Bjarni Ásgeirsson skipstjóri - Seljarlandi Siglufirði

Mbl.is 3. júlí 2013 | Minningargreinar

Bjarni Ásgeirsson skipstjóri fæddist í Skógum í Mosdal í Arnarfirði 1. október 1935.
Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 24. júní 2013.

Foreldrar hans voru hjónin Ásgeir Bjarnason sjómaður á Siglufirði, f. 27. sept. 1900 í Stapadal, Arnarfirði, d. 6. apríl 1970, og Guðný Þorvaldsdóttir, f. 28. mars 1908 á Rauðsstöðum í Arnarfirði, d. 4. nóv. 1985.

Systkini Bjarna:

 • Margrét Ásgeirsdóttir, f. 21. ágúst 1928 í Skógum, Arnarfirði;
 • Kristrún Jóhanna Ásgeirsdóttir, f. 4. ágúst 1930 í Skógum, Arnarfirði, d. 23. des. 2009;
 • Helga Ásgeirsdóttir, f. 4. mars 1942 á Siglufirði; Haraldur, f. 6. apríl 1945 á Siglufirði, d. 31. janúar 1986.

Bjarni kvæntist 26. des. 1958 Guðlaugu Matthildi Rögnvaldsdóttur, f. á Siglufirði 17. júní 1937, d. 3. sept. 2008.
Foreldrar hennar voru Rögnvaldur Sveinsson, f. 9. mars 1908, d. 11. janúar 1974, og Margrét Jóhannsdóttir, f. 19. okt. 1914, d. 9. júní 1978.

Systkini Guðlaugar:

Bjarni Ásgeirsson, Seljarlandi -- ókunnur ljósmyndari

Bjarni Ásgeirsson, Seljarlandi -- ókunnur ljósmyndari

 • Hafdís, f. 13. okt. 1941;
 • Kristinn, f. 21. júní 1945, d. 9. júlí 2003;
 • Jóhanna, f. 10. okt. 1946. 


Synir Bjarna og Guðlaugar eru:

 1. Ásgeir, smiður búsettur í Bandaríkjunum, f. 16. jan. 1960, maki: Modest Gonzales Bjarnason, f. 17. des. 1956. Synir þeirra eru: Bjarni Alexius, f. 2. apríl 1988, og Emilio Aron, f. 7. des. 1996. Synir Modest eru Ivan Kári Sveinsson, f. 19. sept. 1978, kvæntur Amaliu Samuelson, f. sept. 1979, og Óskar Guðbrandsson, f. 15. júní 1984, í sambúð með Elísu Björk Björgvinsdóttur, f. 5. júní 1991.
 2. Rögnvaldur Sigurður, stýrimaður, f. 8. feb. 1963, maki: Bergþóra Garðarsdóttir, f. 8. feb. 1962. Dætur þeirra eru: Guðlaug Matthildur, f. 16. júlí 1987, í sambúð með Davíð Þór Óðinssyni, f. 19. ágúst 1986, og Hulda Guðrún, f. 30. mars 1994. Sonur Bergþóru er Garðar Ingi Garðarsson, f. 19. júní 1982, í sambúð með Rán Bachmann Einarsdóttur, f. 1. október 1986. Börn þeirra eru Einar Valur, f. 2008, og Alexander Valur, f. 2012.

Bjarni og Guðlaug hófu búskap í Reykjavík 1960 en áttu lengst af heimili í Garðabæ og síðustu árin á Krókahrauni í Hafnarfirði. Bjarni fluttist með foreldrum sínum og eldri systrum úr Arnarfirðinum til Siglufjarðar árið 1936. Þar gekk hann í barna- og gagnfræðaskóla. Að loknu gagnfræðaskólaprófi 1952 helgaði hann líf sitt að mestu farmennsku.

Hann fór fyrst til sjós á bátum og togurum en frá 1955 á farskipum Eimskips til 1962. Hann lauk prófi frá farmannadeild Stýrimannaskólans 1959. Hann var stýrimaður og skipstjóri á skipum Hafskips 1962-1973. Varð síðan stýrimaður og skipstjóri hjá Samskipum þar til hann lét af störfum 2001.

Útför Bjarna Ásgeirssonar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 3. júlí 2013, kl. 13.
--------------------------------------

Elsku afi. Þær eru óteljandi minningarnar sem ég á um afa og voru síðustu dagarnir okkar saman alveg ómetanlegir. Hann svaf mjög mikið en þegar ég kom í heimsókn fann hann smáorku og við spiluðum nokkra óslen ólsen, hann kallaði mig svindlara og brosti síðan þegar ég svaraði að ég hefði lært af meistaranum, honum sjálfum.

