Tengt Siglufirði
Harða Guðmundsdóttir Fædd 14. janúar 1912. — Dáin 13. marz 1976.
Hinn 13. marz s. 1. lézt Harða Guðmundsdóttir, Lindargötu 20, Siglufirði, á Sjúkrahúsi Siglufjarðar.
Útför hennar fór fram frá Siglufjarðarkirkju
þ. 20. marz s. 1.
Harða var fædd á Þönglabakka í Þorgeirsfirði 14. jan. 1912. Foreldrar hennar voru Guðmundur Jörundsson skipstjóri frá Hrísey og kona hans,
Sigríður Sigurðardóttir frá Skarðdal í Siglufirði. Guðmund ur drukknaði, þegar Harða var í frumbernsku.
Seinni maður Sigríðar var Sigurhjörtur
Bergsson, greindur og gegn maður, sem margir rosknir Siglfirðingar muna vel, en hann starfaði lengi sem vélgæzlumaður við gömlu rafstöðina.
Þau bjuggu áfram á Þönglabakka nokkur
ár, en fluttust síðan að Staðarhóli í Siglufirði.
Eftir fárra ára búskap þar fluttu þau yfir fjörðinn í kaupstaðinn, en þaðan eftir stutta dvöl til Hríseyjar. Þar bjuggu þau einnig stutt og fluttust aftur til Siglufjarðar. Átti Harða hér heima upp frá því.
Árið 1930 réðist hún til starfa á símstöðinni í Siglufirði og vann þar til 1947.
Hún giftist árið 1941 Bragi Magnússon, nú gjaldkera hjá bæjarfógetaembættinu í Siglufirði.
Þau eignuðust fjögur börn.
Tvö þeirra létust í fæðingu, en upp komust tvær dætur,
Harða komst til þroska á þeim árum, þegar sviptingarnar í verkalýðshreyfingunni voru mestar.
Móðir hennar og Þóroddur Guðmundsson bróðir hennar, sem var elztur systkinanna, voru í forustuliði hinna róttækustu og harðskeyttustu, róttækir námsmenn, menntamenn og upprennandi stjórnmálamenn, sem sóttu hingað sumarvinnu, voru heimagangar hjá fjölskyldu hennar og heimilið sjálft raunar miðstöð sósíalisma og verkalýðshreyfingar í bænum.
Sá málstaður varð strax í æsku málstaður Hörðu, og frá honum hvikaði hún aldrei. Hún var ein þeirra, sem hlutu dóm fyrir framgöngu sína í Dettifossslagnum fræga 1934, og taldi sér að því heiður.
Harða veiktist af berklum og átti upp frá því við heilsuleysi að stríða og þurfti að ganga undir margvíslegar lækningaaðgerðir, m. a. tvisvar ' undir „höggningu", sem olli því, að hún varð því sem næst ófær til allrar áreynslu og vinnu. Síðustu tvo áratugina munu hafa verið áhöld um, hvort hún dvaldist meira á heimili sínu eða á berklahælum og sjúkrahúsum.
Það voru þung örlög fyrir konu, sem unni heimili sínu og var að upplagi mannblendin, glaðvær og félagslynd, að vera þannig svipt starfskröftum og útilokuð að mestu frá eðlilegu lífi og starfi.
Þrátt fyrir þetta hélt hún alltaf meðfæddri reisn og háttprýði í fasi og framkomu. Hún var smekkvís í klæðaburði, kunni vel að haga máli sínu, sómdi sér vel hvar sem hún kom fram, og lét aldrei hugfallast. Með fráfalli Hörðu er horfinn af vettvangi bæjarlífsins í Siglufirði síðasti einstaklingurinn úr stórri fjölskyldu dugmikils fólks, sem um hálfrar aldar skeið áttu drjúgan þátt í að móta og skapa sögu bæjarins.
Þessu blaði og aðstandendum þess er ekki sízt mikil eftirsjá að liðsemd þessa fólks. Ég leyfi mér fyrir hönd siglfirzkra sósíalista að votta vandamönnum Hörðu heitinnar samúð okkar, ásamt virðingu og þökk. Eiginmanni hennar, sem alltaf studdi hana og annaðist af dæmafárri ræktarsemi og umhyggju, svo og börnum þeirra og barnabörnum, sendi ég og fjölskylda mín persónulegar samúðarkveðjur.
Benedikt Sigurðsson