Júlíana Símonardóttir

mbl.is 19. apríl 2002 | Minningargreinar |

Júlíana Símonardóttir fæddist á Siglufirði 18. mars 1930. Hún lést á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, Landakoti 9. apríl síðastliðinn.

Júlíana var dóttir Símon Márusson, f. 3.10. 1902, d. 22.10. 1985, og konu hans, Ólaföf Bessadóttir, f. 4.8. 1899, d. 10.5. 1988.

Systir Júlíönu er

 • Ingibjörg Símonardóttir, f. 16.12. 1944,
  hálfsystir Júlíönu sammæðra er
 • Katrín Júlíusdóttir, f. 28.8. 1919,
  og hálfsystir samfeðra var
 • Anna Hulda, f. 17.8. 1923, d. 10.8. 1984.
Júlíana Símonardóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Júlíana Símonardóttir - Ljósmynd: Kristfinnur

Eftirlifandi eiginmaður Júlíönu er Bjarni Einar Bjarnason, f. 12.7. 1921.
Bjarni Bjarnason var sonur Steinþóra Einarsdóttir, f. 8.8. 1890, d. 3.3. 1985, og Bjarna G. Dagssonar sem drukknaði í febrúar 1921.

Fósturfaðir Bjarna var Gunnar Jóhannsson, f. 29.9. 1895, d. 17.10. 1971.

Júlíana og Bjarni bjuggu fyrst á Siglufirði en síðastliðin 37 ár hafa þau búið í Hafnarfirði.
Þau eignuðust fjögur börn:

 1. Særún Bjarnadóttir, f. 8.12. 1949. Maki Guðni Einarsson, f. 27.11. 1946, og þeirra börn eru: a) Einar Ragnar, sambýliskona hans er Ástrós Sigurðardóttir og dóttir þeirra er Birta Ósk, b) Guðríður, sambýlismaður hennar er Gestur Pálsson og sonur þeirra er Ísak Páll;
 2. Kristín Bjarnadóttir, f. 25.12. 1952. Maki Ólafur Karlsson, f. 1.10. 1954 og sonur þeirra er Bjarni Leó. Áður átti Kristín dótturina Steinþóru, sambýlismaður hennar er Sverrir Þórisson. Dóttir Steinþóru og Tryggva Þórs Svanssonar er Kristín Sunna;
 3. Ólöf Bjarnadóttir, f. 8.8. 1956. Fyrri maður Ólafar var Guðfinnur Einarsson. Þau skildu. Þeirra börn eru a) Kristens, sambýliskona Kristbjörg Sigurðardóttir, og b) Júlíana. Seinni maður Ólafar er Jón Ragnarsson, f. 12.7. 1959, og þeirra dóttir er Erna Bjarklind;
 4. Símon Þór Bjarnason, f. 15.9. 1962. Maki Þóra Þórisdóttir, f. 27.5. 1960. Þeirra börn eru a) Eydís Ósk og b) Símon Már og stjúpsonur Símonar og sonur Þóru er Matthías.

Júlíana var mest heimavinnandi á meðan börnin voru lítil en tók líka fullan þátt í störfum síldaráranna og eftir að hún flutti suður vann hún jafnframt við verslunarstörf.

Jarðarför Júlíönu verður gerð frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.
--------------------------------------------

Nú legg ég augun aftur, ó, Guð, þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engil, svo ég sofi rótt. (Þýð. Sveinbjörn Egilsson.)

 • Ertu horfin? Ertu dáin?
 • Er nú lokuð glaða bráin?
 • Angurs horfi ég út í bláinn,
 • autt er rúm og stofan þín,
 • elskulega mamma mín.
 • Gesturinn með grimma ljáinn
 • glöggt hefur unnið verkin sín.
 • Ég hef þinni leiðsögn lotið,
 • líka þinnar ástar notið.
 • Finn hvað allt er beiskt og brotið,
 • burt er víkur aðstoð þín
 • elsku góða mamma mín. -
 • Allt sem gott ég hefi hlotið,
 • hefir eflst við ráðin þín.
 • Þó skal ekki víla og vola,
 • veröld þótt oss brjóti í mola,
 • það var alltaf hugsun þín,
 • elsku góða mamma mín. -
 • Og úr rústum kaldra kola
 • kveiktirðu skærust blysin þín.
 • Flýg ég heim úr fjarlægðinni,
 • fylgi þér í hinsta sinni,
 • krýp með þökk að kistu þinni,
 • kyssi í anda sporin þín,
 • elsku góða mamma mín.-
 • Okkur seinna í eilífðinni
 • eilíft ljós frá Guði skín.

