Ingibjörg Sigþóra Guðnadóttir

Morgunblaðið - 15. júní 2006

Ingibjörg Guðnadóttir fæddist á Siglufirði 13. desember 1920. Hún lést á bráðadeild Landspítalans að kvöldi 6. júní 2006

Ingibjörg ólst upp á Siglufirði hjá foreldrum sínum, Pálína Jónsdóttir, f. 14.3. 1885, d. 24.3. 1955 og Guðni Guðnason, f. 4.5. 1890, d. 15.5. 1963.

Systkini Ingibjargar voru 8 en 4 þeirra dóu í frumbernsku. Auk þess ólu foreldrar Ingibjargar upp fósturdóttur, Hugljúfu Dagbjartsdóttur, sem nú er látin.

Þau systkini Ingibjargar er lifðu til fullorðinsára voru:

 • Hreiðar Guðnason, f. 7.8. 1913, Gústav, f. 1.8. 1915,
 • Jóhann Guðnason, f. 12.2. 1919 og
 • Sigþór Guðnason, f. 16.8. 1925.

Systkinin eru nú öll látin auk fóstursystur þeirra, Hugljúfar.

Ingibjörg Guðnadóttir - ljósmyndari ókunnur

Ingibjörg Guðnadóttir - ljósmyndari ókunnur

Hinn 24. janúar 1942 giftist Ingibjörg Böðvar Egilsson, vélstjóra frá Ísafirði, f. 16.6. 1920, d. 18.9. 1967.

Þau hjón hófu búskap hjá foreldrum Ingibjargar að Túngötu d. 25.8. 1969.

Þau hjón hófu búskap hjá foreldrum Ingibjargar að Túngötu 18 á Siglufirði, sem var eins konar fjölskyldumiðstöð foreldra Ingibjargar.

Ingibjörg og Böðvar eignuðust tvær dætur,

Brynja Böðvarsdóttir
, f. 6.8. 1942 - Brynja giftist 16.6. 1962
Snorri Þórðarson
 frá Siglufirði, f. 16.6. 1942, og eignuðust þau fimm börn, þau eru:
 • 1) Böðvar, f. 7.10. 1961, kvæntur Kristínu V. Jónsdóttur, f. 11.8. 1962. Börn þeirra eru Gunnar Þór, f. 13.3. 1985 og Brynja, f. 27.5. 1989.
 • 2) Þórður, f. 16.8. 1962, kvæntur Herdísi Sigurðardóttur, f. 7.3. 1964. Sonur þeirra er Snorri K., f. 27.9. 1984. Unnusta hans er Brynja Gunnarsdóttir, f. 19.1. 1988.
 • 3) Ingibjörg Halldóra, f. 15.1. 1964, gift Páli Ólafssyni, f. 1.5. 1960. Börn þeirra eru Páll Ingi, f. 6.5. 1984 og Alexandra, f. 16.7. 1990. Dóttir Páls Inga og unnustu hans, Hörpu Dísar Úlfarsdóttur, f. 31.3. 1984, er Sara Dís, f. 27.4. 2006.
 • 4) Brynja, f. 31.7. 1969, d. 25.8. 1969.
 • 5) Sigríður Brynja, f. 17.10. 1971, gift Gylfa Guðmundssyni, f. 7.10. 1968. Börn þeirra eru Bjarki, f. 7.1. 1998, Guðmundur Freyr, f. 23.6. 1999 og Karen Inga, f. 14.9. 2004.
Hjördísi, f. 22.6. 1944. - Hinn 28.3. 1964 gekk Hjördís í hjónaband með Bergi Guðnasyni frá Reykjavík, f. 29.9. 1941 og eiga þau 4 börn, þau eru:
 • 1) Guðni, f. 21.7. 1965, kvæntur Elínu Konráðsdóttur, f. 30.3. 1963. Þau eiga tvö börn, Berg, f. 6.1. 1992 og Páldísi Björk, f. 10.2. 1998.
 • 2) Sigríður, f. 23.11. 1966, maki hennar Skúli Rúnar Skúlason, f. 23.8. 1963. Börn þeirra eru Hjördís, f. 21.9. 1992, Unndís, f. 24.7. 1994 og Guðjón Fannar, f. 14.3. 2006.
 • 3) Böðvar, f. 19.9. 1970. 4) Bergur Þór, f. 26.7. 1977.

