Jóhanna Steinþóra Gústafsdóttir

Mbl 21. janúar 2008  

✝Jóhanna Gústafsdóttir fæddist á Siglufirði 18. febrúar 1943. Hún lést á St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi 16. júní síðastliðinn.

Foreldrar hennar voru Gústaf Guðnason, f. 1. ágúst 1915, d. 3. nóvember 1969, og Jórunn Normann Frímannsdóttir, f. 12. júlí 1915.

 • Jóhanna var sjötta í röðinni af níu systkinum:
 • Guðni Leifur, f. 1935, Pálína, f. 1938, lést á 1. ári,
 • Pálína, f. 1939,
 • Frímann, f. 1940,
 • Kjartan, f. 1942,
 • Eggertína Ásgerður, f. 1944,
 • Guðbrandur Sveinn, f. 1946,  (Guðbrandur Gústafsson)
 • Marín, f. 1951, en einnig átti hún þrjú hálfsystkini samfeðra,
 • Val Hólm, f. 1946,
 • Theódóru, f. 1951, og
 • Sigþóru, f. 1953.
Jóhanna Gústafsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Jóhanna Gústafsdóttir - ókunnur ljósmyndari

Jóhanna ólst upp á Siglufirði hjá foreldrum sínum. Hún hóf störf 12 ára gömul við að salta síld á sumrin fram til 1963. Einnig vann hún í bakaríi Siglufjarðar nokkur sumur og haust.

Hún heimsótti Guðna bróður sinn til Grundarfjarðar haustið 1960, þá 17 ára gömul, og kynntist þar eftirlifandi eiginmanni sínum, Ívari Árnasyni, syni hjónanna Herdísar Sigurlínar Gísladóttur og Árna Sveinbjörnssonar frá Hellnafelli.

Jóhanna og Ívar gengu í hjónaband á Siglufirði hinn 24. september 1961 en bjuggu svo allan sinn búskap í Grundarfirði og eignuðust fjóra syni, 12 barnabörn og þrjú barnabarnabörn.
Börn þeirra eru:

 • 1) Gústav, húsasmíðameistari, f. 1961, kvæntur Herdísi Gróu Tómasdóttur og eiga þau fjögur börn, a) Guðmundur Hinrik, f. 1981, sambýliskona Dagmar Ýr Stefánsdóttir, b) Gústav Alex, f. 1988, c) Jóhanna Steinþóra, f. 1992, d) Tómas Freyr Kristjánsson, f. 1976, sambýliskona hans Guðrún Jóna Jósepsdóttir, þeirra barn er Kristján Freyr.
 • 2) Árni Ívar bifvélavirki, f. 1964, kvæntur Örnu Böðvarsdóttur og eiga þau fjögur börn, a) Ívar, f. 1983, sambýliskona Tinna Rós Þorsteinsdóttir, þeirra börn eru Kristófer Leon og Ísabella Ada, b) Marinó, f. 1987, c) Rúnar, f. 1991, d) Arnar, f. 1995.
 • 3) Benedikt Gunnar kerfisfræðingur, f. 1971, kvæntur Iðunni Kjartansdóttur og eiga þau tvö börn a) Viktor Helgi, f. 1998, b) Adam Ingi, f. 2002.
 • 4) Marvin, byggingafræðingur, f. 1973, kvæntur Ingu Björk Guðmundsdóttur og eiga þau tvö börn, a) Ísak Snorri, f. 1998, b) Páll Rúnar Sigurðsson, f. 2002. Jóhanna starfaði við hin ýmsu störf samhliða móðurhlutverki og heimilisstörfum, m.a. í Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar, við barnagæslu á fyrsta róluvelli Grundarfjarðar, hjá Soffaníasi Cesilssyni, hjá Kaupfélagi Grundfirðinga og hjá Pósti og Síma.

Jóhanna lauk starfsævi sinni sem forstöðukona dvalarheimilisins Fellaskjóls allt frá því að það var opnað árið 1989 og til ársins 2005 er hún þurfti að hætta vinnu vegna veikinda. Jóhanna tók þátt í ýmsum félagsstörfum í Grundarfirði, m.a. söng hún í kirkjukórnum í 10-12 ár og var í kvenfélaginu Gleym mér ei í yfir 40 ár. Útför Jóhönnu Steinþóru fer fram frá Grundarfjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Elsku mamma, nú ertu komin yfir til allra sem á undan hafa gengið, þú ert góð sál og er þeim mikill styrkur að þér, á því er enginn vafi. Að hugsa til þín er eins og að lesa orðabók, nema að öll ljótu orðin fá ekki að vera með. Þarna eru orð eins og hlýja, góðvild, kærleikur, gjafmildi, ást, umhyggja og hjálpsemi. Við erum ákaflega þakklát fyrir að hafa átt þig að og vildum bara óska að stundirnar með þér hefðu verið fleiri.

Okkur finnst sárt að börnin okkar fái ekki að umgangast þig meira og njóta alls þess góða sem þú hafðir í þér, að geta farið til ömmu og fundið þessa umhyggju og hlýju. Þú sagðir að maður gæti aldrei verið of góður, slíkt væri ekki til. Tíminn flýgur áfram og mannsævin er stutt, sem segir okkur að það sé eins gott að nýta hana vel. Hver stund sem maður getur eytt með börnunum sínum og ástvinum verður ekki metin til fjár. Það er söknuður og viss tómleiki í hjörtum okkar yfir því að þú sért farin en jafnframt ánægja yfir að nú þjáist þú ekki meira og getir talað á ný.

