Þorfinnur Jóhannsson - Bússi Jó

Morgunblaðið - 344. tölublað (16.12.2008)

Þorfinnur Jóhannsson fæddist á Siglufirði 19. apríl 1930. Hann lést á Landspítalanum 6. desember síðastliðinn.
Foreldrar hans voru þau Jóhann Þorfinnsson lögreglustjóri á Siglufirði, f. 18. júlí 1900, d. 26. mars 1962 og Aðalbjörg Björnsdóttir klæðskeri, f. 21. maí 1904, d. 23. september 1995.

Systkini Þorfinns eru

  • Sigurlaug Jóhannsdóttir, f. 29. janúar 1926, og
  • Björn Jóhannsson, f. 4. ágúst 1935, d. 19. október 1998.

Þorfinnur kvæntist 19. apríl 1958 Ingibjörgu Gígju Karlsdóttur, f. 27. október 1935, og stofnuðu þau sitt heimili í Hafnarfiði og bjuggu þar alla tíð.
Foreldrar hennar voru þau Karl V. Guðbrandsson, sjómaður í Hafnarfirði, f. 3. ágúst 1903, d. 25. maí 1978, og Anna Kristín Hjörleifsdóttir húsmóðir í Hafnarfirði, f. 12. maí 1904, d. 8. júní 1980.
Þau eiga þrjú börn, þau eru:

Þorfinnur Jóhannsson - Ljósmynd Kristfinnur

Þorfinnur Jóhannsson - Ljósmynd Kristfinnur

  • 1) Jóhann, f. 15 desember 1957, maki Hafdís Erlingsdóttir, f. 21. mars 1961, börn: a) Erla Dís, f. 8. febrúar 1980, b) Eva Hrönn, f. 19. janúar 1980 og c) Gígja, f. 9. júní 1986.
  • 2) Anna Kristín, f. 15. desember 1961, maki Rolf Inge Paulsen, f. 14. apríl 1961, börn: a) Ómar Berg, f. 24. október 1980, b) Kristofer, f. 23. desember 1990, sonur hans Óskar og c) Kristjan, f. 3. nóvember 1993.
  • 3) Björn, f. 28. september 1967, maki Þorgerður Hafsteinsdóttir, f. 18. maí 1970, börn a) Þórhallur, f. 22. apríl 1988, unnusta Kristjana Pétursdóttir, b) Arnór, f. 24. september 1991, c) Fannar, f. 23. janúar 2000 og d) Þorfinnur Máni, f. 22. júní 2002. Þorfinnur gekk syni Ingibjargar, Karli Jóhanni Valdimarssyni í föðurstað, f. 22. desember 1954, maki Erla Þóra Óskarsdóttir, f. 13. mars 1959, börn a) Hafþór Svanberg, f. 25. Janúar 1976, b) Magnea Guðrún, f. 15. júní 1978, maki Ingvar Tryggvason, börn þeirra eru Ástrós, Erla Ósk, Eva María og Tryggvi, c) Ingibjörg, f. 7. október 1986 og d) Guðfinnur Vilhelm, f. 3. nóvember 1988.

Þorfinnur ólst upp á Siglufirði og lauk þar barnaskólanámi og meiraprófi. Hann fór ungur í sveit til þeirra hjóna Snjólaugar og Guðjóns á Skáldalæk í Svarfaðardal.
Sem ungur maður tók hann virkan þátt í Síldarævintýrinu á Siglufirði og starfaði einnig sem leigubílstjóri.

Hann flutti ásamt foreldrum sínum til Keflavíkur 1950 og hóf störf á Keflavíkurflugvelli og vann þar sem bifvélavirki í 5 ár. Þaðan lá leið hans til Vegagerðar ríkisins þar sem hann starfaði í 10 ár. Síðan gerðist hann sjálfstæður vörubílstjóri hjá Vörubílastöð Hafnarfjarðar.

Síðustu starfsárin var hann bílstjóri hjá Sólningu. Helstu áhugamál þeirra hjóna voru ferðalög og ferðuðust þau hjónin mikið bæði innan sem utanlands. Þorfinnur var mikill hagleiksmaður og allt sem hann tók sér fyrir hendur lék í höndunum á honum.

