Stefán Ólafur Stefánsson stöðvarstjóri

Morgunblaðið - 25. ágúst 1983 Minning:

Stefán Ólafur Stefánsson stöðvarstjóri Fæddur 3. mars 1916. Dáinn 16. ágúst 1983.

Ídag fer fram frá Sauðárkrókskirkju útför Stefáns Ólafs Stefánssonar, stöðvarstjóra Pósts og síma á Sauðárkróki. Hann lést á sjúkrahúsi Skagfirðinga 16. ágúst sl. Stefán Ólafur fæddist á Akureyri 3. mars 1916 og var því á 68. aldursári, er hann lést.

Foreldrar hans voru Stefán Ólafur Sigurðsson, kaupmaður þar í bæ og kona hans, Jóhanna Sigríður Jónsdóttir. Stefán var sonur Sigurðar Jónassonar bónda á Kjartansstöðum á Langholti en faðir Jóhönnu, móður Ólafs, var Jón Jónsson, prófastur að Hofi í Vopnafirði.

Jón Kjartansson, forstjóri, náinn vinur og frændi Ólafs, ritaði afmælisgrein um hann sextugan og segir þar m.a. um æskuheimili Ólafs á Akureyri: „Ólafur ólst upp í fjölmennum systkinahópi á glæsilegu heimili að Hafnarstræti 29 þar sem einstök gestrisni og góðvild settu svip á heimilið og fornar dyggðir voru í hávegum hafðar."

Af þessari lýsingu má ráða, að Ólafur hefur hlotið gott uppeldi og fengið í foreldrahúsum það veganesti, er dugði honum vel þegar út í lífsbaráttuna kom. Árið 1934 fluttist Ólafur með foreldrum sínum til Siglufjarðar. Hann settist í Verslunarskóla Íslands haustið 1935 og lauk þaðan prófi vorið 1938. Mér hefur verið sagt, að Ólafur hafi verið ágætur námsmaður, skarpur og næmur, hafði stálminni.

Ólafur Stefánsson - Ljósm. Kristfinnur

Ólafur Stefánsson - Ljósm. Kristfinnur

Engan mann hefi ég þekkt, sem var jafn hraðlæs og hann og undraðist ég oft afköst hans í bókalestri. Árið, sem Ólafur útskrifaðist úr Verslunarskólanum, var hann ráðinn fulltrúi á póstafgreiðslunni á Siglufirði og starfaði þar óslitið til ársins 1958, er hann var skipaður stöðvarstjóri á Sauðárkróki. Þeim starfa gegndi hann til dauðadags og hafði þá verið í þjónustu Pósts og síma í 45 ár.

Á Siglufirði mun Ólafur hafa tekið talsverðan þátt í félagsmálum, og þegar til Sauðárkróks kom, hélt hann afskiptum sínum af þeim áfram. Hann var í mörg ár félagi í Rotaryklúbbi staðarins og félagi í Frímúrarareglunni. Formaður Tónlistarfélags Skagafjarðar var hann á annan tug ára og í stjórn Tónlistarskólans á Sauðárkróki.

Ólafur lék ekki sjálfur á hljóðfæri, sagði þekkingu sína á tónlist takmarkaða. En ástæður þess, að hann gerðist forustumaður Tónlistarfélagsins, voru einkum tvær, og ég nefni þær hér vegna þess, að þær lýsa Ólafi mæta vel. Formennsku í félaginu tók hann að sér fyrir þrábeiðni vina sinna, sem lögðu fast að honum, því þeir þekktu hæfni hans og reglusemi í öllum störfum. Hin ástæðan var áhugi ólafs á að skapa ungu fólki aukna möguleika til menntunar á sem flestum sviðum.