Við huggum okkur líka við það að nú getir þú fylgst með börnunum þínum öllum stundum, hvar sem er. Er líða tekur nóttina á, myrkrið yfir skellur. Baráttan við heljar vá og vonin aldrei fellur Endamarkið yfir fór, tár á vanga skellur. Mót himni mætir englakór og myrkrartjaldið fellur. Hetja! það varst þú. Svona alvöru hetja sem gerir góðverk. Svona alvöru hetja sem gerir góðverk og lætur engan vita. Svona alvöru hetja sem gerir góðverk án þess að vita af því. Svona alvöru hetja sem er góðverk. Þannig varst þú. (BGÍ) Þú ert sannur engill, við elskum þig.

Þínir synir, Gústaf, Árni Ívar, Benedikt Gunnar og Marvin.
---------------------------------------------

Hún elsku Hanna mín var dásamleg kona og tel ég mig lánsama að hafa fengið að kynnast henni fyrir tæpum 16 árum þegar við hjónin vorum í tilhugalífi okkar. Ég varð strax ein af fjölskyldunni og kom hún fram við mig eins og dóttur sína, ávallt reiðubúin að styðja, hvetja, sýna kærleika og veita huggun. Sérstaklega er mér minnisstæður tíminn sem við bjuggum í Grundarfirði. Þá hittumst við alltaf eftir vinnu og skröfuðum en ef eitthvað kom í veg fyrir þessa reglulega samverustund vorum við báðar alveg miður okkar.

Ferðalögin voru líka ófá hjá okkur, þar má nefna hæst Flórída, London og ferðalög innanlands. Við vorum samstíga í þeim eins og við hefðum aldrei gert annað eins, með vott af skipulagningu, frjálslyndi og bros á vör. Hanna var frábær tengdamamma og einnig æðisleg amma. Það var alveg sama hvað væri í gangi hjá henni, hún átti alltaf tíma fyrir fjölskylduna og fór létt með að henda í pönnukökur, horfa á eina vídeómynd eða liggja á gólfinu í bílaleik það var alltaf í forgang hjá henni þegar drengirnir okkar voru annars vegar.

Þegar Hanna veiktist þá fundum við aðra leið til að verja samverustundunum. Hún og drengirnir spiluðu, þeir lásu fyrir hana, sýndu henni ýmislegt og sögðu frá. Einnig var nú stutt í húmorinn hjá henni og kom það sterkt fram þegar hún fór að nota MSN-ið því þá fékk maður iðulega kveðjur með mynd sem bankaði eða gerði eitthvað grín til að fanga athygli manns og þóttu strákunum það frábært hvað amma væri sniðug. Hanna varði miklum tíma hjá okkur eftir að hún veiktist og erum við þakklát fyrir þær samverustundir.

Hanna gerði engar kröfur eða kvartaði þó hún væri sárlasin heldur var hugulsemin og dugnaðurinn ávallt í fyrirrúmi hjá henni. Í dag kveð ég konu sem leiðbeindi mér, hjálpaði mér að þroskast og leyfði mér að blómstra á minn hátt því hún vildi alltaf finna allt það jákvæða og bjarta í hverri manneskju og efla það. Tengdaföður mínum votta ég mína dýpstu samúð og öllum þeim sem eiga um sárt að binda við fráfall tengdamóður minnar.

Blessuð sé minning hennar. Þín tengdadóttir, Iðunn.
-------------------------------

Elsku amma, þín verður sárt saknað. Gott að þú ert komin á betri stað og vonandi líður þér betur. „Loksins kom stelpan sem þú þráðir.“ Ég mun ekki gleyma þeim stundum sem ég kom til þín eftir skóla og las fyrir þig og þegar ég kom til þín og við horfðum á vídeó saman. Þessar stundir voru mér mikilvægar. Þegar ég rifja upp gamlar minningar þá voru ófáar ferðirnar sem afi keyrði okkur, mig og þig í bæinn til að dressa mig upp, það sést best á öllum kjólunum í skápnum mínum.

Sérstaklega þegar þú komst heim frá útlöndum, þá fékk ég heilan gám af fötum og dóti á meðan bræður mínir fengu hvor sitt sokkaparið. Það er heldur ekki slæmt að heil brekka í Grundarfirði er nefnd eftir þér amma mín. Ég er stolt af því að heita Jóhanna Steinþóra eins og þú amma mín. Ég mun aldrei gleyma hversu frábær amma þú varst. Kveðja, þín Jóhanna. Elsku besta amma, ég mun sakna þín mjög mikið. Þú ert farin á betri stað og þér líður eflaust mjög vel þar.

Það var ekkert lítið sem þú gerðir fyrir mig amma mín. Ég man alltaf þegar þú gafst mér traktorinn þegar ég var lítill polli í Söðulsholti. Hjálpaðir mér líka að lesa þegar ég átti í erfiðleikum með að ná því. Svo öll skiptin sem við löbbuðum saman út í vídeóleiguna Fell og leigðum „Lilli er týndur“ og horfðum á hana saman, aftur og aftur. Svo kenndir þú mér að leggja kapal og eftir það sátum við tvö tímunum saman við eldhúsborðið að keppast við að láta kapalinn ganga upp, en það tókst aldrei hjá okkur. Þú ert mér mjög kær amma mín og ég mun sakna þín afskaplega mikið.