Þorfinnur verður jarðsunginn í dag frá Hafnarfjarðarkirkju og hefst athöfnin klukkan 13.
-------------------------------------------------------------------- 

Elsku besti pabbi. Ég trúi þessu ekki enn. Það er svo stutt síðan þú komst upp á verkstæði til mín á nýja húsbílnum. Sólin var farin að hækka á lofti og allt svo bjart framundan. Þessar fréttir voru sem reiðarslag fyrir okkur öll. En þú barst þig vel eins og venjulega, það vel að enginn áttaði sig á því hve veikur þú varst. Þú gast allt, brotinn putti, ónýt vél, skemmdur bíll það var sama hvað það var, þú gast lagað allt.

Þú kenndir strákunum mínum að tálga og áttuð þið margar góðar samverustundir í húsbílnum. Þetta skarð verður erfitt að fylla. Það var ótrúlegt að fylgjast með þér síðustu vikurnar. Við vorum að spjalla um hvað við ættum að gera við húsbílinn þegar hann yrði sóttur úr geymslu í vor. Þú varst ekki að gefast upp. Þú gafst aldrei upp, það var bara ekki til hjá þér. Það er ekki ýkja langt síðan að við stóðum saman inn í bílskúr heima á Hrauntungu fyrir framan VW Bjölluna og þú sagðir, ef þú hjálpar mér við hann þennan þá mátt þú eiga hann. Allur frítími minn fór í þetta.

Við unnum saman í þessu og viti menn, við breyttum Bjöllunni í Bens. Þarna kviknaði áhugi minn á því að verða bílasmiður. Um miðjan nóvember kom ég til þín með Þorfinn Mána og Fannar en þá voru þeir búnir að kaupa handa þér flugvélamódel. Þeim fannst ekki hægt að horfa upp á hann afa sinn uppi í rúmi aðgerðarlausan. Það var sjón sem þeir voru ekki vanir. Þeir ætluðu að koma og smíða með þér flugvélina en þú varst of veikur til að fara í módelsmíði. Þegar þú varst kominn inn á spítala sagði Fannar að hann vildi fá módelið og þeir vildu sjálfir smíða það fyrir þig.

Þegar við sögðum þeim að afi væri dáinn sagði Fannar við Þorfinn Mána: Nú verðum við að klára flaugina. Flaugin var kláruð og að þeirra ósk fór hún með þér. Þú hefur hjálpað okkur Þorgerði svo mikið. Þú varst alltaf til taks fyrir okkur, alltaf tilbúinn að hjálpa okkur allt frá barnapössun í húsbyggingu. Stóru strákarnir okkar eiga eftir að sakna þess að geta hringt í afa til að fá aðstoð við eitt og annað. Allt þetta met ég mikils. Með kæru þakklæti fyrir allt, elsku pabbi.
Hvíl í friði. Björn.
------------------------------------------------------------ 

Elsku tengdapabbi. Það er erfitt að trúa því að þú sért dáinn, það eru ekki nema fjórar vikur síðan þú komst til okkar með glæsilegan rúmgafl sem þú bólstraðir fyrir mig. Mér er það kært að eiga þitt síðasta handverk, handverk sem þú máttir vera stoltur af og ber því merki hversu handlaginn þú varst, enda vildu fleiri eignast svona en þú varst orðinn veikari og treystir þér ekki í fleiri.

Mig langar til að þakka þér fyrir þessi rúmlega tuttugu ár sem ég átti með þér. Betri tengdaföður hefði ég ekki getað eignast. Ég er mjög þakklát fyrir alla þá hjálp sem þú veittir okkur. Það var sama hvað ég bað þig um að gera, þú gerðir allt fyrir mig. Hvort sem það var að gera við hálsmenið mitt eða hjálpa okkur við að byggja hús. Þið hjónin voruð líka dugleg að passa strákana okkar þegar við þurftum á því að halda.

Þú varst strákunum okkar Bödda frábær afi, enda var erfitt að koma heim af spítalanum þennan morgun og segja þeim frá því að afi Bússi væri dáinn. Sorgin er mikil og tímarnir framundan erfiðir en við eigum góðar og fallegar minningar í huga okkar og hjarta sem koma okkur í gegnum þetta saman. Við hjálpumst að við að halda utan um Ingibjörgu og styðjum hana í þessari miklu sorg okkar.
Guð geymi þig, Þorgerður
------------------------------------------------------

  • Vertu yfir og allt um kring
  • með eilífri blessun þinni,
  • sitji Guðs englar saman í hring
  • sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Með þessari bæn viljum við kveðja elskulegan afa okkar og vin. Þú kenndir okkur svo margt sem við eigum eftir að búa að alla ævi. Við elskum þig afi Bússi og söknum þín mikið. Við pössum ömmu Imbý fyrir þig. Hittumst seinna.

