Tengt Siglufirði
Morgunblaðið - 119. tölublað (27.05.1965) - – Minningarorð
Björn Jónsson lögregluþjónn
Föstudaginn 26. maí 1965 verður jarðsunginn frá Seyðisfjarðarkirkju, Björn Jónsson, lögregluþjónn, frá Firði, Seyðisfirði. —
Björn var fæddur á Seyðisfirði 6. ágúst 1909, og varð bráðkvaddur að heimili systur sinnar hér í bæ, 20. maí sl.
Voru foreldrar hans Jón Jónsson, bóndi í Firði,
og kona hans, Halldóra Á. Björns dóttir.
Fregnin um lát Björns, kom eins og reiðarslag yfir alki þá, sem til hans þekktu. Því þó menn vissu almennt
að hann væri sjúkur, trúði enginn að svo kraftmikill maður, með svo mikla lífsorku, hefði kvatt okkur. —
Mun mörgum finnast, sem marga menn vanti hér á staðnum, er Björn sést ekki lengur. Björn ólst upp í foreldrahúsum, ásamt systkinum sínum, þeim
Í uppvextinum stundaði Björn almenn verzlunar- og landbúnaðarstörf.
Árin 1928—1930 stundaði hann nám við Verzlunarskóla Íslands, en í
desember 1930 hélt hann til Þýzkalands til írekara náms, og dvaldi þar til ársloka 1933.
Í byrjun Þýskalandsdvalar sinnar komst Björn í kynni við íþróttahreyfinguna
þar i landi og tók hann allan tímann mjög virkan þátt í henni. Gekk hann fyrst í „Lybecker Turnerchaft", og urðu þar fyrstu kynni hans og tvíslárinnar og svifráarinnar,
sem hann hélt ætíð tryggð við upp frá því.
Ílok ársins 1932 fluttist Björn til Stettin, eg gekk hann þar í „Stettiner Turnferein Korporation". Æfði
hann þar frjálsar íþróttir af miklu kappi, auk þess sem hann stundaði allskonar fimleika. Tók Björn þátt í allmörgum kappmótum, og gat sér góðs orðstírs
sem fimleika og frjálsíþróttamaður.
Árið 1930, eða nánar tiltekið, 6. ágúst það ár, lauk hann kappraun, sem gaf honum rétt til að bera brons afreksmerki
þýzka Íþróttasambandsins.
Þurfti hann að ljúka lágmarksafrekum í 5 íþróttagrein um, á sama degi, til þess að vinna sér rétt þennan.
- Er Björn dvaldi í Stettin var hann í beztu 4x100 m boðhlaupssveit borgarinnar.
Björn kom aftur heim til Íslands 20. janúar 1934 og starfaði við skrifstofustörf á Siglufirði til ársins 1939. Útvegaði hann Siglfirðingum bæði svifrá og tvíslá, og byrjaði hann þá fyrst að æfa af kappi á þeim áhöldum, sem hann náði frábærri leikni í, auk þess sem hann stundaði aðrar íþróttir af kappi, svo sem knattspyrnu og frjálsar íþróttir að sumrinu, en skauta- og skíðaiðkanir að vetrinum.
Árið 1939 fluttist Björn aftur til Seyðisfjarðar og lét hann ekki langan tíma líða, þar til hann hafði einnig útvegað Seyðfirðingum bæði tvíslá og svifrá. Hélt hann síðan uppi stöðugum æfingum, að mestu leyti upp á eigin spýtur, þrisvar í viku, allt til ársins 1961, er hann varð að hætta iðkunum, sökum sjúkdóms þess, er svo stuttu seinna leiddi hann til dauða.
Björn var frábær íþróttamaður, og unni hann íþróttunum af heilum huga, eins og gleggst má sjá af því, hve lengi hann stundaði sína uppáhaldsíþrótt, áhaldafimleikana, og þjálfaði stóran hóp vaskra drengja, með sinni alkunnu og óeigingjörnu elju.
Einnig má geta þess hér, að hann tók þátt í frjálsíþróttakeppnum á héraðsmótum, allt til fertugs aldurs, og var ávallt i röðum fremstu manna. Veit ég engan mann á 53. aldursári, sem farið hefur óskasveiflu áhaldafimleikamanna, „Risasveiflu", á svifrá, að Birni undanteknum.
