Jóhann Þorvaldsson kennari, skkólastjóri

Morgunblaðið - 16. október 1999

Jóhann Þorvaldsson fæddist á Tungufelli í Svarfaðardal 16. maí 1909. Hann lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 9. október síðastliðinn (1999).
Foreldrar hans voru Sigríður Sigurðardóttir og Þorvaldur Jón Baldvinsson bóndi.
Systkini Jóhanns voru átta:

 • Þóra Sigurrós,
 • Baldvin Gunnlaugur,
 • Guðlaug Ingibjörg,
 • Sigurður,
 • Kristín Guðrún,
 • Hartmann,
 • Rósa og
 • Elíngunn.

Þau eru öll látin.

Jóhann kvæntist 17. desember 1938 Friðþóra Stefánsdóttir kennara og lifir hún mann sinn.
Börn þeirra eru

Jóhann Þorvaldsson - Ljósmynd Kristfinnur

Jóhann Þorvaldsson - Ljósmynd Kristfinnur

 • 1) Sigríður Jóhannsdóttir, maki Henning Finnbogason. Þau eiga tvo syni.
 • 2) Þorvaldur Jóhannsson, maki Dóra Sæmundsdóttir, d. 28. maí 1998. Þau eiga sex börn.
 • 3) Stefanía Jóhannsdóttir. Hún á fimm dætur.
 • 4) Indriði Jóhannsson, maki Kristjana Björk Leifsdóttir. Þau eiga fjögur börn.
 • 5) Freysteinn Jóhannsson, maki Jóna Ágústa Ragnheiðardóttir. Þau eiga fjögur börn.

Jóhann lauk kennaraprófi árið 1932 og var kennari í einn vetur í Ólafsvík og á Suðureyri við Súgandafjörð næstu fimm. Hann var kennari við Barnaskóla Siglufjarðar frá árinu 1938 til ársins 1973 og skólastjóri frá 1973-1979.

Hann var skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar frá 1945-1973. Jóhann var forstöðumaður Gesta- og sjómannaheimilis Siglufjarðar sem stúkan Framsókn rak á árunum 1941-1960. Hann var ritstjóri Regins, blaðs templara, um árabil. Jóhann starfaði mikið í góðtemplarareglunni og var heiðursfélagi Stórstúku Íslands.

Hann var gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrós nr. 68 og æðstitemplar stúkunnar Framsókn nr. 187. Jóhann starfaði lengi að skógrækt í Siglufirði og var formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar til ársins 1987.

Hann var heiðursfélagi Skógræktarfélags Siglufjarðar og Skógræktarfélags Íslands og hann var sæmdur Fálkaorðunni fyrir störf að kennslu og skógrækt. Hann tók einnig virkan þátt í öðrum félagsmálum og stjórnmálum í Siglufirði, sat í bæjarstjórn, var formaður stjórnar Kaupfélags Siglfirðinga í mörg ár og var m.a. ritstjóri Einherja, blaðs framsóknarmanna í Siglufirði, í fjórtán ár. Jóhann var einn af stofnendum Félags eldri borgara í Siglufirði og var fyrsti formaður þess. Útför Jóhanns fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
-------------------------------------

Kominn heim í Siglufjörð, að sjá ung tré vaxa úr Skarðdalsjörð. Þó líkamsþróttur leiti blunda þá nýt ég þeirra endurfunda. (Jóhann Þorvaldsson.) Hugur minn leitar til síðustu endurfunda minna við afa minn, Jóhann Þorvaldsson. Síðustu jól var ég í jólaleyfi á Íslandi með fjölskyldu minni. Líkamlegt þrek afa var þá lítið en andlega þrekið var ótrúlegt.

Ég man hvað hann var glaður og stoltur þegar hann sýndi mér ljóðabókina sína sem hann ætlaði að gefa formlega út á afmælisdegi sínum hinn 16. maí er hann yrði níræður. Þegar fregnin um lát afa barst mér settist ég niður og las nokkur ljóð eftir hann úr ljóðabókinni hans „Lífsferðarrjóð". Ég staldraði lengi við ljóðið „Kominn heim" en afi fór heim til Siglufjarðar og ömmu og var þar á sjúkrahúsinu sína síðustu ævidaga.

