Tengt Siglufirði
Einar Indriðason fyrrv. verkstjóri lézt á heimili sínu, Hlíðarveg 44, Siglufirði, hinn 13.apríl 1972 Útför hans fór fram frá Siglufjarðarkirkju 19. apríl.
Einar var fæddur að Víðimýrarseli í Skagafjarðarsýslu 22. september
1898.
Foreldrar hans voru hjónin Indriði Jóhannsson og Oddný Björg Jóhannsdóttir.
Þau hjón fluttust til Siglufjarðar um aldamótin með börn sín tvö, Einar Indriðason og María Sigríður Indriðadóttir, sem síðar giftist Páli Ásgrímssyni, en lézt frá ungum börnum þeirra.
Á Siglufirði eignuðust þau Indriði og Oddný þrjú börn, en ekkert þeirra komst til fullorðinsára.
Árið 1931 kvæntist Einar Indriðason
eftirlifandi konu sinni, Lovísa Helgadóttir.
Börn þeirra eru
Indriði faðir Einars mun hafa stundað hér almenna vinnu sem til féllst, og fyrir Einari lá það beint að gerast verkamaður og sjómaður, því á æskuárum hans máttu aðrar leiðir heita lokaðar börnum fátæks fólks, hvað sem hæfileikum leið. Þessi fyrirfram markaða lífsbraut hinna fátæku hefur vafalaust vakið margan greindan ungling til umhugsunar um orsakirnar fyrir mismunandi aðstöðu einstaklinganna í þjóðfélaginu.
Svo mun hafa verið um Einar Indriðason, sem var greindur maður, raunsær, rökhugull og með trausta ályktunarhæfni. Það hefur því komið af sjálfu sér að hann yrði sósíalisti. Hann gerði sér mjög glögga grein fyrir stéttaskiptingunni í þjóðfélaginu og stöðu sinni inr.an þess.
Sósíalismi hans var ekki bundinn tilfinningalegum forsendum; frekar mætti líkja honum við afstöðu manns, sem er búinn að reikna dæmi til fulls og er viss um að niðurstöður sínar séu réttar. Pólitísk afstaða Einars var því óháð geðþótta og persónubundnum viðhorfum.
Einar stundaði fram yfir fertugt sjómennsku og verkamannavinnu, en gerðist síðan verkstjóri hjá síldarsöltunarstöðinni Pólstjarnan h.f. og síðar hjá Síldarútvegsnefnd. Hann var góður starfsmaður, verkhygginn, röskur og samvizkusamur. Hann var því jafnan eftirsóttur til vinnu. Hann hafði því yfirleitt sæmilegar tekjur, eftir því sem gerðist um verkamenn. Þar við bættist, að þau Lovísa voru bæði forsjál og ráðdeildarsöm í meðferð fjármuna, enda komust þau alltaf vel af.
Einar Indriðason kom til Siglufjarðar barn að aldri, óx hér upp, vann hér
lífsstarf sitt allt og hefur nú fengið legstað í siglfirzkri mold. Stéttarsystkin hans hafa misst góðan félaga, bærinn góðan þegn. En við því er ekkert að segja;
allir verða að gjalda hina síðustu skuld. Einar Indriðason var skilvís maður, og það er trú mín, að einnig síðasta uppgjörinu hafi hann gengið frá á þann
hátt, að reikningar hafi verið hreinir. Konu Einars, börnum þeirra og barnabörnum votta ég innilegustu samúð.
Benedikt Sigurðsson