Halldór Stefán Pétursson

Mbl.is 5. mars 2015 | Minningargreinar

Halldór Pétursson fæddist á Sauðárkróki 14. maí 1934. Hann lést á Landspítalanum 26. febrúar 2015.

Foreldrar hans eru Pétur Laxdal Guðvarðarson, húsasmíðameistari á Sauðárkróki, Siglufirði og Reykjavík, f. 13.2. 1908, d. 28.5. 1971, og Ingibjörg Jakobína Ögmundsdóttir, f. 12.5. 1906, d. 12.6 2009.

Systkini Halldórs eru

 • Kristín Björg Pétursdóttir, fyrrv. starfsmaður hjá Borgarverkfræðingi, f. 28.12. 1930;
 • Sigurjón Pétursson trésmiður og fyrrv. borgarfulltrúi, f. 26.10. 1937, d. 10.2. 2002, og

Ingibjörg Soffía Sik Pétursdóttir, iðjuþjálfari í Svíþjóð, f. 8.8. 1940.

Eiginkona Halldórs er Ólöf Sigurðardóttir húsmóðir, f. 19.9. 1939. Hún er dóttir Sigurðar Péturssonar bifreiðastjóra frá Neskaupstað, f. 1905, d. 1994, og konu hans Sigríðar Eirikku Markúsdóttur frá Reyðarfirði, f. 1903, d. 1982.

Halldór Pétursson Laxdal
ókunnur ljósmyndari

Halldór Pétursson Laxdal
ókunnur ljósmyndari

Börn Halldórs og Ólafar eru:

 • 1) Pálmar Halldórsson, f. 14.8. 1960, byggingafræðingur og matreiðslumaður, kvæntur Hörpu Sif Sigurvinsdóttur flugfreyju; eiga þau tvö börn, Fannar Pétur og Elísu Ólöfu; börn Pálmars og Helgu G. Hallsdóttur eru Stefanía Helga, Hildur Sif, Halldóra Björg og Arna Fjóla.

 • 2) Bára Halldórsdóttir, f. 29.5. 1963, rafeindavirki og verkefnastjóri, sonur hennar og Jóns Sveinssonar er Halldór Stefán.
 • 3) Ingibjörg Edda, f. 5.5. 1965, leikskólakennari.
 • 4) Birna, f. 20.10. 1967, húsgagnasm. í Danmörku; synir hennar og Helga Valgeirssonar eru Helgi og Búi. Fósturdóttir Halldórs og dóttir Ólafar er Guðbjörg Sigurðardóttir, f. 6.5. 1959, leikstjóri og framleiðandi, gift Ottó Guðjónssyni lækni; börn þeirra eru Guðlaug, Tinna og Ottó Ólafur. Langafabörn eru Eiður Rafn og Helga Lovísa.

Halldór Pétursson (Dóri Laxdal) tók fullnaðarpróf frá Barnaskóla Siglufjarðar, var einn vetur í gagnfræðaskóla og annan í Iðnskólanum á Siglufirði.
Halldór útskrifaðist með hið meira fiskimannapróf frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1958.

Halldór hóf sjómennskuferil sinn sem háseti á
Millý SI 81 1949 á síldveiðum og var á ýmsum bátum og togurum frá Siglufirði, Keflavík, Vestmannaeyjum, Hafnarfirði og Reykjavík til 1966.

Má þar nefna

 • Þormóð ramma þar til hann strandaði við Sauðanes 25. nóvember 1950;
 • Ingvar Guðjónsson EA;
 • Þráin VE;
 • Skjöld SI;
 • Freyju VE;
 • Hjört  trilluna;
 • Vörð VE;
 • Keflvíking;
 • Pétur Halldórsson;
 • Júlí GK 21;
 • Brimnes NS 14;
 • Gerpi NS 106;
 • Fák GK 24;
 • Maí GK 346;
 • Júní GK 345;
 • Helga Hjálmarsson GK;
 • Þorkel mána RE 205;
 • Tálknfirðing BA 325 og
 • Gísla lóðs GK

Sumarið 1966. 1967 til 1972 vann Halldór hjá föður sínum í byggingavinnu og stundaði nám í húsasmíði. 1973-1976 var Halldór afgreiðslustjóri á Þjóðviljanum.