Þetta tvennt, að bregðast ekki vinum sínum, þegar þeir leituðu aðstoðar hans, og umhyggja hans fyrir velferð æskufólks, voru áberandi þættir í fari hans, sem ég þekkti sjálfur vel og varð oft vitni að. Ólafur var nokkur ár formaður stjórnar Sparisjóðs Sauðárkróks og jafnframt Menningarsjóðs hans, sem styrkt hefur mörg þörf málefni á Sauðárkróki og í Skagafirði. Hann var í stjórn Sjúkrahúss Skagfirðinga um skeið og lengi endurskoðandi reikninga þess. Honum voru falin trúnaðarstörf fyrir Sauðárkrókskaupstað, var m.a. endurskoðandi reikninga bæjarsjóðs og sat í skólanefnd.

Þann 14. september 1950 kvæntist Ólafur eftirlifandi konu sinni, Alma Björnsdóttir. Foreldrar hennar eru Björn Björnsson, fyrrverandi skipstjóri og yfirfiskmatsmaður og kona hans, Anna Friðleifsdóttir, sem lengi voru búsett á Siglufirði en nú í Reykjavík.

Ólafur og Alma eignuðust þrjú börn, sem öll eru á lífi. Þau eru, talin í aldursröð:

  1. Anna Birna, röntgentæknir, gift Sigurði Helgasyni bókaverði. Þau eru búsett í Reykjavík og eiga tvö börn, er bera nöfn móðurforeldra sinna.
    Næstu er
  2. Stefán Ólafur, sem undanfarin ár hefur stundað nám í fiskeldisfræðum í Skotlandi og Noregi,
    og yngstur er
  3. Jóhann, rafvirki og nemandi í Tækniskóla Íslands. Unnusta hans er Elísabet Kemp frá Efri-Lækjardal í Húnavatnssýslu. Þau eru búsett í Kópavogi. 

Í afmælis- og minningargreinum er oft að því vikið, að hjónaband þeirra, sem um er rætt, hafi verið sérlega gott og hamingjuríkt. Þetta hefur mér á stundum fundist hæpin fullyrðing, því sjaldnast er á færi annarra að dæma um þá hluti.

Um hjónaband Ólafs og Ölmu tel ég mig þó geta sagt með fullri vissu, að það hafi verið einstaklega gott, reyndar svo, að ég þekki fá eða engin dæmi um jafn sterka samheldni og gagnkvæma virðingu tveggja einstaklinga. Þótt skapferli þeirra væri að ýmsu leyti ólíkt, virtist oft eins og um einn hug væri að ræða. Heimili þeirra á Kirkjutorgi 5 var rausnargarður, þar sem tekið var á móti gestum af stakri hlýju og glaðværð. í þeim efnum, sem öðrum, voru þau hjón samhent.

Alma reyndist manni sínum frábær lífsförunautur, enda mat hann hana mikils. Ólafur átti oft við nokkra vanheilsu að stríða. Þá var það óbrigðul umhyggja og nærgætni hennar, sem öðru fremur gaf honum þrek og bata á ný. Eins og áður segir var Ólafur skipaður stöðvarstjóri Pósts og síma á Sauðárkróki árið 1958. Starf stöðvarstjóra þá var æði umfangsmikið og erilsamt, og ekki hefur dregið úr því í áranna rás með ört vaxandi byggð á Sauðárkróki, auk margháttaðra breytinga í starfsemi stofnunarinnar. Þáttaskil urðu í símamálum, þegar sjálfvirk símstöð tók til starfa á Sauðárkróki 1968.

Ólafur undirbjó það mál af mikilli kostgæfni og lagði sig allan fram um að allt færi sem best úr hendi. Og þannig var hann í öllu, er að starfi hans laut, ötull, nákvæmur og gætinn. Regla og festa voru kjörorð hans. Hann stóð vörð um hagsmuni stofnunarinnar út á við sem inn á við. 011 fjármál voru í stakri reglu, svo og eftirlit með eignum stofnunarinnar. En engu að síður lét hann sér annt um viðskiptamenn hennar og ætlaðist til, að þjónusta við þá væri í sem fullkomnustu lagi. Hann skildi vel, að hagsmunir beggja fóru oftast saman.

