Guðný Gyða Jóhannsdóttir

mbl.is  2. febrúar 2015 | Minningargreinar 

Gyða Jóhannsdóttir fæddist á Þrasastöðum í Fljótum í Skagafirði 19. september 1923. Hún lést á hjartadeild Landspítalans 23. janúar 2015.

Foreldrar hennar voru Sigríður Gísladóttir, f. 8.7. 1896, d. 4.12. 1977, og Jóhann Guðmundsson, f. 29.5. 1898, d. 13.7. 1983.

Systkini Gyðu voru

  • Ástrún Jóhannsdóttir, f. 2.4. 1925,
  • Margrét Jóhannsdóttir, f. 23.5. 1927, d. 30.9. 2010,
  • Gísli Benedikt Jóhannsson, f. 5.8. 1929, d. 24.7. 1964, og
  • Einar Jóhannsson, f. 5.7. 1939, d. 7.4. 1974.
Gyða Jóhannsdóttir

Gyða Jóhannsdóttir

Hinn 14. október 1944 giftist Gyða Sigurðu Jónsson, fyrrv. framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins og síðar forstjóra Sjóvá tryggingafélags Íslands hf., f. 11.12. 1913, d. 11.11. 2007.
Foreldrar hans voru Jón Bergsteinn Pétursson, f. 28.1. 1884. d. 24.7. 1958, og kona hans Jóna Gísladóttir, f. 16.2. 1890, d. 22.11. 1980.

Börn Gyðu og Sigurðar:

  • 1) Valtýr Sigurðsson, f. 2.3. 1945, kona hans Steinunn Stefánsdóttir, f. 1945 (skildu).Sonur:  Sigurður, f. 1967. Kona hans Berglind Skúladóttir Sigurz, f. 1970. Börn: Bryndís Kara, f. 1999, Stefán Ingi, f. 2001. Kona Valtýs Svanhildur Kristjánsdóttir, f. 1952 (skildu). Börn: a) Ásthildur, f. 1979, maður hennar Juan Camillo Román Estrada, f. 1978. b) Kristín Anna, f. 1982, c) Gyða, f. 1982, d) Jónas, f. 1996. Kona Valtýs: Sigríður Hjaltested, f. 1969. Börn Sigríðar: Helena Birna, f. 1997, og Bjarni Geir, f. 1999.
  • 2) Jóhann Ágúst Sigurðsson, f. 3.2. 1948. Kona hans Valgerður Edda Benediktsdóttir (skildu). Börn þeirra: a) Gísli Heimir, f. 1967. Kona hans Thelma B. Friðriksdóttir (skildu). Dóttir: Bríet Eva, f. 2000, b) Vala Dröfn, f. 1973, samb. Gísli Þorsteinsson, f. 1971. Sonur: Þorsteinn, f. 2010, sonur Völu: Jóhann Ágúst Ólafsson, f. 2001. Dætur Gísla: Selma Kristín, f. 1999, og Sunna Sigríður, f. 2003. c) Margrét Gyða, f. 1985. Kona Jóhanns Linn Okkenhaug Getz, f. 1962. Börn: a) Iðunn Getz, f. 1997, b) Jan Getz, f. 1999.

Gyða lauk gagnfræðaprófi frá Siglufirði 1940 og prófi frá Samvinnuskólanum í Reykjavík 1944. Hún stundaði enskunám í Englandi 1962-63 og spænskunám um árabil. Gyða vann skrifstofustörf frá fermingaraldri hjá Þormóði Eyjólfssyni, konsúl á Siglufirði. Síðar keypti hún og rak verslunina Túngötu 1 þar í bæ um árabil. Hún tók svo við rekstri fyrirtækisins Þormóður Eyjólfsson hf. árið 1959, sem hafði m.a. umsjón með vöruflutningum og afgreiðslu á póstbátnum Drang, Skipaútgerð ríkisins og Eimskipafélagi Íslands.