 • Halldór fór aftur til sjós 1976, fyrst nokkra túra með Guðmundi Jónssyni GK 475 til að kynna sér skuttogara og veiðar með flotvörpu.
 • Skipstjóri á Hafsteini RE 1978-79 og um haustið 2. og 1. stýrimaður og síðar skipstjóri á Bjarna Benediktssyni RE 210. Haustið 1982 yfirstýrimaður og skipstjóri á Viðey RE 6. Sumarið 1983 2. og 1. stýrimaður á Ottó N. Þorlákssyni RE 203 og frá 1985 til 1997 1. stýrimaður og skipstjóri á Ottó N. Þorlákssyni.

Útför Halldórs fer fram frá Fella- og Hólakirkju í dag, 5. mars 2015, kl. 13.

 • Kvöldblíðan lognværa kyssir hvern reit
 • komið er sumar og fögur er sveit.
 • Sól er að kveðja við bláfjalla brún
 • brosa við aftanskin fagurgræn tún.
 • Seg mér hvað indælla auga þitt leit
 • íslenska kvöldinu í fallegri sveit.

(Guðm. Guðm.)

--------------------------------------------------
Elsku besti pabbi og afi.

Nú ertu lagður frá höfn í hinsta sinn. Við þökkum þér lífið, samveruna og allar þær góðu minningar fullar af sögum, lestri og ýmsu skemmtilegu bralli. Við trúum því að þú sért á indælum stað, laus við þjáningar.

Megi góður guð styrkja mömmu/ömmu og okkur öll í sorginni.

 • Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest
 • og hleyptu á burt undir loftsins þök.
 • Hýstu aldrei þinn harm. Það er best.
 • Að heiman, út, ef þú berst í vök.
 • Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,
 • ei böl sem ei þaggast, ei lund sem ei kætist
 • við fjörgammsins stoltu og sterku tök.
 • Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

(Einar Benediktsson)

Með kveðju, þín Birna, Helgi og Búi.
------------------------------------------------

Halldór eða Dóri eins og hann var oftast kallaður var tengdafaðir minn. Ég kynntist honum fyrst þegar hann og Ólöf tengdamóðir mín bjuggu í Gljúfraselinu, þegar ég var að gera hosur mínar grænar fyrir Guðbjörgu. Fyrstu minningar mínar um Halldór eru af honum að koma að landi, úti á Granda þegar hann var á togaranum Ottó N. Þorlákssyni og bakkaði honum svo ljómandi fallega inn á stæði svona rétt eins og við hin leggjum bíl, enda maðurinn búinn að vera til sjós í áratugi sem stýrimaður og skipstjóri. Ég kynntist honum mun betur eftir að við fjölskyldan fluttum heim til Íslands eftir langa útiveru í New York.

En ég heyrði mikið af honum frá börnunum mínum sem dvöldust öll sumur á Íslandi með Guðbjörgu meðan við bjuggum í Ameríku, það var greinilegt að hann var góður afi. Þau töluðu um heimsóknir til afa Dóra í sveitina og hestana hans Stíganda og Bjart. Öll þrjú, Guðlaug, Tinna og Ottó Ólafur höfðu gaman af hestunum og það var farið á hestbak með afa Dóra, en mest smitaðist áhugi hans á hestum til Guðlaugar, sem er í hestamennsku af sama eldmóð og áhuga. Hún er með hest ættaðan úr Skagafirði sem heitir Bjartur í höfuðið á Bjarti hans afa Dóra.

Eftir að Halldór hætti að geta farið upp í hesthús, fór Guðlaug iðulega í heimsókn til afa Dóra eftir að hafa verið uppi í hesthúsi og faðmaði hann svo hann gæti fundið hestalyktina, þetta þótti þeim báðum vænt um. Ég minnist einnig Halldórs vegna hinna fjölmörgu rökræðna sem við áttum þegar við fórum í lambalæri hjá ömmu Ólu. Halldór var mjög pólitískur en fyrst og fremst víðsýnn og fróður. Ég hafði mjög gaman af að rökræða um allt milli himins og jarðar við hann og aldrei kom maður að tómum kofunum. Hreint ótrúlegt hvað hann var víðlesinn og í seinni tíð farinn að nota internetið til að afla sér frekari fróðleiks. Hann skilur eftir sig stórt skarð og verður sárt saknað.

