Elsa Petra Björnsdóttir

13. nóvember 2010 | Minningargreinar 

Elsa Björnsdóttir fæddist á Stóra Steinsvaði í Hjaltastaðaþingá 25. ágúst 1926. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 1. nóvember 2010

Foreldrar hennar voru hjónin Björn Björnsson, f. 10.12. 1887, d. 9.7. 1973, og Grímlaug Margrét Guðjónsdóttir, f. 26.4. 1899, d. 12.5. 1986.

Systkini Elsu Petru eru:

 • Pétur, f. 10.6. 1917, d. 19.3. 1997.
 • Margrét Unnur, f. 7.12. 1918, d. 1.5. 1948. Sigmar, f. 26.6. 1920, d. 4.9. 1992.
 • Anna Birna, f. 28.9. 1921, d. 30.1. 1998.
 • Guðbjörg, f. 7.9. 1923, d. 21.5. 1987.
 • Björn Hólm, f. 2.4. 1925. Aðalbjörg, f. 15.4. 1928.
 • Einar Sigurjón, f. 1.7. 1929, d. 25.4. 1976.
 • Helga, f. 2.4. 1931, d. 17.2. 1994.
 • Sigurborg, f. 29.11. 1932, d. 9.12. 1993.
 • Jóna, f. 22.2. 1935, d. 2.9. 2007.
 • Guðjón Valur, f. 3.8. 1938.
 • Birgir, f. 22.10. 1940.
Elsa Björnsdóttir

Elsa Björnsdóttir

Elsa Petra giftist 9.4. 1955 Ingimar Þorlákssn, f. 23.6. 1924.
Foreldrar hans voru Guðrún Jóhannsdóttir, f. 6.6. 1897, d. 5.4. 1963, og Þorlákur Guðmundsson, f. 22.7. 1894, d. 5.6. 1994.

Elsa Petra og Ingimar eignuðust 9 börn.
Þau eru:

 • 1) Guðrún Margrét, f. 4.3. 1945, d. 30.4. 1976, maki Björn Jónasson og barn þeirra er Rakel, maki: Thomas Fleckenstein og þau eiga 2 börn.
 • 2) Erla Hafdís, f. 22.5. 1947, maki Konráð K. Baldvinsson, börn þeirra eru: a) Elsa Inga, maki Anton Pétur Gunnarsson og eiga þau 3 börn b) Baldvin Örn.
 • 3) Guðfinna Sigríður, f. 22.2. 1949, börn hennar eru: a) Ingimar, maki Ingunn Jóhanna og eiga þau 2 börn, Ingimar á eina dóttur fyrir. Faðir hans var Viktor Þorkelsson. b) Gunnar, faðir hans var Sigurður Kr Jónasson.
 • 4) Þórdís Petra, f. 30.9. 1954, maki Ragnar Ragnarsson börn þeirra eru: a) Róbert, maki Selma Barðdal og eiga þau 4 börn. Faðir Róberts var Óttar Bjarnason. b) Bettý, maki Einar Þór Hjaltason og eiga þau 3 börn. c) Erla Ragnheiður, sambýlismaður Ingimundur Björgvinsson og eiga þau dóttur. Ingimundur á einn son fyrir.
 • 5) Jóhanna, f. 4.10. 1956, maki Sveinn Jóhann Einarsson og börn þeirra eru: a) Pétur Örn, unnusta Heiðrún Eymundsdóttir. b) Inga Jóna.
 • 6) Sólrún, f. 19.7. 1959, maki Oddur Óskarsson, börn þeirra eru: a) Anna María, sambýlismaður Þorvaldur Gröndal og eiga þau 2 syni. b) Magna Júlíana, sambýlismaður Helgi Freyr Ólason og eiga þau 2 syni. c) Davíð Örn.
 • 7) Björn Þór, f. 18.4. 1961, og á hann 5 börn. a) Haukur, maki Guðlaug Ingibjörg Albertsdóttir og eiga þau dóttur. b) Elsa Petra, móðir þeirra er Selma Hauksdóttir. c) Birgir Þór. d) Inga Lill Maríanna, móðir þeirra er Ingibjörg Ólafsdóttir. Sambýliskona Björns er Lukrecija Bokan Danielsdóttir og dóttir þeirra er Danijela Sara.
 • 8) Birgir Ingimarsson, f. 19.6. 1965, sambýliskona Pálína Kristinsdóttir dætur þeirra eru: a) Karen. b) Birgitta.
 • 9) Bylgja, f. 12.9. 1968, sambýlismaður Guðbrandur Skúlason, börn þeirra eru: a) Skúli. b) Guðrún Margrét. Ingimar átti son fyrir, Baldvin f. 22.4. 1944, maki Jóna Heiðdal og eiga þau 3 börn, a) Kristján Óskar, maki Karen Emilía og eiga þau 2 börn. b) Róbert Páll, maki Hasna Boucham og eiga þau eitt barn. c) Margrét, maki Jón Svanur og eiga þau 3 börn.

