Hafliði Jónsson skipstjóri

Morgunblaðið - 17. október 1967  Minning

Hafliði Jónsson. F. 4. maí 1913. D. 19. sept. 1967.

Á FYRSTU áratugum aldarinnar, þegar vélaafl og véltækni nútímans voru enn draumsýnir norður hér, var sjósókn frá „ströndu hins yzta hafs" harðsóttur bjargræðisvegur. Hafliði Jónsson, skipstjóri, ýtti á þeim árum úr vör margri fleytunni, jafnt í skammdegi vetrar sem á náttlausum dægrum, og hélt skipi sínu ætíð heilu í höfn og jafnan með góðan feng.

Nú hefur hann ýtt úr vör í hinzta sinni — og lagt þar að landi, sem er heimahöfn. Hafliði skipstjóri er máske síðasti „hákarlaformaðurinn", upp á gamlan og góðan íslenzkan máta, síðasti fulltrúi hinna eldri sjósóknara, sem lögðu grunninn að þeirri þróun og uppbyggingu, er síðar varð. Hann var búinn þeim dyggðum og mannkostum og á að baki þann lífsferil, .að enginn, sem hann þekkti, efar, að hann hefur enn sem fyrn siglt heilu skipi í höfn. og haft með þann feng, sem góðir menn sækjast eftir í lífi sínu.

Hafliði Jónsson skipstjóri

Hafliði Jónsson skipstjóri

Hafliði Jónsson var fæddur að Hraunum í Fljótum hinn 17 marz árið 1894, sonur Þuríðar Sumarliðadóttur og Jóns Magnússonar. Fljótin hafa um aldir varðveitt gamalgróna bændamenningu og alið dugmikla sjómenn og lögðu hinum unga sveini á herðar þá hefð, sem síðar mótaði líf hans allt. Sautján ára að aldri fór hann í sína fyrstu hákarlalegu á seglbúnu en vélarvana fleyi. Síðar nam hann siglingafræði hjá Þorsteini bónda í Neðra-Haganesi og gekk undir skipstjórapróf á Akureyri, er hann lauk með sæmd. Og aðeins 21 árs að aldri réðist hann sem skipstjóri á hákarlaskip hjá Gránufélagsverzluninni á Siglufirði

Á þriðja áratug sótti Hafliði sjóinn. Reyndi þá oft á þrautseigju og karlmennsku hans, kunnáttu og hyggjuvit. Og sú var gifta hans, að skila ætíð skipum og mönnum heilum til 'hafnar. Eftir farsælan feril á sjónum gerðist Hafliði starfsmaður Síldarverksmiðja ríkisins og vann þeim til dauðadags af trúmennsku og skyldurækni.

Hafliði Jónsson kvæntist árið 1915 frú Jóhanna Sigvaldadóttir. Bjuggu þau fyrstu hjúskaparár sín í Fljótum en fluttust snemma til Siglufjarðar en þar stóð heimili þeirra meðan báðum entist líf.

Þeim varð fimm barna auðið:

  • Guðrún Hafliðadóttir, gift Ásgeir Gunnarsson  Siglufirði,
  • Björg Hafliðadóttir, gift Gústafi Júlíussyni Akureyri,
  • Björn Hafliðason, kvæntur Jónínu Jónasdóttur Siglufirði,
  • Halla Hafliðadóttir, gift Haraldi Guðmundssyni Hafnarfirði og
  • Haraldur Hafliðason, kvæntur Sigurbjörgu Sæmundsdóttur Hafnarfirði.
  • Auk þess ólu þau hjón upp eina fósturdóttur,
  • Jóhanna Ragnarsdóttir, sem er gift Emil Helgi Pétursson frá Siglufirði.

Hafliði var hógvær maður, jafnvel hlédrægur. En hann var fastur fyrir og trygglyndur. í hógværð sinni sameinaði hann hvort tveggja; fastheldni við fornar dyggðir og framsýni í mál efnum samtíðar sinnar. Hann var einn traustasti og bezti stuðningsmaður sjálfstæðisstefnunnar á Siglufirði og er vissulega skarð fyrir skildi í röðum siglfirzkra sjálfstæðismanna nú, þegar Hafliði Jónsson er látinn. Og á kveðjustundu þökkum við látnum vini langa og góða viðkynningu, drengskap og vinarhug. Vert þú, góði vinur, blessaður og sæll.