Minningar mínar frá uppvaxtarárum mínum tengjast Siglufirði á margan hátt. Ég og systur mínar vorum þar mikið á sumrin á Hverfisgötunni hjá ömmu og afa. Þær eru ófáar ferðirnar sem ég fór með afa í skógræktina. Mjólkin var sett í lækinn svo hún héldist köld og svo var hafist handa við að gróðursetja og hlúa að plöntunum. Afi hugsaði vel um trén sín og hlúði að þeim með ótrúlegri nærgætni og alúð.

Þetta eru góðar minningar og það er gott að geta leitað í þær á kveðjustund. Ég hef ætíð borið mikla virðingu fyrir afa. Hann var mikill maður sem ekki hræddist að fara ótroðnar slóðir eins og lífsverk hans sýna. Nú er komið að leiðarlokum. Ég kveð með hinstu kveðju afa minn Jóhann Þorvaldsson.
Hafðu þökk fyrir allt. Elísabet María Sigfúsdóttir.
----------------------------------------

Jóhann Þorvaldsson fyrrverandi skólastjóri andaðist á Sjúkrahúsi Siglufjarðar laugardaginn 9. október, níræður að aldri. Mér er ákaf- *^Iega ljúft að minnast Jóhanns Þorvaldssonar fyrir hans margþættu störf fyrir Siglufjörð og þá sérstaklega fyrir Framsóknarflokkinn og Félag framsóknarmanna hér. Fyrir félagið sat hann í bæjarstjórn Siglufjarðar 1942-1946 og var ritstjóri Einherja, blaðs Framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi vestra, frá 1960-1974.

Hann var ætíð tilbúinn að mæta sem fulltrúi félagsins á samkomur Framsóknarflokksins og vakti þar athygli með hnitunum ræðum og góðum tillögum. Hann íjfcyar sérstaklega góður félagi, sem naut trausts samborgaranna. Jóhann var einlægur samvinnumaður og starfaði í stjórn Kaupfélags Siglfirðinga frá 1945 tiJ 1971 að Kaupfélagið hætti störfum. Á þessum árum hafði Kaupfélagið mikil umsvif, var með verslun, síldarsöltun o.fl.  

Að aðalstarfi var Jóhann kennari og skólastjóri en til þeirra starfa kom hann til Siglufjarðar árið 1938. Hans mun samt lengst verða minnst fyrir það uppbyggingarstarf sem hann vann með börnum í stúkunni Eyrarós og skógræktina, sem nú prýðir Skarðsdal í Siglufirði. Hann var stofnandi Skógræktarfélags Siglufjarðar og lengst af formaður, hann sá um gróðursetningu plantna og umhirðu með unglingum bæjarins, hann ræktaði þannig land og lýð, trúr þeirri hugsjón sem hann talaði oft fyrir mannrækt og landrækt.

Ég minnist hans þegar verið var að taka ákvörðun um byggingu Dvalarheimilis aldraðra á Siglufirði, við vorum að velta fyrir okkur hvort ekki yrði færst of mikið í fang. Þá taldi Jóhann í okkur kjarkinn og sagði að þarna værum við á réttri leið, bygging þessa heimilis yrði bænum minum blessun og gæfa, við mættum ekki gefa eftir í þessu máli. Þetta gekk eftir, húsið var byggt og átti Jóhann þess kost að dvelja þar með konu sinni, Friðþóru Stefánsdóttur.

Í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningar sendi hann okkur kveðjur í bundnu máli sem sýndu hans einlæga baráttuvilja til þess að hafa Framsóknarflokkinn í forustu í íslenskum þjóðmálum inn í nýja öld. Við kveðjum Jóhann og þökkum fyrir hans miklu og fórnfúsu störf, sem vissulega voru metin að verðleikum. En hann var sæmdur Fálkaorðunni árið 1983, einnig var hann heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands svo og Stórstúku Íslands. Ég vil fyrir hönd Framsóknarfélags Siglufjarðar votta eftirlifandi eiginkonu Jóhanns svo og bönum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Sverrir Sveinsson.
-----------------------------
Fyrstu kynni okkar Jóhanns urðu þegar ég fékk sumarvinnu við gróðursetningu á trjáplöntum í Hólsdal í Siglufirði undir strangri og öruggri stjórn Jóhanns. Ég man að það voru ekki margir sem trúðu á að hægt væri að rækta skóg á Siglufirði aðrir en hann og hann fylgdi sannfæringu sinni í þessu sem öðru. Ég og margir aðrir munum minnast Jóhanns þegar rætt er um skógræktina í Hólsdal vegna hans fórnfúsa og óeigingjarna starfs sem hann vann þar fyrir Siglufjörð.