Gyða flutti til Reykjavíkur 1964, en dvaldi þó áfram hluta árs á Siglufirði. Hún var meðal stofnenda Golfklúbbs Siglufjarðar 1971. Þá var hún í stjórn Golfklúbbs Reykjavíkur 1973-74 og formaður 1975. Hún hafði forgöngu um stofnun Samtaka aldraðra 1973 í þeim tilgangi að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir eldra fólk. Hún stofnaði ásamt öðrum byggingarfélagið Gimli 1981, en á þess vegum var fjölbýlishúsið Miðleiti 5-7 byggt með 38 íbúðum. Gyða tók saman og bjó til prentunar niðjatal Þrasastaðaættarinnar sem kom út 1989. Gyða skrifaði fjölda greina í blöð, einkum um málefni aldraðra.

Útför Gyðu verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 2. febrúar 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Fallinn er frá einn mesti kvenskörungur landsins, hin eina sanna amma Gyða. Frá unga aldri og til dauðadags var hún sérlega litríkur karakter, ákveðin og röggsöm. Hún sagði alltaf það sem henni bjó í brjósti og dró ekkert undan – svo stundum þótti manni nóg um, sérstaklega á unglingsárunum. Enginn sem ég þekki hefur átt ömmu sem stjórnaði fyrirtæki, spilaði á gítar og munnhörpu, söng og jóðlaði að hætti Týróla. Ef henni datt í hug að læra spænsku, þá gekk hún bara á ókunnuga konu í kjörbúð á Spáni og spurði hvort hún vildi ekki kenna henni spænsku fyrir smá aur. Sem hún og gerði.

Einn mesti lærdómur sem amma Gyða skilur eftir sig er að lifa lífinu til fulls og framkvæma það sem mann langar að gera. Amma Gyða var einnig sérstaklega hlý og gjafmild, henni leið best þegar hún vissi að fólkinu hennar vegnaði vel og hún gat deilt með því öllu sem hún átti að gefa, hvort sem um var að ræða dýrindis máltíðir, ást og umhyggju eða veraldlega hluti.

Æskuminningar mínar um ömmu Gyðu snúast að miklu leyti um mat og tónlist. Í huganum ómar sænska þjóðlagið „Vem kan segla“ sem amma kenndi mér og við sungum oft saman. Kvæðið á vel við nú þegar ég kveð ömmu Gyðu hinsta sinni, því það fjallar um að hægt sé að framkvæma ótrúlegustu hluti ef viljinn er fyrir hendi; sigla án vinds og róa án ára, en ekki er hægt að komast hjá því að fella tár við missi ástvinar. Hvíl í friði, elsku amma.

Vala Dröfn Jóhannsdóttir.
---------------------------------------------

Ég var svo lánsöm að kynnast Gyðu og Sigurði á síðari hluta ævi þeirra, eftir að ég hitti Jóhann og flutti frá Noregi til Íslands árið 1995. Mitt fyrsta verk var að setjast á skólabekk og læra íslensku. Enda þótt ég hefði töluverða reynslu af tungumálanámi var þetta nám ansi erfitt. Þegar þörf var á hvíld frá náminu og um helgar var gott að heimsækja Gyðu og Sigurð, fá sér tesopa, ristað brauð og jafnvel marengstertu. Þá auðnaðist mér einnig að kynnast öðrum íslenskum gæðakonum, systrum Gyðu, þeim Ástrúnu og Grétu og fjölskyldum þeirra. Ég var orðin hluti af Þrasafjölskyldunni.

Gyða var óvenjuleg kona. Hún var ekki mikið fyrir gagnkvæmar eða djúpar samræður, en dugleg við að tjá sínar eigin skoðanir. Mér var í upphafi ekki alveg ljóst hvort hún hlustaði á það sem við hin höfðum að segja, en gerði mér síðar grein fyrir að hún var ótrúlega næm á að skynja umhverfið, samskiptin og ná heildarmyndinni. Hún lét heldur ekki aldurinn aftra sér við ferðalögin.

