Tengt Siglufirði
Halldór Kristinsson læknir
Fæddur 20. ágúst 1889. Dáinn 18. júní 1968, Sennilega hefir fólk í hverju byggðarlagi í landinu einhver sérkenni, ef vel er að gáð. Ég held til dæmis, að Siglfirðingar almennt eigi vart sína líka í því að kunna og vera eiginlegt að taka vel á móti innflytjendum. Sú var og reynzla mín og fjölskyldu minnar þegar við flutt um búferlum til Siglufjarðar fyrir fjórtán árum.
Í hópi þessa ágæta fólks var héraðslæknirinn þar, Halldór Kristinsson. Hann var einn af stjórnarmönnum Kaupfélags Siglfirðinga og urðum við því strax samstarfsmenn við komu mína sem kaupfélagsstjóri til Siglufjarðar. En sem heimilislæknir minn varð hann jafnframt fljótt vinur og ráðgjafi fjölskyldu minnar. Og betri heimilislækni en Halldór get ég ekki hugsað mér.
Alltaf var hann tilbúinn að hlusta á öll vandamál þegar til hans var leitað, jafn>- vel hin allra smæstu. Alúð hans nærfærni og framkoman öll var svo þægileg og traustvekjandi að áhyggjurnar af lasleikanum voru jafnan allar á bak og burt eftir að læknirinn hafði litið inn. Halldór naut þess, að fá að bæta úr böli annarra, og það hugarfar hefir trúlega ráðið miklu um að hann valdi læknisnámið.
Fæddur var Halldór Kristinsson að Söndum í Dýrafirði 20. ágúst 1889. Foreldrar hans voru séra Kristinn Daníelsson og kona hans Ida Friðriksdóttir. Hann varð stúdent 1909, en lauk læknisprófi við Háskóla Íslands 1916. Var við framhaldsnám í læknisfræði í Noregi 1916 og í Danmörku 1918 —19. En sem héraðslæknir starfaði hann yfir fjörutíu ár. Var fyrst veitt Reykjafjarðarhérað 1917. Héraðslæknir í Bolungarvík frá 1920 til 1934, en það ár fluttist hann til Siglufjarðar, þar sem hann var héraðslæknir í tuttugu og fimm ár eða til loka ársins 1959.
Árið 1916 giftist Halldór eftirlifandi konu sinni Marí Jenný Jónasdóttir. Þau eignuðust 7 börn og eru 6 þeirra á lífi, fimm synir og ein dóttir. Bjuggu þau hjónin síðustu árin í húsi með dóttur sinni Kristínu Eyfells listakonu og manni hennar, að Hrauntungu 59, Kópavogi. Þar hitti ég Halldór lækni vin minn örfáum dögum fyrir andlát hans 18. júní sl.
Hann var við þennan síðasta samfund okkar hress og glaður eins og venjulega. Ég var þá nýkominn sunnan úr Gerðahreppi — og við ræddum um fólkið í Garðinum. Honum var hugþekkt að rifja upp æskuminningar sínar frá Útskálum — og kynnin af heilbrigðu dugandi fólki í Garðinum. Þegar við kvöddumst sagði hann mér brosandi, að hann ætlaði til rannsóknar á Landspítalann næstu daga, hjartað væri víst ekki eins og það ætti að vera. Brosið hans og rósemin kom mér til að trúa því, að þetta myndi læknast fljótlega — og við eiga eftir að fá að hittast oft og ræðast við, orðnir nágrannar í Kópavogi.
En fáum dögum eftir komuna á sjúkrahúsið var hann kallaður burt. Svona er tilveran. Við eignumst stundum óvænt góða vini, sem samleið eiga með okkur nokkra stund, en jafn óvænt skiljast leiðir. Þó söknuður sé að hollvinum, þá ber fyrst og fremst að þakka góðar liðnar stundir. Minningin um samfylgd okkar Halldórs læknis er björt. Ég hygg að báðir höfum við notið þess jafnt að hittast og ræðast við, samfylgdarárin á Siglufirði. Við fylgdum sínum stjórnmála flokki hvor að málum, en hvorugur gaf hinum það að sök.
Trúlega hafa samræður okkar um landsmálin vakið meiri áhuga okkar, þar sem víð sem vinir reyndum á hófsamlegan hátt að skýra sjónarmið okkar hvor fyrir öðrum. Halldór hafði og góða frásagnarhæfileika og glöggt skopskyn, en gætti þess þó að meiða ekki í orði þá sem um var rætt. Þau læknishjónin Halldór og Jenny voru orðin roskin þegar við hjónin kynntust þeim, en bæði báru það með sér að þau hafa verið sérlega fríð og glæsileg sem ung.
Víð hjónin áttum því láni að fagna, að fá héraðslækniishjónin í heimsón á jóladaginn flest árin, sem við bjuggum á Siglufirði. Koma þeirra gladdi alla á heimilinu, eins börnin okkar á ýmsum aldri — og jólin urðu við það meiri hátíð. Halldór var varfærinn að eðlis fari, kaus fremur öryggi en áhættu. Mun varfærni hans hafa ráðið nokkru um, að hann mun ekki hafa eignast stóran hóp af nánum kunningjum eða vinum. En hann var mikill vinur vina sinna. — Ég er þakklátur fyrir vináttu hans — og samskiptin öll Þó við ættum ekki alltaf fulla samleið í skoðunum — virti ég fullkomlega skoðanir hans, sem ég fann að mótuðust af því einu sem hann vissi sannast og réttast.
Með Halldóri er genginn staðfastur, góðgjarn
drengskaparmaður. Konu hans og börnum votta ég samúð mína.
Björn Stefánsson