Anna Guðrún Þórhallsdóttir

mbl.is 4. ágúst 2004 | Minningargreinar

Anna Guðrún Þórhallsdóttir fæddist í Hofsgerði í Hofshreppi í Skagafirði 25. nóvember 1923. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 22. júlí síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Björn Þórhallur Ástvaldsson, f. 6.11. 1893, d 30.9. 1962 og Helga Friðbjarnardóttir, f. 7.12. 1892, d. 20.4. 1986.

Systkin Önnu eru

 • Elísabet, f. 15.1. 1917, d. 26.2. 2003,
 • Ósk, f. 20.5, d. 17.5. 2004,
 • Friðbjörn, f. 23.7. 1919, d. 8.1. 2003,
 • Guðbjörg, f. 17.10. 1920,
 • Ásdís, f. 12.8. 1922, d. 5.12. 2001,
 • Kristjana, f. 14.1. 1925,
 • Þorvaldur, f. 1.9. 1926,
 • Halldór Bjarni, f. 5.11. 1927, Guðveig, f. 23.5. 1929, og Birna, f. 13.5. 1938.

Anna Guðrún giftist 8.11. 1955 Sveinn Jóhannesson, f. 1.7. 1916, d. 22.6. 1981 frá Glæsibæ í Staðarhreppi í Skagafirði.

Foreldrar Sveins voru hjónin Sæunn Steinsdóttir og Jóhannes Jóhannesson.
Börn Önnu og Sveins eru:

Anna Þórhallsdóttir - Ljósmynd: Hulda G Kristinsdótytir

Anna Þórhallsdóttir - Ljósmynd: Hulda G Kristinsdótytir

 • 1) Jóhannes Sveinsson, f. 16. júlí 1943, var kvæntur Sigrúnu Ingimarsdóttur, dóttir þeirra er Sæunn. Áður átti Sigrún Heiðar Feyki. Sonur Jóhannesar og Guðjónu Jóhannsdóttur er Róbert.
 • 2) Þórhallur Sveinsson, f. 13.6. 1944, kvæntur Eygló Svönu Stefánsdóttur. Þau eiga fjögur börn, þau eru a) Þröstur, í sambúð með Ásdísi Ársælsdóttur, sonur þeirra er Þórhallur Axel. Þröstur var í sambúð með Sigríði Ásu Sigurðardóttur, dóttir þeirra er Anna Margrét. b) Sveinn Þór, í sambúð með Guðrúnu Gunnarsdóttur. Börn hennar eru: Gunnar Andri, Auður Ösp og Inga Dóra c) Anna Steinunn, í sambúð með Hallgrími Þór Harðarsyni, dóttir þeirra er Helga Sóley. d) Hrund, í sambúð með Einari Þ. Rúnarssyni.
 • 3) Arnar Sveinsson, börn hans og Ólafar Jónasdóttur eru Sveinn Gauti og Hanna Rún.
 • 4) Edda Guðbjörg Sveinsdóttir, gift Guðmundi Guðmundssyni.

Útför Önnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Í dag kveð ég kæra tengdamóður mína.

Anna ólst upp á fyrstu æviárum sínum í glaðværum systkinahópi. Frá fimmta ári og fram á sautjánda aldursár var Anna alin upp hjá skyldmennum fjölskyldunnar á Krossi í Óslandshlíð. Þaðan lá leið Önnu til Siglufjarðar á sautjánda aldursári þar sem hún réð sig sem vinnukonu á heimili. Síðan réðst hún til starfa á sjúkrahúsinu á Siglufirði við eldhússtörf þar sem réð ríkjum af miklum myndarskap fröken Hall.

Anna talaði oft um það í sínum búskap hvað sú reynsla hefði haft áhrif á sig. Eftir það hóf hún búskap með Sveini á efri hæð í sama húsi og tengdaforeldrar hennar. Tveimur árum síðar lést tengdafaðir hennar en tengdamóðir hennar bjó þá áfram á neðri hæðinni og nutu börn Önnu samveru við Sæunni ömmu sína. Anna og Sveinn bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði. Sveinn lést árið 1981. Anna bjó á Siglufirði í fjögur ár eftir það en fluttist síðan búferlum í nánd við sína nánustu afkomendur.