Hvíl þú í friði.
Ottó Guðjónsson.
--------------------------------------------------

Afi minn og nafni.

Mikið er tómlegt hér þegar þú ert farinn.

Við vorum vinir og félagar. Við fórum á kaffihús, skoðuðum Sjóminjasafnið og höfnina og vorum alltaf saman. Við gátum talað saman og þagað saman og alltaf leið okkur vel.

Það var ótrúlegt að horfa yfir Héðinsfjörðinn og vita að þar var þitt leiksvæði þegar þú varst 14 ára. En þá áttir þú trillu og sigldir þangað til að leika þér og æfa þig fyrir framtíðarstarfið. Það var líka ógleymanleg stund þegar þú sagðir mér frá strandinu og björguninni á Þormóði Ramma. Þú varst aðeins 16 ára, langyngstur um borð og alla nóttina stóðstu uppi á stýrishúsinu, hélst þér í mastrið í brjáluðu veðri.

Á meðan gekk brotið yfir bátinn og kastaði honum til og frá. Frásögnin tók á þig og mig líka og þú sagðir mér að síðan hefði þér alltaf verið kalt á fótunum. En þú varst sjómaður af lífi og sál. Þú hættir á sjónum sama ár og ég fæddist og þegar ég eignaðist mína fyrstu veiðistöng bað ég þig að koma með mér að veiða. Svarið var einfalt: „Nei, ég veiði ekki í stykkjatali.“ Ég held að þetta hafi verið í eina skiptið sem þú neitaðir mér um eitthvað.

Sveitin var okkar staður. Þar nutum við þess að vera saman með ömmu. Þú kenndir mér á verkfærin þín og hvernig ég ætti að nota þau. Með þinni leiðsögn tókst mér að smíða nýjan pall undir róluna og vorum við báðir á því að hann muni endast lengi. Og alltaf var amma til staðar til að dekra við okkur.

Missir ömmu er mestur en ég lofa þér því að ég mun hugsa vel um hana fyrir þig. Hún hefur allavega einn Halldór Stefán.

Ég sakna þín. Vertu sæll.

Þinn nafni,  Halldór Stefán Jónsson.
------------------------------------------------------

Látinn er góður félagi og vinur. Það var 1996 að við hjónin keyptum okkur fokheldan sumarbústað við Þjórsána. Nokkru seinna urðum við vör við hjón sem voru að byrja að athafna sig í næsta nágrenni, reyndust það vera Halldór og Ólöf sem höfðu fjárfest í lóðinni. Næst þegar við komum var búið að steypa sökkla.

Svo var það einn daginn að byrjað var að reisa veggi og í suðaustan slagviðri var verið að reisa sperrur, sá ég fljótt að menn voru fáliðaðir í þessu veðri og varð það til þess að ég gallaði mig upp og fór og bauð fram aðstoð mína. Þarna upphófst okkar kunningsskapur sem hefur varað síðan. Í ljós kom að báðir vorum við í hestastússi, sem leiddi að fleiri ánægjustundum. t.d. með samreið árlega frá Selfossi og þá geislaði gleðin af mínum manni, fórum við greitt um héruð svo sumum ofbauð.

Þá tókum við að okkur í mörg ár að sinna störfum fyrir félag okkar á Lónsholtssvæðinu, ég sem formaður en Halldór sá um kassann, leiddi þetta af sér nánara samband og fundi úti á verönd með góðum veitingum sem Ólöf skenkti okkur af sínum rausnarskap. Við félagarnir á sumarhúsasvæðinu þökkum þér fyrir þau störf sem þú hefur unnið fyrir okkur.

Hin seinni ár hefur verið hægara sambandið hjá okkur en stundum sest niður og rædd málin sem bara hleypti roða í kinn og síðan var hlegið að vitleysunni í okkur. Fyrir skömmu kom ég í heimsókn til Dóra upp á spítala þar sem við rifjuðum upp gamlar og góðar stundir og þegar ég kvaddi lagði ég til að við myndum bíða með að leggja á klárana. Tók hann undir það og minnti mig á að hafa þyrfti þá nýjárnaða svo hægt væri að spretta úr spori. Takk fyrir góð kynni félagi og blessuð sé minning þín. Við hjónin vottum Ólöfu og fjölskyldu okkar innilegustu samúð.

