Sigurlaug Björnsdóttir, Siglufirði -Zion

Afturelding - 1966

Sigurlaug Björnsdóttir - Minningarorð

Í marzmánuði sl. (1966) lézt Sigurlaug Björnsdóttir, Siglufirði, rúmlega 70 ára. Með henni gekk af sviðinu kona, sem var auðugri af góðum verkum en opinberri frægð.

Foreldrar hennar voru Stefanía Jóhannesdóttir og Björn Guðmundsson, kennd við heimili sitt „Á" á Siglufirði. Þau voru hinar merkustu manneskjur.

Sigurlaug BJörnsdóttir var ágætlega greind kona að eðlisfari. Hefði hún gengið menntaveginn, mundi hún áreiðanlega hafa tekið há próf. En bæði var það, að það var ekki eins greiður vegur fyrir efnalitlar sveitastúlkur (hún var fædd og uppalin í sveit) að menntast þá og nú, og svo annað, að hún var ákaflega samvizkusöm og skyldurækin við foreldra sína.

Hún sagði mér einhvern tíma, að þrá sín eftir menntun, þegar hún var unglingur, hefði verið svo sterk með köflum, að hún héldi, að þar eð hún varð að byrgja hana inni, án þess að fá útrás fyrir hana, þá hefði það haft varanleg áhrif á heilsu sína. En á hvern veg það var, leyndi hún fyrir flestum. En þótt vegurinn til menntunar lokaðist henni í æsku, tók enginn frá henni það sem henni var meðfætt og eiginlegt.

Sigurlaug Björnsdóttir

Sigurlaug Björnsdóttir

Í vöggugjöf hafði hún fengið skarpa greind og listrænt skyn til margra átta. Hæfileikar þessir munu þó hafa leynzt samferðamönnum miklu meir, en þeir hefðu gert hjá flestum öðrum, vegna þess hve hlédræg hún var og langt frá að ýta sér nokkurs staðar fram. En þeir sem voru henni kunnugastir vissu um fjölþætta hæfileika hennar í djúpi kyrrlátrar skaphafnar.

Um tvítugs aldur fór Sigurlaug til Noregs og var þar á saumastofu, en sauma hafði hún lært hjá móður sinni, er var viðbrugðið á því sviði. í Noregi komst hún í snertingu við trúarvakningu, sem þá var mjög mikil þar í landi. Þar mætti hún Kristi sem frelsara sínum, en það hafði áhrif á allt líf hennar eftir það. Sumum fannst Sigurlaug vera fáskiptin, næstum fráhrindandi. Einhvern tíma tók ég mér stöðu við hlið þeirra, sem ályktuðu svo, og sagði það við hana.

Hún leit á mig og sagði aðeins: „Og þú líka!" Svo hvarf hún inn í djúpa þögn. Mér varð ljóst, að ég hafði hryggt hana, en það varð ekki aftur tekið. Eftir stundarkorn rauf hún þögnina: „Það var nokkru eftir að ég hafði gefizt Kristi og var komin heim til íslands. Ég gerði mér grein fyrir því, hvað ég hafði öðlazt, er ég hafði mætt Kristi og var orðin Guðs barn. Ég hugsaði, að ef til vill mundi ég þurfa að lifa alein með frelsara mínum, án samfélags við endurfætt fólk allt mitt líf. Mun ég geta staðizt? Mun ég geta varðveitt það sem mér hafði verið trúað fyrir?

Þá var það eitt kvöld, að karlakórinn „Vísir" á Siglufirði hafði æfingu í heimili okkar. Ég var í herbergi mínu. Tónar söngsins hljómuðu gegnum heimilið — og inn til mín. Sumt af þessum lögum hafði ég lært þegar ég var unglingur, og ég elskaði þau. Þetta snart mig undarlega og með viðkvæmni. Á þessari stundu fann ég það, sem ég hafði aldrei hugsað um áður, hvað þessir tveir pólar — jarðneskt og eilíft líf — eru ákaflega nærri hvor öðrum.