Ég leit alltaf mikið upp til hans, hann var aðalmaðurinn og ef eitthvað var að gat maður alltaf hringt í hann afa, hvort sem maður þurfti ráð, huggun eða bara einhvern að tala við.

Ég var fyrsta barnabarnið hans afa og ef satt skal segja missti hann sig aðeins í gleðinni þegar hann vissi að von væri á fyrsta afabarninu. Það var ekki löngu eftir að ég var komin í heiminn að afi var búinn að smíða sandkassa og rólusett úti í garði hjá sér, einnig sá afi um að gefa mér fyrsta dúkkuvagninn minn og ég gleymi því aldrei þegar ég fékk fyrsta hjólið mitt, pínulítið bleikt reiðhjól með hjálpardekkjum og hvítri körfu að framan, ég var algjör prinsessa í kastalanum hjá afa og ömmu.

Þeir sem þekkja vel til hans afa vita að hann skrollaði og þegar ég var lítil talaði ég eins og afi, ég var send í talkennslu í grunnskóla því ég kunni ekki að segja „r“. Ég lærði líka mitt fyrsta blótsyrði hjá afa. Ég var um borð með honum, tveggja eða þriggja ára gömul, þegar afi kallar uppyfir sig „djöfulsins gámurinn“ og þar sem afi var aðalmaðurinn át ég þessi orð að sjálfsögðu upp eftir honum.

Þegar ég var átta ára fóru afi og amma með mig í mína fyrstu utanlandsferð sem var til Ameríku til systur hennar ömmu. Í þessari tveggja mánaða heimsókn upplifði ég algjörlega draum hvers mannsbarns; ég fór í Disneyland, hjólaskautadiskó, Sea World og dýragarða með dýrum sem ég hafði aldrei séð á ævinni, ég fór á ströndina, á hjólabát og var dregin á belg með spíttbáti ásamt því að eignast fullt af vinum og læra tungumálið, en ég var mjög vel enskumælandi eftir þessa ferð.

Þegar ég varð 12 ára fór ég í mína fyrstu löngu siglingu með afa, við fórum í 12 daga túr og fór ég til sjö nýrra landa í þeirri ferð. Afi fór með mig í land á flestum stöðum og sýndi mér ýmislegt sniðugt, hann sagði líka að hann væri búinn að vera svo lengi á sjónum að hann væri með sjó í blóðinu og sagði alltaf að ég væri með salt í blóðinu frá föðurættinni.

En þetta er nú bara brot af okkar minningum saman og þegar ég lít til baka sé ég að ég hef ekki bara misst yndislegan afa, heldur líka kæran vin.

Þegar ég var smákrakki gaf ég afa silfurhálsmen með bæn sjómannsins, þetta hálsmen bar hann frá því að hann fékk það og var það ekki tekið af honum fyrr en hann kvaddi okkur og þykir mér við hæfi að kveðja þig, elsku afi, með þessum orðum.

 • Mitt skip er lítið, en lögur stór
 • og leynir þúsundum skerja.
 • En granda skal hvorki sker né sjór
 • því skipi, er Jesús má verja.

(Þýð. Vald. V. Snævarr)

Hvíldu í friði elsku yndislegi afi minn, ég sakna þín endalaust mikið og við sjáumst þegar þar að kemur og spilum þá nokkra ólsen eins og okkur einum er lagið.

Þín Guðlaug Matthildur (Hildur).
---------------------------------------

Bjarni átti langan og farsælan feril í farmennskunni hjá Hafskip og víðar og sigldi ég með honum síðustu árin hans hjá Samskip.

Bjarni var góður fagmaður og vildi hafa hlutina í lagi og þeir sem ekki stóðu sig nógu vel að hans mati fengu að heyra hans álit og þá var ekki töluð nein tæpitunga.

En enginn beið af því skaða og það var þroskandi fyrir yngri menn að sigla með sér eldri og reyndari mönnum sem höfðu metnað og færni í starfi.

Það gaf sjómennskunni líf að sigla með mönnum eins og Bjarna og ekki var síðra að eyða með honum tíma utan vinnunnar, en nokkrar veiðiferðir fórum við saman sem gaman er að minnast. Þar leið honum vel og kunni til verka.

Ég vil þakka þér Bjarni fyrir samveruna í leik og starfi, og votta aðstandendum samúð mína.

Kjallarakötturinn, Trausti Ingólfsson.