Þínir afastrákar Þórhallur, Arnór, Fannar og Þorfinnur Máni.
----------------------------------------------------------------------------

Allt hefur sinn tíma og hver tími hefur sinn tilgang, hver einasti maður hefur sinn tilgang. Hver maður hefur fram að færa einstæða gjöf eða sérstakar gáfur til að gefa öðrum. Fæstir búa yfir óbifanlegri þrautseigju, en þeim, sem þann eiginleika hafa, mistekst sjaldan ætlunarverk sitt. Því þögult vald þrautseigjunnar vex í takt við tímann.

Það eru liðin 33 ár síðan að við Lilla hittum Þorfinn í fyrsta sinn. Það var á Þingvöllum og vorum við þar í fylgd með Gunnu og Viðari. Á þessum tíma var hjólhýsaöldin að hefjast og er mér nær að halda, að þau Þorfinnur og Ingibjörg hafi verið með þeim fyrstu sem fóru að draga slíkt um vegi landsins.

Þarna á Þingvöllum vorum við Lilla hvött til þess að fá okkur hjólhýsi og gekk það eftir litlu síðar. Í þennan hóp komu einnig Einar Matt. og kona hans Erna. Og auðvitað voru börnin með sem enn voru í foreldrahúsum, því nú var lagst í ferðalög.
Og ferðirnar urðu æði margar. Á þessum ferðum okkar kynntumst við Þorfinni vel. Ekki kann ég að segja frá því, hvort Þorfinnur hafi verið langskólagenginn sem bílaviðgerðarmaður eða vélvirki enda skiptir það ekki máli.

Hann var afburða snjall þegar kom að þessum hlutum. Mér er minnisstætt er við vorum á leið norður og vorum stödd við Þórisvatn. Við keyrðum fram á hóp manna en einn í þessum hópi var kunningi minn. Hann sagði mér að það hefði farið afturhjólalega í Broncónum hans, hann ætti von á annarri legu frá Sigöldu því af einhverjum ástæðum hefði maðurinn eyðilagt fyrri leguna.

Ég lét kunningja minn hafa nýja legu og hann lét hana í hendurnar á sama manni sem hafði komið fyrri legunni fyrir kattarnef. Sá ætlaði nú að hita leguna en þessar legur mátti alls ekki hita. Þegar Þorfinnur sá hvað var að gerast greip hann um hendi mannsins og sagði: „Við gerum þetta ekki svona væni minn.“ Tók af honum leguna og dúkkaði hana niður öxulinn þar til hún sat á réttum stað.

Þá tók hann krumphringinn og rétti hann til mannsins sem vildi hita leguna og sagði: „Þú mátt hita þennan hring væni minn.“ Hann hafði gaman af því að koma okkur á óvart. Eitt sinn er við vorum stödd á Auðkúluheiði buðu þau Þorfinnur og Ingibjörg í mat. Þarna á heiðinni í blíðunni á prímus á afturhleranum á Broncónum var eldaður siginn fiskur og borinn fram með hamsatólg og íslenskum kartöflum. Það væri margt fleira hægt að segja og tína til frá þessum ferðum okkar, en látum þetta nægja.

Á kveðjustund er horft til baka, vegferðin skoðuð og við reynum að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem situr eftir. Okkur Lillu er mjög minnisstætt þá er eldri sonur okkar lést viðmót Þorfinns á þeim erfiða tíma. Við biðjum Hinn Hæsta Höfuðsmið að láta hann hvílast á sínum grænu grundum og leiða hann að vötnunum, þar sem hann má næðis njóta. Kæra vinkona Ingibjörg. Þér, börnum þínum og fjölskyldum þeirra sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ó, ljóssins Guð, þú líknin manns,
þitt ljós af hæðum skín.
Vér synir og dætur sorga ranns
vér sækjum öll til þín.

