Eiríkur Jóhannes Björgólfur Eiríksson prentari

Mbl.is  16. október 2002 | Minningargreinar 

Eiríkur Jóhannes Björgólfur Eiríksson var fæddur á Akureyri 27. ágúst 1924. Hann andaðist á heimili sínu í Reykjavík 8. okt. 2002.

Hann var sonur Herdísar Ingibjargar Jónasdóttur, f. 30. júní 1899, d. 14. feb. 1938, og Eiríks Jóns Jóhannessonar, f. 20. okt. 1867, d. 11. júní 1924.

Hálfbræður Eiríks sammæðra eru

Kristján Sæmundsson prentari, f. 4. des. 1909, d. 12. sept. 1994,Andrés Sæmundsson, f. 10. sept. 1913, d. 1929,Sigurjón Sæmundsson, prentsmiðjustjóri og fyrrv. bæjarstjóri á Siglufirði, f. 5. maí 1912, kona hans var Ragnheiður Jónsdóttir Sæmundsson frá Hallgilsstöðum, f. 2. jan 1914, d. 24. ágúst 1999.  Börn þeirra eru 
Eiríkur Eiríksson - Ljósmynd Kristfinnur

Eiríkur Eiríksson - Ljósmynd Kristfinnur

  • Stella Margrét, f. 3. des. 1935, maður hennar er Ingvar Jónasson og
  • Jón Sæmundur, f. 25. nóv. 1941, kona hans er Birgit Henriksen.

Eiríkur J.B. Eiríksson kvæntist 27. ágúst 1950 Guðrúnu Rósu Pálsdóttur, f. 31. mars 1927. Sonur þeirra er

  • Eiríkur Páll Eiríksson kennari, f. 27. des. 1950. Kona hans er Guðrún Jónasdóttir, f. 10. des. 1949, dóttir Jónasar Hallgrímssonar, f. 29. júní 1928, og Huldu Sigríðar Ólafsdóttur, f. 20. ágúst 1927. Börn Eiríks Páls og Guðrúnar eru Hrafnkell, f. 23. nóv. 1975, sambýliskona Sigríður Árnadóttir, f. 8. maí 1974, Herdís, f. 11. jan. 1980, og Brynjar, f. 25. des 1982. Guðrún Rósa er dóttir Páls Sigurðssonar, kennara og skólastjóra frá Merkigili í Eyjafirði, f. 20. júní 1899, d. 20. jan. 1986, og Vilborgar Sigurðardóttur, f. 15. júní 1901, d. 17. jan. 1996. Systur Guðrúnar Rósu eru Margrét Kristrún, f. 21. sept. 1928, maður hennar er Helgi Þórðarson bóndi á Ljósalandi í Vopnafirði, f. 24. okt. 1915, þau eiga þrjú börn og fimm barnabörn. Sigríður Guðný Pálsdóttir, f. 6. mars 1932, maður hennar er Svanur Karlsson, f. 2. ágúst 1922. Álfhildur Pálsdóttir, f. 26. ágúst 1945. Maður hennar er Bárður Gunnar Halldórsson, f. 17. ágúst 1946, þau eiga tvö börn og átta barnabörn.

Eiríkur lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri og síðar prófi í prentiðn á Siglufirði 1945. Starfaði sem prentari og prentsmiðjustjóri á Siglufirði til ársins 1966 en flutti til Akureyrar og starfaði við Prentverk Odds Björnssonar til ársins 1980 er hann gerðist starfsmaður Akureyrarbæjar og sinnti skráningarvinnu og vann jafnframt í hlutastarfi við Minjasafnið við myndasafn þess.

Hann var trúnaðarmaður prentara á Akureyri í nokkur ár og lét sig alla tíð málefni síns stéttarfélags og iðnaðarins varða meðan hann sinnti prentverki eða í 40 ár. Hann sat oft á Iðnþingi og sat í stjórn Iðnráðs Akureyrar sem fulltrúi prentara. Hann leit jafnan á sig sem prentara þótt hann hyrfi úr því starfi. Hann lét af öllum störfum 1992 vegna heilsubrests.