Elsa Petra ólst upp að Sjávarborg í Seyðisfirði. Faðir hennar starfaði sem ráðsmaður á Þórarinsstöðum á Eyrinni við Seyðisfjörð og þar verður hún eftir í fóstri hjá Guðfinnu Sigurðardóttur sem hún dáði alla tíð. 17 ára lá leið hennar suður á bóginn og stuttu seinna til Siglufjarðar þar sem hún hitti lífsförunaut sinn og hefja þau búskap 1945.

Elsa var fyrst og fremst húsmóðir en vann við síldarsöltun á sumrin. Eftir að börnin voru komin á legg starfaði hún við fiskvinnslu. Elsa tók þátt í hinum ýmsu félagsstörfum, t.d. Kvenfélaginu Von, spilaði félagsvist og síðast en ekki síst naut hún þess að spila bridge.

Útför Elsu Petru fer fram í Siglufjarðarkirkju í dag, 13. nóvember 2010, og hefst athöfnin kl. 14.

Elsku mamma, nú ertu sofnuð svefninum langa og færð hvíldina sem þú þráðir. Loksins laus frá langvarandi þrautum og erfiðleikum, sem hafa fylgt þér um áraraðir, tilbúin að mæta almættinu, og því sem þar tekur við, eins og þú sagðir svo oft. Í mínum huga og hjarta lifir minningin um ótrúlega sterka og baráttuglaða móður sem lét ekki deigan síga, þótt áföllin væru mörg og mótlætið mikið. Móður sem hafði það að leiðarljósi að fjölskyldan væri það mikilvægasta í lífi hvers og eins. Móður sem umvafði okkur með ást og umhyggju alla tíð.

Mamma var alltaf heima þegar við systkinin vorum að alast upp. Hún var alltaf til staðar þegar eitthvað bjátaði á, huggaði okkur og þerraði tárin og beið eftir okkur þegar við komum heim úr skólanum, tilbúin að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda. Þetta þykir forréttindi í dag. Á þessum árum vann pabbi ýmist sem bakari í Ólafsfirði eða sem kokkur á togurum. Uppeldið var því meira og minna á þínum herðum.

Að ala upp 9 börn var ekki auðvelt, og síst við þær aðstæður sem þá voru, þar sem velta þurfti hverri krónu fyrir sér og dugði þó ekki til. Ég hef oft reynt að setja mig í þín spor, sjá fyrir mér hvernig þú komst yfir öll þau verkefni sem þurfti að leysa.

Mamma var hlý, yndisleg, falleg og glæsileg kona, alltaf vel til höfð og bar aldurinn ótrúlega vel, þrátt fyrir miklar raunir. Eftir að yngsta barnið fæddist greindist hún með sykursýki á háu stigi. Þetta var mikið áfall, með nýfætt barn og stórt heimili að sjá um. Þá kom enn í ljós hennar innri styrkur og baráttuvilji sem virtist óbugandi.