Næst lágu leiðir okkar saman í barnaskólanum á Siglufirði þar sem hann var fyrst kennari og síðan skólastjóri og hélt að sjálfsögðu uppi röð og reglu þar sem annars staðar. Jóhann neytti aldrei áfengra drykkja og gerði sitt til þess að forða börnum frá því böli og starfrækti meðal annars barnastúkuna Eyrarrós á Siglufirði í algjörri sjálfboðavinnu. Hann var æðstitemplar stúkunnar Framsóknar og gerður að heiðursfélaga í Stórstúku Íslands.

Hann var einnig ritstjóri Regins, blaðs templara á Íslandi. Hinn 17. júní 1983 var Jóhanni veitt fálkaorðan fyrir störf sín við kennslu og skógrækt. Ennþá lágu leiðir okkar saman með hugsjónum okkar um störf og stefnu framsóknarflokksins. Jóhann var mikill framsóknarmaður alla sína tíð. Hann var afar sannfærandi í sínum málflutningi og hlutu þeir sem á hlýddu mikinn innblástur um þau málefni sem hann ræddi um á hverjum túna.

Jóhann var ritstjóri Einherja (blað framsóknarmanna á N-vestra) til fjölda ára. Jóhann var mikill bridgemaður og spilaði í áraraðir með félögum sínum í Bridgefélagi Siglufjarðar. Bridge er íþrótt sem reynir mjög á skoðanaskipti milli makkera. Hann var rökfastur við græna borðið eins og víðar og því erfitt að sannfæra hann um annað en það sem hann taldi rétt á hverjum tíma.

Þegar Jóhann lauk starfsferli sínum fluttist hann í Skálarhlíð sem eru leiguíbúðir fyrir aldraða. Þar sem skrifstofa mín er á jarðhæð þess húss áttum við Jóhann margar rökræður um lífið og tilveruna. Hann var starfssamur maður eins og fram hefur komið og til þess að gera eitthvað á sínum efri árum fór hann að semja Ijóð við hin ýmsu tækifæri og gaf að lokum út ljóðabókina „Lífsferðarljóð" sem gefin var út og gefin vinum og kunningjum á 90 ára afmæli hans.

Síðustu árin þjáðist Jóhann af erfiðum sjúkdómi og dvaldi lengi á heimili Sigríðar dóttur sinnar og eiginmanns hennar, sem önnuðust hann af mikilli alúð og óeigingirni. Síðustu mánuðina dvaldi hann í Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði. Þrátt fyrir mikil veikindi hélt Jóhann alla tíð reisn sinni og verður hans minnst sem eins af fórnfúsustu mönnum sem Siglufjörður hefur átt. Í ávarpi sínu á 90 ára afmæli sínu sagði hann að hugurinn væri ávallt á Siglufirði og þá sérstaklega í skógræktinni og þegar hann yrði allur myndi hann horfa yfir fjörðinn fagra og að hann myndi fylgjast vel með velferð Siglufjarðar.

Ég votta eiginkonu hans, börnum, tengdabörnum og barnabörnum mína dýpstu samúð á þessari stund en veit að ljúfar minningar um mikilfenglegan mann munu verða sorginni sterkari í tímans rás.

Jón Sigurbjörnsson.
-------------------------------------------

Þegar við systkinin fréttum að afi á Sigló væri dáinn þá fannst okkur lífið ósanngjarnt og hart en þegar við náðum áttum aftur gerðum við okkur grein fyrir því að afi var búinn að lifa góðu, löngu og hamingjusömu lífi og við vissum að hann var sjálfur tilbúinn að kveðja þennan heim, lífsverki hans var lokið. Veikindi og hár aldur höfðu valdið því að þessi athafnamikli maður gat ekki lengur hugsað um sig sjálfur.

