Tengt Siglufirði
Morgunblaðið - 20. febrúar 2007
Jón Vídalín fæddist á Búðum
í Fáskrúðsfirði 4. janúar 1913.
Hann lést á sjúkrahúsi Seyðisfjarðar 6. febrúar 2007.
Hann var sonur hjónanna Sigurðar Þórðarsonar frá Kálfafelli í Suðursveit og Salóme Ingibjörg Magnúsdóttir frá Litla Hólmi í Leiru. Fædd 10 ágúst 1880 d. 18 fefbrúar 1973
Bræður Jóns:
Eftir lát föður síns flytur hann ásamt móður sinni til Siglufjarðar 1940. Þar kynnist hann konu sinni.
Jón kvæntist 10.10. 1944 Sigrún Sigurðardóttir, f. 10.10. 1916, d. 10.3. 1996.
Börn hans og Sigrúnar eru
Jón og Sigrún eiga fjögur börn og 12 barnabörn.
Jón byrjaði ungur til sjós. Ungur
þurfti hann að gerast fyrirvinna móður sinnar vegna veikinda föður síns er síðar lést. Hann stundaði sjómennsku nánast allan sinn starfsferil og bjó á Siglufirði frá
1940 til 1973.
Fluttist þá í Garðinn og bjó þar í 4 ár.
Fluttist til Seyðisfjarðar 1977 og vann þar hjá Norðursíld í 20 ár.
Útför Jóns verður gerð frá Seyðisfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Elsku pabbi minn. Þá ertu farinn frá okkur. Þú ætlaðir alltaf að komast 10. hringinn kringum landið en þeir urðu bara 9 sá síðasti er hafinn þangað sem eilífðin er og almættið finnst, þangað sem við öll eigum eftir að fara. Söknuðurinn er mikill hjá okkur öllum en minningarnar lifa og eru margar og góðar. Þú varst mér góður faðir, tókst mig strax að þér 7 ára gamla sem þína eigin dóttur þegar þið mamma giftust.
Það var ekki erfitt að byrja strax á að kalla þig pabba, annað kom ekki til greina, ekki var mamma þín síðri við mig en hún var alltaf amman á heimilinu. Seinustu 30 árin sem þú hefur búið hér á Seyðisfirði gerðu okkur ennþá nánari, dagleg samskipti voru bæði heima og á sama vinnustað, auk þess að þið Hafsteinn voruð alltaf svo góðir vinir og höfðuð sama áhugamál. Þær voru ófáar ferðirnar ykkar kringum kindurnar og öll árin í Norðursíld sem þið unnuð saman.
Þú varst með afbrigðum hraustur maður, ég man aldrei eftir þér veikum, fórst einu sinni í viðgerð eins og þú orðaðir það, mjöðmin var eitthvað að angra þig. En þú lést það ekki aftra þér að koma við og við og leysa af sem brýnari í frystihúsinu þótt kominn væri yfir áttrætt. Eftir að þú misstir mömmu fyrir 11 árum sástu alfarið um þig sjálfur. Þú varst ekki vanur heimilisstörfum því mamma sá vel um þig.
En þig munaði ekki mikið um það, heimilið var alltaf tandurhreint og svo vel var búið um að ég kallaði rúmið fjölina og húsið Hvítholt. Svo var keyptur nýr bíll og þínar sumarlegu hringferðir hófust, alltaf ein ferð á sumri og skoðaðir flestalla staðir á landinu, ókst öll jarðgöng og heimsóttir gamla vini. Eljan og áhuginn var svo mikill að eitt sumarið hringdir þú í mig frá Djúpavogi og sagðist vera á heimleið enda hringurinn að verða búinn.
Næsta morgun hringirðu og varst þá staddur í Hóladómkirkju, þú hafðir gleymt að koma þar við og þá var einfaldast að skreppa norður. Þvílíkur hraustleiki. Heima var það handavinnan, orðinn 80 ára og fórst að mála dúka, rýja mottur og púða og síðast en ekki síst allt postulínið, sem þú málaðir, ótal könnur, vasa og diska. Hver sem hefði séð þína vinnulúnu fingur eftir áratuga sjómennsku hefði vart trúað slíku handbragði.