Siglufirði í október 1967. Stefán Friðbjarnarson.
-------------------------------------------------------------

Hafliði Jónsson, skipstjóri, sextugur

Hann er fæddur að Hraunum i Fljótum 17. mars 1894, sonur hjónanna Guðrúnar Sumarliðadóttur og Jóns Magnússonar. — Nokkurra vikna gamall var Hafliði tekinn í fóstur að Hamri í Fljótum af búendum þar Guðrúnu Símonardóttur og Birni Sölvasyni. — Ólst hann þar upp til fullorðins ára.

Eins og títt var í þann tíð, meðal yngri manna í Fljótum, drógst hugur Hafliða snemma að sjónum, og 16 ára gamall fór hann í fyrstu hákarlaleguna. Næstu fimm árin hélt hann upp teknum hætti og var í hákarlalegum á ýmsum skipum frá Siglufirði. Vorið 1915 réðist hann sem skipstjóri á Mariönnu frá Akureyri, eign Höfnersverslunar þar. Var það þá einsdæmi, að 21 árs ungur tæki að sér skipstjórn. Hann var með Mariönnu bæði í hákarl og á síldveiðum um 5 ára skeið, og þótti farsæll skipstjóri og aflasæll.

Árið 1915 kvæntist Hafliði Jóhönnu Sigvaldadóttur ágætri konu ættaðri úr Fljótum. Þau eignuðust 5 börn, sem öll eru uppkomin og mannvænleg.
Búskap byrjuðu þau hjónin á parti úr jörðinni Hamar, en dvöldu stutt þar, og fluttust að Stóra-Grindli, þar sem Hafliði byggði upp að mestu og bjó í haginn fyrir sig, því meiningin var að stunda landbúnað jöfnum höndum með skipstjórninni. Það réðist nú á annan veg.

Mun vanheilsa konunnar og svo það, að Hafliði var tíðast langdvölum við sjóinn, orðið til þess að þau brugðu búi vorið 1920 og fluttu búferlum til Siglufjarðar, hafa þau dvalið hér síðan. Þegar hingað kom stundaði Hafliði eingöngu sjóinn. Hann var bæði í hákarlalegum, á þorsk og síldveiðum og var heppinn  og fengsæll. Og þó Ránardætur létu stundum æðislega og leituðu fang bragða við hann, slapp hann frá þeim hildarleik með snilld og prýði, og skilaði skipi og áhöfn farsællega í örugga höfn, Það gerir oft gæfumuninn, hvernig haldið er um stjórnvölinn.

Hafliði er nú fyrir nokkru hættur sjósókn. Hefur hann um nokkur ár unnið hjá síldarverksmiðjum ríkisins hér í bæ, og síðustu árin verið þar vagtmaður. Hann varð fyrir því óhappi að falla ofan í eina síldarþró fyrir 3 árum og slasaðist mikið sérstaklega á höfði. Þó hann hafi fengið mikla bót á þeim meiðslum, sem hann hlaut við þetta fall, þá vantar mikið á, að hann gangi heill til skógar. Enn sinnir hann þó léttari vinnu.

Hafliði hefur víða farið og kynnst mörgum. Sjálfsagt mundi hann geta sagt frá ýmsu frá fyrri dögum, sem fyrir hann bar, t.d. á skipstjórnarárunum, en bæði er, að maðurinn er ekki margmáll um sjálfan sig, og svo hefur hann heldur tapað minni við áfallið, sem fyrr er getið. Hafliði hefur verið mjög fróðleiksfús, enda greindur og athugull. Hann hefur í tómstundum sínum aflað sór fróðleiks með lestri góðra bóka og blaða, fylgst vel með í þjóðmálum, og myndað sér þar ákveðna skoðun, sem hann sveigir ekki frá. Hann hefur ávallt fylgt stefnu Sjálfstæðisflokksins og verið þar jafnan nýtur starfsmaður.

Með þessum fáu línum vill Siglfirðingur færa Hafliða bestu árnaðaróskir með sextugsafmælið og óskar honum og fjölskyldu hans heilla og blessunar á komandi árum.