(Árni Helgason.)

Særún.
-------------------------------------------------------

Ótal minningarbrot renna gegnum hugann þegar ég kveð þig nú, elsku amma. Þú varst svo stór hluti af lífi mínu. Þú kenndir mér svo ótal margt um lífið og tilveruna, sem ég bý að alla tíð, og er þakklát fyrir. Þú varst einstök. Svo ljúf og þægileg, sást alltaf björtu hliðarnar á öllu, alltaf svo kát, og einstaklega hláturmild. Aldrei hallmæltir þú nokkrum manni. Þú áttir svo auðvelt með að setja þig í spor annarra, og vildir allt fyrir alla gera. Þú varst alltaf svo góð við mig, elsku amma. Hjá þér gat ég alltaf fengið eins mikla hlýju, gleði og skilning og hægt er að fá frá nokkurri ömmu.

Ég gat alltaf leitað til þín og fengið góð ráð. Við gátum oft setið lengi yfir kaffibollum og spjallað saman um það sem enginn veit, nema þú og ég. Við vorum miklar vinkonur, og gátum rætt allt á milli himins og jarðar. Við gátum alltaf treyst hvor annarri. Á mínum uppvaxtarárum var heimili ykkar afa sem mitt annað heimili. Ég sótti mikið í að vera hjá ykkur og Símoni frænda. Ég var alltaf meira en velkomin. Óteljandi eru næturnar sem ég gisti hjá ykkur, alveg fram á unglingsár. Þá var mikið spjallað, tekið í spil og afi með grín og glens eins og honum einum er lagið.

Maturinn þinn brást aldrei. Alltaf fékk maður svo gott að borða hjá ykkur, og eitthvað gott í drekkutímanum. Stundum fór ég beint til ykkar eftir skóla, og þú hjálpaðir mér með heimanámið. Þú varst svo góð og þolinmóð að kenna mér og útskýra. Íslenska, biblíusögur, danska og ljóð voru í uppáhaldi hjá þér. Þú hafðir svo gaman af að leiðbeina mér, þú vissir svo margt, um svo mikið. Þegar ég var að fara í próf, bjóstu til spurningalista og hlýddir mér yfir. Þú fylgdist alltaf vel með, hvernig mér gekk í skólanum og í öllum prófum.

Alltaf varstu til í að spila við mig. Við gátum endalaust spilað, og höfðum báðar gaman af. Brids var í miklu uppáhaldi hjá þér, og minntist þú gömlu góðu daganna þegar fólk hittist og spilaði brids. Þú hafðir mjög gaman af tónlist og söng og fannst yndislegt þegar þú söngst með Fríkirkjukórnum. Ég man líka þegar við fórum saman einn vetur í einkatíma, tvær saman að læra á orgel. Þið afi keyptuð þetta fína orgel, sem við æfðum okkur á. Þá kom ég til þín og við æfðum okkur saman. Við lærðum nóturnar og fullt af fallegum lögum. Þú varst náttúrulega klárari en ég, og þú spilaðir eins og besti orgelleikari og slóst varla feilnótu.

Við áttum líka góðar stundir í sjoppunni hennar Dísu. Þá gat ég ekki beðið eftir að fara til þín eftir skóla og "hjálpa þér" að afgreiða. Það fannst mér voða mikið sport. Allt var svo sjálfsagt þegar ég var hjá ykkur afa. Manstu, þegar ég var hjá ykkur í rúma viku þegar mamma og pabbi fóru austur? Þá stóð fyrir dyrum tveggja daga skíðaferðalag með skólanum. Það var eins og þú og afi væruð að fara, þið voruð svo spennt fyrir mína hönd. Það var líka þvílíkt verslað, maður átti sko ekki að svelta í ferðalaginu. Sviðakjammi, lifrarpylsa, samlokur, salöt og gotterí. Krásirnar hefðu dugað í heila viku. Þú sagðir að það væri alltaf betra að hafa of mikið en of lítið. Svo skutlaði afi mér í skólann með svo mikinn farangur, að það lá við að við þyrftum að fara tvær ferðir.