Fyrir tilviljun komst nýlega í mínar hendur bréf frá Maríusi Helgasyni á Akureyri, sem var umdæmisstjóri Pósts og síma í Norðurlandsumdæmi árin 1966 til 1976. Ég tel mig engan trúnað brjóta, þótt ég vitni í þetta bréf, en þar segir Maríus m.a. að hann hafi „haft mjög mikið og sérlega ánægjulegt samstarf við stöðvarstjóra Pósts og síma á Sauðárkróki — sem tilheyrir mínu umdæmi — herra St. Ólaf Stefánsson. Hefur hann reynst mjög reglusamur, nákvæmur og hugmyndaríkur í starfi sínu, í einu og öllu".

Hér skrifar sá er vel þekkti til, enda var samstarf Magnúsar og Ólafs ætíð mikið og gott. Ólafur var góður og réttlátur húsbóndi. Hann gerði kröfur til starfsmanna, lagði áherslu á stundvísi og áreiðanleika í starfi, fann að því, sem hann taldi miður fara, en mat mikils það, sem vel var gert. Hann var ætíð boðinn og búinn til að greiða götu samstarfsmanna sinna og var aldrei glaðari en þegar úr vanda leystist. í samstarfi var hann hreinn og beinn og sagði það, sem honum bjó í brjósti.

Hann var glöggur og fljótur að átta sig á mönnum og málefnum, starfshæfur í besta lagi, duglegur og allt að því ákafur að koma frá þeim verkefnum, er biðu úrlausnar hverju sinni. Ólafur var skapmaður, örlyndur og viðkvæmur, en skaphöfn hans var svo traust, að hann lét ríka skapsmuni ekki villa um fyrir sér. Hann var léttur í lund og gamansamur, gat stundum verið smástríðinn, en allt var það græskulaust og engum til ama. Leiðir okkar Ólafs Stefánssonar lágu saman árið 1966, er ég hóf störf í póstafgreiðslunni á Sauðárkróki. Mér varð fljótlega ljóst, hvílíkt happ það var að eignast hann að húsbónda.

Ég get ekki á þessum vettvangi rakið ítarlega samvinnu okkar þessi rösklega 17 ár, sem hún varði, enda gerist þess engin þörf. Milli okkar skapaðist skjótt trúnaður og vinátta, sem óx með árunum og varð því traustari, sem lengra leið. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að við höfum átt trúnað hvor annars fullkomlega. Ég gat óhikað rætt persónuleg vandamál við hann, og ráðhollari maður gafst ekki. Ef vanda bar að höndum, var hann allur af vilja gerður til að leysa hann, og sparaði þá hvorki tíma né fyrirhöfn.

Slíkur félagi og vinur er ómetanlegur. Ég á Ólafi og Ölmu og börnum þeirra mikið að þakka. Kirkjutorg 5 hefur í nær tvo áratugi verið mitt annað heimili. Þaðan á ég ótal minningar og allar góðar. Fyrir það skal nú þakkað, og þá ekki síður góðvild þeirra hjóna í garð foreldra minna, sem bundu við þau ævilanga tryggð. Við Ólafur höfðum þann sið að ræða saman á morgnana um helstu verkefni komandi dags. I byrjun desember sl. var hann veikur nokkra daga, en morguninn sem hann kom til starfa á ný ræddum við ekki verkefni dagsins.

Það var auðséð, að hann gekk ekki heill til skógar. Hann fór á fund lækna, sem ráðlögðu honum að leita til sérfræðinga í Reykjavík. Hann kom aftur heim rétt fyrir jólin. Þá sagði hann mér frá sjúkdómi sínum og jafnframt, að batahorfur væru taldar allgóðar. En framundan var erfið barátta við skæðan sjúkdóm.

