Einar Magnússon verksmiðjustjóri

Morgunblaðið - (26.11.1975) -Minning: 

Einar Magnússon verksmiðjustjóri f. 2. september 1915 d. 19. nóvember 1975.

EINAR Magnússon, verksmiðjustjóri Síldarverksmiðja ríkisins á Seyðisfirði, andaðist á Landspítalanum í Reykjavík hinn 1975 eftir erfiða sjúkdómslegu.

Með Einari er genginn stórbrotinn og litríkur persónuleiki, sem seint mun gleymast þeim, er honum kynntust. Einar var rúmlega sextugur er hann lést, fæddur í Reykjavík 2. sept. 1915, sonur Magnúsar Halldórssonar verkamanns og konu hans, Ragnhildar Lýðsdóttur.

Hér ólst hann upp og gekk í skóla. Hann lauk prófi í vélsmíði 1937 frá Vélsmiðjunni Hamri. Síðar gekk hann í Vélskóla Íslands og lauk þaðan prófi með ágætiseinkunn árið 1954. Af afloknu iðnprófi vann Einar lengst af hjá Vélsmiðjunni Héðni sem vélsmiður og verkstjóri við uppsetningu frystivéla víðsvegar um land.

Einar Magnússon - ókunnur ljósmyndari

Einar Magnússon - ókunnur ljósmyndari

Einnig vann hann við uppbyggingu síldarverksmiðjunnar Rauðku og verksmiðjunnar S.R. 46 í Siglufirði, svo og verksmiðjanna i Ingólfsfirði, Vopnafirði og viðar.

Árið 1957 fór Einar til Seyðisfjarðar á vegum Vélsmiðjunnar Héðins til að sjá um breytingar á verksmiðju Síldarbræðslunnar h/f. Árið eftir fluttist hann til Seyðisfjarðar og gerðist verksmiðju- og framkvæmdastjóri Síldarbræðslunnar h/f.

Árið 1962 keyptu Síldarverksmiðjur ríkisins Síldarbræðslun h/f og hófust handa um byggingu nýrrar verksmiðju á Seyðisfirði. Var Einar ráðinn verksmiðjustjóri þeirrar verksmiðju og gegndi því starfi til dauðadags. Mikið starf var við uppbyggingu hinnar nýju verksmiðju, og má heita, að stöðugt hafi verið unnið að uppbyggingu hennar til ársins 1967.

Þær framkvæmdir hvíldu mjög á Einari og má með sanni segja, að hann hafi lagt nótt við dag til að koma þeim áfram, en jafnframt var unnið að síldarbræðslu hvert sumar á þessum árum.

Árið 1966 voru unnin f verksmiðjunni yfir 100.000 tonn síldar og mun það vera algjört met í einni verksmiðju hérlendis. Þrautseigja Einars og kunnátta í meðferð véla og tækja auk glöggskyggni á vinnslu og meðferð hráefnis gerði það að verkum, að verksmiðjan skilaði eftir atvikum góðri vöru, þrátt fyrir mengað hráefni.

Eftir að loðna var tekin til vinnslu 1973 komu hæfileikar Einars einna gleggst í ljós, er þurfti að gangsetja verksmiðjuna með litlum fyrirvara, en þá hafði verksmiðjan ekki verið hreyfð til vinnzlu frá 1967 nema við vinnslu beina og fiskúrgangs.

Vegna fjárhagsörðugleika Síldarverksmiðja ríkisins á árun um 1967—1973 eftir að síldveiðar brugðust með öllu fyrir austan, var viðhald verksmiðjunnar í lágmarki, er hún var sett í gang f ársbyrjun 1973 til móttöku loðnu.

Þrátt fyrir vetrarhörku, margskonar bilanir og óvant starfslið, tókst Einari að láta verksmiðjuna skila góðri afkomu með hárri nýtingu loðnunnar og góðum afurðum. Einar var einn þeirra manna, sem því miður eru orðnir of fáir í okkar góða landi, sem krafðist ætíð meira af sjálfum sér en öðrum.

Þess vegna var hann stundum misskilinn af samstarfsmönnum sínum og undirmönnum og gat ekki þolað menn i vinnu, sem eingöngu hugsuðu um kaup og peninga, en ekki um þau störf, sem þeim var trúað fyrir.