Á búskaparárum Önnu og Sveins var síldin í algleymingi og þótti mjög gott að fá húsmæður á síldarplönin ef tími gafst frá heimili og barnauppeldi. Þá var til siðs að börn væru send í sveit á sumrin.

Á þessum tíma var ekki hlaupið í búðir heldur þurfti að beita mikilli útsjónarsemi og nýtni meðal annars hvað snerti matargerð og fatnað.

Mikill heimsborgarabragur var á Siglufirði á síldarárunum og mikill fjöldi fólks kom þarna að störfum frá öllum landshlutum og svo frá öðrum nágrannalöndum. Allir voru komnir til vinnu um leið og kraftar og geta leyfðu, meðal annars voru settir undir yngri börnin kassar svo þau gætu aðstoðað mæður sínar við síldarsöltun. Eftir að síldarvinnslunni lauk á sjöunda áratugnum og börnin voru öll flutt suður tóku við hefðbundin verkakonustörf við fisk- og rækjuvinnslu og við þetta starfaði Anna þar til hún fluttist til Reykjavíkur árið 1985.

Lífið var oft erfitt og þurfti að halda vel á sínu. Anna sinnti heimili sínu og fjölskyldu vel og var hin dæmigerða húsmóðir á þessum árum, hvunndagshetja sem alltaf bar sig vel og var sífellt veitandi. Mikill myndarskapur var ávallt þegar gesti bar að garði í húsi Önnu og Sveins á Hvanneyrarbraut 28. Alltaf var pláss á heimili Önnu á síldarárunum fyrir ættingja frá öðrum landshlutum sem komu til starfa tímabundið í síldina þrátt fyrir að húsakostur væri lítill. Anna tók þátt í starfi Slysavarnafélagsins á Siglufirði og var hún einnig mikill stuðningsmaður framgangs skíðaíþróttarinnar.

Anna flutti til Reykjavíkur fjórum árum eftir andlát Sveins. Hún hóf fljótlega störf hjá Sláturfélagi Suðurlands og starfaði þar óslitið þar til að félagið flutti starfsemina á Hvolsvöll. Fyrst eftir að Anna kom til Reykjavíkur bjó hún hjá syni sínum og tengdadóttur en í framhaldi af því leigði hún íbúð á Vífilsgötu 17. Anna flutti í nýja íbúð fyrir eldri borgara í Hæðargarði 33 í desember 1991. Barnabörn Önnu og aðrir ættingjar og vinir voru tíðir gestir á heimili hennar og alltaf var gestum fagnað og veitingar bornar á borð.

Anna var alla tíð mjög trúuð kona. Hún kunni mikið af sálmum og sönglögum.

Anna tók þátt í félagsstarfinu í Hæðargarði sem Reykjavíkurborg sér um og hafði meðal annars gaman af því að spila enda hafði hún verið ötul við að kenna barnabörnum sínum að spila. Mesta yndi Önnu var að syngja og tók hún þátt í starfsemi sönghópsins í Hæðargarðinum.

Í sambýlishúsinu í Hæðargarði ríkti frá upphafi mikil samkennd milli íbúa og hafa þeir tekið vel á móti öllum sem þangað hafa komið. Anna átti góða daga í sambýli með öllu þessu góða fólki og er íbúum og starfsfólki félagsmiðstöðvarinnar þakkaður hlýhugur og hjálpsemi í hennar garð.

Ég minnist tengdamóður minnar með virðingu.

Eygló Stefánsdóttir.
------------------------------------------

Elsku amma Anna.

Það er með miklum söknuði sem ég kveð þig í dag. Það er skrítið að hugsa til þess að geta ekki heimsótt þig í Hæðargarðinn aftur og rætt um allt sem um hugann flýgur. Allt frá því ég man eftir mér hefur þú verið til staðar og rætt við mig og alla sem þér þykir vænt um. Þú sýndir því sem við gerðum mikinn áhuga alla tíð, allt fram í lokin, þegar þú fórst á spítalann og ég gat ekki komið og heimsótt þig spurðir þú um mig.

