Egill Steingrímsson bakari - sjómaður

Mjölnir - 23. febrúar 1962

Egill Steingrímsson fæddist 31 . janúar 1926. Hann var því aðeins liðlega 36 ára er hann fórst með togaranum Elliða 10. febrúar 1962.

Þriggja ára gamall fluttist Egill hingað til Siglufjarðar til föður síns Steingríms Pálssonar og fósturmóður Önnu Hansdóttur. Anna Hansdóttir ól Egil upp og reyndist honum sem hin bezta móðir, átti Egill heimilisfesti hjá henni þar til er hún dó fyrir nokkrum árum.

Egill nam ungur bakaraiðn hjá Sigurður Guðjónsson bakarameistara og vann síðan sem bakari í nokkur ár. Eftir að hann hætti því, stundaði hann margs konar störf. en lengst af þó sjómennsku.

Egill var frábær verkamaður að hverju sem hann gekk, mátti heita að allt starf léki í höndum hans og gat hann sér hvarvetna gott orð fyrir dugnað og ósérhlífni. Var og gaman að vinna með Agli því hann var glaðlyndur, gæddur góðum frásagnarhæfileikum og oftast með einhver gamanyrði á vörum.

Egill Steingrímsson - Ljósmynd Kristfinnur

Egill Steingrímsson - Ljósmynd Kristfinnur

Egill var ókvæntur en lætur eftir sig tvo syni, sem alist hafa upp hjá móður sinni hér í Siglufirði. Margvíslegar stoðir renna undir örlög manna og hygg ég að fáir hafi talið sig hafa ástæðu til að öfund Egil af hlutskipti hans í lífinu, en ég hygg einnig að hann hafi heldur ekki borið öfundar eða óvildarhug til nokkurs manns. Egill er nú allur en eftir lifir minningin meðal félaga hans og vina um góðan dreng og dugmikinn starfsfélaga, æðrulítinn unz yfir lauk.
H. B.

----------------------------------------------------------

Einherji - 1962   Frétt:

Báðir skipverjarnir af Elliða, sem voru í gúmbátnum er slitnaði frá togaranum skömmu eftir að leki kom að skipinu, voru Iátnir, er báturinn fannst, 17—18 stundum síðar. Þeir sem fórust voru: EgiII Steingrímsson, háseti, fæddur 31. jan. 1926, því nýlega orðinn 36 ára, og Hólmar Frímannsson, háseti, fæddur 22. okt 1935, var 26 ára s.I. haust. Báðir voru þeir EgiII og Hólmar Siglfirðingar og báðir ókvæntir.

Egill lætur eftir sig tvo syni innan við fermingu. Hólmar Frímannsson bjó hjá öldruðum foreldrum sínum, Þeim Björgu Benediktsdóttur og Frímanni Guðnasyni. Báðir voru hinir látnu sjómenn dugnaðar og vaskleikadrengir, sem lagt höfðu gjörva hönd á margskonar vinnu bæði á sjó og landi. Eiga Siglfirðingar þar að baki að sjá dugmikilla samborgara og Siglufjörður því fátækari eftir, en mestur er þó harmur þeirra, er mest hafa misst:

Litlu bræðurnir tveir, er misstu föður sinn og aldurhnignu hjónin, er misstu einkason sinn og ellistoð. En huggun er það nokkur og harmabót, að þeir létu lífið við skyldustörf sín í þágu lands og þjóðar.

Útför þeirra Egils og Hólmars fór fram frá Siglufjarðarkirkju þriðjudaginn 20. febr. Fjölmenntu Siglfirðingar mjög við jarðarförina og vottuðu á þann hátt hinum látnu þakklæti sitt og virðingu.