Jafnvel þegar sykursýkin var sem verst sagði hún ávallt að þetta væru ekki veikindi heldur eitthvað sem hún þyrfti að lifa með. Nokkrum árum áður en mamma varð rúmföst stóð pabbi eins og klettur á vaktinni, að nóttu sem degi, með símann sér við hlið. Okkar á milli töluðum við um teymi. Það var gott teymi, þú, ég og pabbi. Alltaf í viðbragðsstöðu til að hlúa að henni.

Stærsta sorgin í lífi hennar er þegar Bettý frumburðurinn lést í apríl 1976 eftir baráttu við krabbamein. Sú raun tók mikið á mömmu en mamma trúði og treysti á almættið, og þangað sótti hún styrk til að takast á við lífið.

Mamma var mikil félagsvera, leið vel með vinum sínum og naut þess að taka í spil, félagsvist, og ekki síst að spila brids. Hún hafði ótrúlega mikinn áhuga á fótbolta, studdi strákana sína í KS vel og dyggilega og leikur með Liverpool var henni heilög stund. Skemmtilegustu og bestu samverustundirnar hennar voru þegar stór-fjölskyldan kom saman við söng og leik.

Það verður erfitt að fylla upp í það tómarúm sem mamma skilur eftir sig. Hún hefur alltaf verið svo stór hluti af lífi okkar allra. Ég veit að hún mun vera með okkur áfram og halda áfram að gæta okkar og fylgjast með fjölskyldunni sinni. Ég trúi því og veit að þú og Bettý haldist nú í hendur og fylgist með börnunum þínum, barnabörnunum og barnabarnabörnunum.

Ég sakna þín sárt. Minningin um þig mun ávallt fylgja mér.

Erla Hafdís.
------------------------------------

Ég minnist tengdamóður minnar með hlýju og fyrir dugnað hennar og atorkusemi á allan hátt. Elsa var fædd á Seyðisfirði en kom hingað til Siglufjarðar ung stúlka til að vinna í síld, eins og svo ótalmargir gerðu þá. Hún hafði ekki verið hér lengi þegar hún kynntist ungum og myndarlegum „bakaradreng“ frá Siglufirði, honum Ingimar Þorlákssyni, eftirlifandi eiginmanni. Þau hófu snemma búskap hér og eignuðust sitt fyrsta barn áður en Elsa varð tvítug.

Síðan bættust átta börn við á næstu tuttugu og þremur árum. Allt er þetta mesta myndarfólk og stór hópur af barna- og barnabörnum. Það má ljóst vera að oft var basl á unga fólkinu, erfitt var að fá húsnæði og byrjuðu þau sinn búskap í lítilli íbúð á eyrinni, en með lífsgleðina, bjartsýnina og trúna að leiðarljósi sigruðu þau hindranir og eiga nú að leiðarlokum hjá Elsu yndislega minningu um sambúð í kærleika og ást í yfir sextíu ár.

Það er þetta með myndarfólkið, mér fannst frumburðurinn hún Bettý, skólasystir mín í barna- og gagnfræðaskóla ekki bara myndarleg, heldur gjörvuleg í alla staði. Við Bettý höfðum alltaf verið góðir vinir í skóla og eftir það. Við fórum síðar að vera saman á annan hátt og trúlofuðum okkur fimmta nóvember fyrir fjörutíu og fjórum árum og þá eignaðist ég það dýrmætasta sem hægt er að eignast.

Þegar ég fór að venja komu mína á heimili þeirra bjuggu þau Ingimar og Elsa í verkamannabústöðunum við Hvanneyrarbraut, þriggja herbergja íbúð með stóran barnahóp. Samt var alltaf nóg pláss, stjórnað af ákveðni og festu, gleði og samkennd ríkti. Yfirleitt mættum við í sunnudagskaffi, þar sem var hlaðið tertuborð, sem Elsa sá um sjálf, þrátt fyrir að bakarinn væri til staðar.

Eftir að Elsa eignaðist sitt níunda og síðasta barn greindist hún með sykursýki á háu stigi, þetta var henni og okkur öllum mikið áfall. Elsa hélt sínu striki, hnarreist hélt hún áfram að hugsa um fólkið sitt, baka á sunnudögum, terturnar góðu sem hún mátti nú ekki borða sjálf. Alltaf stækkaði hópurinn, tengdasynir bættust við, en alltaf fannst mér sá fyrsti vera svolítið í hávegum hafður.