Eiríkur var árum saman blaðamaður við Heima er best og skrifaði um margvísleg málefni, þar á meðal langa ritgerð um Akureyri og Brekkuna (Lífsstríð liðins tíma). Hann á einnig bernskuminningar sínar í handriti frá leikjum barna á Akureyri um hans daga. Hann tók þátt í margvíslegu félagsstarfi meðan hugur hans stóð til þess, mest með Leikfélagi Siglufjarðar en eftir miðjan aldur átti hverskyns fræðagrúsk, saga og smíði hug hans allan. Hann skrifaði oft í blöð um skoðanir sínar.

Útför Eiríks verður gerð frá Digraneskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Fótmál dauðans fljótt er stigið fram að myrkum grafarreit. Mitt er hold til moldar hnigið máske fyrr en af ég veit.

Faðir minn var fæddur á Akureyri. Þar ólst hann upp með móður sinni, Herdísi Ingibjörgu Jónasdóttur og tveim eldri hálfbræðrum, Kristjáni og Sigurjóni Sæmundssonum. Hann mundi vel þriðja bróðurinn, Andrés, sem lést ungur 1929. Faðir föður míns var látinn áður en pabbi fæddist og því var móðirin honum allt. Hann leit alla tíð á sig sem Akureyring, Eyrarpúka.

Barnæskan á Oddeyrinni á Akureyri var honum kær minning, þar naut hann áhyggjuleysis bernskuleikjanna og eignaðist vini til lífstíðar og þegar sorg móðurmissis og einstæðingsskapar lagðist á hann af heljarafli 13 ára gamlan reyndi hann á sjálfum sér hve útréttar hendur vináttu og væntumþykju skyldra sem óskyldra eru óendalega mikils virði. Þess góða fólks minntist hann alla tíð með virðingu og þakklæti.

Sigurjón bróðir hans og kona hans Ragnheiður Jónsdóttir Sæmundsson tóku hann á sitt heimili og gengu í foreldra stað, á vináttu og væntumþykju þeirra þriggja bar ekki skugga og börn þeirra hjóna, Stella Sigurjóns og Jón Sæmundur, voru honum afar kær.

Móðurmissirinn mótaði lífsviðhorf hans alla ævi, hann naut innilega lífsins góðu stunda, var lífsglaður og sinnar gæfu smiður en vissa hverfulleikans blundaði í sál hans. Ljóð Steins Steinars höfðuðu sterkt til hans, einkum þau sem fjalla um hverfulleika og tómhyggju, ekki vegna fánýtis lífsins heldur dýrmætis augnabliksins og þess sem það býður þegar höndlað er.

Pabbi lærði prentverk í Siglufjarðarprentsmiðju hjá bróður sínum Sigurjóni. Það var skemmtilegt að koma í prentsmiðjuna, vinnustað pabba, og lærdómsríkt að fylgjast með bókum og blöðum verða til. Þar var oft glatt á hjalla og gott fólk sem þar vann, gamlir vinnufélagar voru pabba alltaf kærir og hann hafði gaman af því að rifja upp ævintýri sem gerðust á þeim vettvangi og sagði vel frá.

Á Siglufirði naut pabbi sín vel, hann tók mikinn þátt í hvers kyns félagsstarfsemi hvort sem var á menningar- eða stjórnmálasviði. Hann söng í karlakórnum Vísi um skeið og gengdi formennsku í Knattspyrnufélagi Siglufjarðar, tók þátt í starfi iðnaðarmanna í bænum bæði í iðnfræðsluráði og skemmtinefndum, samdi leikþætti og samfelldar skemmtidagskrár um lífið í bænum og flutti sjálfur á árshátíðum við mikinn hlátur viðstaddra.

Mest starfaði hann í Leikfélagi Siglufjarðar og lék í mörg ár og ýmis hlutverk, t.d. Fjalla-Eyvind og Lénharð fógeta svo eitthvað sé nefnt. Að setja upp leikrit með góðum leikstjóra var eitthvað sem greip huga hans allan um skeið, sérlega held ég að kynni hans af Gunnari Róbertssyni Hansen hafi verið honum lærdóms- og ánægjurík.

Húsið okkar á Siglufirði var gott hús, þar bjuggu þrjár fjölskyldur, Benedikt og Fríða með fimm börnum, Hlöðver og Katrín, sem bæði eru látin, og börn þeirra fjögur og foreldrar mínir. Þetta var ekki bara sambýli heldur sálufélag.

