Bryndís J. Blöndal

Mbl.is  10. september 2006 | Minningargreinar 

Bryndís J. Blöndal fæddist á Siglufirði 12. október 1913. Hún lést á heimili sínu að Laugarnesvegi 80, Reykjavík, 11. ágúst síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Jósep Lárusson Blöndal frá Kornsá í Vatnsdal, símstjóri og kaupmaður á Siglufirði og Guðrún Guðmundsdóttir húsmóðir frá Hóli í Lundarreykjardal.

Systkini Bryndísar voru,

 1. Sigríður Blöndal, f. 1908, d. 1934,
 2. Kristín Blöndal, f. 1910, d. 1931,
 3. Guðmundur Blöndal, f. 1911, d. 1986, kvæntur Rósa Gísladóttir f. 1906,
 4. Lárus Blöndal, f. 1912, d. 2003, kvæntur Guðrún S. Jóhannesdóttir f. 1923,
 5. BryndísBlöndal f 1913 d. 2006 
 6. Anna Blöndal, f. 1914, d. 1983,
 7. Haraldur Hans Blöndal, f. 1917, d. 1964, kvæntur Sigríður Pétursdóttir f. 1915, d. 2000,
 8. Halldór Blöndal, f. 1917, d. 1993, kvæntur Guðrún Kristjánsdóttir f. 1920, d. 2002 og
 9. Óli Blöndal, f.1918, d. 2005, kvæntur Margrét Björnsdóttir f. 1924.
Bryndís Blöndal - ókunnur ljósmyndari

Bryndís Blöndal - ókunnur ljósmyndari

Útför Bryndísar var gerð frá Grafarvogskirkju 31. ágúst, í kyrrþey.

Föðursystir mín Bryndís J. Blöndal er látin 92 ára að aldri. Bryndís fæddist á Siglufirði og ólst þar upp í hópi 10 systkina sem nú eru öll látin.

Bryndís varði meirihluta starfsævi sinnar í Aðalbúðinni á Siglufirði ásamt systkinum sínum Önnu, Lárusi og Óla. Hún var dugnaðarkona sem lítið fór fyrir, var lítt gefin fyrir að trana sér fram. Margar minningar bernsku minnar eru tengdar Aðalbúðinni þar sem Bryndís lék stórt hlutverk.

Allt milli himins og jarðar fékkst þar, bækur, fatnaður, vefnaðarvara, heimilistæki, leikföng, sælgæti o.s.frv. og má segja að Aðalbúðin hafi verið hálfgerð félagsmiðstöð Siglfirðinga í þá daga. Oft komu menn eingöngu til að spjalla um málefni líðandi stundar og þá sérstaklega tengd pólitík enda systkinin annáluð fyrir glaðværð og heiðbláar pólitískar skoðanir sínar.

Bryndís og Anna systir hennar bjuggu lengst af ásamt foreldrum sínum að Lækjargötu 5 á Siglufirði en systurnar önnuðust foreldra sína af stakri natni alla tíð. Vegna veikinda Önnu ákváðu þær að flytja til Reykjavíkur árið 1981 til að vera nær þeirri heilbrigðisþjónustu sem Anna þurfti á að halda. Lækjargata 5 á Siglufirði var miðstöð fjölskyldunnar. Þar voru hefðir í heiðri hafðar og má nefna að fjölskylda og vinir komu saman og fögnuðu sumri með eggjasnafsi á sumardaginn fyrsta.

Þetta var skemmtilegur siður sem þær héldu á lofti sem kom frá fjölskyldu afa Jóseps frá Kornsá í Húnavatnssýslu. Einnig var alltaf komið saman um jólin og í tilefni afmæla ömmu og afa þrátt fyrir að þau væru löngu horfin á braut. Borð svignuðu undan kræsingum sem Önnu og Bryndísi fannst aldrei nóg af en þær voru ávallt höfðingjar heim að sækja. Það er óhætt að segja að Bryndís hafi að öðru leyti lítið verið fyrir mannamót, hún vildi fá alla í heimsókn til sín en var ekkert fyrir að fara að heiman. Ef hún mætti í veislur var hún fljót að láta sig hverfa í eldhúsið til að hjálpa til.