Þannig varst þú alla tíð, hugsaðir alltaf svo vel til allra og fylgdist vel með því sem við vorum að gera hverju sinni. Ég á eftir að minnast með gleði allra stundanna sem við áttum saman þegar við systkinin heimsóttum þig á Siglufirði og eins hérna í Reykjavík. Þegar þú fluttir til Reykjavíkur nokkrum árum eftir andlát afa bjóst þú fyrst hjá okkur í Melgerðinu. Þá var sko glatt á hjalla.

Amma hafði gaman af því að spila á spil og kenndi okkur hin ýmsu skemmtilegu spil. Ekki má heldur gleyma því hversu snögg þú varst að taka til hendinni og baka kleinur, steikt brauð að ógleymdum pönnukökustaflanum. Þú varst alla tíð sjálfstæð og fyrirmynd okkar allra. Þú fylgdist vel með því sem var að gerast og hafðir ákveðnar skoðanir og lést þær í ljós. Síðustu misseri leyndist okkur fjölskyldunni ekki að líkamleg heilsa var farin að daprast en þú hélst þínu sjálfstæði líkt og þú hafðir áður gert. Þú lést ekki á neinu bera og ekki kvartaðir þú. Þú fagnaðir ávallt öllum sem komu til þín í Hæðargarðinn.

Það er með miklu þakklæti og söknuði sem ég kveð þig, elsku amma Anna.

 • Við burtför þína er sorgin sár
 • af söknuði hjörtun blæða.
 • En horft skal í gegnum tregatár
 • í tilbeiðslu á Drottin hæða.
 • og fela honum um ævi ár
 • undina dýpstu að græða.

(Guðrún Jóhannsdóttir.)

Minning þín er og verður ljós í lífi mínu alla tíð. 

Anna Steinunn Þórhallsdóttir.
------------------------------------------

Elsku amma mín.

Nú ert þú búin að hitta afa aftur eftir svo mörg ár. Ég gleðst yfir því þó svo að það sé ekki gott að þú sért ekki lengur hjá mér og passar upp á mig.

Mínar minningar um þig eru margar. Hvað það var alltaf gott að koma til ykkar á Hvanneyrarbrautina og fá að vera hjá ykkur. Ég hlakkaði alltaf til sumarsins, þá fór fjölskyldan norður og við Þröstur bróðir fengum að vera eftir hjá ykkur. Þá var mikið brallað. Við æfðum fótbolta með KS og ekki má gleyma útgerð okkar bræðra sem við ræktuðum stíft við bryggjuna ásamt Guðlaugi vini okkar. Aflinn hjá okkur var svo mikill að þú hjálpaðir okkur með því að koma okkur í samband við frystihúsið sem keypti allt af okkur. Að sjálfsögðu varst þú fjármálastjóri útgerðarinnar og hélst vel utan um það allt.

Þegar ég varð aðeins eldri fékk ég svo vinnu í Slippnum við að mála. Það sem stendur mér efst í huga eru kaffitímarnir. Það var nánast heilög stund þegar nestisboxið var opnað. Það var alveg eins og að koma í stóra veislu. Þvílíkar kræsingar sem þú hafðir búið til fyrir mig um nóttina, flatkökur, tertur, rúllupylsa og fleira góðgæti.

Loksins fluttir þú til okkar. Fyrst bjóstu hjá okkur í Melgerðinu. Svo vildir þú vera út af fyrir þig og fluttir á Vífilsgötuna. Einmitt í Norðurmýrina þar sem ég bý sjálfur í dag með minni fjölskyldu. Einn daginn kom að því að þú vildir aftur flytja þig um set. Það var þá fyrir tilstilli mömmu að þú fluttir í Hæðargarð í íbúð fyrir aldraða. Þangað var alltaf gott að koma. Þú eignaðist þar marga vini sem voru þér kærir allt til dauðadags. Án efa hafa þar leynst einhverjir góðir spilafélagar líka.