Kynslóð föður míns á Siglufirði flutti ekki burt úr bænum vegna einangrunar, einsemdar og löngunar í menninguna syðra eins og oft er haldið fram, síður en svo. Þessi kynslóð stóð fyrir innihaldsríku menningarlífi, ég minnist tíðra heimsókna leikfélaga úr nágrannabyggðum, oft sá maður mörg leikrit sum árin og er þá ótalin önnur menningarstarfsemi.

Pabbi tók líka þátt í stjórnmálum, var í Sósíalistafélaginu á Siglufirði og sinnti nefndarstörfum fyrir það félag. Hann hugsaði um stjórnmál alla ævi, gekk ekki með steinbarn í maganum, vissi að satt kynni að vera að danspresturinn í hruna hefði holað niður stórasannleik en hvikaði ekki frá þeirri sýn sem hann hafði á réttlæti í tilverunni.

Pabbi unni góðu handverki, hann var flinkur handverksmaður og naut þess að vinna með höndum sínum. Hann lagði metnað sinn í þá prentun sem hann kom að og uppsetning og umbrot vildi hann að færi eftir ströngum reglum prentlistarinnar. Eftir að hann hætti að prenta og var orðinn starfsmaður Akureyrabæjar kom hann sér upp drjúglitlu trésmíðaverkstæði, fyrst í bílskúrnum á Akureyri og síðar í Blöndubakkanum í Reykjavík.

Hann smíðaði mest húsgögn og naut sín við það, vinnan var honum alla tíð guðs gjöf og við vinnu að sínum hugðarefnum endurnærðist hann best. Eftir að hann missti heilsuna voru smíðarnar hans lífakkeri og þungt féll honum að astminn skyldi gera honum ókleift að sinna þessu hugðarefni sínu en hann vissi að allt hafði sinn tíma.

Hann naut þess líka að skrifa. Hann var um skeið jafnhliða prentverkinu í POB blaðamaður við Heima er best undir ritstjórn vinar hans Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum. Hann tók viðtöl við skemmtilegt fólk, skrifaði dægurlagaþátt fyrir ungt fólk en líka fyrir sjálfan sig þegar grannt er skoðað. Þá má ekki gleyma því að sagnfræðin var honum hugleikin.

Hann las mikið um sögu og sagnfræði og eftir hann sjálfan eru nokkrar greinar sem birst hafa um slíkt efni. Hann skrifaði alla tíð blaðagreinar um málefni líðandi stundar sem fönguðu hug hans. Eftir að hann flutti til Reykjavíkur hafa af og til birst eftir hann greinar í Morgunblaðinu, sumar hverjar um hans lífssannfæringu og legið við sálarheill að skýrt væri hver viðhorf hans væru, þannig var hann ekki fylgjandi stríðsrekstri í gömlu Júgóslavíu og þegar honum fannst vegið að skáldi hans Halldóri Laxness tók hann til varnar enda lífshugsjónin í húfi. Ég held að í flestu hafi hann verið umburðarlyndur en fastur fyrir og þver ef því var að skipta.

Pabbi var mikll fjölskyldumaður, velferð stórfjölskyldunnar skipti hann miklu. Honum lynti einstaklega vel við tengdaforeldra sína, mágkonur og svila. Í mörg ár bjó amma mín en tengdamóðir hans á heimili pabba og mömmu, virðing þeirra og væntumþykja var gagnkvæm, þó voru þau ekki lík.

Fyrir tíu árum fékk pabbi erfitt hjartaáfall. Hann gekkst undir mikla hjartaaðgerð en skemmdir áfallsins urðu ekki bættar. Hann tók örlögum sínum með æðruleysi og þá kom í ljós hve sjálfum sér hann var nógur þegar vinnu og samstarfsmanna naut ekki lengur daglega. Skriftir, smíðar og smáviðgerðir voru hans dægradvöl og nú gekk hann matargerðarlistinni á hönd, ekki leið svo dagur að hann sinnti ekki því hugðarefni og tókst oft vel upp.

Síðustu mánuði var af honum dregið, hann svaf mikið en var óbugaður og yfirvegaður í öllu fasi. Hann áleit að hann yrði ekki læknaður meir og ákvað að taka því sem að höndum bæri í önn dagsins, honum varð að ósk sinni. Síðasta verk hans í þessum heimi var að kaupa sér nýjan tölvuprentara og bera í hús, gott gömlum prentara að kveðja þannig. Öllu því góða fólki sem annaðist hann í veikindunum eru færðar hugheilar þakkir.