Ég, sem þetta rita, kynntist Birni allnáið, bæði í gegnum fimleikana, sem við iðkuðum saman í um það bil 15 ár, auk þess sem við störfuðum saman að löggæzlu, í 5½ ár. Þurfti þó ekki nema ofurlítið brot af þessum tíma, til að sjá, að á ferðinni var. einstakur drengur, seni allra götu vildi greiða, en engum mein gera.
Björn var annálaður fyrir nákvæmni og samvizkusemi, sem glöggt má sjá á öllu því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Er einkar skemmtilegt að skoða mynda- og verðlaunasafn hans, sem mjög er stórt í sniðum og smekklega niðurraðað, í nýja íbúðarhúsinu hans, sem hann byggði 1959—1961, en naut í svo i skamman tíma.
Björn var mjög gefinn fyrir útilíf, og hafði næmt auga fyrir fögru landslagi. Tók hann ætíð nærri sér, ef náttúruspjöll voru framin í gáleysi. Hann stundaði alla ævi fjallgöngur og hin síðari ár svo sem heilsa hans leyfði. Sérstaka tryggð tók hann við smá foss í svonefndum „Dagmálalæk", sem hann laugaði sig í eftir hverja fjallgöngu. Hafa Seyðfirðingar nefnt foss þennan „Björnsfoss".
Meðal margra kosta Björns var það hve barngóður hann var. Fyrir fáum dögum átti hann leið í hús hér í bæ, hitti hann þar á hlaðinu lítinn dreng, þriggja ára gamlan, og tók hann tali, sem hann gerði iðulega er hann hitti smábörn.
Þegar Björn kvaddi, sagði litli drengurinn aðeins: „Komdu fljótt aftur". Er syni mínum, sjö ára, barst fregnin um andlát Björns, stundi hann upp þessum orðum: „Æ — aumingja Björn". Sýna þessi dæmi, hvern hug lítil börn báru til hans. Björn var trúaður maður, og var skemmtilegt að ræða trúmál og allífsgátuna við hann. Sennilega er ekki lengri tími liðinn en tvær vikur, síðan við reyndum, á fögru vorkvöldi, ásamt Jóni, systursyni hans, að kryfja lífsgátuna til mergjar í skemmtilegum samræðum.
Þá vissum við ekki, hve stutt þú áttir eftir að vera meðal okkar, en komum okkur saman um það, að allt sem ætti eftir að ske, mundi ske, þó við vissum ekki þá, hvað það yrði, fyrr en það væri skeð. Svo einfalt var það.
Nú hefur þú, kæri Björn, gengið í gegnum þessa jarðvist og skyndilega horfið bak við það tjald, sem við svo oft höfum reynt að skyggnast bak við, með tilgátum og hugmyndum. Er ekki laust við, að við hinir, sem svo oft ræddum þessi mál við þig, hálf öfunduðum þig af að vera kominn heilum bekk ofar okkur í skóla allífsins, þar sem þú færð að nema fullkomnari fræði, en við höfum tök á, hérna megin tjaldsins.
Því eins og við þóttumst sjá út úr þessu öllu, þá er allt á framfarabraut. í vissu um það, að sérhver sem í gegnum þessa jarðvist hefur gengið, komi fullkomnari inn á annað tilverustig, og taki þar á móti sínum vinum, kveð ég þig, kæri Björn, með innilegri FFFF kveðju, fyrir hönd fimleikaflokks þíns og fjölskyldu minnar, með kæru þakklæti fyrir allt, um leið og ég votta aðstandendum þínum samúð okkar.
Jóhann Sveinbjörnsson, Seyðisfirði.
-------------------------------------------------
6. ágúst 2009 | Minningargrein
Í dag, 6. ágúst 2009, eru 100 ár liðin frá fæðingu Björns Jónssonar frá Firði í Seyðisfirði. Það er við hæfi að haldið sé á lofti minningu þessa merka íþróttafrömuðar og afreksmanns á svo mörgum sviðum íþrótta, þó svo hann hafi nú hvílt í skauti fósturjarðarinnar í rúm 44 ár. Saga þessa frækna og fórnfúsa íþróttamanns er samofin sögu íþróttahreyfingarinnar á Íslandi, í hartnær 40 ár af öldinni sem leið.