Bryndís var einstök barnagæla. Ég minnist þess þegar við bróðir minn fengum að gista hjá þeim systrum, lögðu þær sig allar fram um að okkur liði sem best og fyrir svefninn fengum við ævinlega skál í rúmið með brytjuðu suðusúkkulaði og epli. Hún passaði alla tíð upp á að börnin gætu dundað sér hjá henni með því að hafa dúkkur, kubba, bækur, spil og bíla til taks. Henni þótti sérstaklega vænt um þegar krakkarnir mínir kölluðu hana ömmu, enda var hún eins og amma þeirra.

Eftir að Anna dó var Bryndís mikið ein en hún undi sér vel enda hafði hún einstakt jafnaðargeð, var ávallt ung í anda, full af bjartsýni og mikill húmoristi. Hún fylgdist vel með öllum fjölskyldumeðlimum í leik og starfi og gat sagt manni nýjustu fréttir um sína nánustu. Allt fram á síðsta dag var hún eldklár á öllu sem var að gerast í kringum hana og ekki fölnuðu skoðanirnar með aldrinum.

Við fráfall Bryndísar frænku hverfur miðpunkturinn í fjölskyldunni og ákveðnum kafla í lífi okkar afkomenda systkina hennar er lokið. En þeirra verður fyrst og fremst minnst fyrir að vera góðar og glaðværar manneskjur sem við afkomendur þeirra söknum sárlega.

 • Endurminningin merlar æ
 • í mána silfri hvað, sem var,
 • yfir hið liðna bregður blæ
 • blikandi fjarlægðar,
 • gleðina jafnar, sefar sorg;
 • svipþyrping
 • sækir þing
 • í sinnis hljóðri borg.

(Grímur Thomsen.)

Ég vil þakka Bryndísi frænku minni fyrir allar góðu stundirnar sem ég átti með henni. Minningin um hana mun lifa um ókomin ár.

Guðrún Ó. Blöndal.
-------------------------------------------------

Elsku Bryndís föðursystir mín er látin, tæplega 93 ára. Með henni eru öll 10 Blöndals systkinin frá Siglufirði fallin frá.

Heimili afa og ömmu á Lækjargötu 5 var miðstöð Blöndalsættarinnar á Siglufirði og mitt annað heimili á æskuárunum. Þar bjuggu þær systur Anna og Bryndís með foreldrum sínum og önnuðust þau á efri árum. Anna og Bryndís voru einstaklega barngóðar. Vorum við öll bræðrabörn þeirra mjög hænd að þeim svo og börnin okkar. Ég var fyrsta barnabarn afa og ömmu og mun hafa verið helsta leikfang þeirra systra fyrstu árin.

Á Lækjargötunni átti ég alltaf skjól. Hlýja og glaðværð réði þar ríkjum. Gott var að koma við á heimleið úr skólanum að dúkuðu kaffiborði. Oftar en ekki var þá einhverju góðgæti laumað í vasann minn áður en haldið var aftur út í kuldann. Stundum fékk ég að gista. Var þá stjanað við mig á allan hátt. Á þessum skólaárum mínum fékk ég alltaf freknur þegar sól fór að hækka á lofti.

Reyndu þær systur að ná þessum ófögnuði af mér með ýmsum ráðum. En súrmjólkin og sítrónan dugðu skammt, var þá freknukrem keypt handa unglingnum í næstu Reykjavíkurferð. Gestkvæmt var á Lækjargötunni og ættræknin í hávegum höfð. Á sumardaginn fyrsta og á afmæli afa var búinn til eggjasnafs, með rommi handa fullorðnum og vanillu handa okkur smáfólkinu, var það siður frá heimili afa á Kornsá.