Við vorum vinir og félagar og hann var góður faðir. Þegar ég var lítill drengur gaf hann mér vönduð leikföng sem sum hver eru enn til, sum heil önnur í pörtum eins og gengur. Mér þótti eðlilegt að við vinirnir lékum okkur saman tveir einir fyrst að nýju leikfangi, hann var sama sinnis og naut leiksins engu minna en ég. Fallegasta bíl sem ég hef eignast smíðaði hann og bar heim að næturlagi og dró fram ein jólin, við lékum okkur lengi að þeim bíl.

Þegar ég stækkaði urðu leikirnir tilkomumeiri. Hann eignaðist fólksvagen og eitt sinn var hann skrúfaður sundur stykki fyrir stykki og pússaður og skoðaður og lagað það sem þurfti. Þetta var lærdómsríkur tími, ég beið eftir að pabbi kæmi heim úr prentsmiðjunni og við tækjum til við að rannsaka undur bílvélarinnar eða leyndardóma fjöðrunarinnar sem var engu lík í þessum bíl. Var þetta leikur eða nám? Í fræðunum segir að gott sé að þetta fari saman, kann að vera rétt.

Faðir minn átti góða daga og bað sér ekki betri tíðar. Ég vil þó kveðja hann með vísun í ljóð Laxness: Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga. Feginn vildi ég eiga þess kost ef þar að kemur að trítla með honum um tún og tölta á engi, ungur drengur.

Eiríkur Páll Eiríksson.
--------------------------------------------

Ég veit ekki hver fyrsta minning mín um afa Eirík er en flestar mínar bestu æskuminningar tengjast sumardvöl hjá afa og ömmu í Þórunnarstræti á Akureyri. Þangað fór ég á hverju sumri, oftast í för með foreldrum mínum akandi en stundum einn, fljúgandi. Það var ævinlega mikið tilhlökkunarefni að hitta afa á flugvellinum og sjá brosið hans og finna innilegt faðmlagið.

Grúsknáttúru mína má ég ábyggilega þakka afa mínum Eiríki. Ég eyddi löngum stundum í að fylgjast með honum við sitt helsta áhugamál, smíðar. Ég lærði margt á því. Hjá honum fékk ég líka tækifæri til að fikta fyrst með rafmagn: Tengja batterí, rofa og perur og lóða. Trúlegast er það stór áhrifavaldur í starfsvali mínu og áhugamálum í dag.

Við afi vorum líka vinir. Þegar ég var lítill hlökkuðum við báðir mikið til þess að teiknimyndir með Tomma og Jenna kæmu í sjónvarpinu. Við máttum aldrei missa af þætti. Ég veit ekki hvor skemmti sér betur. Afi gat alveg skilið hvað fékk lítinn strák eins og mig til að hlæja. Afi var líka örlátur og gjafmildur og hafði einstakt lag á að finna afmælis- og jólagjafir. Gjafir frá honum voru ævinlega margar og stórar.

Afi var glaður kall og alltaf stutt í hlátur. Hann átti einstaklega gott með að sjá húmor og fyndni í öllu, ekki síst í sjálfum sér. Á efri árum átti hann til að segja langar sögur af sjálfum sér og hlæja dátt. Rúmri viku fyrir andlát sitt sagði hann mér söguna af fasteignakaupum sínum þegar ég heimsótti hann og sagði honum frá fasteignahugleiðingum mínum. Afi hafði gaman af því að heyra af hversdagslegu brölti mínu og fylgdist vel með mér.

Ég er þakklátur fyrir að afi tók þátt í uppeldi mínu og þau áhrif sem hann hafði á mig. Ég er þakklátur fyrir að hafa þekkt hann. Ég mun minnast hans sem glaðs og skjóthuga manns. Eiríkur var góður afi.

Hrafnkell Eiríksson.
----------------------------------------------

Einn af mínum elstu og skemmtilegustu vinum, Eiríkur Eiríksson prentari, er nú farinn af heimi eftir margra ára heilsubrest, og lífsgangan orðin heldur fátæklegri en áður.