Nú hvílir hann á himnum og vakir yfir okkur öllum. Við höfum verið svo lánsöm að hafa kynnst báðum öfum okkar og fyrir það erum við þakklát en það eru ekki allir sem njóta þess. Bæði afi á Sigló og afi í Vogunum kenndu okkur að bera virðingu fyrir trjánum og gróðrinum. Við munum eftir afa í skógræktinni á Siglufirði með trjáklippurnar í annarri hendi og límband í hinni þar sem hann gekk og hlúði að trjánum og það lá við að við heyrðum þegar trén þökkuðu honum fyrir. Rétt eins og við þá stækkuðu trén og þar er nú hinn fallegasti skógur.

Við fórum oftsinnis í skógræktina ásamt afa, pabba og mömmu og alltaf vorum við með nesti sem amma hafði útbúið handa okkur og við borðuðum með bestu lyst við fossinn og seinna líka í Jóhannslundi. Amma lét okkur alltaf hafa nóg að borða og nestiskarfan var ávallt full af heimatilbúnum vínarbrauðum, kleinum, pönnukökum og brauði. Við munum þegar við lékum okkur við árbakkann, buslandi og í ímynduðum veiðileik þar sem við notuðum gamlar trjágreinar sem veiðistangir.

Það er kannski skrítið til þess að hugsa, og þó, að allar minningar okkar úr skógræktinni segja okkur að það hafi verið sól, það var aldrei rigning. Afi og amma bjuggu lengst af á Hverfisgötu 4. Það hús hefur alla tíð heillað okkur. Þau bjuggu á fyrstu og þriðju hæð og það eitt út af fyrir sig var sérstakt. Til þess að fara upp á þriðju hæð varð maður að fara fram hjá þvottahúsinu, upp þröngar tröppur, í gegnum annarra manna heimili (það var spennandi þegar við vorum yngri) og síðan upp enn fleiri tröppur þangað til komið var að hurðinni að íbúð afa og ömmu.

Þar fyrir innan var margt að finna, m.a. gömul og ný blöð Æskunnar sem við skoðuðum og lásum. Við systkinin höfum haldið sambandi við afa og ömmu að hluta til með bréfaskriftum þar sem langt var á milli okkar í kílómetrum talið. Þetta voru kannski ekki löng bréf en þau sögðu þeim mun meira. Þar sögðum við aðeins frá daglegu lífi okkar, einkunnum, hvernig okkur gengi í skólanum og teiknuðum myndir. Þessi bréf eru nú komin til okkar aftur og geyma dýrmætar minningar.

Fyrr á þessu ári tók ég (Hrönn) viðtal við afa vegna verkefnis í Háskólanum sem átti að fjalla um mannlegu Miðarnar á lífinu. Afi hafði ákveðið að gefa út sína fyrstu ljóðabók á 90 ára afmæli sínu en hún hafði verið í smíðum í fjórtán ár. Bókin er lífshlaup afa. Ég man að hann sagði að það hefði ekki hvarflað að sér að yrkja ljóð áður fyrr enda enginn tími fyrir slíkt. Afi sagði mér svo frá þeim störfum sem hann hafði gegnt um ævina og sagði að líklega ætti orðið þúsundþjalasmiður best við um sig.

Það var sem sagt þegar líkaminn bilaði sem hann tók að yrkja en flest ljóðin eru samin eftir að hann varð 85 ára. Það er engin ljót hugsun sem kemur fram í bókinni enda sagði afi að við lestur hennar gætu margir haldið að hann hefði ekki reynt neitt misjafnt í lífinu en fyrir honum væri það einfaldlega svo að orðin svartsýni, bölsýni og vantrú væru hreinlega ekki til, raunveruleikinn væri allt annar. Afi skrifaði mikið og margt var prentað eftir hann á lífsleiðinn i. Höndin var hans vopn. Hann sagði mér að lífshyggju sína væri að finna í einu ljóðanna í ljóðabók sinni en þar segir:

 • Að gefa og þiggja er gæfunnar leið,
 • að gefa og þiggja er ævinnar skeið.
 • Þá ræður máttur þess góða sem mannlífið þráir
 • og mannelskan sjálf alltaf mjög dáir.
 •  
 • Að lifa þannig um ævinnar skeið
 • er öllum mönnum hin farsæla leið.
 • Þá lífið færir oss gott að gera
 • og ævikvöldið á þannig að vera.

