Tengt Siglufirði
Siglfirðingur - 17. janúar 1962
Björn Tryggvason— Fáein minningarorð — Lífið og dauðinn eru tvær hliðar á þeirri tilveru, sem er eilíf. Engu að síður kemur brottkvaðning góðra drengja á bezta aldri samferðamönnum á óvart, jafnvel þó för hafi verið fyrir sérð.
Björn Tryggvason, 1. vélstjóri á bv. Hafliða, var fæddur á Ísafirði, 11. apríl 1911, en lézt að heimili sínu hér í bæ, 4. janúar 1962, á 51. aldursári.
5 ára að aldri missti hann móður sína og fluttist þá til frú Kristínar Ásgeirsdóttur og Guðbjarts Jónssonar, sem þá var beykir á Ísafirði. Með þeim fluttist hann til Viðeyjar og ólst þar upp. Leit hann jafnan til þeirra sem foreldra sinna. Björn fór snemma að vinna fyrir sér, vann lengst af á togurum og millilandaskipum, en hingað til Siglufjarðar kom hann árið 1938, og hefur átt hér heima síðan.
1941 kvæntist hann eftirlifandi konu sinni, frú Halla Jóhannsdóttir, og varð þeim 5 barna auðið:
Björn heitinn starfaði hér fyrst sem vélamaður hjá Hraðfrystihúsinu h.f., síðan nokkur ár hjá Siglufjarðarkaupstað, en árið 1946 hóf hann störf hjá Síldarverksmiðjum ríkisins, þar sem hann starfaði nær óslitið til ársins 1951.
Það ár réðist hann til starfa hjá Bæjarútgerð Siglufjarðar, sem vélstjóri á bv. Hafliða, og þar starfaði hann þar til í desember sl., er veikindi hömluðu frekara starfi. Björn heitinn Tryggvason var starfsamur maður, kom sér hvarvetna vel, enda vinmargur, og er harmdauði öllum, sem til hans þekktu.
Munu fáir eftir leika þá karlmennsku, sem kom fram í því, að sinna störfum sínum sjúkur, af stakri alúð, unz yfir lauk.
Má því segja, að hann hafi fallið á vettvangi starfsins, við þau störf, sem heill samfélagsins byggist á. Við, sem höfðum af þessum heiðursmanni .meiri eða minni kynni,
kveðjum hann þakklátum huga, og árnum honum fararheilla fram á þann veg, sem við öll göngum að lokum. Aðstandendum hans vottum við samúð, en vitum, að það er huggun harmi
gegn, að nú er þjáningum lokið, en minning lifir um góðan dreng.
S.F.
----------------------------------------
Sigjlfirzkir sjómenn kvaddir - Fáein kveðjuorð.
ÞAR er sorg um Siglufjörð. — Mig setti hljóðan er ég heyrði lát þriggja fyrrverandi skipsfélaga minna, er ég starfaði með um nokkurt skeið á togurum Siglufjarðarbæjar. Vorum við allir góðir félagar, áttum okkar ánægju og gleðistundir saman, sem gleymast ei þó árin líði á hinni leyndardómsfullu atomöld.
Björn Tryggvason vélstjóri, er mér enn í huga sem drengur góður, er vildi öllum gott gera, var gestrisinn og gamansamur, enda heimili þeirra hjóna oft þéttsetið af vinum og kunningjum, og skorti þá ekki glaðlegt og gott viðmót frú Höllu, konu Björns heitins.
Má
með sanni segja, að störf Björns heitins hafi einkennzt af dugnaði og karlmennsku, þrátt fyrir sjúkdóm þann, er að honum gekk síðustu árin. Kvæntur var hann hinni mestu og myndarkonu,
frú Höllu Jóhannsdóttur og varð þeim fimm barna auðið.
Hann lézt að heimili sínu 4. janúar s.l.
--------
Egill Steingrímsson og Hólmar Frímannsson
voru hásetar á togaranum Elliða, er fórst í fárviðri og stórsjó út af Öndverðarnesi, laugardaginn 10. febr. s.l. —
Höfðu þeir farið í gúmbát,
sem slitnaði frá togaranum og hvarf út í náttmyrkrið og fannst eigi, þrátt fyrir mikla leit fyrr en daginn eftir að tilvísun flugvélar. Voru þeir félagar þá báðir
látnir. Var útför hinna ungu sjómanna gerð frá kirkju Siglufjarðar.
Var hún fjölmenn og öli hin virðulegasta. Allir voru menn þessir á bezta aldurskeiði. Þeir
voru feður, eiginmenn og synir, sem unnu störf sin af kostgæfni fram á síðustu stundu, þekktir af öllum Siglfirðingum sem góðir borgarar, er tóku tryggð við hinn norðlenzka síldarbæ
á Þormóðseyri, sem þeim duttlungum er háður, að vera ýmist iðandi af lífi eða tóm legur og dularfullur í myrkri og hríðarbyljum vetrarins.
Ég vildi
með þessum fáu orðum flytja ástvinum og aðstandendum hinna látnu innilegar samúðarkveðjur. Menn þessir eru harmdauði öllum, sem til þeirra þekktu, en minningin um góða
drengi lifir í hugum okkar.
Sk. St.