Meira en hálf öld er liðin síðan við Eiríkur kynntumst fyrst. Við náðum fljótt saman, urðum síðan félagar og samstarfsmenn í Sósíalistafélaginu og Alþýðubandalaginu á Siglufirði og loks sameigendur að húseign á annan áratug, eða þar til fjölskyldan fluttist burt. Tengslin héldust þó áratugir liðu, og síðustu árin, eftir að geta til umsvifa var tekin að minnka, höfum við rækt þau með símtölum og bréfaskriftum þar sem áhugamálin voru rædd og krufin.

Eiríkur starfaði á vegum Sósíalistafélags Siglufjarðar og Alþýðubandalagsins á Siglufirði um árabil, sat í stjórnum pólitísku samtakanna, niðurjöfnunarnefnd, stjórn kaupfélagsins og var talsmaður okkar á pólitískum fundum. Allt var það vel af hendi leyst og samtökunum og honum sjálfum til sóma, enda maðurinn litríkur, vel máli farinn og málefnalegur.

Eiríkur þurfti helst að kafa til botns í því sem hann fékkst við. Það átti jafnt við um svo ólík efni sem bílaviðhald, trésmíðar, leiklist og stjórnmál. Hann var um árabil einn af helstu kröftum Leikfélags Siglufjarðar og viðaði þá að sér bókum og ýmiskonar öðrum fróðleik um listgreinina og stefnur og viðhorf innan hennar.

Árin sem hann var ritstjóri tímaritsins Heima er best kafaði hann niður í skjöl og gögn frá löngu liðnum tímum og skrifaði í blaðið einhverjar skemmtilegustu fróðleiksgreinar sem þar hafa birst, um efni frá horfinni tíð. Seinustu árin sökkti hann sér niður í íslenska nútímasögu, milliríkjasamninga og stjórnmálasögu og ritaði um þau efni blaðagreinar á þann hátt að athygli vakti.

Þetta greinarkorn er engin skýrsla um líf og störf Eiríks Eiríkssonar. Hún er aðeins vitnisburður um það, að minningin um hann er enn hugstæð gömlu félögunum frá Siglufirði, og einnig er henni ætlað að vera samúðarkveðja frá mér og mínu fólki til Rósu, Eiríks Páls, tengdadóttur og barnabarna.

Benedikt Sigurðsson.
---------------------------------------------

Andlátsfregnir koma manni oft á óvart, og þegar ég frétti andlát Eiríks Eiríkssonar prentara fannst mér ég aldrei hafa orðið jafn furðu lostinn við andlátsfrétt. Að vísu frétti ég, að hann hefði kennt veikinda á þessu ári og áður. Eiríkur mætti, ásamt konu sinni, á skemmtifund Félags kennara á eftirlaunum laugardaginn 5. október, og spilaði með okkur félagsvist, og virtist þá vera hress til líkama og sálar. En aðeins þremur dögum síðar, þriðjudaginn 8. október, er hann burt kallaður, heima í stofunni sinni. Í sálmi eftir séra Björn í Laufási stendur þetta:

  • Fótmál dauðans fljótt er stigið
  • fram að myrkum grafarreit.
  • Mitt er hold til moldar hnigið
  • máske fyrr en af ég veit.

Eiríkur var kunnur maður vegna ritsmíða sinna í blöðum og tímaritum. Hafa greinar hans í Morgunblaðinu um stjórnmál og menningarmál vakið verðskuldaða athygli, vegna gjörhygli og ritsnilldar. Hann var blaðamaður um langt árabil hjá tímaritinu Heima er bezt, sem Prentverk Odds Björnssonar á Akureyri gaf út um aldarþriðjung.

Þar sinnti hann föstum þáttum og lagði mikla vinnu í þá. Eiríkur var samviskusamur, og þegar föstum þáttum í tímaritum eða blöðum þarf að sinna hlýtur það að vera vel séð og raunar nauðsynlegt. Eiríkur lærði prentiðn á Siglufirði hjá honum Sigurjóni Sæmundssyni, hálfbróður sínum, og vann þar um árabil, áður en hann fluttist með Rósu, konu sinni, og syninum Eiríki Páli til Akureyrar, þar sem hann hélt áfram prentstörfum og hún kennslustörfum. Þau hjón fluttust að Blöndubakka 1 í Reykjavík fyrir fáum árum. Var heimili þeirra fagurt og vel um gengið. Bækur margar í hillum og lýstu þær vel bókmenntasmekk hjónanna. Safn ljóðabóka fjölbreytt og athyglisvert.