Einar Magnússon var mikill að vallarsýn, herðabreiður, aðsópsmikill, og hraustmenni. Með óbilandi kjarki, verkhyggni og útsjónarsemi lyfti hann mörgu grettistaki á starfsævi sinni, enda orðinn þjóðsagnapersóna. Þrátt fyrir miklar annir gaf Einar sér tíma til lestrar góðra bóka og var vel að sér í islenzkum fræðum að fornu og nýju, enda stálminnugur. Við fráfall Einars Magnússonar hafa Síldarverksmiðjur ríkisins misst góðan og tryggan starfsmann og verður það skarð vandfyllt, er orðið hefur við fráfall hans.

— 000 —

Einar Magnússon var tvíkvæntur. Hann kvæntist Ingibjörgu Steinsdóttur leikkonu árið 1941 og áttu þau saman eina dóttur,

  • Ragnhildur Einarsdóttir, skólastjóra, sem gift er Valdemar Hjartarsyni, bústjóra við Mjólkárvirkjun.

Þau Einar og Ingibjörg skildu.

Síðari kona Einars 1951 er Jarþrúður Karlsdóttir og áttu þau saman fjögur mannvænleg börn: Magnús f. 1952, nemandi í Tónlistaskólanum,
Rannveig, f. 1954, nemandi í Menntaskólanum við Tjörnina,
Kristín, f. 1958 og
Hallfríður, f. 1963 og eru þau öll enn í foreldrahúsum.
Kjörsonur Einars, sonur Jarþrúðar, er
Karl Már, f. 1944, sjómaður f Reykjavík, kvæntur Svanhvíti Þorsteinsdóttur.

Eftirlifandi eiginkonu Einars og börnum votta ég mína innilegustu samúð.

Jón Reynir Magnússon.
------------------------------

Minning, hvað er nú það? Jú, hún er eitt af því nauðsynlegasta sem til er, minningin er svo stór hluti af kærleikanum að það verður ekki að skilið. Það er einmitt minningin sem er ákvörðun þess að vinar og skólabróður er minnst. Það var bjart yfir skólafélögunum úr Vélskóla Íslands veturinn 1951—54 og margar ánægjulegar hugsanir sem koma upp í hugann.

Einn af þessum félögum var Einar Magnússon og var hann jafnframt sá athyglisverðasti, þar kom margt til, hann var nokkuð eldri en við hinir og því reyndastur, svo var hann rammur að afli og mikill á velli. Við fyrstu sýn virtist hann nokkuð hrjúfur, en það breyttist við nánari kynni, þá kom f ljós það sem innra blundaði, ljúfur maður en ákaflega skapstór.

Það var gaman að skemmta sér með honum, hann var oft glaður á góðri stund, komið gat það fyrir að hann yrði of staupastór en það er ekki óalgengt um skapríka menn. Mjög ungur að árum beindist hugur Einars að tækni og því sem við kom vélum. Hóf hann því nám í Vélsmiðjunni Hamri h.f. og lauk því 1937, en áfram var hann að mennta sig með því að lesa sér til um tækni og vísindi, það dugði honum þó ekki, árið 1951 hóf hann nám við Vélskóla Íslands og lauk þaðan prófi 1954 með mjög hárri einkunn, var hann þá 39 ára gamall.

Einar Magnússon var fæddur í Reykjavík 2. september 1915, sonur hjónanna Magnúsar Halldórssonar verkamanns er ættaður var úr Austur-Skaftafellssýslu og konu hans Ragnhildar Lýðsdóttur ættaðrar úr Biskupstungum.

Eina systur átti Einar sem Kristín heitir. Einar var tvíkvæntur, með fyrri konu sinni átti hann eina dóttur, Ragnhildi. Árið 1951 kvæntist hann í annað sinn og þá Jarðþrúði Karlsdóttur fæddri f Reykjavík, dóttur Karls Karlssonar sem lengi var vatnsmaður við Reykjavíkurhöfn og konu hans Guðrúnar Ólafsdóttur.