Í sumar fórum við Guðrún og stelpurnar hennar í langþráð frí til Svíþjóðar og eitt það fyrsta sem við gerðum þar var að skrifa kort til þín til að láta þig vita að við skemmtum okkur vel og einnig til að bera þér kveðju. Þetta sagðir þú mér að þér hefði þótt vænt um þegar ég heimsótti þig á spítalann til að kveðja þig.

Hvíldu í friði amma mín.

Ég elska þig. Sveinn Þór Þórhallsson.
----------------------------------------------------

Amma mín er dáin. Það er sárt og tómlegt að hugsa til þess að njóta ekki nærveru hennar lengur. Hún var svo glaðlynd, skemmtileg og góð. Hún tók manni alltaf opnum örmum og framkoma hennar einkenndist af umhyggju, ósérhlífni og hlýju. Amma hafði alla tíð dálæti af söng og tók virkan þátt í söngstarfi fram á síðasta dag.

Á mínum yngri árum var alltaf mikið tilhlökkunarefni að heimsækja ömmu á Siglufjörð. Hún sýndi okkur börnunum takmarkalausa þolinmæði við leik og störf og hafði unun af því að spila við okkur og segja okkur sögur. Amma var trúuð og lagði mikið uppúr því að fara með bænirnar með okkur fyrir svefninn.

Á Hvanneyrarbrautinni vöknuðum við á hverjum morgni við ilm af nýbökuðu brauði og kökum sem amma hafði bakað. Sömu sögu var að segja þegar hún bjó hjá okkur í Melgerðinu fyrst eftir að hún flutti frá Siglufirði. Það var eftir að afi dó. Hún vildi búa í nánd við sína nánustu þótt hún saknaði lífsins á Siglufirði. Það var ómetanlegt að hafa fengið hana til Reykjavíkur í nálægð við okkur. Minningin um yndislega ömmu mun alltaf ljóma skært í hjarta mínu. Guð varðveiti þig að eilífu, elsku amma mín.

 • Ég fel í forsjá þína,
 • Guð faðir, sálu mína,
 • því nú er komin nótt.
 • Um ljósið lát mig dreyma
 • og ljúfa engla geyma
 • öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson.)

Hrund Þórhallsdóttir.
--------------------------------------------

Elsku Anna Guðrún. Okkur mæðgur langar til að minnast þín með nokkrum orðum. Við þekktumst því miður ekki mjög lengi. Eftir stendur minning um yndislega konu sem vildi allt það besta gera fyrir þá sem í kringum hana voru.

Þegar við Sveinn vorum að kynnast þá dáðist ég oft af því hvað hann var alltaf í vel straujuðum skyrtum. Ég dró að sjálfsögðu þá ályktun að hann væri svona duglegur með straujárnið. Það var alls ekki þannig. Málið var að hann laumaðist með skyrturnar til þín og þú gerðir þær fínar fyrir hann á meðan hann hámaði í sig kræsingar og kaffi.

Það var alltaf alveg frábært að heimsækja þig í Hæðargarðinn. Þú tókst alltaf á móti okkur með rosaveislu og varst ekki ánægð fyrr en það þurfti næstum því hjólbörur til að koma okkur út. Þvílíkar kræsingar. Svokallað ömmuteppi er dýrgripur á heimili okkar. Ömmuteppið er teppi sem þú heklaðir fyrir Svenna úr ull. Þetta teppi er svo mjúkt og hlýtt og það er nánast slegist um að vera undir því á kvöldin fyrir framan sjónvarpið.

Það var alltaf skemmtilegt að fá þig í heimsókn. Blíðan, umhyggjan og góðvildin skein af þér og okkur leið alltaf svo vel þá. Gunnar Andri gleymir aldrei þegar þú knúsaðir hann í fermingu Auðar Aspar. Þér fannst að það mætti alls ekki skilja hann út undan þó svo að þið hefðuð aldrei hist áður. Okkur þótti öllum vænt um þig.

Elsku Anna Guðrún, hvíldu í friði.

Guðrún, Auður Ösp og Inga Dóra.