Kveðja, Gústav Alex.
-------------------------------------

„Ninni akandi, búið að baða hann, amma dissann“ (Ninni vakandi, búið að baða hann, amma kyssa hann).
Þessa setningu sagðirðu alltaf við fyrsta ömmubarnið þitt þegar þú komst niður til að bjóða mér góða nótt þegar ég var ungabarn, ég man ekki eftir þessu sjálfur en mér hefur verið sagt svo oft frá þessu að mér þykir afskaplega vænt um þessa setningu. Þú skipaðir stóran sess í lífi mínu þegar ég var barn, hélst mikið upp á mig og gafst mér gælunafnið mitt, Ninni, sem mér þykir óskaplega vænt um þótt ég þurfi oftar en ekki að stafa nafnið fyrir fólk sem ég hitti í fyrsta skipti.

Elskuleg amma mín og tengdaamma er fallin frá allof ung að árum og eftir alltof erfið veikindi, unnusta mín kynntist henni því miður ekki áður en hún veiktist og það var mikill missir. Það eru til endalausar skemmtilegar sögur af ömmu og hún var stór hluti af mínum uppvexti.

Amma skilur eftir sig fleira en bara minningarnar í hugum okkar en hún var mikil handavinnukona og eftir að hún veiktist ákvað hún að hekla barnateppi handa öllum barnabörnum, sumum þeirra veitti ekkert af því strax, en hjá öðrum, eins og okkur, bíða þau notkunar á góðum stað í skápnum. Teppið okkar er undurfagurt, litirnir eru glaðlegir, fjólublár, gulur og bleikur og því minnir handverkið enn meira á þig. Okkur þykir afskaplega vænt um að hún Hanna amma hafi hugsað svona langt fram í tímann þar sem þetta teppi er okkur nú ómetanlegt.

Elsku amma, það er erfitt að velja úr öllum minningunum, hvað rifja skal upp hér. Við bræðurnir vorum dálitlir prakkarar hér áður fyrr og vissum fullvel hvað þú varst hrædd við skordýr. Þess vegna notuðum við tækifærið einu sinni þegar þú varst að fara að ryksuga skuggalegt horn uppi á lofti heima í sveitinni og komum gúmmíkóngulónni okkar fyrir á gólfinu og biðum átekta. Viðbrögðin létu ekki á sér standa! Fyrst var það skaðræðisöskur, ófétið ryksugað upp og síðan stappað á ryksugubarkanum þangað til hann eyðilagðist.

Eftir þetta komstu niður stigann í tveimur skrefum í hálfgerðu taugaáfalli! Hrekkurinn heppnaðist fullkomlega en þú varst nú ekkert sérstaklega ánægð með okkur að öllu yfirstöðnu. Ég man líka eftir því þegar ég var kominn á táningsaldurinn og ég og Ívar frændi komum og heimsóttum ykkur afa til Grundarfjarðar. Þá tókst þér nú aldeilis að verða okkur til skammar þar sem við stóðum í krakkahópi með því að kalla á okkur út um gluggann að við ættum að koma okkur inn að sofa.

Nú, ef við vorum ekki í kallfæri þá skelltirðu þér bara í skó og úlpu og sóttir okkur! Það var nú frekar vandræðalegt, en þér var fljótt fyrirgefið. Elsku amma, við eigum eftir að sakna þín. Elsku afi, þú hefur verið svo sterkur í gegnum þennan erfiða tíma en við vonum að allir gleðitímarnir sem þið amma áttuð saman fyrr á árum hjálpi þér að komast í gegnum missinn og sorgina. Við verðum alltaf nálæg þér til stuðnings.

Guðmundur Hinrik Gústavsson (Ninni) og Dagmar Ýr Stefánsdóttir.
----------------------------------------------

Elsku amma, nú ertu farin frá okkur alltof snemma, eftir langa baráttu við þessi erfiðu veikindi. 

Mín fyrsta minning af ömmu var þegar við áttum spjall saman á tröppunum á Fagurhólstúni 15. Ég hef rétt verið 4 eða 5 ára þegar hún segir mér að ég eigi að kalla hana ömmu og Ívar eigi ég alltaf að kalla afa. Það gerði ég upp frá því og hef alltaf litið á þau sem ömmu og afa. Hún leit alltaf á sig sem eitt af sínum ömmubörnum þó svo að blóðtengsl væru ekki til staðar. Það eru ótrúlega margar skemmtilegar minningar sem koma upp í kollinn þegar maður hugsar til baka. Amma var oft svolítið utan við sig og eru til margar góðar sögur af hinum ýmsu ævintýrum sem hún lenti í með okkur.

Einu sinni var amma að koma akandi frá Vegamótum að Söðulsholti, Ninni sat í farþegasætinu og hafði gaman af því að fara með ömmu sinni í búðarferð. Svo keyrir amma og keyrir, lítur svo upp í átt að Dalsmynni og segir við Ninna: „Ninni minn, er Dalsmynni svona nálægt Söðulsholti?“ þá segir Ninni alveg pollrólegur: „Nei amma, við erum komin framhjá“. Þá var amma bara aðeins utan við sig eins og svo oft áður og hafði gleymt að beygja. Svo var líka einhvern tíma sem ég sat sjálfur í farþegasætinu hjá ömmu í einni af þessum búðarferðum.