Á fjórða áratug síðustu aldar dvaldi Björn við verslunarnám í Þýskalandi, þar sem hann jafnframt stundaði frjálsar íþróttir ásamt iðkun áhaldafimleika, þ.e. æfingar á svifrá og tvíslá. Allt þetta stundaði hann af miklu kappi, enda komst hann þar í hóp frækinna afreksmanna. Dálæti hans á „áhöldunum“, þ.e. svifrá og tvíslá, var einstakt. Árið 1934 flutti Björn svo heim til Íslands og dvaldi á Siglufirði til ársins 1939, en það ár kom hann svo aftur á æskustöðvar sínar heima á Seyðisfirði, því römm taug heimahaganna togaði fast í.
Fljótlega eftir að Björn settist að á Siglufirði kom hann á fót flokki úrvals áhaldafimleikamanna sem gerði garðinn frægan. Seyðisfjörður naut síðan krafta hans í þessum efnum allt frá árinu 1939 þar til hann lést 1965.
Mikill sjónarsviptir var að honum við fráfall hans 20. maí 1965, aðeins 56 ára að aldri. Hann hafði þá verið vel metinn bæði sem lögregluþjónn og íþróttamaður, og sett sterkan svip á seyðfirskt samfélag um áratugi. Allt frá því að Björn flutti í heimahagana 1939 var hann í fremstu röð íþróttamanna fjórðungsins, bæði hvað vetraríþróttir snerti auk allra greina frjálsra íþrótta.
Í áhaldafimleikum bar hann af öllum, enda frumkvöðull þeirrar íþróttar hér á landi. Til marks um snerpu hans má geta þess að allt fram yfir fertugsaldurinn stakk hann flesta bestu spretthlaupara landsins af í „starti“ fyrir 100 og 200 metra hlaup. Hann var eftirminnilegur öllum þeim sem honum kynntust, og er enn í fersku minni fjölda manna um allt land, vegna lipurðar í samskiptum við alla, hvort sem allsgáðir væru eða ekki. Enda kemur það heim og saman við nákvæmni hans og sérstaka snyrtimennsku.
Þessi grein er ekki skrifuð sem ævisaga Björns í Firði, heldur til að minnast drengskaparmanns sem setti svip á samfélag sinnar tíðar. Saga Björns í Firði má ekki gleymast. Það var a.m.k. skoðun 20 gamalla áhaldafimleikamanna sem sóttu heimsmeistaramótið í fimleikum sem haldið var í Árósum haustið 2006. Þegar horft var þar á bestu fimleikamenn heimsins kom Björn í Firði í huga flestra okkar, og að ekki væri lengur sæmandi að draga ritun sögu svo merks manns. Því var verkinu ýtt af stað, og standa vonir til að ævisaga hans líti dagsins ljós síðar á þessu 100 ára fæðingarafmæli kappans.
Allir gamlir nemendur og samherjar Björns, í blíðu og stríðu, þakka honum fórnfúst starf samfélaginu til heilla. Vert er að enda þetta með einkennistáknum sem Björn notaði oft á tíðum, þ.e. FFFF, og táknuðu orðin: Frækinn frískur fagur frjáls, sem lýsa áttu sönnum íþróttamanni.
Jóhann B. Sveinbjörnsson.
--------------------------------------------------------
Grein í blaðinu Siglfirðingur 8 janúar 1949
Fimleikar
Að vetrinum er varla um aðrar íþróttaæfingar að ræða hjá okkur Siglfirðingum en fimleika og skíðaferðir. Hér er engin sundlaug og ekkert íþróttahús, nema fimleikasalur barnaskólans, og hann er svo ásetinn vegna skólanna og fimleikaæfinga íþróttafélaganna, að engin stund er laus fyrir séræfingar frjálsíþrótta og knattspyrnumanna okkar.
Nú í vetur hafa fimleikaæfingar verið betur sóttar en nokkru sinni áður og er mjög ánægjulegt og ber vott um að íþróttamönnum okkar er ljóst, að fimleikarnir eru undirstöðuþjálfun flestra íþróttagreina, þeir mýkja, styrkja og stæla líkamann, auka jafnvægishæfni og fjaðurmagn og þess utan gefa þeir, öllum öðrum íþróttum fremur, iðkendum sínum glæsilegra fas og limaburð. Ég vil því hvetja ykkur, sem þegar eruð byrjuð æfingar, til þess að halda dyggilega áfram og hin til að koma og kynna sér ágæti fimleikaæfinga félaganna.