Ingibjörg hóf störf eftir að þau hjónin fluttust til Reykjavíkur 1965 hjá versluninni Vogue á Skólavörðustíg og starfaði þar þangað til að hún hætti vegna aldurs á áttunda áratug síðustu aldar. Böðvar, eiginmaður Ingibjargar, sem stundaði sjómennsku alla sína starfsævi, féll frá 1967 og varð Ingibjörg ekkja aðeins 46 ára að aldri. Útför Ingibjargar verður gerð frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.
Hún verður jarðsett við hlið eiginmanns síns og barnabarns, Brynju Snorradóttur, í Fossvogskirkjugarði

Eftir áratuga kynni mín af Ingibjörgu Guðnadóttur, tengdamóður minni, er mér tregt tungu að hræra. Innan fjölskyldunnar gekk Ingibjörg alltaf undir nafninu Didda amma. Þessi smávaxna og ávallt snyrtilega kona var í reynd „mater familias“, sem alltaf var boðin og búin til að rétta hjálparhönd í sinni stóru fjölskyldu, hvar sem þess var þörf. Afkomendur hennar, sem orðnir eru 24, gátu alltaf leitað til Diddu ömmu ef aðstoðar var þörf í stórfjölskyldunni.

Hún fór sjálf allra sinna ferða á bílnum og þótt hún væri komin vel á níræðs aldur var hún sífellt á ferðinni til að gæta allra „unganna sinna“, ef einhver þarfnaðist hjálpar að hennar mati. Tveir synir okkar Hjördísar, sem búa saman, fóru ekki varhluta af umhyggju Diddu. Þeir sakna ömmu sinnar sárlega ekki aðeins sem ömmu, heldur hjálparhellu í þessa orðs fyllstu merkingu.

Didda var fædd á Siglufirði og ólst upp við „síldarævintýrið“ frá blautu barnsbeini. Þar stofnaði hún heimili með tengdaföður mínum, Böðvari Egilssyni, og eignuðust þau dætur sínar tvær, Brynju árið 1942 og konu mína, Hjördísi, 1944. Þær systur ólust upp á heimili stórfjölskyldunnar, að Túngötu 18, í skjóli ömmu sinnar og afa. Túngata 18 var svo sannarlega miðpunktur fjölskyldunnar.

Þar hófu mörg barna Pálínu og Guðna búskap áður en þau komu sér upp eigin heimili. Um tíma bjuggu fjórar fjölskyldur í Túngötunni, alls 15–20 manns. Tengdaforeldrar mínir eignuðust að lokum húsið og seldu það þegar þau fluttust til Reykjavíkur. Nú hefir þetta merkilega hús verið endurbyggt af miklum myndarskap eins og fleiri gömul hús á Siglufirði nú á síðustu árum. Böðvar var vélstjóri að mennt og stundaði sjómennsku til dauðadags árið 1967.

Nokkru fyrr höfðu Didda og Böðvar flust til Reykjavíkur enda báðar dæturnar flognar úr hreiðrinu með mökum og sívaxandi barnahópum. Didda varð sem sagt ekkja aðeins 46 ára að aldri. Hún var af þeirri kynslóð, sem bar ekki sorgir sínar á torg, en skyndilegt fráfall Böðvars var að sjálfsögðu gífurlegt áfall, en Didda bar harm sinn í hljóði. Þá var ekki til siðs að fá áfallahjálp.

Didda sýndi þá úr hverju hún var gerð. Hún hafði hafið störf hjá Vogue og sannaði sig fljótt sem einn traustasti starfsmaður þeirrar verslunar og þekktu margir viðskiptavinir þeirrar vinsælu verslunar hana sem „Diddu í Vogue“. Þar starfaði Didda fram á áttræðisaldur. Hún keypti sér eigin íbúð árið 1974 í Krummahólum 2 og bjó þar til dauðadags. Didda hafði aldrei löngun til þess að fara á elliheimili.

Slíkt var bara fyrir aldrað fólk eins og hún orðaði það í fyllstu alvöru. Mér skilst að Didda hafi verið orðin „amma“ allra þeirra barna í húsinu, sem til hennar sóttu. Hún var fastur punktur og skipti aldrei skapi í samskiptum sínum við fólk jafnt innan sinnar fjölskyldu og gagnvart vandalausum. Didda var þó alls ekki skaplaus manneskja. Hún hafði einfaldlega fulla stjórn á skapsmunum sínum þrátt fyrir ákveðnar skoðanir á flestum hlutum, aðallega stjórnmálum og meðal annars knattspyrnu!

Nú þegar ég kveð tengdamóður mína hinstu kveðju rifjast upp fyrir mér allar góðu stundirnar með þessari smávöxnu og svipmiklu konu, sem ég get nú enn einu sinni þakkað fyrir að hafa fætt eiginkonu mína og þar með veitt mér og konu minni barnalán, sem sífellt verður mikilvægara eftir því sem aldurinn færist yfir. Ég hlýt nú að minnast glæsileika Diddu hvenær sem við sáumst. Hún var alltaf óaðfinnanlega klædd fallegum fötum, með silfurgrátt hárið vandlega greitt.