 

Við biðjum Guð að blessa minningu afa og styrkja ömmu sem og okkur öll í sorginni.

Hrönn og Ívar Örn.
-------------------------------------------

Látinn er rúmlega níræður Jóhann Þorvaldsson fyrrv. skólastjóri á Siglufirði. Langri og starfsamri ævi er lokið. Hann var mikill félagsmálamaður sem lagði fram krafta sína á hinum ýmsu sviðum og mætti þar margt til nefna. Ekki verður það samt tíundað hér en minnst þeirra starfa sem áttu kannski hug hans öðru fremur og sem hann vann að af eldlegum áhuga alla tíð. Skógræktin var þetta heillandi viðfangsefni sem hann varð svo gagntekinn af.

Hann hefði þó getað fundið auðveldari stað en Siglufjörð til að stunda sitt ræktunarstarf. Það er hinsvegar ekki háttur hugsjónamanna og eldhuga að láta erfiðleikana smækka sig eða draga úr sér kjarkinn. Fyrstu tilraunir til skógræktar í Siglufirði gengu illa og margir töldu dæmið næsta vonlaust - þetta þýddi ekki neitt, væri bara sóun á tíma og kröftum. Ekki voru þó allir sáttir við slíkt og allra síst Jóhann Þorvaldsson.

Hann tók við stjórn Skógræktarfélags Siglufjarðar 1948 og tveimur árum síðar fékkst nýtt land til skógræktar í Skarðdalslandi. Þar var hafist handa af miklum dugnaði og ekki fengist um það þótt margir yrðu til að hrista höfuðið. Menn höfðu líka flestir um nokkuð annað að hugsa í þá daga þegar ,,Síldarævintýrið" var í algleymingi. I þetta sinn gekk hinsvegar „skógræktarævintýrið" upp.

Það kostaði mikla vinnu og fyrirhöfn - trén uxu hægt og þau urðu fyrir áföllum vegna fannfergis og harðrar veðráttu. Jafnt og þétt uxu þessi tré - það tók bara sinn tíma - þetta var semsagt hægt og það var einmitt það sem skipti öllu máli. Jóhann lifði það að sjá þetta „fósturbarn" vaxa og dafna við harðan kost til þess sem það er í dag - fallegt og skemmtilegt útivistarsvæði þar sem hæstu tré ná nú 10-11 m hæð.

Lagðir hafa verið göngustígar um nokkurn hluta svæðisins þannig að auðvelt er að komast um það enda fjölgar þeim stöðugt sem heimsækja skógræktina í Skarðdal. Hún er sannarlega lifandi minnismerki um einstaka elju og þrautseigju við óblíðar aðstæður. Hann gat glaðst yfir þeim árangri sem náðist - hann var stoltur af þessu verki enda full ástæða til. Meðal skógræktarmanna var hann þekktur og virtur fyrir störf sín og framgöngu.

Að verðleikum hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir sín margvíslegu störf og þar á meðal skógrækt. Hann varð heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Íslands fyrir allnokkrum árum og sömuleiðis að sjálfsögðu í sínu félagi, Skógræktarfélagi Siglufjarðar. Nú að leiðarlokum viljum við félagar hans og samherjar þakka honum fyrir ómetanlegt starf hans í þágu skógræktar í Siglufirði og sér í lagi fyrir seigluna sem þurfti til að standast erfiðleikana Guð blessi minningu Jóhanns Þorvaldssonar.

F.h. Skógræktarfélags Siglufjarðar, Anton V. Jóhannsson.
-------------------------------------------- 

Í dag er til moldar borinn í Siglufirði heiðursöldungurinn Jóhann Þorvaldsson, fyrrverandi skólastjóri. Langri og merkilegri vegferð er lokið. Jóhann var fæddur í Tungufelli í Svarfaðardal 16. maí 1909. Hann útskrifaðist kennari 1932, kenndi síðan í Súgandafirði og í Olafsvík en kom til Siglufjarðar sem kennari 1938 og átti þar heima síðan. Jóhann var góðum gáfum gæddur, mælskumaður ágætur og skörulegur í framgöngu.