Mér var jafnan vel tekið, er ég kom í heimsókn til þeirra, en Rósa var mér samferða í síðustu tveimur bekkjum Kennaraskóla Íslands á sinni tíð. Við, sem kynntumst Eiríki Eiríkssyni, þökkum kynnin, sem við bjuggumst við að yrðu miklu lengri. Ég votta eftirlifandi eiginkonu hans og afkomendum samúð mína. Eftir lifir minning mæt, þótt maðurinn deyi.

Auðunn Bragi Sveinsson.
-------------------------------------------

Í litlu blokkarsamfélagi ríkir mikil spenna þegar von er á nýjum eigendum í stigaganginn. Svo var einnig þegar Eiríkur og Rósa fluttu í stigaganginn okkar. Við hugsuðum með okkur hvort nýju eigendurnir kæmu til með að falla inn í það góða samfélag sem fyrir var. Það er skemmst frá því að segja að þau hjónin stóðust þær væntingar sem við gerðum til nýrra nágranna og vel það.

Eiríkur reyndist mikil heillastoð fyrir stigaganginn og var alltaf boðinn og búinn að lagfæra það sem úrskeiðis fór, dytta að og gefa góð ráð. Hann lét sér ekki nægja að laga það sem þurfti í sameigninni, hann var alltaf boðinn og búinn að gefa nágrönnum sínum góð ráð og hjálpa þegar þeir stóðu í framkvæmdum. Þegar húsfundir voru í stigaganginum var Eiríkur með sínar skoðanir á hreinu og hélt hann þeim ávallt til streitu, en hann gat alltaf fundið léttu hliðarnar á öllum málum.

Eitt atriði sem okkur er minnisstætt er þegar Eiríkur spurði á fyrsta húsfundinum sínum hvort við hefðum eitthvað á móti því að hann væri að smíða í kjallaraherberginu sínu. Það fannst okkur hið minnsta mál, okkur datt aldrei í hug að hann væri með heila smíðastofu þar, en við nutum þess að heyra í honum smíða þegar við áttum leið hjá. Hann var alltaf tilbúinn að lána verkfæri sín og miðla þekkingu sinni og munum við því minnast Eiríks með þakklæti og virðingu.

Elsku Rósa og fjölskylda, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Stefanía, Guðlaug, Hannes, Elín, Indriði, Helga, Stefán, Hallfríður, Ómar, Ragnheiður og Björgvin.

Eiríkur Páll Eiríksson.

--------------------------------------- 

17. október 2002 | 

Eiríkur Jóhannes Björgólfur Eiríksson var fæddur á Akureyri 27. ágúst 1924. Hann andaðist á heimili sínu í Reykjavík 8. okt. síðastliðinn og var útför hans gerð frá Digraneskirkju 16. október.

Það er víst gangur lífsins, að sú veröld sem var, fær ekki að vera um kyrrt til eilíðar. Það gerir okkur enn meðvitaðri um það hversu dýrmæt augnablikin eru sem okkur eru gefin, sérstaklega þegar minningarnar einar standa eftir um mann, sem átti sérstakan heiðurssess í huga og hjarta, allt frá bernskuárunum.

Eiki frændi var föðurbróðir minn. Herdís amma átti hann í örstuttu seinna hjónabandi og varð strax orðin ekkja aftur. Ævi hennar og lífsbarátta var ætíð hörð og erfið. Hún missti afa í sjóslysi frá stórum barnahópi norður í Fljótum þar sem þau bjuggu og dreifðust börnin á aðra bæi til frekara uppeldis.

Einungis tveir drengir komust til fullorðinsára. Herdís amma reyndi að halda saman fjölskyldunni með nýjum manni, en missti hann áður en nýr drengur bættist í hópinn. Eiki frændi sá því aldrei föður sinn. Eiki var fyrstu æskuárin hjá móður sinni á Akureyri, en þegar hún féll frá, enn ung að árum, kom hann sem unglingur til foreldra minna á Siglufirði og var hjá þeim og lærði prentverk hjá föður mínum. Hann var því bæði föðurbróðir, bróðir og ákaflega traustur vinur og frændi.