Ekki var Elsa skaplaus, hún lét fólk skilja hvað hún meinti. Ég man að einu sinni hvein svolítið við mig og átti ég það örugglega skilið, ég nefnilega mætti á eftir mæðgunum í sunnudagskaffið, hafði verið fulllengi að á laugardagskvöldinu. Okkur samdi vel og mikill kærleikur okkar á milli.

Elsa og Ingimar höfðu fyrir nokkrum árum flutt að Skálarhlíð, þar sem þau bjuggu sér jafn hlýlegt og fallegt heimili eins og alltaf áður, en Elsa hefur síðastliðin tvö ár að mestu verið á Sjúkrahúsinu hér í Siglufirði. Fyrir mér er fallin frá mikil baráttukona sem hélt þessum alvarlega sjúkdómi niðri svo mikið sem það var hægt og hugsaði fyrst og síðast um Ingimar og stóra afkomendahópinn.

Ég á mikið af góðum minningum frá samleið minni með Elsu og hennar stóru og góðu fjölskyldu. Nú hafa mæðgurnar hist og við hin komum síðar, Guð og góðu englarnir taka vel á móti mikilhæfri konu.

Björn Jónasson.
----------------------------------------------

Kæra tengdamóðir,

 • Sofðu vært hinn síðsta blund,
 • uns hinn dýri dagur ljómar,
 • Drottins lúður þegar hljómar
 • hina miklu morgunstund.
 • Heim frá gröf vér göngum enn.
 • Guð veit, hvort vér framar fáum
 • farið héðan, að oss gáum,
 • máske kallið komi senn.
 • Verði, Drottinn, vilji þinn,
 • vér oss fyrir honum hneigjum,
 • hvort vér lifum eða deyjum,
 • veri hann oss velkominn.

(Vald. Briem)

Takk fyrir allt. Þinn tengdasonur, Oddur.
----------------------------------------------------

Í byrjun nóvembermánaðar andaðist elskuleg amma okkar. Á svona tímamótum hellast yfir okkur allar þær yndislegu minningar sem við systurnar höfum um ömmu okkar. Amma og afi bjuggu lengst af á Hvanneyrarbrautinni þar sem alltaf var vel tekið á móti okkur og öðrum ættingjum. Maður gat alltaf gengið að því að fá stórt og innilegt faðmlag frá ömmu og stóran koss.

Við fluttum frá Siglufirði þegar við vorum ungar en fengum alltaf að koma til ömmu og afa á sumrin og vera hjá þeim og helst ekki fara aftur til Reykjavíkur. Alltaf var fullt hús matar hjá þeim og amma alveg ótrúlega góður kokkur. Hver man ekki eftir fiskibollunum með brúnu sósunni og kanilsnúðunum sem amma var svo dugleg að búa til.

Amma var ákaflega mikil spilakona og hafði virkilega gaman af að spila kana og brids. Hún var óvægin í spilum, alveg sama við hvern hún var að spila. Það var oft spilað klukkustundunum saman á Hvanneyrarbrautinni. Amma hafði ákaflega gaman af því að fara í sundlaugina á seinni árum og ekki spillti fyrir að sundlaugin var beint á móti húsinu hennar. Það voru ófáar ferðinar farnar þangað í fylgd ömmu.

Amma og afi fluttu upp á Skálahlíð fyrir nokkrum árum síðan. Þrátt fyrir mikinn fjölda barna og barnabarna mundi amma alltaf hvenær allir áttu afmæli. Hún var alltaf ákaflega áhugasöm um hagi manns og fylgist vel með hvað var að gerast. Hún hafði gaman af að fá myndir af nýjum meðlimum í fjölskyldunni og spá í hvort þau væru með Ingimarstotuna.