Það sem einkenndi hann þó framar öðru var einstök þrá til að bæta heiminn, leggja góðum málum lið og berjast fyrir þeim hugsjónum er hann taldi réttar. Fórnfýsi Jóhanns og ósérplægni var einstök og sér þess hvarvetna merki þar sem hann kom að málum. Jóhann var kennari við Barnaskóla Siglufjarðar og síðan skólastjóri 1973-1979.

Hann var einni skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar 1945-1973. Síldin hvarf frá Siglufirði um 1960 og þá fóru erfiðir tímar í hönd í bæjarfélaginu og mikill fólksflótti. Loks kom svo að ákveðið var að leggja Iðnskólann niður. Það líkaði Jóhanni ekki vel og síðustu veturna hélt Jóhann Iðnskólanum á Siglufirði úti af eigin rammleik. Hann stýrði skólanum og kenndi án þess að fá eða eiga nokkra von í launum fyrir stjórn eða kennslu önnur en þau að verða æsku Siglufjarðar að liði og koma henni til þroska.

Sama fórnfýsi einkenndi 611 félagsstörf Jóhanns. Hann var bindindisfrömuður og var forstöðumaður Gesta og sjómannaheimilis stúkunnar Framsóknar á Siglufirði 1941-1960. Þá gaf hann út og ritstýrði blaði templara „Reginn" um árabil. Jóhann starfaði mikið að málefnum templara og var heiðursfélagi Stórstúku Íslands. Þá var hann æðstitemplar stúkunnar Framsóknar nr. 187 og gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrósar nr. 68. Jóhann hafði brennandi áhuga á skógrækt.

Ekki þótti líklegt að skógur þrifist í Siglufirði. Jóhann gafst ekki upp og ásamt með unglingum Siglufjarðar kom hann upp undra fallegu skógarsvæði neðst í Skarðsdal. Þar prýða barrtré og bera elju og þrótti Jóhanns vitni um ókomin ár. Jóhann var sæmdur fálkaorðu fyrir störf að kennslu og skógrækt og var heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands. Þá er að geta starfa Jóhanns að stjórnmálum en á þeim vettvangi kynntist ég honum best. Jóhann var framsóknarmaður af brennandi hugsjón.

Hann bar fram hugsjónir flokksins af ógleymanlegri mælsku og þrótti og vísaði flokksbræðrum sínum á rétta slóð ef honum þótti sveigt af leið. Hann var ágætlega ritfær og stýrði Einherja, blaði framsóknarmanna í Siglufirði, allmörg ár. Sparaði hann hvorki tíma sinn né atorku við að halda blaðinu úti og gera það sem best úr garði. Kona Jóhanns var Friðþóra Stefánsdóttir, myndar- og mannkostakona, systir kempunnar Skafta skipstjóra á Nöf. Lifir Friðþóra mann sinn og dvelur á Sjúkrahúsinu á Siglufirði.

Börn þeirra eru fimm. Sigríður sjúkraliði í Reykjavík, Þorvaldur framkvæmdastjóri SSA Seyðisfirði, Stefanía leikskólakennari í Reykjavík, Indriði bankamaður í Reykjavík og Freysteinn fréttastjóri á Morgunblaðinu. Ég kveð Jóhann Þorvaldsson með miklu þakklæti fyrir margra áratuga trygga vináttu og óbrigðula leiðsögn. Fyrir hönd framsóknarmanna þakka ég honum mjög mikil og fórnfús forystustörf, það var 811- um lærdómsríkt að kynnast honum. Jóhann þráði að bæta heiminn og ég held að heimurinn hafi batnað fyrir tilverknað hans. Jóhann var stórheiðarlegur maður og til mikillar fyrirmyndar. Blessuð sé minning hans. Páll Pétursson.