Hver sem íþróttir stundar, hvort sem það er gert sér til ánægju og hressingar eða með keppni og mikil afrek fyrir augum, þá hefir hann eða hún því meiri ánægju af þátttökunni, eftir því sem getan vex. Þetta er mjög eðlilegur þáttur i öllum athöfnum mannsins að gleðjast yfir góðum árangri í starfi sínu á hvaða sviði sem er, þess utan veitist ánægjan því auðveldar og fyrirhafnarminna eftir því sem hæfni og þjálfun eykst.
Gefist því ekki upp, þið sem skammt eruð komin, því að með ástunduninni og henni einni vex getan og þar með lánægjan af allri íþróttaiðkun. Þið munuð líka komast að raun um, að engar tómstundir skilja eftir skemmtilegri endurminningar en iðkun íþrótta í glöðum hóp. Eitt er það ennþá er ég tel fimleikunum til gildis fram yfir aðrar íþróttir sem hér eru stundaðar, það er, að þar fá þátttakendur heitt og kalt bað eftir hverja æfingu.
Fyrir utan hressingu þá er það veitir, má ekki gleyma þeirri heilbrigðis og þrifnaðarbót sem er að slíku, ekki sízt þar sem aðeins lítill hluti heimila hefir bað. Þar sem ég hefi gert fimleikana að umræðuefni, er ekki úr vegi að geta þeirra, er sómann eiga af því að halda þeim uppi hér hjá okkur.
Ber þar hæst Björn Jónsson, Firði, er hélt hér uppi fimleikakennslu fyrir KS-inga árin 1935:— 1939 af fádæma áhuga og dugnaði. Björn safnaði fé og keypti félaginu fyrstu tvíslá, sem til landsins kom einnig tvær svifslár. — Öll árin kenndi Björn af eintómum áhuga og þá aldrei eyri fyrir kennslu fimleikaflokksins.
Starf Björns hér, ásamt tryggð þeirri, er hann ávallt hefir haldið við KS-inga síðan, sent okkur jóla- og nýársóskir í útvarpi og skeytum öll árin og í fyrra albúm með myndasögu fimleikaflokksins fyrr nefnd ár með skýringum og skreytingum, er hann hefir sjálfur gert, ásamt innrammaðri stækkaðri mynd af flokknum 1935. — Ættu KS-ingar að muna og launa að verðleikum 6. ágúst n.k.,(1949) en þann dag verður Björn Jónsson fertugur.
Frá því að Björn fer héðan og fram til ársins 1942 er los á fimleikaflokknum. Þau ár eru samt gerðar nokkrar tilraunir til að halda flokknum saman af áhugamönnum í félaginu. En 1942 tekur Helgi Sveinsson alveg við flokknum og hefir stjórnað honum síðan.
Undir stjórn Helga hefir flokkurinn vaxið og dafnað,
og er nú eins og ég sagði í upphafi fjölmennari en nokkru sinni fyrr, það má eflaust mest þakka Helga, áhuga hans og dugnaði hinn góða viðgang flokksins frá því,
að hann tók við honum. Án þessara fram lögðu krafta þeirra væru ekki starfandi hér þrír fimleikaflokkar nú með 60 þátttakendum. Heill þeim fyrir störf sín,
framtak sitt og fórnarlund í þágu fimleikamálanna.
Þórir Konráðsson
-------------------------------------------------
Úr greininn „Án þess að vitna í Tómas“ eftir „fj“ í mbl.is bls. 5 þann 14 ágúst 1969 –
Þar er vitnað í Björn Jónsson……………………:
En nú ætla ég að sýna þér gestabókina", segir Helgi. Nöfn og aftur nöfn.
Skyndilega hnippi ég í Helga. Þarna hefur Björn Jónsson, Firði,
skrifað kveðjur sínar til skipverja. „Ber er hver að baki nema sér bróður eigi", hefur Björn skrifað og í lokin; „Heill ykkur í göfugu starfi".