Já, miklu nær en Guðs fólk hugleiðir. Þetta kvöld fannst mér ég verða að velja á nýjan leik, velja á milli þess, sem var af jörðu og hins sem var að ofan. Og ég valdi þetta kvöld á nýjan Ieik," bætti hún við. Þetta kvöld varð Sigurlaug Björnsdóttir gestur jarðar, gestur sinnar eigin borgar, gestur ættingja sinna og vina. Þeir eru til, sem geta selt frumburðarrétt sinn fyrir smámuni, jafnvel fyrir eina máltíð (Hebr. 12,15). En svo eru aðrir, sem ekki geta hugsað sér að selja hann fyrir neitt.

Þeir eru reiðubúnir að játa það hvar sem er, og fyrir hverjum sem er, að þeir séu gestir og útlendingar á jörðunni. Þeirrar tegundar var bæði gerð Sigurlaugar og kristindómur. Frænkur hennar tvær, sem voru hjá henni síðustu stundirnar létu mig skilja, að það hafi ekki leynt sér, að þar hafi akkeri sálarinnar verið traust og öruggt og hafi náð alla leið inn fyrir fortjaldið eins og Guðs orð kallar það í sambandi við hina sigrandi trú (Hebr. 6,19).

Þegar hún var látin, fundust á skrifborði hennar tuttugu og þrjár áritanir til fólks, víðs vegar um heim. Við þetta fólk hafði hún staðið í stöðugum bréfaskiptum. Virtist henni vera jafnlétt að skrifa á ensku og Norðurlandamálum. Hjá þessum stafla af áritunum var ávarp til skyldmenna hennar, er renna mundu augum að þessu, er hún væri gengin af heimi þessum. Þar bað hún þess, að öllum þessum vinum sínum yrði skrifað og þeim tilkynnt að hún væri farin af þessu landi og til annars bjartara og betra.

Fyrsta verk Péturs bróður hennar, er hann kom norður, eftir lát hennar, var að uppfylla þessa beiðni. Því ver glötuðust allar þessar áritanir, eftir að búið var að senda bréfin. Ánægjulegt hefði verið að áritanir þessar hefðu geymzt lengur, eins og hún gekk frá þeim, en aðeins tímann frá því að hún skrifaði þær niður og þangað til hún hvíldi liðið lík í heimili sínu. Ekki er ólíklegt, að þegar þessi bréf með dánarfregn hennar komu til viðtakenda, hafi margur tregað það, að hún væri ekki lengur á þessari jörð.

Hvað með mörgu hermennina á stríðsárunum, sem hún bar umhyggju fyrir á ýmissan hátt og uppörvaði til þess að trúa á Guð og hafa stöðugt bréfasamband við foreldra sína? Margar mæður þeirra skildu að minnsta kosti þessa þjónustu. Það sýndu bréf þeirra til Sigurlaugar, eftir að synirnir voru komnir heim eftir hildarleikinn mikla, og sögðu frá því hvílíka hjálp og þjónustu þessi kona á nyrztu mörkum veraldar hefði veitt þeim. Og hvað með kristniboðana í ýmissum löndum, er nutu þess árum saman að í barmi þessarar konu sló hjarta, sem elskaði framgang Guðs ríkis meira en allt annað? Framhald á bls. 46.

Við jarðarför hennar voru bornar fram þakkir og kveðjur frá mörgum trúfélögum og einstaklingum.

Allir töldu sig vera í skuld. Yfirmaður Hjálpræðishersins á íslandi og í Færeyjum bað að láta ósk sína koma fram þar með þeim orðum, að gott hefði verið, ef liðsforingjar þeirra hefðu getað verið viðstaddir þessa jarðarför, því að þá mundu þeir einn eftir annan hafa staðið upp til þess að þakka Sigurlaugu fyrir það, sem hún hafði verið þeim á langri vegferð og við ýmiss konar kringumstæður.

Ég þekki mann, sem Guð talaði svo bert til eitt sinn, um það, að hann ætti að segja upp atvinnu, er hann hafði nýlega tekið sér, og hann skyldi fara til útlanda, án þess að hann ætti nokkurn pening til fararinnar. Ferð þessi skyldi farin í ákveðnum erindum vegna Guðsríkis. Þetta var ein hin mesta trúarreynsla, er maður sá hafði komizt í fram að þessu. En hann gerði samt eins og Guð hafði talað til hans um. Rétt áður en skipið átti að fara, er hann ætlaði með, hafði Sigurlaug samband við hann og sagði honum að ferðapeningarnir væru geymdir í banka og búnir að vera það í mörg ár.