Á síðustu árum lá amma inn á sjúkrastofnun Siglufjarðar þar sem maður fór oft og heimsótti hana. Nær alltaf gat maður gengið að því vísu að hún tæki á móti manni með bros á vor og segði: „Er ég ekki falleg?“

 • Í bljúgri bæn og þökk til þín,
 • sem þekkir mig og verkin mín.
 • Ég leita þín, Guð, leiddu mig,
 • og lýstu mér um ævistig.
 • Ég reika oft á rangri leið,
 • sú rétta virðist aldrei greið.
 • Ég geri margt sem miður fer,
 • og man svo sjaldan eftir þér.
 • Sú ein er bæn í brjósti mér,
 • ég betur kunni þjóna þér.
 • Því veit mér feta veginn þinn
 • og verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Í hjörtum okkar lifir minning um yndislega ömmu með stórt hjarta og hlýtt faðmlag. Við sendum samúðarkveðjur til Ingimars afa og allra barna, barnabarna og langömmubarna. Megi Guð styrkja ykkur öll.

Bettý, Erla og fjölskyldur.
-------------------------------------------

Elsku amma Elsa. Mikið óskaplega sakna ég þín mikið. Síðustu tvö ár hef ég saknað ömmu minnar og fundið mikið til í hjarta mínu þegar ég horfði á hana í veikindum sínum smám saman verða að þeirri konu sem hún gat ekki fyrir nokkra muni hugsað sér að verða. En loksins kom kallið og ég veit að amma er mjög sátt að það tók fljótt af, eftir stend ég og rifja upp þann tíma sem við áttum saman.

Ég sem barn naut þeirrar gæfu að líta á ömmu mína eins og mína eigin móðir. Mér hefur alltaf þótt jafn vænt um ömmu og móðir mína. Þær eru ófáar stundirnar sem við áttum saman og ég elskaði að vera hjá ömmu og afa. Amma umvafði mig kærleik og ást sem ég bý að alla ævi og mun sakna þess að eiga ekki eftir að fá ömmuknús og kossa.

Amma kenndi mér að fara með bænirnar mínar á hverju kvöldi og það var ekki einungis Faðir vorið sem maður þuldi heldur meira til og svo þakkaði maður fyrir daginn og endaði á því að biðja almáttugan góðan Guð um að passa þá sem voru sjúkir og áttu bágt. Amma vildi að maður hugsaði með hlýju til annarra og kæmi fram við alla af einstakri hlýju.

Amma kynnti mig fyrir rauðu ástarseríunni og við lágum löngum stundum hlið við hlið uppi í hjónarúmi og lásum ástarsögur. Amma var svo blíð, góð og hlý. Faðmurinn hennar var alltaf opin og gott var þar að vera. Amma sagði við mig að hver væri sinnar gæfu smiður, því væri mikilvægt að vera stoltur, skynsamur, blíður og síðast en ekki síst trúr sjálfum sér, þá væru manni allir vegir færir. Með þetta að leiðarljósi hef ég reynt að ganga lífsleiðina og haft ömmu sem fyrirmynd. Hún er mér svo kær og ég á mjög erfitt með að sætta mig við að hún sé nú farin þó ég geri mér grein fyrir því að lífið hefur upphaf og endi og þar er hún amma mín engin undantekning.

Ég er óskaplega og endalaust þakklát fyrir allt sem amma hefur gefið mér og ég mun geyma minningarnar um hana í hjarta mér þangað til við hittumst á ný. Ég þekki enga aðra manneskju sem líkist ömmu Elsu, hún var einstök og ég sakna hennar mjög mikið. Takk fyrir allt, elsku amma, ég lofa að fara með bænirnar mínar og þakka fyrir allt, ef þú lofar mér að koma á kvöldin til mín og kyssa mig á ennið og setja sængina undir tásurnar mínar. Þannig mun ég finna fyrir hlýjunni eins og þegar ég kúrði hjá þér. Með bæn sem amma kenndi mér langar mig að segja, ég átti bestu ömmu í heimi.