Þá reyndar gleymdi hún ekki að beygja heldur keyrir inn afleggjarann hjá Söðulsholti og heldur venjulegum hraða. Svo nálgumst við forlátahlið sem þarna var og amma var ekkert að slá af, þá heyrist í mér rólegum „amma, það er hlið“. Amma hrekkur í kút og neglir niður „Guð minn góður“. Ég held að við höfum stöðvast um það bil 2 sm frá hliðinu. Svona eru til margar skemmtilegar sögur af henni ömmu minni sem að hún hafði svo gaman af að rifja upp með okkur. Svo hló hún alltaf mest af þessu sjálf.

Hún var líka með stór plön varðandi fótboltaþjálfun enda var hún með svakalegt fótboltalið úr þessum strákaher. Hún sjálf eignaðist fjóra stráka, þessir fjórir strákar eignuðust svo allir stráka, þannig að það var vel hægt að ná í gott 11 manna lið. Svo einn góðan veðurdag kom loksins stelpa í fjölskylduna. Þá held ég að amma hafi verið stolt af nöfnu sinni. Alltaf var amma tilbúin til að gera allt fyrir okkur og stjana í kringum okkur endalaust. Það var alltaf rosalega gott að koma heim til ömmu og afa. Þegar haldnar voru veislur var amma alltaf mætt með svuntuna og til í slaginn.

Oftar en ekki með Ásu systur sinni og var það ekkert tiltökumál að matreiða ofan í eitt hundrað manns eins og ekkert væri. Þannig var amma, hún var gestgjafi af guðs náð. Þannig minnumst við ömmu okkar. Hún skilur eftir stórt skarð í hjörtum okkar en minningin um frábæra ömmu lifir áfram. Elsku afi, þú ert búinn að standa þig eins og hetja á þessum erfiðu tímum. Mundu að þú átt stóra fjölskyldu sem elskar þig. Ó þú mæta milda móðir mikla þig vilja allar þjóðir. Elskuleg hönd þín blessi barnið er brosir sól á fannhvítt hjarnið.

Og alla daga þín elskan skín á yndislegu börnin mín. (Steinunn Geirsdóttir.) Tómas Freyr Kristjánsson, Guðrún Jóna Jósepsdóttir og Kristján Freyr Tómasson.
-------------------------------------------------

Elsku Hanna mín, nú er lokið þessari þrautagöngu með þennan sjúkdóm (MND). Með okkur tókst órjúfanleg og ævarandi vinátta, sem aldrei bar skugga á. Enda gat ekki öðruvísi orðið þar sem þú varst annars vegar. Við byggðum okkar fyrsta hús saman við Grundargötu 45 upp á tvær hæðir. Þarna bjuggum við í mörg herrans ár, þið með alla drengina ykkar fjóra og við með okkar þrjú á efri hæðinni.

Þetta var yndislegur tími. Þetta var eins og eitt heimili, ef önnur þurfti að fara frá þá var bara farið á milli með börnin og allt gekk þetta án nokkurra orða. Þú varst einstök, ég hef ekki kynnst bónbetri manneskju á minni lífsleið. Það var alveg sama hvað þurfti að gera, hvort heldur koma barni fyrir, halda stóra veislu, alltaf varst þú tilbúin. Eitt sinn er við sátum við eldhúsborðið á Grundargötunni, úti var sunnanrok og rigning, hvar fram hjá gengu ferðamenn 12 saman á leið sinni í tjöld, þá segir þú: mikið hlýtur þeim að vera kalt, ætli þeir hafi nóg nesti.

Þú varst ekki ánægð og sagðir: „Eigum við ekki að bjóða þeim heim gefa þeim að borða?“ Það varð úr. Eitthvað þjóðlegt varð það að vera, elduð var glæný ýsa og grjónagrautur. Eldaður var svo mikill grautur hann dugði í marga daga. Enda við ungar, ekki farnar að reikna út skammta. Það var mikið hlegið og gaman þegar þú sagðir: „Nanna, manstu þegar við buðum útlendingunum heim?“ Alltaf hlegið jafn mikið, þó um bláókunnugt fólk væri að ræða, það varð að hugsa um þá líka. Þannig varst þú Hanna mín, þú áttir svo gott með að grínast, varst alltaf tilbúin að rifja upp gömlu góðu dagana.

Ég gæti haldið svona áfram, það er of langt hér að telja, enda margra góðra stunda að minnast. Þú varst tilbúin að bjóða fram aðstoð þína til að taka að þér börn fyrir fólk hvenær sem var. Fórnaðir þér fyrir aðra alla tíð. Seinna meir þá gerðist þú forstöðukona fyrir dvalarheimilið í Grundarfirði, hélst þar áfram umönnunarstörfum og stýrðir því frá stofnun þess þar til þú þurftir að láta af störfum vegna veikinda. Þú stýrðir því með þvílíkum myndarbrag. Það féll þér vel. Öllum þótti vænt um þig, það var ekki hægt annað. Einhvern tíma sagðir þú mér að þig hefði alltaf langað til að verða hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir. Það voru líka nokkur skipti sem þú sast yfir sængurkonum og tókst á móti börnum með Bergþóru ljósmóður.