Ragnar, Guðlaug, Guðrún, Viðar, Erna, Sigrún, Eysteinn.
------------------------------------------------------------------ 

Laugardagsmorgunn, síminn hringir. Ég lít á símann og ég fatta áður en ég svara hvað er þegar ég sé að það er pabbi. Afi Bússi er farinn frá okkur. Ég kveð pabba og fer að gráta. Það er skrýtið að skrifa þessi orð því mér hefði aldrei dottið í hug að afi myndi fara frá okkur núna en síðan ég fékk fréttirnar hafa minningarnar streymt fram.

Með þessum orðum kveð ég þig, afi, í síðasta skipti. Það sem stendur upp úr eru útilegur með fjölskyldunni víðs vegar um land þegar ég var yngri og eru mér sérstaklega minnistæðar ferðirnar, hvort sem var í tjaldi eða sumarbústað í Húsafelli en þangað fórum við oft á ári m.a. um páska. Þegar ég var yngri var afi vanur að kalla mig „litla lambið sitt“ og það er nokkuð sem ég mun alltaf muna eftir.

Ég man líka á Hrauntungu þegar ég kom þar inn og afi var hvergi sjáanlegur og ég spyr ömmu hvar afi er og svarið er: „úti í bílskúr“ og í eitt skiptið var svarið frá mér ,,eins og vanalega“. En ef hann var heima var hann oft eitthvað að dunda sér úti í bílskúr, hvort sem var að taka til, dytta að bílum eða eitthvað annað og ég man að það var kallkerfi á milli bílskúrsins og hússins og oft þurfti að kalla á hann þegar hann gleymdi sér og ég var stundum að sniglast í kringum hann.

Eitt man ég nánast eins og það hefði gerst í gær en þá var ég á Hrauntungu og amma að elda og hún biður mig að skræla fyrir sig kartöflur, þegar ég er búin með nokkrar kemur afi og honum líst nú ekki á þegar hann sér að ég „tálga“ þær og er fljótur að grípa hnífinn og kenna mér réttu handtökin. Ég man eftir gamaldagsbænum sem afi smíðaði og setti út í garð sem hann hugsaði alltaf svo vel um eða reyndar þau bæði. Eitt árið fékk hann tæki sem notuð voru til að grafa í hluti og ég eignaðist litla glerkönnu með nafninu mínu á og um jólin það árið fékk ég rautt vasadiskó sem afi hafði sett nafnið mitt á og ég get sagt að mér var farið að þykja vænt um það.

Ég minnist líka 19. apríl á þessu ári sem var ekki eingöngu afmælisdagur hans heldur líka 50 ára brúðkaupsafmælisdagur afa og ömmu og haldið var matarboð heima hjá pabba þar sem öll fjölskyldan var samankomin í gleði. Það er eitt sem ég á virkilega eftir að sakna varðandi afa og það er tikkið í hjarta hans, en það var eins og tikk í klukku. Ég man að mér fannst þetta svolítið skrýtið fyrst en með tímanum hætti maður að taka eftir þessu. Þetta er bara brot af því sem kemur upp í huga mér en hitt geymist til betri tíma.

Elsku afi Bússi, með þessum orðum vil ég kveðja þig og vona að þér líði vel hvar svo sem þú ert og ég efast ekki um að þú eigir eftir að vaka yfir okkur og passa og þá sérstaklega ömmu Imbý sem situr ein eftir á Daggarvöllunum. Mér þykir og mun alltaf þykja vænt um þig, elsku afi minn. Elsku amma, pabbi, Böddi, Anna Stína og Kalli og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og veit að ákveðið tómarúm ríkir hjá ykkur öllum og bið Guð að styrkja okkur öll á þessum erfiða tíma sem framundan er og þá sérstaklega þegar jólin koma því það verður skrýtið að afi verði ekki með okkur.
Eva Hrönn
----------------------------------------------------- 

Hinsta kveðja
Elsku pabbi minn. Nú ert þú engill á himnum. Ég er svo þakklát fyrir að hafa verið hjá þér síðustu dagana. Svo þakklát fyrir að ég var hjá þér þegar þú fórst. Ég á eftir að sakna þín svo mikið.

  • Ég lít í anda liðna tíð,
  • er leynt í hjarta geymi.
  • Sú ljúfa minning – létt og hljótt
  • hún læðist til mín dag og nótt,
  • svo aldrei, aldrei gleymi …

(Halla Eyjólfsdóttir.)
Þín Anna Kristín