Hilmar og Aldís.
---------------------------------------------------

Elsku Dóri.

Ó, hvað það er sárt að þurfa að kveðja þig eftir hetjulega baráttu við erfið veikindi. Þú varst ekki tilbúinn til að fara og þráðir heitast að geta haldið áfram og sigrast á veikindunum. Lífsviljinn, bjartsýnin og krafturinn sem þú bjóst yfir var ótrúlegur, en við trúum því að þú sért kominn á betri stað, laus við veikindin og þér líði vel.

Við frænkurnar áttum því láni að fagna að kynnast þér, pabba bestu vinkonu okkar, Birnu, þegar við vorum ungar stelpur. Þú tókst okkur alltaf afskaplega vel og varst mikill höfðingi, rausnarlegur og hjálpsamur fram úr hófi. Sem skipstjóri á einum helsta togara landsmanna varst þú oft í burtu úti á sjó og varð þá eftirlifandi eiginkona þín, Ólöf, að sjá um heimilið sem hún gerði af miklum rausnarskap svo af bar.

Þú varst ímynd sjómennskunnar og karlmennskunnar. Höfðinglegur og rausnarlegur svo eftir var tekið. Þú varst stór og sterkur, mikill karakter, mannþekkjari og alltaf blíður, traustur, góður og örlátur. Þú hafðir endalausan áhuga á ættfræði og fólkinu í kringum þig og þá sérstaklega á að þekkja alla góðu Skagfirðingana sem tengdust þér. Við eigum fjölmargar minningar frá heimili þínu og Ólu að Gljúfraseli sem á þessum tíma var okkar annað heimili og þið voruð okkur sem foreldrar. Heimili ykkar Ólu hefur ævinlega staðið okkur opið og okkur alltaf tekið með opnum örmum.

Við erum lánsamar að hafa átt þig að, elsku Dóri, og erum þér og Ólu óendanlega þakklátar fyrir liðnar stundir. Það er rosalega sárt að kveðja þig, kæri vinur, ekki hefði það hvarflað að okkur þegar við hittumst síðast í brúðkaupi Helgu Dísar og Shaun í Kvistalandi að þessi stund yrði okkar síðasta. Sú stund sem við áttum með þér þetta kvöld er ómetanleg, við skáluðum og sungum eins og sannir Skagfirðingar, ræddum um alla heima og geima og í raun ræddum um allt sem mestu máli skiptir, tilfinningar. Á þessari stundu fórum við í gegnum það saman og ræddum um það allt kvöldið hversu vænt okkur þætti hverju um annað og hversu glöð og þakklát við værum fyrir allar yndislegu samverustundirnar okkar.

Það var einmitt allt rifjað upp þetta kvöld og Dóri, þú mundir eftir öllum skemmtilegu hlutunum sem við vorum jafnvel búnar að steingleyma úr fortíðinni þegar við vorum unglingar, og eitt aðaláhugamál okkar var Bubbi Morthens. Þetta kvöld var svo minnisstætt því gleðin var svo mikil að við vildum alls ekki enda kvöldið og héldum áfram að spjalla þar til Óla sagði hingað og ekki lengra, Dóri, við verðum núna að drífa okkur, klukkan er orðin svo margt. Við auðvitað hlustuðum ekkert á þessar athugasemdir Ólu og skáluðum aðeins lengur.

En þegar við kvöddumst þá var það svo innilegt og gott og væntumþykjan var algjör og við föðmuðumst og okkar síðustu orð til hans voru: Dóri, við elskum þig óendanlega mikið og erum ótrúlega þakklátar fyrir hvað þið Óla voruð alltaf kærleiksrík og örlát. Guð blessi minningu þína, elsku Dóri. Við vottum eftirlifandi eiginkonu hans, Ólöfu, Birnu vinkonu, Guðbjörgu, Pálmari, Báru, Eddu og fjölskyldunni allri dýpstu samúð.

Halla og Berglind.