Það er erfitt að vera langt að heiman á stundu þegar ástvinur fellur frá. En þó sorgin sé mikil er margs að minnast og þakka.. Eins og 90 ára afmælisdagsins hans afa, sem var svo skemmtilegur og svo dýrmætt að eiga hann í minningunni. Þótt sjúkur væri, ljómaði afi af gleði og stolti. Hafði náð sínu takmarki sem var að gefa út ljóðabókina sína, lifa 90 ára afmælisdaginn, og gat stoltur horft til baka yfir ævistarf sitt.

Einhvern veginn finnst mér afi alltaf hafa náð þeim markmiðum sem hann ætlaði sér. þó þau væru ekki alltaf hefðbundin og þessu náði hann líka. Það er ljúft að hugsa til baka, þegar lítil stelpa sat í kjöltu afa og hlustaði á „baula þú nú búkolla mín" og fleiri sögur ,því engin sagði eins vel sögur og afi. Eða þegar við sátum saman uppi, við skrifborðið og afi leiðbeindi mér með vinnubækurnar mínar veturinn sem ég var hjá afa og ömmu á Sigló.

Eins alla sunnudagana þegar við fórum saman niður í stúku og svo sumrin þegar arkað var við hlið afa inn í skógrækt að hlúa að plöntunum sem honum þótti svo undur vænt um. Að virða og lifa í sátt við náttúruna, að „rækta" hvort sem það er skógurinn, eða trúin, og það að vera samkvæmur sjálfum sér eru meðal annars það dýrmæta veganesti sem afi skilur eftir, til okkar hinna. Hafðu þökk fyrir allt og allt, elsku afi.

Friðþóra Ester Þorvaldsdóttir og fjölskylda, Danmörku.
-------------------------------------
Jóhann Þorvaldsson var alla sína löngu starfsævi í forystusveit skógræktarfólks í sínu heimahéraði í Siglufirði og lét víða til sín taka í þeim málum. Hann var í hópi brautryðjenda á þeim tíma þegar íslensk skógrækt átti sér fáa formælendur og lét aldrei af óbilandi trú sinni á það afl sem í íslenskri gróðurmold er fólgið. Hans hugsjón var að hægt væri að breyta blásnum melum í fagra gróðurreiti - og það væri líka hægt í skóglausum og jafnvel gróðurvana sveitum þessa lands.

Hann var kennari af guðs náð - hvort sem hann talaði til ungra eða þeirra sem eldri voru - ræktun í víðasta skilningi var honum eðlislæg - líka þegar hún tengdist hinum huglægu þáttum. I huga okkar skógrætkarmanna er Jóhann Þorvaldsson hetja í baráttunni um að klæða landið þeim gróðri sem það á skilið - við minnumst hans frá samstarfinu innan skógræktarfélaganna þar sem hann lagði allt gott til - hvatti menn til dáða í ræðum og riti - og jafnvel í bundnu máli ef svo bar undir. Hann var eldhugi sem sannarlega var gott að eiga að.

Sá eldur var honum enn í huga þegar halla tók undan fæti á langri og farsælli ævi. Við skógræktarfólk minnumst hans frá samstarfinu um áratuga skeið - munum eftir honum með tindrandi augu í ræðustól - með einlægum og heitum vilja til að vinna landi sínu og þjóð allt að gagni. Nú við fráfall hans flyt ég fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands aðstandendum Jóhanns innilegar samúðarkveðjur. Hans mun lengi minnst á vettvangi íslenskrar skógræktar. Hulda Valtýsdóttir, fyrrv. formaður Skógræktarfélags Íslands.
--------------------------------------------------------

Einherji - 1999   MINNING

Jóhann Þorvaldsson, Siglufirði Jóhann Þorvaldsson fyrrverandi skólastjóri andaðist á Sjúkrahúsi Siglufjarðar laugardaginn 9. október, níræður að aldri. Mér er ákaflega ljúft að minnast Jóhanns Þorvaldssonar, fyrir hans margþættu störf fyrir Siglufjörð og þá sérstaklega fyrir Framsóknarflokkinn og Félag framsóknarmanna hér. Fyrir félagið sat hann í bæjarstjórn Siglufjarðar 1942 -1946 og var ritstjóri Einherja, blaði Framsóknarmanna í Norðurlandskjördæmi vestra frá 1960 - 1974.