Ólafur dvaldist að mestu næstu mánuði í Reykjavík og leitaði sér lækninga. Um skeið virtust góðar líkur á nokkrum bata, en þær vonir brugðust. Síðustu vikur var hann heima í umsjá konu sinnar, sem annaðist hann af stakri umhyggju og ástúð. Má segja, að hún hafi aldrei frá honum vikið nokkra stund í öllu hans sjúkdómsstríði. Veikindi sín bar Ólafur af mikilli karlmennsku.

Ekki heyrðist hann kvarta, og þegar ég spurði um líðan hans, svaraði hann jafnan: „Hún er fín, vinur." Hann hélt andlegum kröftum óskertum til nær hinstu stundar. Síðast áttum við tal saman laugardagskvöldið 13. ágúst, en daginn eftir varð breyting á, heilsu hans hrakaði skyndilega. Næsta dag var hann fluttur á Sjúkrahús Skagfirðinga, og þar lést hann tæpum sólarhring síðar, að morgni þriðjudags 16. ágúst, sem fyrr greinir.

Þar með var horfinn á braut sá velgjörðarmaður minn, mér óskyldur, sem ég stóð í mestri þakkarskuld við. Þegar ég kom f rá dánarbeði þessa vinar míns klukkan rúmlega fimm að morgni, var sólin risin yfir austurfjöllin og stráði geislum sínum á lognkyrran fjörðinn. Báran lék við Borgarsand, kyrrð og ró ríkti yfir öllu. Mér komu í hug ljóðlínur Hannesar Péturssonar: ... „i mildu logni og heima: sandfjaran svört og þvegin af svalandi næturblæ.

Daginn áður hafði verið norðan þræsingur og brimað við Borgarsand. Nú var veðrið gengið niður, og Skagafjörður skartaði sínu fegursta í dýrð morgunsins. 1 brjósti mér ríkti sár söknuður, en jafnframt þakklæti fyrir öll árin, sem við Ólafur höfðum starfað saman, — vináttu hans og óbrigðula tryggð við mig og fjölskyldu mína. Baráttu hans var lokið — veðrinu slotað. Nú sveif hann brott á vængjum morgunroðans.

Blessuð sé minning Ólafs Stefánssonar.

Kári Jónsson
---------------------------------------------------

Morgunblaðið - 03. mars 1976

Stefán Ólafur Stefánsson stöðvarstjóri sextugur Stöðvarstjóri pósts og síma á Sauðárkróki, Stefán Ólafur Stefánsson, er sextugur i dag. Hann er fæddur3. marz 1916. Mig langar til að biðja Morgunblaðið fyrir árnaðaróskir og afmæliskveðjur frá mér og mínum til þessa vinar míns og frænda á þessum tímamótum, þó ég hins vegar viti, að fyrir þær fæ ég litlar þakkir, því afmælisbarnið hefur litt viljað flíka tímamótadögum ævi sinnar.

Ólafur Stefánsson lítur ekki út fyrir að vera orðinn sextugur — en satt er það samt, svo segja kirkjubækur Akureyrarsóknar, en á Akureyri er hann fæddur. Foreldrar hans voru Stefán kaupmaður Sigurðsson, Jónssonar bónda á Kjartansstöðum i Skagafirði og kona hans Jóhanna Sigríður Jónsdóttir, prófasts að Hofi í Vopnafirði, Jónssonar. Ólafur ólst upp í fjölmennum systkinahópi á glæsilegu heimili að Hafnarstræti 29, þar sem einstök gestrisni og góðvild settu svip á heimilið og fornar dyggðir voru i hávegum hafðar.

Á Akureyri undi hann sér við „Pollinn" og þá ekki síður siglandi á honum í lítilli skektu og er Eyjafjörðurinn og Akureyri honum einkar kær. Ólafur fór i Verzlunarskólann haustið 1935 og lauk prófi þaðan vorið 1938. Höfðu þá foreldrar hans flutzt til Siglufjarðar þar sem flest börn þeirra voru þá búsett. Ólafur hóf strax að loknum prófum í Verzlunarskólanum störf sem fulltrúi við pósthúsið í Siglufirði og var þá þegar ráðinn fastur starfsmaður Pósts og síma. i þjónustu þessarar stofnunar hefur hann því verið í tæp 38 ár, þegar þetta er ritað.

