Kristinn Ásgrímsson skipstjóri

Mjölnir - 17. ágúst 1942  Kristinn Ásgrímsson. -

Einn af sægörpum hákarlaaldarinnar, Kristinn Ásgrímsson, skipstjóri, var til grafar borinn hér á Siglufirði þann 23. júlí 1942. Kristinn var fæddur á Skeiði í Austur-Fljótum þann 18. júlí 1866 pg ólst þar upp hjá foreldrum sínum til 8 ára aldurs, að hann missti föður sinn. Eftir það fór hann til systur sinnar, sem bjó á Minnaholti og síðar á Lundi og dvaldist hjá henni um nokkurra ára skeið.

Um fermingaraldur réðist Kristinn i vinnumennsku til Eyjafjarðar og byrjaði snemma sjómennsku, bæði á árabátum og hákarlaskipum.
Tuttugu og sjö ára gamall, eða árið 1891 þann 28. september, giftist hann eftirlifandi konu sinni, Helga Baldvinsdóttir. Rúmlega aldarhelmings sambúð átti eftir að sanna, að sú stund var hin happadrýgsta í öllu lífi þessa athafnasama manns.

Því að þessi fallega og góða mannkosta kona reyndist manni sínum virkilega góður lífs- . förunautur og alltaf bezt, þegar mest lá við og börnum sínum reyndist hún umhyggjusöm ' og góð móðir.
Fyrstu hjónabandsárin bjuggu þau Kristinn og Helga á ýmsum stöðum vestan Eyjafjarðarins, Ytri-Haga, Hauganesi, Hillum, Hrafnagili og Grund í Þorvaldsdal, en fluttust svo að Hamri í Fljótum vorið 1918.

Skipstjórn á hákarlaskipi byrjaði Kristinn árið eftir að hann giftist, um vorið 1892, á seglskipinu Baldri, eign Chr. Hafsteen, sem þá átti heima á Oddeyri. Baldur litli varð mjög fengsæll þetta ár, en þar sem eigendaskipti urðu að skipinu varð Kristinn ekki lengur skipstjóri á því, en tók við skipstjórn á Voninni, var einnig með Hríseyjuna, Henning og Latabrún og í fjöldamörg ár með Eirík, eign Höepnersverzlunar á Akureyri.

Kristinn var mikill aflamaður, duglegur' og ósérhlífinn og fór orð af hve seigur og þolinn hann var. Hann var verklaginn og góður sjómaður, þótti með afbrigðum góður stjórnari, en það sem mest var um vert var þó það, að hann var heiðarlegur og góður drengur og naut því virðingar og vinsældar.

Þeim Kristni og Helgu varð 6 barna auðið. Eitt dó á unga aldri en hin fimm lifa enn, tveir drengir, dugnaðarmennirnir

  • Helgi Kristinsson trésmiður og
  • Baldvin Kristinsson bílstjóri, báðir búsettir hér í bænum, og þrjár stúlkur,
  • Guðbjörg Kristinsdóttir ljósmóðir hér á Siglufirði og
  • Jóna Kristinsdóttir ljósmóðir í Vestmannaeyjum, og njóta þær báðar hinna mestu vinsælda. Yngsta barnið var
  • Arnfríður Kristinsdóttir, kona Þórarinn Hjálmarsson, vatnsveitustjóra hér í bænum.

Hákarlalegurnar á hinum litlu og~ stundum illa útbúnu seglskipum voru oft hinar mestu svaðilfarir. Algengt var að sigla 80—90 mílur norður í haf til veiðanna. Hákarlaveiðarnar eru mjög erfiðar, þegar mikið veiðist og lögðu menn á sig alveg ótrúlegan þrældóm og vökur við þær og ekki var hirt um að fara í land fyrr en í fulla hnefana.

Þegar svo loks var leyst og lagt af stað í land í grenjandi stórhríðarbyl, var það oft hlutskipti hins samvizkusama hákarlaskipstjóra að standa einn, tvo sólarhringa, þar til farsællega var náð landi. Þetta bættist við vökur og þrældóm við veiðina, því að það var siður hákarlaskipstjóranna, að vinna að veiðinni alveg eins og hásetarnir.

Eftir eina erfiða ferð kenndi Kristinn heitinn krankleika í augunum og þótt hann leitaði margsinnis læknis, fór þó svo að hann varð blindur. Orsökin mun sennilega hafa verið of miklar vökur og særok á löngum og erfiðum siglingum. Allir geta skilið, hvílíkt feikna áfall þetta hefir verið fyrir mann eins og Kristinn heitinn, en þessari óhamingju mætti hann þó með sömu karlmennskunni og æðruleysinu eins og stórhríðarbyljum og öðrum mannraunum, sem hann lenti í, á hinni viðburðaríku æfi sinni. -

Eins og áður er sagt fluttu þau Kristinn og Helga í Fljót vorið 1918. Þau dvöldu í Fljótum um átta ára bil og fluttu þá hingað til Siglufjarðar og hafa átt hér heima síðan. Það sýnir vel þrek og karlmannslund Kristins, að þó að sjónin bilaði vildi hann þó ekki gefast upp á því að sjá fyrir sér og konu sinni. Ekki myndi þó hafa staðið á börnum þeirra að sjá um þau hjónin, því að öll sambúð þeirra og barnanna var hin ástúðlegasta, enda börnin öll artgóð og drengskaparmanneskjur, eins og gömlu hjónin. En það varsama.

Fyrir hinn kjarkgóða og seiga garp var það sjálfsagður hlutur að sjá um sig og konu sína í lengstu lög, og þá tók hann fyrir tóbaksskurð og annað smávegis, sem hann gat unnið við heima hjá sér. Við þetta sat hann blindur og oft lasinn, en þó að þetta hafi verið leiðinlegt verk fyrir hinn stórbrotna atorkumann, hefir það þó sjálfsagt tekið sárasta broddinn af böli hans, vegna blindu og heilsuleysis. —

Í sambúðinni við Kristinn sýndi Helga það alltaf, hvílík kona hún var. Þó mun þessi aldraða, gráhærða kona, með bláu blíðlegu augun, sem góðvildin alltaf skín úr, gleggst hafa sýnt það hin síðustu og erfiðustu veikindaár Kristins, hve mikið hún átti af því, sem mest er og bezt um íslenzkar konur. Hin fátæklegu minningarorð mín enda eg svo með að óska að íslenzka þjóðin eignist sem mest af mönnum eins og Kristinn Ásgrímsson var. Blessuð sé minning hins mæta manns.
Þ.G.