Það er svo margs að minnast, sem ekki er auðvitað hægt að gera grein fyrir í örstuttri minningargrein um hjartfólginn frænda. Það var svo ljúft að geta rifist og verið innilega ósammála um pólitíkina án þess að það breytti væntumþykju eða trausti. Við áttum okkar sérstaka stíl og ávarp, sem við notuðum bara okkar í milli, sem orðið hafði til þegar við brugðum á leik og tókum léttara hjal.

Eiki var minn helsti ráðgjafi í alvörumálum æskuáranna, þegar ekki var hægt að tala við aðra. Hann sagði mér frá ærslum sínum og leikjum, sem frjóvguðu ímyndunaraflið, en einnig frá stórskáldunum sem ég lærði að meta í gegn um hann. Aldrei gleymi ég hvernig Eiki bjó mig undir lokaprófin í barnaskóla í fjarveru foreldra minna. Við lukum því sameiginlega með glæsibrag og hef ég sennilega ekki haft jafn góðan námsráðgjafa nokkurn tíma.

Eika var margt til lista lagt. Hann var bæði bókmenntalega hneigður, grúskari í vélum, tólum og tækjum og hagleiks smiður. Seinni árin hafði hann komið sér upp listilega innréttuðu verkstæði, þar sem hann töfraði fram ótrúlegustu hluti. Það hafa því togast á mismunandi kraftar í huga hans. Hann hefði átt erfitt að gera upp við sig, hvort hann hefði átt að verða verkfræðingur eða bókmenntafræðingur, ef erfiðleikar og takmarkaðir möguleikar í æsku hefðu ekki komið til.

Ég á eftir að sakna þess í næstu fjölskylduboðum að geta ekki tekið rispu um þjóðmálin við Eika frænda. Hann hafði lifandi áhuga á öllu sem fram fór og fór ekki dult með skoðanir sínar á mönnum og málefnum og kom ávallt með einhvern þann flöt á umræðunni sem aðrir höfðu ekki áttað sig á.

Við Bigga og Agga söknum Eika frænda. Við sendum okkar innilegustu saknaðarkveðjur til Rósu, Eiríks Páls og fjölskyldu hans. Megi frændi minn hvíla í friði.

Jón Sæmundur Sigurjónsson.
---------------------------------------------------

Leiðir mínar og Eiríks J.B. Eiríkssonar lágu seint saman. Fyrst vissi ég nafn hans þegar hann skrifaði grein í fjölmiðlafári árið 1993. Aðeins einn vinstri maður gekk fram þáttunum til varnar, Eiríkur Eiríksson. Ég spurðist fyrir hver þessi maður væri og fékk að heyra að hann væri gamall sósíalisti sem hefði um langa hríð starfað ásamt eðalkratanum Steindóri Steindórssyni frá Hlöðum við að tilreiða lesefni til skemmtunar og fróðleiks fyrir framsóknarbændur í sveitum landsins.

Eirík hitti ég fyrst í eigin persónu kosningavorið 1999. Eitthvað ræddum við um sagnfræði en mest um utanríkismál. Eiríkur sagði að þótt allir töluðu um að kalda stríðinu væri lokið væri allur þorri áhugamanna um stjórnmál, jafnt til hægri og til vinstri, fastur í hugarfjötrum þess. Sjálfur vildi hann ekki vera það, nýir tímar krefðust nýrra hugsana. Sem dæmi skal nefnt að Eiríkur var enginn aðdáandi herstöðvarinnar í Keflavík en samt lofaði hann herstöðvasamninginn fyrir margt. Hann dáði þá íslensku stjórnmálamenn, einkum Bjarna Benediktsson, sem höfðu tryggt íslenska sérhagsmuni í samningnum á erfiðum tímum.

Snemma á þessu ári kom í hlut Eiríks J.B. Eiríkssonar að fyrstur taka á móti ómálefnalegum árásum á Halldór Laxness í greininni "Komið til varnar skáldi mínu" eins og frábær grein hans í Morgunblaðinu hét. Þvílík áhrif hafði þessi grein! Menn hreinlega vöknuðu úr dróma við árfrýjunarorð Eiríks. Genginn er hugrakkur, sjálfstæður og vitur maður, gamall að árum en síungur í anda.

Gísli Gunnarsson. Jón Sæmundur Sigurjónsson.