Björn Jónsson,
Firði, var yfir pólití á Seyðisfirði, þegar ég kynntist honum. Hann gekk hnarreistur um götur bæjarins og engan þekkti ég liprari við að koma vitinu fyrir fulla sjóara. „Þið
eruð ágætis strákar", sagði Björn.
Björn er líka eini maðurinn, sem ég veit til að hafi sannreynt söguna um kattarins sjö líf.
Þá var- hann kallaður í hús til að aflífa gamla kisu, sem í þokkabót var orðin lömuð að aftan. En við fyrsta skot reis kisa upp á sínar afturfætur og fór að þoka sér í áttina til Björns. Það var svo ekki fyrr en við sjöunda skotið sem lífsþróttur kisu var búinn. Þá var Björn líka langt farinn sjálfur og hann komst enn í geðshræringu út af þessu, þegar hann sagði mér söguna. En nú hefur Helgi orðið: — ..
„Einu sinn keypti Björn bíl. Björn var orðlagt snyrtimenni og auðvitað gat hann ekki látið
sjá sig á götunum fyrr en hann hafði stífbónað bílinn. Að því loknu gekk Björn nokkur skref aftur á bak og virti verk sitt fyrir sér með ánægju. Þarna
spegluðust staðarins hús í bílnum en svo sá Björn fleira. Og í því renndi kindin á bilinn fyrsta sinni og áður en Björn gat við gert, hafði kindin bunkað bílinn
þrisvar sinnum.
Eftir þetta bónaði Björn aldrei sinn bíl".
--------------------------------------------------
Björn Jónsson, Firði . Fæddur 6. ágúst 1909 Dáinn 20 maí 1965.
Þennan mann; Björn Jónsson, Firði - Seyðisfirði dáðu Siglfirðingar.
Ekki aðeins þeir sem íþróttum unnu, heldur og ekki síður
þeim sem ekki stunduðu íþróttir, sem og foreldrar sérstaklega, fyrir þau jákvæðu áhrif sem börn nutu af hans frumkvæði.
Ég man ekki eftir Birni, þann tíma sem hann dvaldi á Siglufirði, en margar sögur hafði ég þó heyrt um hann, sögur sem allar voru jákvæðar.
Þó átti ég því láni að fagna að
kynnast honum örlíti í um hálftíma spjalli árið 1963 –
Ég var í vinnuferð til Seyðisfjarðar á vegum Síldarverksmiðja ríkisins. Það var sunnudagsmorgun
og glampandi sólskin og hiti.
Mannskapnum hafði verið gefið frí þennan dag, vegna góðs gengis verkaefna, og hafði ég fengið mér göngutúr inn í bæinn, sem
er nokkur spölur frá SR verksmiðjunum sem eru utarlega í firðinum.
Þegar ég kom að brúnni yfir Fjarðaránni, sá ég þar mann sem mér fannst ég kannast við.
Hann hallaði sér þar upp að handriði brúarinnar og lét sólina skína á andlit sitt og var með lokuð augun.
Hann hafði verið að koma úr göngutúr innnar
úr firðinum. Hann opnaði augun er ég nálgaðist, horfði á mig og sagði brosandi „Góðan daginn, það er blessuð blíðan, ekki satt“
Jú svo sannarlega
svaraði ég, og spurði svo: „Ert þú ekki Björn Jónsson“ ?
Jú það er nafn mitt svaraði hann, en hver ert þú ungi maður.
Ég kynnt mig og sagði frá
erindi mínu til Seyðisfjarðar og ástæðu fyrir mínum göngutúr. Það var eins og kippt væri í spotta, hann kipptist til, þegar hann heyrði mig segja að ég væri
frá Siglufirði.
Eftir það komu ótal spurningar um fólk sem hann hafði þekkt og gang mála og fleira. Spurði meðal annars hverjir foreldrar mínir væru og margt, margt fleira. Ég gerði mitt besta til að svara spurningum hans.
Það var greinilegt að hann bar sterkar taugar til Siglufjarðar og hinna gömlu vina hans á Siglufirði, sumir látnir en aðrir í fullu fjöri.
Þetta var ánægjulegt samtal við mann sem ég vissi að væri til, en hafði aldrei áður séð auglitis til auglitis, né talað við hann fyrr.
Steingrímur Kristinsson
(minning úr dagbók; sk)