Geta má nærri um undrun mannsins. Skipið tók hann á Siglufirði og hún afhenti honum alla upphæðina, sem í bókinni var. Sagði hún, að þá fyrir mörgum árum hefði Guð talað til hennar um það, að leggja vissa peningaupphæð inn á bankabók og geyma hana óhreyfða þar til vissrar stundar. Áreiðanlegheit hennar brugðust ekki heldur í þetta skipti. En oft kvaðst hún hafa verið búin að spyrja, hvenær hún fengi að vita, hvað Guð ætlaði að gera við þessa peninga. Peningarnir urðu rúmlega fyrir ferðirnar fram og til baka og uppihaldi erlendis í tvo mánuði. í Biblíunni er talað um trúarlíf kristins manns, er sé fólgið með Kristi í Guði.

Það er líf, sem lifað er fyrir Guði, en sést ekki af mönnum. Sigurlaug átti þetta líf og lifði því. Þar gjálfruðu vötnin ekki á yfirborðinu, en liðu fram, lygn og djúp. Samferðafólk hennar stóð oft á bakkanum án þess að veita djúpinu athygli eða uppgötva það. Við Sigurlaug töluðum oft saman um Guðs orð. Hún elskaði Orðið og rýndi það með skarpari greind og athygli en nær allar alþýðukonur, er ég hef kynnzt. Biblían var ljós á vegi hennar og lampi, sem lýsti yfir öll svið mannlegs lífs. Einhverju sinni, er við vorum að tala saman um Orðið, tók hún Biblíuna, fletti upp og las: „Gjörið yður vini með mammon ranglætisins, til þess að þeir, þegar hann þrýtur, taki við yður í hinar eilífu tjaldbúðir" (Lúk. 16,9).

Það var sem ljómun Andans breiddist yfir andlit hennar, er hún bætti við: „Einnig hér í þessum orðum mætum við Kristi og eilífðinni." Hún hélt áfram: „Ef við hugsuðum um þá Ieyndu þræði, sem geta legið á milli peninga okkar og ráðsályktunar Guðs til hjálpræðis mönnunum, þá mundum við meðhöndla fjármuni okkar öðruvísi en við gerum oft." Mér komu þessi orð hennar í hug, er ég nokkru eftir jarðarför hennar var að reyna að grafast fyrir um Kongó-kristniboða, er ég vissi að hún hafði kostað.

Spurði ég Pétur bróður hennar, hvort hann hefði ekki orðið var við nafn hans í reikningum hennar, er hann fór í gegnum þá, eftir dauða hennar. En hann minntist þess ekki að hafa orðið var við það nafn, er ég var að leita að. Í þessu samtali sagðist hann hafa veitt því athygli að þrjú síðustu árin, sem hún lifði, hefði hún sent kr. 100.000,00 — hundrað þúsundir — til kristniboðs í Afríku. Búast má við að samstarfskonur hennar norður þar hafi átt þarna líka hlut í þótt hún hafi staðið fyrir sendingu peninganna.

Ef atvik þetta — að ég var að leita eftir heimilisfangi viss manns hefði ekki orðið til þess að mér var sagt frá þessu, hefði þetta legið í hinu hulda, líkt og er með mörg verk þessarar konu, og enginn veit um nema Guð. „Gjöri yður vini með mammon ranglætisins, til þess að þeir, þegar hann þrýtur, taki við yður í hinar eilífu tjaldbúðir," hafði hún lesið eitt sinn fyrir mig. Nú hefur það skeð. Margir slíkir vinir hafa þegar tekið á móti henni í hinar eilífu tjaldbúðir. Þegar Sigurlaug Björnsdóttir er öll, vona ég að ekki verði um minningu hennar eins og guðsmaðurinn segir um aðra, er gengu sama veg og hún hér í heimi: „Hinir réttlátu líða undir lok og enginn leggur það á hjarta, hinum guðhræddu er burt svipt og enginn veitir því athygli." (Jes. 57,1).

Ásmundur Eiríksson.