfirðingar hans með þakklæti og virðingu fyrir allt sem hann vann fyrir Siglufjörð og Siglfirðinga, um leið og Þórnýju og fjölskyldu hennar eru sendar dýpstu samúðarkveðjur.

JGM