Ég man hvað þér þótti þetta stórkostlegt, ekki nema rétt um tvítugt. Svona varst þú. Þú varst svo vel gerð manneskja. Við áttum okkar heimahaga, langt var fyrir þig alla leið til Siglufjarðar, í fjörðinn þinn fagra sem þú elskaðir svo mikið. Ekki var auðfarið þangað á þeim tíma, en þegar sól tók að hækka á lofti þá vaknaði heimþrá, þú hugsaðir heim í fjörðinn þinn. Þú reyndir að komast eins oft og aðstæður leyfðu.

Nú eru engar torfærur lengur. Þú fórst hljótt frá okkur eins og þú óskaðir. Ég trúi því að nú sért þú komin í fjörðinn þinn. Við hjónin kveðjum okkar ástkæru mágkonu og vinkonu með þakklæti. Sendi Jórunni móður hennar, Ívari, sonum og fjölskyldum þeirra og systkinum hennar okkar dýpstu samúð. Megi minning um góða manneskju lifa. Jóhanna og Sigurberg. Elsku Hanna frænka. Ég þakka þau ár sem ég átti, þá auðnu að hafa þig hér … Það eru svo margar minningar sem koma upp í hugann þegar ég hugsa til baka. Það er eins og allt hafi gerst í gær, ég man þegar pabbi sendi mig frá símstöðinni til frænku þá beið hún í hurðinni þar til ég kom.

Hún fór með mig til Áslaugar prestsfrú til að sauma saman sár sem hlotist höfðu í einhverjum látunum. Það var nú ansi allgengt í þá tíð. Við Árni Ívar brölluðum svo margt sem elsku frænka fyrirgaf alltaf, herbergi voru máluð, kveikt var í stofunni, búrið sett á annan endann, brotnar rúður, og svo allt sem fékkst óvart ókeypis í kaupfélaginu. Ég var bara lítill snáði þegar þú, elsku frænka mín, varst tilbúin til að taka mig að þér og inn á heimilið til ykkar.

Þegar ég hugsa til baka þá var það líka alveg ótrúlegt hvað Árni Ívar og Gústi voru mér góðir, þeir voru mér á þeim tíma sem bræður. Mér er alltaf svo minnisstætt þegar ég var að kvarta í öxlinni á þér á Kvíabryggju og þú sagðir mér að vera ekkert að kvarta, þetta væri nú ekki neitt, þú ættir að vita hvernig var að ala ykkur strákana upp. Já, það var alveg með ólíkindum hvernig þú gast slegið öllu upp á jákvæðan hátt. Það var alltaf gaman að vera nálægt þér og koma til þín, þú gast svo sannarlega hlegið og gantast.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti,
 • þá auðnu að hafa þig hér.
 • Og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer.
 • Þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð.
 • Þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku frænka mig tekur svo sárt að hafa ekki náð að koma og kveðja þig. Nú ert þú farin frá okkur og þín bíða mikilvægari verkefni annars staðar. Ég kveð þig að sinni og þakka fyrir það að hafa fengið að kynnast þér elsku frænka. Þú reyndist mér svo vel þegar ég þurfti á því halda sem lítill drengur í Grundarfirði. 


Friður sé með þér.
Elsku Ívar, Gústi, Árni Ívar, Marvin, Benni og fjölskyldur, Guð veiti ykkur styrk í sorg ykkar. Frímann Ægir Frímannsson.

Við drúpum höfði í þökk og bæn þegar skörungurinn og forstöðukonan Jóhanna Steinþóra Gústafsdóttir hefur lagt aftur augu sín í hinsta sinn. Fyrir 20 árum kom Hanna Ívars til starfa með stórhuga fólki sem var að reisa dvalarheimili í Grundarfirði, og lagði hún til nafn þess Fellaskjól, enda stendur það undir Hellnafellunum og hefur reynst öllum öldruðum kærkomið skjól þessi ár.

Hanna var ráðin sem forstöðumaður að heimilinu og stjórnaði því af mikilli ráðdeild og útsjónarsemi. Hún tók að sér einstæðinga sem áttu hvergi höfði að halla, og var þeim sem vinur og ættingi. Hún, sem hafði slitið barnsskónum á síldarárunum á Siglufirði, kunni að gera mikið úr litlu og þakkaði sjómönnum og bændum óvæntan glaðning sem birtist oft í eldhúsvaskinum. Hún skapaði mikinn heimilisbrag og var það ætíð hennar skoðun að „þetta er heimili þar sem fólk fer að sofa og vaknar þegar það vill“.

Hanna vann í bakaríi á Siglufirði og flutti með sér þá kunnáttu til Grundarfjarðar og voru kökurnar hennar, hvort sem var fyrir Kvenfélagið, Fellaskjól eða veislur úti í bæ, rómaðar, bæði fyrir handbragð og gæði. Þá voru bollurnar á bolludaginn ekki síðri og hvíldi yfir þeim mikil dulúð því Hanna og bollupæjurnar framreiddu 1.500- 2.000 bollur hvert ár og var sá sjóður ótrúlega drjúgur til ráðstöfunar fyrir heimilið. Hanna var af gamla skólanum, vann það sem þurfti að gera á nóttu eða degi, og með því lagði hún grunninn að því heimili sem við höfum í dag.