Bryndís og Anna tóku virkan þátt í skátastarfi og Bryndís starfaði í Slysavarnafélaginu. Er mér minnisstæð ferð Slysavarnafélagsins til Borgarness og Stykkishólms. Bryndís tók mig með sér í ferðina, sem var eitt ævintýri fyrir mig. Dýrkaði ég þessa kátu og skemmtilegu frænku mína.

Systurnar stunduðu verslunarrekstur á Siglufirði ásamt bræðrum sínum Óla og Lárusi. Anna sneri sér þó fljótlega að skrifstofustörfum en Bryndís starfaði við verslunina meðan hún var í eigu þeirra systkina. Þá lærði Bryndís fótsnyrtingu og rak stofu í kjallaranum á Lækjargötunni og síðar á Laugarnesveginum eftir að þær systur fluttu suður vegna veikinda Önnu upp úr 1980. Heimili þeirra systra syðra bar vott um sömu alúðina og natnina. Þar ríkti sami andblær og á Siglufirði forðum.

Ættræknin leyndi sér ekki, myndir af ungum og öldnum ættingjum prýddu veggina. Þær systur stóðu í bréfasambandi við ættingja í Kanada og skiptust á gagnkvæmum heimsóknum, er mér minnisstæð Þingvallaferð sem við Sveinn fórum í með þær systur og Ruby frænku. Handverk eftir Önnu og blómin hennar Bryndísar settu svip sinn á íbúðina. Á unglingsárum mínum leitaði ég alltaf til Önnu þegar ég strandaði í peysuuppskriftunum en hún var einstök handavinnukona. Aðaláhugamál Bryndísar var hins vegar blómaræktin. Á Lækjargötunni ræktaði hún hávaxnar gólfplöntur í forstofunni, sem var nokkurs konar blómaskáli. Stofurnar hennar syðra voru fullar af blómum og á örlitlum svölum ræktaði hún sumarblómin sín.

Bryndís hafði einstaklega létta lund eins og faðir minn Óli J. Blöndal sem lést á síðasta ári, en þau systkinin voru alltaf mjög náin. Hún var alltaf sjálfri sér nóg og bjó ein eftir fráfall Önnu 1983. Hún hafði alltaf nóg að sýsla og kvartaði aldrei. Bryndís var fyrir mér aldrei gömul kona. Hreint hjartalag, heiðríkt og glettið svipmótið var ætíð hið sama þó árin færðust yfir. Alltaf tók hún á móti okkur Svenna og börnunum okkar með sömu gleðinni og hlýjunni.

Bryndís var listræn, hafði fallega söngrödd og lék á orgel. Þá hafði hún einstaklega fallega rithönd svo eftir var tekið allt fram á efri ár og var hún iðulega fengin til að skrautrita fyrir fólk. Föðursystir mín var trúuð kona sem trúði á endurfundi við sína nánustu. Veit ég að hún hefur fengið hlýjar móttökur. Takk fyrir allt, elsku Biddý frænka. Þín er sárt saknað.

Ólöf Birna Blöndal.
-----------------------------------------------

Nú er tími Bryndísar Blöndal afasystur minnar og góðvinkonu með okkur hér á enda. Bryndís var einstök kona, hún var skemmtileg og hlý og alltaf stutt í brosið og hláturinn. Það verður tómlegt að keyra Laugarnesveginn og geta ekki skotist inn til Biddýar frænku í heimsókn. Hún var einstaklega barngóð og það var svo gott að koma í heimsókn til hennar og spjalla og leyfa henni að spjalla við krakkana, sem oftast kölluðu hana ömmu.

 • Nú legg ég augun aftur,
 • ó, Guð, þinn náðarkraftur
 • mín veri vörn í nótt.
 • Æ, virst mig að þér taka,
 • mér yfir láttu vaka
 • þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson.)

Ég kveð þig kæra Biddý mín og þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Þín Margrét Lára.