Milli Jarðþrúðar og Einars ríkti mikil virðing og traust. Þau eignuðust fjögur börn:

  • Magnús Ragnar f. 1952,
  • Rannveig f. 1954, Kristín f. 1958 og
  • Hallfríður f. 1963.,
  • Karl Má, átti Jarðþrúður áður og gekk Einar honum í föðurstað.

Eins og að framan segir lauk Einar járniðnaðarnámi frá Vélsmiðjunni Hamri h.f. en lengst af hafði hann unnið í Vélsmiðjunni Héðni h.f. Að vélstjóranámi loknu hóf hann aftur störf hjá Vélsmiðjunni Héðni h.f.

þar var honum trúað fyrir mikilli ábyrgð, hann var sendur um gjörvallt landið með mikil mannaforráð til að leysa hin erfiðustu verkefni á sviði tækni bæði í frystiiðnaði og við uppbyggingu síldarverksmiðja, en einmitt á því tímabili sem hann var harðsnúnastur til afreka á verklega sviðinu ásamt sinni tæknikunnáttu, byggðist upp mikill hluti þess verksmiðjukerfis sem nú er í kringum landið, það þurfti því marga dáð að drýgja á því sviði bæði hvað snerti vinnuafrek og hugvit, svo árangur næðist.

Það var oft gaman að hlusta á frásagnir frá þessum árum, þær voru stórkostlegar og væri það efni í margar Íslendingasögur. Það hlaut að koma að því að Einari yrði falinn enn ábyrgðameiri störf, 1958 var hann ráðinn verksmiðjustjóri til Síldarverksmiðja ríkisins á Seyðisfirði. Alltaf var hann að hugsa um hvernig hann gæti náð sem mestri nýtni út úr því hráefni sem okkar dugmiklu sjómenn komu með að landi og hann skildi vel hvað það þýddi fyrir þjóð sína að ná sem flestum proteineiningum, einfaldlega betri lífskjör.  

Einar hafði ekki mikinn tíma aflögu frá sínum daglegu störfum, þó var hann farinn að gefa sér tíma hin seinni ár til félagsstarfa, hann var í Lionsklúbbi Seyðisfjarðar, einnig starfaði hann að velferð bæjarfélagsins og sat þar i bæjarstjórn. Það er margs að minnast, Einar hafði gaman af bókum og tónlist, var búinn að ganga i gegnum mikinn háskóla. Við skólabræður hans þökkum honum samfylgdina og vottum eiginkonu hans, börnum og öðru venslafólki dýpstu samúð. Far í friði.

Kristmundur Sörlason.
----------------------------------------------------------------

Þjóðviljinn - 26. nóvember 1975

Einar Magnússon verksmiðjustjóri á Seyðisfirði I þakklætisskyni fyrir kynni

Við áttum heima i rúmt ár á loftinu í Elverhöj. Þar var gott að vera. Húsbændur voru Einar Magg og Þrúða og bjuggu á neðri hæðinni. Þar var rausnarheimili og tíðkaðist íslensk gestrisni eins og hún best gerist. Einar var fimmtugur I þann mund og hrókur alls fagnaðar. Hann var maður málhagur og talaði tæpitungulaust. Var unun að heyra hann segja frá, en þeim sem honum sinnaðist við þótti vist stundum nóg um orðaforðann.

Einar var forkur til vinnu, auk þess listelskur og fróður vel. Hann var vinfastur og vinmargur, en ekkert meðalmenni og allra vinur. Skömmu fyrir höfuðdaginn i sumar leið komum við enn til Seyðisfjarðar og litum inn hjá Einari og Þrúðu. Móttökur voru jafn innilegar og áður. Bóndinn átti viku i sextugt.

Hann var áður manna mestur á velli, en var nú tekinn og magur. Sagði hann nokkurra mánaða sjúkrasögu sina lágri röddu, en frásagnarsnillin var söm og áður. Okkur bauð i grun, að brátt myndi allur einn litríkasti maður, sem við höfum kynnst.

Nú þökkum við kynnin. Jarþrúður Karlsdóttir er nú höfuð fjölskyldunnar frá Elverhöj. Í höndum slíks öðlings er öllu óhætt. Megi þau öll njóta góðs gengis.

María og Haukur