Sér við hlið hafði hún Ívar sinn sem var óþrjótandi við að laga og betrumbæta, sækja og sendast fyrir fósturbarnið Fellaskjól. Honum þökkum við hér sérstaklega, og sendum honum og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúðarkveðjur frá stjórn, heimilismönnum og starfsfólki Fellaskjóls. Eftir að Hanna greindist með MND-sjúkdóminn þá vann hún ótrauð áfram þar til málið þraut. En hún lét ekki setja sig út af laginu og með dyggri ást og aðstoð eiginmanns síns og náinna vinkvenna sinna til margra ára, sýndi hún okkur og sannaði að hver dagur sem guð gefur er skref á braut æðruleysisins.

 • Far þú í friði,
 • friður Guðs þig blessi,
 • hafðu þökk fyrir
 • allt og allt.

(V. Briem.)

Fyrir hönd stjórnar heimilisins, Hildur Sæmundsdóttir. Hann var kaldur júnímorgunninn þegar mér barst fregn um lát vinkonu minnar Jóhönnu Gústafsdóttur en Jóhanna var fyrsta manneskjan sem ég kynntist þegar við hjónin fluttum með fjöldskyldu okkar til Grundarfjarðar fyrir 33 árum. Þá vorum við ungar og frískar, lífið snerist um húsakaup, húsbyggingar, barnauppeldi og að vera hagsýn húsmóðir.

Hanna og Ívar voru þá búin að eignast strákana sína fjóra, tvo stóra og tvo litla eins og hún tók svo oft til orða. Lífið var gott þegar maður lítur til baka, þó að það væri svolítið snúið stundum. Samgöngur voru ekki eins greiðar og nú, enginn leikskóli, læknirinn kom tvisvar í viku, það þurfti þá að hafa fyrir því að veita veiku barni þá þjónustu sem það þurfti. En með þrautseigju og dugnaði tókst Hönnu að leysa allar þær þrautir sem fyrir hana voru lagðar og upp komu.

Hanna kom frá Siglufirði og minntist hún oft á Siglufjörð og bernskudagana sem hún átti þar í stórum systkinahóp sem henni var svo kær. Þrátt fyrir fötlun á fæti lét Hanna það ekki aftra sér frá því að vera þátttakandi á vinnumarkaði. Hún var hæfur og vel liðinn starfsmaður þar sem hún réði sig til vinnu hjá Kaupfélagi Grundarfjarðar, hjá Pósti og síma, auk þess sem við unnum saman við ræstingar, bæði hjá Hraðfrystihúsinu og grunnskólanum.

Hanna var létt og samviskusöm við störf sín og öllum vinnufélögum sínum minnisstæð. Þegar hugað var að stofnun sjálfseignarfélags um byggingu dvalarheimilis fyrir aldraða hér í Grundarfirði tók hún virkan þátt í því. Hún átti hugmyndina að nafninu Fellaskjól og Fellaskjóli veitti hún forstöðu frá opnun þess frá 1. desember 1988. Fellaskjóli helgaði hún krafta sína upp frá því. Þetta var frumkvöðlastarf og ekki alltaf virt sem skyldi.

Það þurfti mikla kunnáttu og útsjónarsemi til að byggja þar upp, láta endana ná saman og veita jafnframt þá þjónustu sem hún hafði metnað fyrir, og grun hef ég um að ekki hafi alltaf allir tímar verið skrifaðir. Hún hreif okkur hin með sér ef eitthvað þurfti að gera, eins og að fara í ferðir með heimilisfólkið, baka bollur eða vinna aðra vinnu til fjáröflunar fyrir heimilið.

Dvalarheimilið Fellaskjól var henni mjög kært og var henni alltaf umhugað um velferð þess bæði meðan hún gat lagt hönd á plóginn og eftir það. En þegar Jóhanna lét af störfum þar 1. febrúar 2005 vegna heilsubrests þá sást hvaða hetja hún var og hvaða kjark hún hafði, hún bar sjúkdóm sinn með æðruleysi þó að stundum örlaði á einhverri óþolinmæði, megum við hin taka hana til fyrirmyndar.

Fyrir u.þ.b. tveimur árum ræddum við um það sem í vændum var og að það sem sjúkdómurinn tók frá henni mundi ekki koma aftur, þrátt fyrir þessa vitneskju taldi hún kjark í okkur hin. Nú þegar sól er hæst á lofti og nóttin jafn björt og dagurinn fylgjum við Jóhönnu síðasta spölinn en við gleymum henni aldrei. Ívari sem er búinn að standa eins og klettur við hlið hennar þetta erfiða tímabil og fjöldskyldunni allri sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur. Þórunn og Guðmundur.

Fyrir allavega 30 árum var mér pakkað inn í sæng í náttfötunum og ég borinn út í bíl. Ferðinni var heitið í pössun til hennar Hönnu. Ég man að eitthvað var strákur hræddur þegar hann var lagður í ókunnugt rúm í ókunnugu herbergi. Hanna kom inn til mín breiddi yfir mig sængina og benti mér á annan lítinn strák sem lá líka í sama herbergi, strauk hendi yfir vangann og sagði með rólegri rödd að ég skyldi bara halda áfram að sofa, ég og þessi strákur gætum svo leikið okkur saman þegar við vöknuðum.