Þegar ég var að fara að fermast, sátum við saman við eldhúsborðið og fórum yfir fermingarfræðsluna og reyndum að finna ritningargrein, en síðan ákvað ég að fara með þá sömu og þú, þegar þú fermdist, og vorum við báðar mjög ánægðar með þá niðurstöðu.

Elsku amma, mér leið alltaf svo vel hjá ykkur afa. Manstu allar sundferðirnar okkar? Þær voru svo skemmtilegar. Sund var þitt líf og yndi. Þú slepptir ekki degi úr, og áttir orðið marga góða vini og kunningja úr lauginni. Manstu hvað við hlógum mikið þegar við vorum, einu sinni sem oftar, að hjóla heim úr sundi, endurnærðar, og mættum litlum strákum, sem horfðu á okkur, hlógu og kölluðu: sjáiði; konan er á litla hjólinu, en stelpan á stóra. Svo hlógu þeir aftur, og við náttúrulega líka. Við gátum svo sannarlega hlegið saman. Stundum litum við bara hvor á aðra, og fórum að hlæja.

Ég man líka hvað við dunduðum okkur oft saman í garðinum. Þér þótti svo yndislegt að vera úti í garði. Þú varst alltaf eitthvað að snyrta, gróðursetja, reyta arfa eða klippa tré, afi sló svo grasið og stundum hjálpaði ég svo til við að raka. Stundum lágum við bara í sólbaði og höfðum það huggulegt. Oft sátum við svo í hrauninu eftir góða garðvinnu, horfðum á sólarlagið og þú spilaðir fyrir mig á munnhörpuna.

Draumur þinn var að geta farið oftar í sumarbústaðinn ykkar afa að Laugarvatni, planta þar trjám, fara í gönguferðir, og vera þar öllum stundum. Þú elskaðir útsýnið þar, sem er stórkostlegt. Þar þótti þér yndislegt að vera.

Fjölskyldan var þér alltaf ofarlega í huga og jólaboðið á jóladag var fastur liður hjá þér frá því ég man eftir mér. Þar hittist stórfjölskyldan yfir heitu súkkulaði, og tertum sem bráðnuðu í munni og voru sannkallaðar sælkeratertur. Þú spurðir alltaf frétta, og sýndir áhuga á því sem allir í fjölskyldunni höfðu fyrir stafni. Þú talaðir líka alltaf af mikilli hlýju um Siglufjörð, bernsku þína, foreldra og systur. Síldarævintýrið á Siglufirði var líka sterkt í minningunni, sem og allar góðu minningarnar úr Dúllabúð, þar sem þú og Sólveig áttuð góða tíma, alltaf kátar og síhlæjandi.

Gaman var að heyra um gömlu dagana þegar þú varst ung og hafðirðu frá mörgu að segja. Þegar ég fór að búa komstu yfirleitt alltaf eftir sundið um helgar í kaffisopa og spjall, og með góðgæti í poka fyrir Kristínu Sunnu. Þið hafið alltaf borið mikla umhyggju fyrir mér og verið miklir vinir mínir, þú og afi, og alltaf boðin og búin. Þið voruð iðin við að heimsækja okkur og spjalla og oftar en ekki fylgdi eitthvað gómsætt með úr bakaríinu. Iðulega fórum við Kristín Sunna líka til ykkar í heimsókn. Það var alltaf tekið vel á móti okkur og alltaf var eitthvað gott með kaffinu. Þú dáðist að hvað Kristín Sunna var dugleg að lesa og mikill bókaormur. Þú sagðir að bókin væri besti vinur mannsins. Þú elskaðir að lesa, varst víðlesin og sagðir að ekkert jafnaðist á við góða bók.

Elsku amma, þú varst sérlega ljúf og góð kona, skiptir aldrei skapi við mig og varst svo góður hlustandi. Ég saknaði þess að hafa ykkur afa ekki í mat á aðfangadagskvöld og um páskana, eins og síðustu ár. Það vantaði svo mikið. Ég vildi að allt væri eins og það var, og hélt að þú yrðir alltaf til staðar - eins og alltaf. Ég saknaði þín svo þegar hugur þinn fór að fjarlægjast okkur smátt og smátt vegna veikinda þinna.