En svona varstu vandvirkur, samviskusamur og heiðarlegur. Elsku pabbi minn, tengdapabbi, afi og langafi. Við þökkum þér af öllu hjarta fyrir alla samfylgdina gegnum lífið. Biðjum Guð að blessa þig og varðveita og mömmu líka um alla eilífð.
(V. Briem.)
Þín dóttir Gunnþórunn.
------------------------------------------------
Við eigum bágt með að trúa að komið sé að kveðjustund en okkur langar að minnast afa okkar með örfáum orðum. Afi Seyðó eins og við kölluðum hann alltaf var einstaklega glaðlyndur, góður og ljúfur maður og ekki má gleyma að minnast á hvað hann gat verið stríðinn og með smitandi hlátur. Minningarnar og allar skemmtilegu samverustundirnar á Seyðisfirði og allar heimsóknirnar til afa og ömmu munu ylja okkur um hjartarætur.
Fyrsta minningin sem við systkinin munum frá því að við vorum pínulítil er að þegar við komum í heimsókn til afa og ömmu stóðu þau ávallt í hlaðinu og tóku vel á móti okkur og svo fórum við systkinin beint inn í eldhús í nammiskúffuna sem var ávallt búið að fylla með góðgæti áður en við komum. Ekki má gleyma hvað litlu hendurnar okkar voru forvitnar um alla fínu hlutina hans afa, enda átti hann rosalega mikið af dóti sem okkur fannst spennandi.
Hann elti okkur um allt hús til að athuga hvað við værum að bralla. Afi var duglegur að leika við okkur og gaf sér alltaf tíma fyrir okkur. Hann var einstaklega hraustur enda fékk hann sér alltaf lýsi ofan á fiskinn og reyndi í mörg ár að fá okkur til að gera það sama, en án árangurs. Afi ferðaðist mikið og keyrði alltaf hingað suður hvert sumar. Við vorum svo stolt að eiga svona duglegan afa sem keyrði svona langa leið.
Afa fannst gaman að hannyrðum og bjó til marga fallega hluti sem fegra heimili okkar og verða varðveittir. Okkur þótti vænt um afa og erum þakklát fyrir allt sem hann gerði fyrir okkur. Við munum varðveita allar yndislegu minningarnar um afa og ömmu á Seyðó í hjarta okkar og vitum að þið munuð vaka yfir okkur.
Elsku afi, góða ferð og kysstu ömmu frá okkur.
Jón
Ólafur og Steinunn.
------------------------------------
Elsku pabbi. Þá er þessu lokið, allavega að sinni. Síðustu mánuðir voru þér erfiðir, bæði andlega og líkamlega. Andlega af því að þú vildir ekki vera upp á aðra kominn og líkamlega þar sem krabbameinið var farið að láta þig finna fyrir sér á nýjan leik. Þú sem aldrei vildir vera upp á aðra kominn og ekki láta hafa fyrir þér varðst að sætta þig við það hlutskipti. Nú get ég ekki lengur hringt í þig til að athuga hvernig heilsan er, því að eftir að þú greindist með krabbameinið varst þú ákveðinn í að það yrði skorið burt.
Ótal minningar hafa sprottið upp í huga mínum undanfarna daga þar sem ég hef hugsað um það sem ég gæti skrifað þér. Allar minningarnar um þig eru góðar enda varst þú góður og hlýr. Ferðalögin sem þú fórst alltaf á sumrin eftir að mamma dó gleymast ekki. Þú byrjaðir að undirbúa þig fyrir hringferðina, eins og þú kallaðir það, í apríl og lagðir svo yfirleitt af stað daginn eftir 17. júní hvernig sem viðraði. Nema einu sinni þegar snjór var yfir Norðurlandi og þú komst ekki af stað fyrr en viku seinna.