Ég sofnaði rólegur. Svo kom dagur og morgunmatur hjá Hönnu. Strákarnir á heimilinu voru fleiri því, þarna var líka annar svolítið eldri, ekki eins rauðhærður. Eiginlega allt frá því að ég kom þarna inn á heimilið hjá Hönnu og Ívari átti ég þar vísan samastað. Þessi rauðhærði gutti og ég urðum síðan bestu vinir og ég varð einn af strákunum þeirra Hönnu og Ívars. Hanna og Ívar bjuggu um árabil í Fagurhólstúni 15 í Grundarfirði.

Aldrei fer ég fram hjá því húsi öðruvísi en að ótal margar minningar rifjist upp frá þessu hálfgildings æskuheimili mínu. Þegar mig vantaði gistingu voru þau hjónin vön að segja, „þú veist af herberginu þínu Atli, þú kemur bara.“ Hanna vildi alltaf að manni liði vel, var vön að spyrja okkur hvort við værum ekki svangir, hvort við vildum ekki nýbakaða snúða eða vínarbrauð eða tilkynna okkur að lærið væri í ofninum og að það væri matur eftir stutta stund.

Svo brosti hún, settist við eldhúsgluggann, lyfti upp kaffibollanum, horfði yfir fjörðinn á Kirkjufellið og beið þess að lærið kláraðist í ofninum og að strákarnir sínir settust að borðum. Stundum eru sumir hlutir svo nátengdir að þeir eru aldrei nefndir einir og sér. Því var það þannig að Hanna var Hanna hans Ívars og Ívar var Ívar hennar Hönnu. Í mínum huga er þetta einhvern veginn svo lýsandi fyrir þessi yndislegu hjón.

Alla tíð var Hanna í því hlutverkinu að rétta fólki hjálparhönd, hún var ein af þessum einstaklingum sem gefa í stað þess að þiggja. Sjálf átti hún alla tíð við fötlun að stríða. Ég reyndar vissi ekki af því fyrr en Marvin sagði mér það einu sinni og þá rann upp fyrir mér að hún hafði í rauninni aldrei getað gengið eins og okkur er ætlað. Ég held samt að hún hafi aldrei vorkennt sér, hún fann til með öllum öðrum sem voru minnimáttar, en aldrei sjálfri sér.

Hanna var stolt kona sem sannaði fyrir öllum að hún þurfti ekki hjálp, hún hjálpaði öðrum. Hún var ótrúlega rík hún Hanna. Hún var rík af því sem allir eiga, en tíma samt svo litlu af. Hún hafði stórt hjarta sem var fullt af kærleika sem hún hélt ekki fyrir sig heldur gaf frá sér. Veikindi fóstru minnar hafa tekið mikið á alla sem hana þekkja. Í þessari baráttu hefur Ívar verið sannkölluð hetja, eins og reyndar hans var von og vísa.

Margar minningar eru tengdar Hönnu. Ég var svo heppinn að fá að þekkja hana og fá að vera heimagangur á heimili Hönnu og Ívars. Hanna verður alla tíð í minningunni einstök kona, fyrirmynd sem óskandi væri að líkjast. Atli Már Ingólfsson. Ó, mjúka, ljúfa, milda, kyrra nótt, þinn máttur veður hvíld á grýttum vegi. Sjúkum manni er þó sjaldan rótt, þótt sólin lýsi bjart á næsta degi. Já, sólin björt á heiðum himni skín og hugljúf móti lífi gæfan starir, svo blæðir und og birta dagsins dvín en brunninn kveikur slokknar fyrr en varir. Hún bar sinn kross með bæn og hetjulund og bjart er yfir minninganna ranni.

Vér vitum aldrei, hvorki stað né stund, er stormur lífsins snýr að næsta manni. Þú göfga sál er gladdir hug og hönd og gekkst svo ljúf um öldurmanna vegi, nú birtist þér hin bjarta, fagra strönd, brosandi á lífsins nýja degi. Sú kærleikshönd er kveðjum við í dag og köllum eftir minninganna sjóði. – Það birtir aftur eftir sólarlag og okkar bænir beðnar verða í hljóði. Hjartanlegar samúðarkveðjur sendi ég öllum ástvinum Hönnu. Guð blessi minningu hennar. Ingólfur Þórarinsson. Það er sárt að sjá á eftir góðri vinkonu og jafnöldru.

Hún barðist hetjulegri baráttu við illvígan sjúkdóm í nokkur ár. Henni tókst að halda reisn sinni fram á síðustu daga enda kynntist Hanna fljótt baráttu vegna fötlunar sem hún fæddist með og lét hana aldrei hefta sig á lífsleiðinni. Leiðir okkar Hönnu lágu saman fyrir 48 árum í Grundarfirði. Þangað komum við báðar 17 ára gamlar til að vinna á vertíð í Hraðfrystihúsi Grundarfjarðar. Við komum úr ólíku umhverfi, hún frá Siglufirði, ég úr Reykjavík, og við vorum á allan hátt óskaplega ólíkar.

Kannski var það vegna þessa að með okkur myndaðist sterk vinátta sem varði öll þessi ár. Á þessum tíma hittum við báðar unga myndarlega menn sem urðu okkar lífsförunautar. Örlögin ætluðu okkur báðum að búa í Grundarfirði, ala þar saman upp börnin okkar og leggja okkar til samfélagsins. Það er margs að minnast eftir margra ára vináttu. Það var ævinlega gott að vera í návist Hönnu, hún hafði mikla og góða kímnigáfu, var skemmtilegur hrakfallabálkur og hló alltaf mikið að eigin hrakförum og smitaði alla með hlátri sínum.