Síðustu mánuðir voru erfiðir fyrir okkur öll. Það er alltaf sárt að missa nákominn ættingja, sem hefur alla ævi manns verið til staðar. Fyrir nokkrum dögum, þegar við mamma og Kristín Sunna heimsóttum þig á Landakot, tókum við myndir af þér og af okkur öllum saman, þú varst svo hress, en vildir fara heim. Þegar ég kvaddi þig, kyssti ég þig og knúsaði eins og alltaf, og sagði "við sjáumst svo kannski á morgun". En enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér, en þetta var í síðasta sinn sem ég sá þig.

Elsku amma, þú varst mér og Kristínu Sunnu svo góð. Þú kallaðir mig alltaf Steinku, afi gerir það alltaf líka, og þykir mér vænt um það. Ég verð alltaf Steinkan þín og hans afa. Ég veit að þér líður vel núna, elsku amma, laus úr erfiðum hugarheimi, þar sem ekkert er eins og það sýnist. Ég veit að þú ert hvíldinni fegin. Ég sakna þín elsku amma og mun aldrei gleyma þér.

Elsku afi, þú hefur staðið eins og klettur í veikindum ömmu, og alltaf séð vel um hana, þó að þú sjálfur eigir við veikindi að stríða. Þú hefur misst mikið. Megi guð veita þér styrk og blessun í sorg þinni. Ég kveð nú elskulega ömmu mína með söknuði.

 • Nú ertu leidd, mín ljúfa,
 • lystigarð Drottins í,
 • þar áttu hvíld að hafa
 • hörmunga' og rauna frí,
 • við Guð þú mátt nú mæla,
 • miklu fegri en sól
 • unan og eilíf sæla
 • er þín hjá lambsins stól.

(Hallgrímur Pétursson.)

Guð geymi þig, elsku amma, og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín Steinþóra.
-------------------------------------------------

Elsku Júlla amma mín. Ég trúi því varla að þú sért dáin. Þú varst alltaf svo góð við mig. Þú spilaðir stundum við mig og last fyrir mig og stundum las ég fyrir þig. Svo sungum við líka oft saman. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín og Bjarna afa. Alltaf bauðstu mér upp á ís eða annað góðgæti. Svo hafðirðu líka alltaf svo gaman af því að hlusta á allar sögurnar mínar og brandarana. Það var svo gaman þegar þú hlóst og varst kát og glöð.

Elsku Júlla amma, takk fyrir allar samverustundirnar.

 • Leiddu mína litlu hendi,
 • ljúfi Jesús, þér ég sendi
 • bæn frá mínu brjósti sjáðu,
 • blíði Jesús, að mér gáðu.

(Ásmundur Eiríksson.)

Þín Kristín Sunna.
---------------------------------------

 • Ljúfust minning lifir í hjörtum,
 • lýsir leiðina mína.
 • Þú blíðust í himninum björtum
 • nú breiðir út vængina þína.

(G.J.)

Í dag kveðjum við elskulega ömmu okkar með sorg og söknuð í hjarta.

Amma, það er svo sárt að kveðja þig svona brátt, þig sem hefur verið hjá okkur alla okkar ævi. Ekki grunaði mig síðast þegar ég og litli minn komum til þín að þetta væri kveðjustundin. Þú varst svo glöð að sjá okkur, labbaðir með þann litla út um allt og sýndir ykkur. Minningarnar hrannast upp í huganum og það er svo erfitt að koma þeim öllum á blað.

Þú varst alltaf svo mikill dugnaðarforkur og það skipti þig alltaf miklu máli að hafa garðinn ykkar afa fallegan. Þegar maður kom til ykkar upp í Efstadal varstu svo mætt með poka til að labba um og tína rusl, svo varstu komin á næstu lóðir en þér þótti það ekki tiltökumál. Svona varstu, elsku amma.

Það var alltaf opið hús hjá ykkur afa og er enn og þegar við systkinin komum, hvort sem við komum saman eða hvert í sínu lagi, varstu alltaf til í að spila við okkur og var þá yfirleitt spilað rommý og allar reglur vel skilgreindar. Alltaf þegar við komum var boðið upp á ís og meira góðgæti, svo ekki sé minnst á jólaboðið sem var fastur liður hjá ykkur á jóladag.