Einnig fékkst hann nokkuð við kennslu þau ár er hann var í Siglufirði. Ólafur gegndi fulltrúastarfi í Siglufirði til ársins 1958 að hann var skipaður stöðvarstjóri Pósts og síma á Sauðárkróki. Þar fengu Skagfirðingar trúverðugan embættismann og ég efa að Póstur og sími hefði getað fengið gætnari og heiðarlegri stöðvarstjóra og notendurnir liprari þjón. Ólafur hefur unað vel hag sinum á Sauðárkróki og tekið þar' þátt í margvíslegum félagsmálastörfum.

Hann er formaður stjórnar Tónlistafélags Skagfirðinga og hefur verið það frá stofnun félagsins, var í stjórn Sparisjóðs Sauðarkróks og fleira mætti upp telja. Ólafur átti ríkan þátt i því að Sauðárkrókssöfnuður eignaðist gamla Sjúkrahúsið sem safnaðarheimili og hefur þar verið rekið á vegum Sauðárkrókssafnaðar myndarlegt félagsheimili fyrir æskulýð Sauðárkróks og fleiri.

Ólafur kvæntist 14. september 1950 Ölmu Björnsdóttur hinni ágætustu konu. Hún er dóttir Björns Björnssonar skipstjóra, er lengi bjó i Siglufirði, nú í Reykjavík, og konu hans frú Önnu Friðleifsdóttur Jóhannssonar. Hefur hjónaband þeirra því staðið í rösk 25 hamingjurík ár. Þau eiga 3 hjónanna oft verið nefndur og jafnvel verið notaður sem viðmiðun á tímatali suður þar.

Nú sendi ég mínum ágæta vini, Valdimar, og Lilju konu hans innilegar þakkir okkar hjónanna fyrir vináttu þeirra og tryggð. um leið og við færum þeim hamingjuóskir og biðjum þeim blessunar um ókomin æviár. Hallgrímur Th. Björnsson börn, Önnu Birnu, röntgentækni, Stefán við nám og störf í Reykjavík, og Jóhann, sem er þeirra yngstur og er enn i heimahúsum. Öll sækja börnin góða eiginleika til foreldrasinna.

Ég á frú Ölmu og Ölafi margt að þakka. Þau ár sem ég var i framboði i Norðurlandskjördæmi vestra fyrir Framsóknarflokkinn þá gisti ég oft Sauðárkrók og þá jafnan hjá þeim hjónum. Þótti sumum flokksbræðrum mínum það kynlegt ef ekki tortryggilegt, að frambjóðandinn gisti á heimili eins styrkasta stuðningsmanns séra Gunnars og Pálma á Akri og siðar Eyjólfs Konráðs, en þetta breytti engu — hvorugur lét af trú sinni — sinni stefnu.

Hvergi var betra að vera og hvíla sig en á þessu heimili eftir átakafundi og vökur. Fyrir alla þá gestrisni, sem ég hefi notið á heimili póstmeistarahjónanna á Sauðárkróki er hér með þakkað og undir þær þakkir taka kona mín, börn og tengdabörn, en heimili Olafs og frú Ölmu hefur jafnan staðið okkur öllum opið þegar við höfum heimsótt Skagafjörð. Það væri freistandi að skrifa lengra mál um sameiginleg sumar- og sólskindaga á Akureyri, Siglufirði og víðar, en hér skal staðar numið. Ólafur minn, vinir þínir og frændur allir senda þér sextugum, konu þinni og börnum, hugheilar hamingjuóskir og biðja að þú megir enn lengi lifa við góða heilsu og hamingjusamt heimilislíf. Heill þér sextugum.
Jón Kjartansson