Öðruvísi fór Didda ekki út fyrir dyr! Áður en hún lagði upp í sína hinstu för á dánardegi sínum gaf hún sér tíma til að snyrta sig og klæða, þannig að sómi væri að þegar hún kæmi upp á Landspítala. Hennar síðustu orð í þessu langa lífi voru: „Það er allt í lagi!“ Didda kvaddi þetta jarðneska líf sátt við Guð og menn. Hennar langa og farsæla líf var svo sannarlega „allt í lagi“. Nú hittir Didda aftur æskuástina og eiginmanninn sinn, Böðvar, sæl og glöð. Megi góður Guð varðveita mína einstöku tengdamóður, Diddu Guðna.

Bergur Guðnason.
-----------------------------------

Amma okkar var falleg kona, amma okkar hafði ákveðnar skoðanir, amma okkar horfði á boltaleiki, amma okkar kvartaði aldrei, amma okkar var fyndin, amma okkar var nægjusöm, amma okkar var alltaf vel til höfð, amma okkar var lítil en samt svo stór, amma okkar elskaði sólina, amma okkar var stolt af sínu fólki, amma okkar las mikið, amma okkar var dugleg, amma okkar naut sín í veislum, amma okkar er og verður alltaf amma okkar.

Elsku amma, þú varst einstök og sterk kona, minning þín lifir áfram með okkur.

Ingibjörg Halldóra og Sigríður Brynja.
------------------------------------------------

Elsku amma, fráfall þitt bar svo brátt að. Þú varst alltaf svo brött. Barst þig vel, stolt og keik, brunandi um á bílnum þínum fram á síðasta dag. Ég á eftir að sakna þín amma mín. Ég mun alltaf minnast heimsókna þinna til okkar í Englandi og símtalanna þar sem þú leitaðir frétta og hvattir mig áfram. Þú varst alltaf svo stolt af þínu fólki og aldrei var það sýnilegra en þegar þú bauðst öllum í árlegt afmæliskaffi í Breiðholtinu og horfðir glöð yfir hópinn.

Bergur og Páldís Björk eru svo hissa að amma Didda sé horfin á braut. Við erum öll slegin en huggum okkur þó við það að þú þurftir ekki að líða neitt eða vera upp á aðra komin. Það hefðir þú nú örugglega ekki viljað amma mín. Ég held að svona hefðir þú einmitt viljað fara í ferðina löngu. Páldís Björk trúir því að þú sért orðin engill og búin að hitta Guð. Því viljum við Ella og Bergur líka trúa. Ég þakka þér fyrir allt elsku amma, hvíl í friði.

Þinn dóttursonur Guðni.
-----------------------------------------------

Elsku amma. Þú ert örugglega ein af þeim sem geta litið um öxl og sagt „ég hef átt gott líf“. Þegar maður horfir yfir afkomendur þína þá veit ég að þú ert stolt. Ekki það að hér séu eintóm stórmenni, heldur hitt að hér er gott fólk á ferð. Didda var talandi dæmi um það að það þarf ekki ríkidæmi til að öðlast virðingu eða hamingju í lífinu. Þú varst svo örugg í fasi og félagslynd að það var aðdáunarvert. Allt okkar líf varst þú til staðar og orðatiltækið „enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“ öðlast alvöru merkingu.

Síðustu ár hefur þú verið tíður gestur á heimili okkar bræðra. Litlu drengirnir, sem eru þó að verða 29 ára og 36 ára, voru með akkeri í sínu lífi og það varst þú. Með reglulegu millibili lá þúsund króna seðill á náttborðinu. Við reyndum að skýra þetta út, „við erum í góðri vinnu og þénum ágætlega“.

Næstu daga var óvenjumikið af kókómjólk og öðrum nauðsynjavörum í ísskápnum. Þú fórst með sigur af hólmi eins og svo oft áður. Áhugi þinn á fótbolta var mikill og voru ófá símtöl í hálfleik þar sem þú lýstir yfir áhyggjum með Boltonliðið og þínar áhyggjur voru nánast alltaf á rökum reistar. Þú kenndir okkur mikið og því munum við ekki gleyma. Við þökkum þér fyrir frábærar stundir og lofum að gera þig stolta.

Böðvar og Bergur Þór.
----------------------------------

Elsku Didda frænka, við þökkum þér samfylgdina og hjartahlýjuna. Með þessum ljóðlínum viljum við minnast þín.

 • Sárt er vinar að sakna.
 • Sorgin er djúp og hljóð.
 • Minningar mætar vakna.
 • Margar úr gleymsku rakna.
 • Svo var þín samfylgd góð.
 •  Daprast hugur og hjarta.
 • Húmskuggi féll á brá.
 • Lifir þó ljósið bjarta,
 • lýsir upp myrkrið svarta.
 • Vinur þó félli frá.
 • Góða minning að geyma
 • gefur syrgjendum fró.
 • Til þín munu þakkir streyma.
 • Þér munum við ei gleyma.
 • Sofðu í sælli ró.

(Höfundur ók.)

Við sendum dætrum föðursystur okkar, Brynju og Hjördísi, og fjölskyldum þeirra innilega samúðarkveðju.
Guð blessi minning Diddu frænku. María og Hreiðar.