Elsku amma, þetta er bara brot af minningunum um þig. Megir þú hvíla í friði, elsku hjartans amma okkar, og elsku afi, megi góður guð styrkja þig í þessari miklu sorg.

 • Nú legg ég augun aftur,
 • ó, Guð, þinn náðarkraftur
 • mín veri vörn í nótt.
 • Æ, virst mig að þér taka,
 • mér yfir láttu vaka
 • þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. Sveinbjörn Egilsson.)

Guðríður og Einar Ragnar.
---------------------------------------------

Hún Júlla mágkona mín er öll. Hún dó skyndilega og mjög óvænt. Síðustu tvö árin hafði hún átt við vaxandi veikindi að stríða og fyrirsjáanlegt var að um bata yrði ekki að ræða í hennar lífi. Hvað var þá líkara Júllu en að álykta sem svo: "Þetta er búið. Ég ætla ekki að verða einhverjum byrði mín síðustu ár. Ég nenni ekki að ræða þetta."

Og svo var hún farin. Æðri forsjón tók í taumana.

Ég kynntist Júllu fyrst þagar ég kom ungur til Siglufjarðar að stíga í vænginn við litlu systur hennar. Júlla hafði þá um stórt heimili að hugsa, þar sem eiginmaður hennar var sjómaður og fjarri heimilinu langtímum saman. Það var strax auðfundið að Júlla var góðum gáfun gædd og kunni að njóta líðandi stundar, las mikið og var því mjög fróð um menn og málefni.

Henni hefði reynst auðvelt að ganga menntaveginn, enda var hún hvött til þess á unglingsárum. Aðstæður og tíðarandi þeirra tíma urðu hins vegar til þess að ekki varð úr. Ef til vill átti vanmat Júllu þá á eigin getu einnig þátt í því. Hún var ung og ómeðvituð um hæfileika sína og möguleika.

Júlla var ákaflega greiðvikin. Henni var í blóð borið að rétta þeim hjálparhönd sem minna máttu sín. Ef henni var hins vegar gerður smágreiði varð það henni ævarandi þakkarefni. Þetta var það viðmót til samferðafólksins sem Júlla ólst upp við í litlu húsi í Siglufirði.

Um miðjan aldur fluttist Júlla til Hafnarfjarðar og fór þá fljótlega að vinna utan heimilis við verslunarstörf. Hún var einstaklega heiðarleg og samviskusöm, enda varð vinnuveitendunum ákaflega hlýtt til hennar. Lengst vann Júlla í Dúllabúð og síðar í versluninni Fjarðarkaupum. Á báðum stöðum þótti henni gott að vera og hún varð fljótlega vinsæll starfskraftur, ósérhlífin og jákvæð. Það fór alltaf gott orð af Júllu á vinnustað. Hún var trú sinni vinnu.

Júlla var gleðimaður. Hún naut sín í veislum og á samkomum, sérstaklega samkomum fjölskyldunnar þar sem hægt var að syngja, hlæja og tala mikið. Það er margra slíkra samverustunda að minnast, bæði á heimilum og í sumarbústöðum. Júlla átti líka lítinn sumarbústað austur í Biskupstungum, sem hún fékk að njóta nokkur sumur.

Það voru sælustundir fyrir Júllu að fá að vera ein með sjálfri sér í náinni snertingu við móður náttúru, snyrta umhverfið og dytta að gróðri. Standa svo á verönd bústaðarins í kvöldblíðu og taka lagið. Já, vissulega sakna ég þess að geta ekki framar notið slíkra kvöldstunda með Júllu.

Ekki fór á milli mála að Júlla var höfuð fjölskyldu sinnar, hún var ráðagóð og drífandi, stundum um of! Ekki fer hjá því að með skaphöfn og fas eins og Júlla hafði fer maður stundum yfir strikið. En Júlla var bara þannig persóna að hún þoldi það.

Að lokum langar mig til að þakka þá ræktarsemi, sem Júlla sýndi jafnan fjölskyldu okkar. Þær systur voru vinir, töluðu mikið saman og nutu samveru.

Það er viss úttekt að horfa til baka á líf sitt og samferðafólk. Mér finnst að samferð mín með Júllu hafi þroskað huga minn og leitt hann til betri vegar.

Ég votta Bjarna, eiginmanni Júllu, börnum þeirra og barnabörnum, öðrum ættingjum og vinum samúð mína.