 • Vertu yfir og allt um kring
 • með eilífri blessun þinni,
 • sitji Guðs englar saman í hring
 • sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Anna María Oddsdóttir.
-----------------------------------------------

Fyrir ári síðan hélt ég að hjarta mitt myndi bresta þegar ég fengi þær fréttir að Elsa amma væri dáin. Svo margt fallegt og svo mikil sorg tengdi okkur tvær sterkum böndum. Við sérhvern fund okkar síðustu árin hrönnuðust minningarnar upp og tilfinningarnar og tárin tóku völdin. En hjartað brast ekki þegar Biggi hringdi til að tilkynna mér andlát hennar, það fylltist gleði.

Gleði yfir öllu því góða sem við áttum saman, öllum fallegu minningunum og öllum fallegu tárastundunum og gleði yfir því að nú loksins fengi hún hvíldina. Hún vissi alltaf að hennar biði góð vist á nýjum stað. Allt hennar líf einkenndist af dugnaði. Hún barðist við sykursýki hálfa ævina og snilldarleg barátta hennar við hana er efni í heila bók.

Í tæp 45 ár barðist hún við þennan sjúkdóm og passaði alla tíð mjög vel upp á sig. Fallegu hendurnar hennar og puttarnir eins og gatasigti eftir allar stungurnar. Ég man hvað mér fannst gaman að sjá hana sprauta sig. Sykurmolinn alltaf á vísum stað ef hún skyldi falla. Hún féll og féll og rauk upp og aftur upp en alltaf kom hún til baka. Venjulegt fólk hefði ekki þolað þessar miklu sveiflur.

Það er ótrúlegt að sykursýkin skyldi ekki fara verr með hana en raun ber vitni. Hún var hörkutól. Ól upp þennan barnaskara, afi á sjónum og hún ein og systurnar hjálpuðu til. Amma og mamma ófrískar saman, við Biggi og svo kom Bylgja þremur árum síðar. Móðursystir mín þremur árum yngri en ég, það fannst mér alltaf voða sniðugt. Minningarnar frá Hvanneyrarbrautinni eru yndislegar.

Þar var ýmislegt brallað og það sem mér einbirninu fannst gaman að vera í fjörinu þar. Þar var alltaf svo mikið líf og gleðin allsráðandi. Spila kana, borða niðurskorna ávexti í stað sykurs, suðusúkkulaðið, perutertan handa okkur hinum, jóladagurinn og afi með gítarinn, söngurinn. Allt eru þetta ljúfar minningar og þær geymi ég í hjarta mínu um ókomna tíð.

Ég kveð þig, elsku amma mín, full þakklætis og fullvissu um það að þú ert í góðum höndum. Starfsfólki Heilbrigðisstofnunar Fjallabyggðar, sem annaðist þig síðustu árin af alúð og elskusemi, færi ég bestu þakkir fyrir hönd okkar pabba. Elsku afi, Erla, Guffa, Þórdís, Jóa, Solla, Bjössi, Biggi, Bylgja, Baldi og fjölskyldur. Minningarnar um einstaka konu lifa. Orðin fallegu á legsteini mömmu, perlan ljómar þótt skelin brotni, geri ég að mínum lokaorðum okkur öllum til huggunar.

Rakel Björnsdóttir.
---------------------------------------------------

Þegar mamma hringdi í mig til að láta mig vita að Elsa amma væri látin fann ég að fram komu margar tilfinningar, einhverskonar tilfinningakokteill samsettur af gleði og sorg. Allar frábæru minningarnar um hana ömmu mína kölluðu fram gleði, einnig fann ég fyrir því að það var léttir að vita til þess að amma væri laus við allar þær kvalir sem hún hefur þurft að lifa við í langan tíma. En á sömu stundu sorgin sem er fólgin í því að hennar tími er kominn.

Minningarnar um hana Elsu ömmu eru endalausar. Amma var frábær kona, alltaf hress og kát og lifði lífinu lifandi, hún hafði alltaf nóg fyrir stafni og iðulega fullt af fólki í kringum sig.