Hann var ætíð tilbúinn að mæta sem fulltrúi félagsins á samkomur Framsóknarflokksins og vakti þar athygli með hnitnum ræðum og góðum tillögum. Hann var sérstaklega góður félagi naut trausts samborgaranna. Jóhann var einlægur samvinnumaður og starfaði í stjórn Kaupfélags Siglfirðinga frá 1945 til 1971 að Kaupfélagið hætti störfum. Á þessum árum hafði Kaupfélagið mikil umsvif, var með verslun, síldarsöltun ofl.

Að aðalstarfi var Jóhann kennari og skólastjóri en til þeirra starfa kom hann til Siglufjarðar árið 1938. Hans mun samt lengst verða minnst fyrir það uppbyggingastarf sem hann vann með börnum í stúkunni Eyrarós og skógræktinni sem nú prýðir Skarðsdal í Siglufirði. Hann var stofnandi Skógræktarfélags Siglufjarðar og lengst af formaður, hann sá um gróðursetningu plantna og umhirðu með unglingum bæjarins, hann ræktaði þannig land og lýð, trúr þeirri hugsjón sem hann talaði oft fyrir mannrækt og landrækt.

Ég minnist hans þegar verið var að taka ákvörðun um byggingu Dvalarheimilis aldraðra á Siglufirði, við vorum að velta fyrir okkur hvort ekki yrði færst of mikið í fang. Þá taldi Jóhann í okkur kjarkinn og sagði að þarna værum við á réttri leið, bygging þessa heimilis yrði bænum mikil blessun og gæfa við mættum ekki gefa eftir í þessu máli.

Þetta gekk eftir, húsið var byggt og átti Jóhann þess kost að dvelja þar með konu sinni Friðþóru Stefánsdóttur. í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningar sendi hann okkur kveðjur í bundnu máli sem sýndu hans einlæga baráttuvilja til þess að hafa Framsóknarflokkinn í forustu í íslenskum þjóðmálum inn í nýja öld. Við kveðjum Jóhann og þökkum fyrir hans miklu og fórnfúsu störf, sem vissulega voru metin að verðleikum.

En hann var sæmdur Fálkaorðunni árið 1983, einnig var hann heiðursfélagi Skógræktarfélags Íslands svo og Stórstúku Íslands. Ég vil fyrir hönd Framsóknarfélags Siglufjarðar votta eftirlifandi eiginkonu Jóhanns svo og börnum og öðrum aðstandendum, okkar dýpstu samúð.

Sverrir Sveinsson
----------------------------------------------

Morgunblaðið - 12. október 1999

JÓHANN Þorvaldsson fyrrverandi skólastjóri í Siglufirði er látinn á nítugasta og fyrsta aldursári. Jóhann fæddist 16. maí 1909 á Tungufelli í Svarfaðardal. Hann lauk kennaraprófi árið 1932 og var kennari í einn vetur í Olafsvík og á Suðureyri við Súgandafjörð næstu fimm.

Jóhann var kennari við barnaskóla Siglufjarðar frá árinu 1938 til ársins 1973 og skólastjóri frá 1973-1979. Hann var skólastjóri Iðnskóla Siglufjarðar frá 1945-1973. Jóhann var forstöðumaður Gesta og sjómannaheimilis Siglufjarðar, sem stúkan Framsókn rak á árunum 1941-1960. Hann var ritstjóri Regins, blaðs templara, um árabil.

Jóhann starfaði mikið í góðtemplarareglunni og var heiðursfélagi Stórstúku Íslands. Hann var gæslumaður barnastúkunnar Eyrarrós nr. 68 og æðstitemplar stúkunnar Framsókn, nr. 187. Jóhann starfaði lengi að skógrækt í Siglufirði og var formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar til ársins 1987. Jóhann var heiðursfélagi í Skógræktarfélagi Íslands og hann var sæmdur Fálkaorðunni fyrir störf að kennslu og skógrækt.

Jóhann tók einnig þátt í öðrum félagsmálum og stjórnmálum í Siglufirði og var m.a. ritstjóri Einherja, blaðs framsóknarmanna í Siglufirði, í fjórtán ár. Eftirlifandi kona Jóhanns er Friðþóra Stefánsdóttir. Börn þeirra eru fimm.