Guð blessi minningu Júlíönu Símonardóttur.

Atli Dagbjartsson.
------------------------------------------------

Á haustdögum 1964 fluttust til Hafnarfjarðar frá Siglufirði sómahjónin Júlíana Símonardóttir og Bjarni E. Bjarnason ásamt börnum sínum, þeim Særúnu, Kristínu, Ólöfu og Símoni. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast þessari sómafjölskyldu frekar náið. Þau fluttu fyrst í Vesturbæinn í Hafnarfirði, þar sem ég ólst upp. Júlla eins og hún var ævinlega kölluð hóf störf hjá föður mínum, Kristens Sigurðssyni, árið 1965, í Vesturbúð sem var kaupmaðurinn á horninu, hún starfaði þar í 12 ár.

Júlla var kjarnakona til alls er hún tók sér fyrir hendur, hörkudugleg, ósérhlífin, eldfjörug, létt í lund og dillandi hlátur var hennar einkenni. Júlla var vinur vina sinna og ekki síst þeirra sem minna máttu sín. Eftir að faðir minn lést 1974 störfuðum við saman í Vesturbúð eða Dúllabúð eins og hún var kölluð og þar kynntist ég þeirri manneskju sem hún hafði að geyma. Ég held ég geti fullyrt að hún átti fáa sína líka. Júlla var trúnaðarvinur minn til margra ára, og fæ ég aldrei fullþakkað þá hjálpsemi sem Júlla og hennar fjölskylda sýndu mér á erfiðleikastundum. Júlla bar ekki tilfinningar sínar á torg, heldur hafði þær með sjálfri sér.

Fyrir um það bil þremur árum veiktist Júlla sem gerði hana óvinnufæra, en hún starfaði í Fjarðarkaupum í Hafnarfirði meðan heilsan leyfði. Er ég talaði við hana í síma í desember sl. þá fór ekki á milli mála að Júlla var ekki sú sama og hún átti að sér að vera. Að leiðarlokum er margs að minnast, efst í huga mér er þó þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Júllu, þessum góða og stórkostlega persónuleika. Það verður erfitt að gleyma slíkri manneskju, enda verður minning hennar vandlega geymd í huga mér.

Við Sigrún og fjölskylda okkar sendum Bjarna og öllum ættingjum innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, mín kæra vinkona.

Hilmar Kristensson.
---------------------------------------------------

Júlla var ein af þessum sjaldgæfu perlum sem maður kynnist á lífsleiðinni. Hún var glæsileg, vel gefin, afskaplega glaðvær og góð manneskja. Hláturinn hennar var engum líkur og hljómar í eyrum mér nú þegar ég pára þessar línur. Júlla er jafngömul mínum fyrstu bernskuminningum. Foreldrar hennar voru nágrannar foreldra minna á Siglufirði og þegar hún hóf búskap með Bodda sínum var það í næsta húsi við okkur.

Góður vinskapur var með foreldrum mínum, foreldrum Júllu og tengdaforeldrum. Þetta fólk átti sinn þátt í að skapa hið eina og sanna síldarævintýri á Siglufirði og þurfti að berjast harðri baráttu fyrir sínu daglega brauði. Þessi barátta gerði þau að pólitískum samherjum og batt þau órofa vináttuböndum sem aldrei bar skugga á.

Vinátta Júllu við foreldra mína styrktist enn meir þegar þau öldruð fluttu í Hafnarfjörð, þar sem hún bjó ásamt fjölskyldu sinni. Hún var foreldrum mínum ómetanleg stoð og stytta, vinur sem gerði þeim elliárin bærilegri. Þegar faðir minn var fallinn frá létti hún móður minni einveruna með daglegu innliti, spilamennsku, spjalli og ómældri aðstoð. Þær voru trúnaðarvinir sem trúðu hvor annarri fyrir sínum hjartans leyndarmálum, gleði og sorgum, sem við hin áttum engan aðgang að. Engin manneskja óskyld hefur reynst móður minni betur en hún. Því vil ég við leiðarlok færa Júllu hjartans þakkir fyrir allt og allt. Blessun Guðs og friður fylgi henni á ókunnum slóðum.

Eiginmanni, börnum og fjölskyldunni allri sendi ég einlægar samúðarkveðjur.

Gréta Guðmundsdóttir. Særún.