Hún brá sér t.d. í útsýnisflug yfir eldstöðvarnar í Grímsvötnum árið 2004. Ekki lét hún Sigurð vita af þessu ferðalagi fyrr en eftir á til að valda honum ekki óþarfa áhyggjum. Fyrir nokkrum árum brá hún sér til Afríku, þá á níræðisaldrinum. Þar fékk hún iðrasýki og lá á sjúkrahúsi um stund. Ekki lét hún heldur vita af þeirri dvöl fyrr en eftir á, enda einkenndist líf hennar af því að bjarga sér sjálf og vera ekki upp á aðra komin.

Þegar börnin okkar Jóhanns, Iðunn og Jan, komu í heiminn nutu þau einnig ömmu og afa, enda þótt þau væru komin vel á aldur. Gyða var afskaplega örlát kona. Hún lét sér annt um allar tengdadætur sínar, sem voru mun fleiri en synirnir, svo og barnabörnin. Hún lagði sem fyrr segir mikla rækt við ættmennin. Hún bauð til sinnar síðustu Þrasaveislu 30. desember sl. og er sú samverustund öllum minnisstæð sem þar voru.

Gyða var höfðingi til síðustu stundar. Þar sem fjölskylda okkar er nú búsett í Noregi var það engan veginn sjálfgefið að Gyða yfirgæfi þennan heim með báða syni sína, Valtý og Jóhann, sér við hlið eins og raun bar vitni. En svona var amma Gyða. Við minnumst hennar með auðmýkt og söknuði.

Linn, Jan og Iðunn.
-------------------------------------------- 

Amma Gyða er látin. Þar kvaddi einn snillingurinn þennan heim.

Eitt sinn hringdi hún í mig, var þá á bílaleigubíl vegna þess að hennar bíll var á verkstæði. Hún kom bílnum ekki í bakkgír og komst því ekki út úr bílastæðinu. Ég átti að koma og bakka bílnum út. Hún hringdi aftur stuttu síðar og sagðist vera búin að redda þessu. Hvernig fórst þú að því? spurði ég. „Nú, ég ýtti honum bara út“ og þarna var hún 87 ára. Þetta lýsir ömmu. Hún var ekki að bíða eftir að hlutirnir gerðust, heldur gekk strax í málin.

Amma og afi voru dugleg að hjálpa mér og hinum barnabörnunum níu að koma undir okkur fótunum og ég get fullyrt fyrir okkur öll að það hafði mikið að segja. Amma var kraftmikil kona og litríkur karakter. Já, amma Gyða hafði margt fram að færa og kenndi manni margt. Þar sem amma stendur við Gullna hliðið gæti ég ímyndað mér hana segja þessi orð um leið og hún klípur Lykla-Pétur í kinnina: „Þú ert ágætur ... en get ég fengið að tala við eigandann?“ Hennar er sárt saknað. Hvíl í friði, amma Gyða.

Gísli H. Jóhannsson.
----------------------------------------------

Glæsileg, kraftmikil og sköruleg kona er kvödd. Ég var svo lánsamur að kynnast Gyðu fyrir fjórum áratugum gegnum Steinunni konu mína, fyrrverandi tengdadóttur hennar. Hún kynnti mig stundum kankvís fyrir fólki sem tengdason sinn. Það þótti mér vænt um enda sýndi þetta í hnotskurn fordómaleysi hennar. Ég var strax boðinn velkominn í fjölskyldu hennar og Sigurðar og hélst það meðan hún lifði.

Gyða átti gott líf, hafði skoðanir á mörgu og skrifaði oft stuttar greinar í blöð um þau málefni sem voru henni hugleikin. Um margra ára skeið héldu þau hjón fjölskylduveislu á jóladag. Ekkert var til sparað í mat og drykk og veislurnar ævintýri líkastar. Hjónin voru bæði söngvin og Gyða tók fram gítarinn og síðan hófst fjöldasöngur viðstaddra.

Á efri árum tók hún sig til og lærði á tölvu. Tók hún saman niðjatal Þrasastaðaættar og gaf út í veglegri bók 1989.

Oft hringdi hún til mín til þess að fá ráðleggingar varðandi heimilisbílinn. Mér er það sannur heiður að hafa fengið að kynnast þessari merkiskonu. Aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur og þakka liðna tíð.

Hún hvíli í friði. Einar Magnússon.