Eitt dæmi um hrakfarir hennar var þegar hún datt niður margar tröppur með stóra tertu í höndunum og skilaði henni heilli niður. Það hefði enginn getað gert nema Hanna. Við Hanna störfuðum saman um áratugaskeið í Kaupfélaginu, vorum virkar kvenfélagskonur og unnum mikið saman við undirbúning og byggingu Dvalarheimilisins Fellaskjóls í Grundarfirði, þar sem hún var síðan ráðin forstöðukona og gegndi hún því starfi af miklum dugnaði og mikilli alúð í mörg ár eða allt þar til hún varð að láta af störfum vegna veikinda sinna.

Það er ógleymanlegt þegar við héldum saman upp á 40 ára afmælið okkar og vorum við svo stórtækar að við tókum Samkomuhúsið í Grundarfirði á leigu og er þessi veisla ennþá í minnum höfð hér í Grundarfirði. Tíu árum síðar fórum við hjónin saman til Kanaríeyja og vakti það mikla gleði okkar þegar að þú valdir á 50 ára afmælisdaginn þinn að fara í sólarhringsferð til Afríkuríkisins Gambíu og töluðum við oft um að þetta hefði verið besta og skemmtilegasta ferð sem við höfðum farið í.

Síðar áttum við hjónin með ykkur yndislega daga á Írlandi sem við gleymum aldrei. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast Hönnu og átt með henni og Ívari öll þessi góðu ár. Ég á eftir að sakna þess að sitja ekki lengur með Eygló og Hönnu og fleiri vinkonum okkar við eldhúsborðið eins og við erum búnar að gera svo oft undanfarið og drekka kaffið sem Ívar hitaði fyrir okkur. Ég mun aldrei gleyma þér elsku Hanna mín. Kæri Ívar. Við sendum þér og fjölskyldu þinni innilegar samúðarkveðjur.

Elísabet og Reynir. Drífandi dugleg þenkjandi hag annarra um hugsar og skjól. Hugdjörf fórnfús hlustandi byggir brunn fyrir aðra í gleðisól. Gefandi hjálpandi styðjandi opið var ávallt hennar hús Ferðbúin hress tilhlakkandi fer á sinn góða staðinn fús. Vinarþel veislur góðar hér hún þekkt var fyrir við Grundarfjörð. Veislugleði hafði með sér eflaust nú á gangi í öðrum heimi jörð. Með bros á vörum gæti þar sagt kímnislega. Má ég þér ekki kaffi endilega bjóða örlæti hennar er þar sannað. Er í erindum góðum að hjálpa fólki og frábæra halda þar veislu góða … … hvað annað. Ívari og fjölskyldu, ættingjum og vinum færi ég mínar hugheilar samúðarkveðjur.

Valur Höskuldsson, fundarstjóri MND-félagsins.
-----------------------------------------------------

Elsku Hanna. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný. Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir.) Elsku Ívar, synir og fjölskyldur, Jórunn og aðrir aðstandendur, innilegar samúðarkveðjur. Gunnhildur og Bjarni.

Elsku Hanna frænka, takk fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman í gegnum tíðina, megi birtan eilífa lýsa þér á nýjum leiðum. Minning þín lifir í huga mínum. Ég sendi þér kæra kveðju, nú komin er lífsins nótt. Þig umvefji blessun og bænir, ég bið að þú sofir rótt. Þó svíði sorg mitt hjarta þá sælt er að vita af því þú laus ert úr veikinda viðjum, þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti þá auðnu að hafa þig hér. Og það er svo margs að minnast, svo margt sem um hug minn fer. Þó þú sért horfinn úr heimi, ég hitti þig ekki um hríð. Þín minning er ljós sem lifir og lýsir um ókomna tíð. (Þórunn Sigurðardóttir) Ég sendi Ívari, Jórunni móður hennar, Gústa, Árna Ívari, Benna, Marvin og fjölskyldum þeirra innilegar samúðarkveðjur. Og bið guð að blessa vegferð þína. Þín frænka, María Jóhannsdóttir. Elsku Hanna frænka, þakka þér fyrir samveruna í þessu lífi.

Þakka þér fyrir hvað þú varst honum Frímanni bróður góð þegar hann þurfti á þér að halda. Það var svo notalegt að koma við hjá þér og alltaf hafðir þú tíma til að spjalla. Ég man alltaf eftir því þegar ég stóð á tröppunum hjá þér einhvern sumardaginn og ákvað að athuga hvort þú værir heima. Þegar þú komst til dyra þá hrópaðir þú upp yfir þig „ég vissi að það væri von á gestum, komdu inn og komið öll inn“.

Seinna kom í ljós að ástæða þess að þú vissir að væri von á gestum var sú að þú hafðir verið að missa allt í gólfið fyrr um daginn. Svona varstu elsku Hanna alltaf svo glöð og jákvæð og svo almennileg.

 • Og þegar þú hefur náð ævitindinum,
 • þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna.
 • Og þegar jörðin krefst líkama þíns,
 • muntu dansa í fyrsta sinn.

(Kahlil Gibran.)

Elsku Ívar, ég bið góðan guð að blessa þig og fjölskyldu þína og veita ykkur styrk í sorg ykkar. Jórunn Frímannsdóttir (yngri).