Björgvin Angantýsson

Mbl.is 3. febrúar 1990 | Minning.

Björgvin Angantýsson ­ Fæddur á Siglufirði 24. apríl 1935 Dáinn 13. janúar 1990
Það voru dapurlegar fréttir sem biðu heimkomu minnar til landsins þann 14. janúar síðastliðinn. Björgvin vinur minn var látinn eftir nokkurra mánaða erfiða sjúkdómslegu.

Þegar einhverju er lokið fer gjarnan fram uppgjör og mitt uppgjör felst í minningunni um góðan vin. Björgvin fékk sjálfur gott ráðrúm í veikindum sínum til þess að gera upp sitt lífshlaup og var sáttur við allt og alla þegar hann skildi við. Við ræddum oft í gegnum árin um ýmislegt sem tengdist lífinu og tilverunni og ég veit að viðhorf Björgvins til dauðans var að dauðinn væri jafneðlilegur hlutur í gangi lífsins og fæðingin sjálf, sem kemur best fram í því að þrátt fyrir að hann væri helsjúkur gerði hann allt til þess að láta lífið ganga sinn vanagang og lét hverjum degi nægja sína þjáningu.

Vinátta okkar Björgvins var bundin traustum böndum strax frá fyrstu kynnum okkar og aldrei kom brestur í þrátt fyrir að langt væri á milli okkar um tíma. Hann var vinur sem ég gat leitað til og treyst þegar því var að skipta. Við áttum margar góðar stundir saman sem ég minnist nú með bros á vör, enda vildi hann að við minntumst sín brosandi, því hann þoldi aldrei vol og víl.

Björgvin Angantýsson- ókunnur ljósmyndari

Björgvin Angantýsson- ókunnur ljósmyndari

Björgvin fæddist á Siglufirði. Hann var sonur hjónanna Kornelíu Jóhannsdóttur og Angantýs Einarssonar.
Þau áttu 7 börn og var Björgvin þriðji í röðinni. Stórt skarð hefur verið höggvið í systkinahópinn og eftir lifa nú 4 systkini ásamt móður sinni sem nú dvelur á Hrafnistu í Reykjavík.

Eftirlifandi eiginkona hans er Guðbjörg Bryndís Sigurðardóttir.
Björgvin lætur eftir sig 2 börn:

  • Friðrik sem býr í Vestmannaeyjum og á 2 börn og
  • Stellu.
    Einnig lætur Björgvin eftir sig fósturson,
  • Sveinberg Þór Birgisson, 13 ára, sem var yndi hans og eftirlæti.

Björgvin starfaði meginhluta ævi sinnar við sjómennsku, bæði á fraktskipum og fiskiskipum. Björgvin þótti listfengur og var laginn við að lagfæra hvaðeina sem aflaga fór eða þarfnaðist viðhalds.

Björgvin var mesti rólyndismaður sem auðgaði umhverfi sitt með glaðværð og léttleika en var þó fastur fyrir ef því var að skipta og þegar hann gaf loforð, var hægt að treysta því að þau stæðu eins og stafur á bók. Frístundum sínum þótti Björgvin best varið í að dytta að einhverju sem viðhalds þyrfti við eða við lestur góðra bóka.

Eitt af því sem Björgvin hélt mikið upp á var málverk sem málað var af honum á yngri árum af manni sem þá var nýfluttur til landsins og var með honum til sjós. Þetta málverk mun vera það fyrsta, eða að minnsta kosti eitt fyrsta verk sem sá mikli listamaður Baltazar málaði hérlendis.

Björgvin barðist við sjúkdóm sinn af aðdáunarverðri stillingu og jafnvel þó að hann vissi að hverju stefndi gafst hann aldrei upp og andlegt þrek hans hélst óskert alveg til hinstu stundar. Hann naut í gegnum veikindi sín umhyggju eiginkonu sinnar, móður minnar, og ekki má gleyma Heiðu systur hans og Bjarna manni hennar sem stóðu við hlið þeirra beggja og gerðu hvaðeina til þess að létta undir og gera lífið sem bærilegast. Þeim verður seint fullþakkað fyrir þá miklu hlýju og aðstoð sem þau veittu í veikindum Björgvins.

Nú er hann leystur þrautunum frá og kominn yfir á æðra tilverustig. Ég þakka þessum trygga og góða vini mínum fyrir samfylgdina og sendi móður minni svo og aldraðri móður hans, börnum, systkinum, ættingjum og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Okkar allra er missirinn mikill. Bálför Björgvins hefur farið fram í kyrrþey að hans eigin ósk.

Rúnar Sig. Birgisson