Það eru ekki allar ömmur sem hafa talað jafn hressilega við mann og Elsa amma gerði. Margar sögur koma upp í hugann sem verður skemmtilegt að rifja upp með ættingjum og vinum síðar meir, því þær kalla alltaf fram bros og hlátur. Jólaboðin heima hjá þeim ömmu og afa voru eitthvað sem maður beið eftir með mikilli eftirvæntingu sem krakki, enda hápunkturinn á árinu. Það var alltaf pláss heima hjá ömmu og afa, aldrei neitt vesen eða kvart yfir því hvað væri mikið af fólki þrátt fyrir að boðin væru haldin í lítilli blokkaríbúð. Amma og afi eignuðust 9 börn, heilan helling af barnabörnum og alltaf var nóg pláss.

Þeir sem þekktu Elsu ömmu hafa vafalaust þekkt ást hennar á spilamennsku. Það var ósjaldan sem stórfjölskyldan sat í eldhúsinu hjá ömmu og afa á Hvanneyrabrautinni og spilaði, alltaf glatt á hjalla, og í minningunni var það amma sem var að rúlla upp spilunum.

Það er mikil og góð gjöf að hafa átt hana Elsu ömmu að í gegnum lífið, hún var ein af þeim sem gáfu lífinu lit. Þegar ég horfi til baka finnst mér það standa uppúr varðandi ömmu hvað hún var alltaf ánægð með sitt fólk. Amma var stolt og grobbin af sínum. Það lýsir henni vel skiptið sem ég bauð henni í bíltúr, var nýkominn með prófið og fór einn rúnt með báðar ömmurnar mínar þ.e. Elsu ömmu og Úbbu ömmu. Ég var taugaóstyrkur, óöruggur og agalega klaufalegur í þessum bíltúr og byrjaði á því að afsaka mig eitthvað, en þess þurfti nú aldeilis ekki því þá kom hjá Elsu ömmu eitthvað sem ég lifði lengi á; „Róbert minn þú ert frábær bílstjóri og þetta er skemmtilegasti bíltúr sem ég hef farið í lengi,“ svona frábærar setningar koma einungis frá frábærum konum.

Ég finn fyrir tómleika í hjarta mínu við að hugsa til þess að Elsa amma sé látin. Dapurlegt til þess að hugsa að nú sé engin Elsa amma til að segja mér hvað ég sé góður og fallegur og hvað börnin mín séu æðisleg. En minning hennar lifir með okkur. Nú er það okkar hlutverk að halda utan um Inga afa, styðja hann og styrkja í sorginni. Það er fólginn í því ákveðinn styrkur að vita af tæplega 100 afkomendum sem þau hjónin hafa eignast á lífsleiðinni.

Róbert Óttarsson.
----------------------------------------------

Þegar ný stjarna á himni rís vakna fallegar minningar um einstaka konu. Erfitt er að lýsa tilfinningum þeim sem í brjóstum búa og því mun ég hafa þessa kveðju látlausa í anda Elsu.

Kæra Elsa, ég þakka þér fyrir ógleymanlegar stundir, öll spilin sem spiluð voru, söngvana sem sungnir voru, glensið, grínið og alvöruna. Takk fyrir að auðga líf mitt og í mínum huga varst þú ein af hetjum þessa heims.

 • Sú stjarnan sem glóði í gær
 • og gladdi huga minn.
 • Leiftrar enn ljómandi skær
 • þótt líkamans fölni kinn.
 • Þú leitaðir lítt að hróðri
 • um lífs þíns skeið,
 • en hlúðir að hjartans gróðri
 • á hamingju leið.
 • Nú ertu horfin meðal heilladísa
 • í háloftin blá.
 • Heilagir englar um hauður þér lýsa
 • og hörpurnar slá.
 • En sorg og gleði sína þræði
 • spinna í örlagavef.
 • Líkn með þraut er löngum vor græðir;
 • hið ljóðræna lífsins stef.

(Gunnþór Guðmundsson)

Sendi Ingimar, Guðfinnu, Erlu, Þórdísi, Jóhönnu, Sólrúnu, Birni, Birgi, Bylgju og fjölskyldum þeirra samúðarkveðju. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni.

Fríða Pálmadóttir.