Þú varst svo skipulagður í þessum ferðum, þó var ég dálítið áhyggjufullur þegar þú fórst út á þjóðveginn en þú skilaðir þér alltaf heilu og höldnu þrátt fyrir smáóhöpp sem við minnumst ekki á núna. Einnig er minnisstætt síðastliðið sumar þegar þú komst með okkur í sumarbústaðinn hvað þú hresstist mikið við að koma í sveitina, kom þá upp í þér ferðahugurinn. Ég minnist samtalsins sem við áttum hér í eldhúsinu áður en þú fórst í aðgerðina, að þú ættir eftir að fara og skoða svo margt í næstu hringferð.
En þú hefur nú lokið hringferðunum hér en eflaust ert þú á ferðalagi þar sem þú ert núna. Ég mun ávallt sakna þín og það tekur mjög á mig að vita það að heimsóknirnar verða ekki fleiri í bili eða símtölin til þín. Lífið hjá þér á Seyðisfirði var í föstum skorðum eftir að mamma dó, það var aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig þú skipulagðir þig.
Þegar þú vaknaðir á morgnana fékkstu þér morgunverð, fórst í göngutúra, sinntir heimilisstörfunum því ekki vildir þú húshjálp, sagðist þrífa þitt heimili sjálfur, og ekki má gleyma Leiðarljósi sem þú misstir aldrei af og ef manni varð á að hringja á meðan Leiðarljós var í sjónvarpinu var ekki svarað í símann.
Svo mátti nú aldrei vera snjókorn eða ryk á stéttinni. Svo varst þú svo duglegur að föndra og mála postulín, ekki gat maður nú ímyndað sér að þú ættir eftir að sýna svona mikla snilli með pensilinn. Nú á kveðjustund þakka ég fyrir hverja samverustund með þér og fyrir allt sem þú kenndir mér. Minningarnar eru mér mikill fjársjóður sem ég mun ávallt varðveita.
Elsku pabbi, ég veit að þú ert kominn á betri stað og þér líður betur, allar þjáningar þínar horfnar. Ég kveð þig með margar góðar minningar í hjarta. Ég veit að þú vakir yfir okkur og verndar. Nú legg ég augun aftur ó, Guð þinn náðarkraftur mín veri vörn í nótt. Æ, virst mig að þér taka, mér yfir láttu vaka þinn engill, svo ég sofi rótt. Minning um góðan föður lifir.
Þinn sonur Sigurbjörn.
------------------------------------
Dagblaðið Vísir - DV - 07. janúar 2003
Jón Vídalín Sigurðsson, Múlavegi 32 á Seyðisfirði, varð níræður þann 4. janúar 2003
Jón fæddist á Búðum á Fáskrúðsfirði 4.1, 1913. Hann byrjaði ungur til sjós. Fjórtán ára þurfti hann að gerast fyrirvinna móður sinnar og yngri systkina er faðir hans lést.
Hann stundaði sjómennsku nánast allan sinn starfsferil og bjó á Siglufirði frá 1939 til 1968 en flutti til Seyðisfjarðar árið 1977. Kona Jóns var Sigrún Sigurðar dóttir, f. 10.10.1916, d. 10.3.1996. Hún var dóttir Sigurðar Guðjónssonar, útvegsbónda og verkamanns á Dalvík, og Önnu Sigurðardóttur verkakonu.
Stjúpdóttir Jóns er Gunnþórunn Gunnlaugsdóttir, skrifstofumaður á Seyðisfirði, gift Hafsteini Sigurjónssyni og eiga þau fjögur börn. Börn Jóns og Sigrúnar eru Sigurbjörn Jónsson, kvæntur Hugrúnu Ólafsdóttur, eiga þau tvö börn saman en Hugrún átti eitt fyrir; Anna G. Jónsdóttir og á hún þrjú börn. Barnabörn Jóns eru því níu og barnabarnabörnin 14.
Bræður Jóns: