Jón Gunnar Þórðarson símaverkstjóri

Þjóðviljinn - 09. desember 1970   Minning og.......

Gunnar Þórðarson símaverkstjóri frá Siglufirði Fæddur 16. des. 1935 — Dáinn 26. nóv. 1970

Þeir deyja ungir, sem guðirnir elska. Sé það rétt, sem þetta máltæki segir, hefur Jón Gunnar Þórðarson verið einn i hópi þeirra, sem elsku og náðar hafa notið í ríkum mæli hjá guði sínum. Í blóma lífsins, hraustur og hamingjusamur, er hann svo skyndilega og öllum á óvart hrifinn af lífsins braut. Það er svo ein af hinum torráðnu gátum tilverunnar og ofar mínum skilningi, hvern tilgang algæzkan sér i þessu, sem svo þungan harm kveður að ungri eiginkonu, þrem börnum og öðrum nákomnum skyldmennum.

Gunnar Þórðarson - Ljósmynd Kristfinnur

Gunnar Þórðarson - Ljósmynd Kristfinnur

Jón Gunnar Þórðarson var fæddur 16. des. 1935, sonur hjónanna Sigríður Aðalbjörnsdóttir og Þórður Jónsson, símamanns. Ef segja má með sanni um nokkurn mann, að hann hafi vaxið upp í lífsstarf sitt, þá var það Gunnar Þórðarson.

Hann mun hafa strax i bernsku fylgt föður sínum eftir og kynnzt störfum hans, byrjaði sem unglingur að vinna í símavinnu og síðan að taka æ virkari og ábyrgðarmeiri þátt í störfum hans.
Hann stundaði vinnu og nám í Reykjavík um nokkurt skeið og lærði símvirkjastörf, jarðsímalagnir o.fl., og sótti síðan námskeið sér til aukinnar fræðslu.

Sem áður segir nam Gunnar verklega kunnáttu mest af föður sínum, og þegar hann féll frá tók hann við störfum hans, og var skipaður símaverkstjóri frá 1. okt. 1964. Gunnar naut álits sem góður verkstjóri og var verksvið hans oft ærið víðfemt, því að á sumrin var hann með vinnuflokka sína inni um Skagafjörð, í Ólafsfirði og jafnvel víðar.

Hann var mjög samstarfsgóður maður, hjálpsamur og viljugur að leysa vanda samborgáranna, eftir því sem aðstaða hans leyfði. Að eðlisfari var Gunnar jafnlyndur maður, kýminn og góðsamur svo sem faðir hans var. Hann var listelskur, hafði yndi af tónlist og söng, var áhugasamur og starfandi félagi í Karlakórnum Vísi. Skíðamaður var hann góður og starfaði lengi og \e l í Skíðafélagi Siglufjarðar. Hann var einnig virkur félagi í Lionsklúbbi Siglufjarðar og í Bridgefélagi Siglufjarðar.

Þegar Gunnar skrapp út á Sauðanes fimmtudaginn 26. nóv. s.l. til að kveðja vin sinn og samstarfsmanns og að ganga frá lofitskeyta stöðvarhúsinu þar að lokinni viðgerð á tækjabúnaði, hvarflaði ekki að neinum að sú ferð yrði í nokkru frábrugðin öllum fyrri ferðum hans, svo margar sem þær voru orðnar á þann stað. Því kom fregnin um hið hörmulega slys eins og reiðarslag yfir vini og samstarfsfólk.

Við trúðum því tæpast að fregnin væri sönn, að vindhviða hefði feykt símabílnum af veginum og þar með lífi vinar og félaga af braut. En svona er mjótt bilið milli lífs og dauða, svo skjót geta umskiptin orðið. Jón Gunnar Þórðarson var kvæntur æskuvinu sinni, elskulegri og ástríkri konu, Guðnýju Hilmarsdóttur, og áttu þau þrjú börn, tvo drengi og eina stúlku, öll myndarleg og vel gefin og falleg- börn.

Þau höfðu búið sér yndislegt heimili og voru hvort sem annað umhyggjusöm um heimilið og samhent í uppeldi barna sinna. Enginn veit né skilur hvílíkur missir það er, sem þau fjögur hafa nú orðið fyrir. Hugljúf minning um elskulegan bernskuvin og eiginmann, og ljúfan föður er þó harmabót, ylur, sem lengi mun verma. Minningin um Gunnar Þórðarson mun verða mér og öðrum starfssystkinum hans hér góð og fögur. Ég votta eiginkonu hins látna, börnum hans, móður og stjúpföður, systkinum og öðrum vandamönnum mína hjartanlegustu samúð.
Orðstír deyr aldrei hveim sér góðan getr.
E. M. A.
--------------------------------------- 

Morgunblaðið - 08. desember 1970

Minning: Jón Gunnar Þórðarson, Siglufirði

FLEST, sem fyrir ber, hefur - eins og tilveran sjálf - margar hliðar, sumar í skærri birtu, aðrar í skugga. Fjallahringurinn, sem skýlir Siglufirði og skapar lognblíðu sumarsins, birgir á stundum sólarsýn. Þá er leitað um Strákagöng á Almenninga í kvöldsól, í berjamó eða í fjöru með veiðistöng. En þar geymir sagan einnig sínar sorgarhliðar. Þar tók snjóflóð bæinn Engidal og líf þeirra, er þar bjuggu, og þar er nýorðið hörmulegt slys, er Jón Gunnar Þórðarsori, símaverkstjóri, var burtu kallaður í blóma lífsins, aðeins 34 ára að aldri — gæddur flestu því, sem gerir ævi manna farsæla.

Jón Gunnar Þórðarson fæddist hér í Siglufirði 16. desember 1935. Foreldrar hans voru frú Sigríður Aðalbjörnsdóttir og Þórður Jónsson, sem látinn er fyrir nokkrum árum. Þórður heitinn var starfsmaður símans hér og um langt árabil í hópi beztu starfskrafta í leiklistarlífi Siglfirðinga á meðan það var og hét.

Jón Gunnar Þórðarson var vel gerður, bæði til sálar og líkama, sérstakt prúðmenni og mikill starfsmaður. Hann var símaverk stjóri hér í Siglufirði og hafði auk þess umsjón með símalínum um Austur-Skagafjörð. Undir hans stjórn vann því oft hópur manna, einkum á sumrum, og ósjaldan skólapiltar. Vissi ég vel til þess, að þeim þótti vænt um húsbónda sinn og báru til hans þakkar- og hlýhug. Gunnar, eins og hann var oftast nefndur, tók virkan þátt í ýmsu félagslífi, einkum í íþrótta hreyfingunni, Karlakórnum Vísi og Lionsklúbbi Siglufjarðar.

Í Lions klúbbnum kynntist ég honum bezt og lærði að meta mannkosti hans og drengskap. Gunnar var kvæntur Guðnýju Hilmarsdóttur, Jónssonar frá Tungu í Stíflu. Áttu þau þrjú börn, tvo syni og eina dóttur. Fámennið hefur sjálfsagt sínar neikvæðu hliðar. — En í lítilli byggð, þar sem allir þekkja alla, eru bönd vináttu og kunningsskapur nánari og traustari en annars- staðar.

Á sorgarstundu, þegar einn af okkur er óvænt burtu kallaður, þá finnum við, sem fámennið knýtir saman, til hvert með öðru, eins og ein fjölskylda. Öll höfum við mikið misst, en mest þau, sem stóðu hjarta okkar látna vinar næst. Við Lionsbræður hans, sendum þeim okkar innilegustu samúðarkveðjur í sorg og missi. Megi þau minnast þess, að þetta líf okkar nú og hér er aðeins ein hlið tilverunnar, að jafnvel hin sárasta sorg á sér aðra hlið, er að sólu snýr.

Siglufirði, 1. des. 1970. Stefán Friðbjarnarson.
-------------------------------------------------
MIG setti hljóðan er sonur minn spurði hvort við hefðum heyrt um slysið sem varð á Sauðanesi og Gunnar Þórðarson verið fluttur á sjúkrahúsið í Siglufirði. — „Símabílnum" hafði víst fokið út af veginum, hafði hann heyrt. Það setti að mér óhug, vegurinn frá Siglufirði inn í Fljót liggur víða um snarbrattar skriður og sker þröng gil sem í vissum vind áttum geta orsakað snarpa svipti vindi. í litlum kaupstað fréttast slys fliótt, Gunnar Þórðarson var allur.

Mér fannst dimma í kringum mig, og Siglufjörður minnka. Gunnar heitinn hafði farið þessa leið fyrr um daginn, og þá haft samband við vinnuflokk frá Rafveitunni, en milli stofnananna var gott samstarf, voru þeir ókomnir til Siglufjarðar er slysið varð. Tilviljun réð að Rögnvaldur bróðir Gunnars var ekki í bílnum með honum, en þeir voru samstarfsmenn Landsímans í Siglufirði.

Jón Gunnar Þórðarson var fæddur þann 16. desember 1935 og hefði hann því orðið 35 ára gamall eftir fáa daga. Hann var sonur hjónanna Þórðar Jónssonar verk stjóra hjá Landsímanum í Siglufirði og Sigríðar Aðalbjörnsdóttur. Gunnar fæddist í Siglufirði og ólst þar upp í foreldrahúsum. Hann fékk snemma áhuga á starfi föður síns, og má segja að hann hafi alizt upp í störfum Landsímans, fyrst í leik og síðan í lífsstarfi. Gunnar lærði símvirkjun í Siglufirði og síðan í Reykjavík, en hann kom aftur til Siglufjarðar árið 1958 og tók við verkstjórastarfi hjá Landsímanum, eftir að faðir hans dó. Gunnar var góður verkstjóri, trúr stofnuninni og virtur af samstarfsmönnum og viðskiptamönnum Landsímans.

Gunnar var vinsæll og vinmargur, hann tók þátt í margvíslegu félagsstarfi í Siglufirði, Ég minnist hans, sem keppanda fyrir Skíðafélag Siglufjarðar á landsmótum, í fimleikaflokki Helga Sveinssonar og í badminton. Ég minnist hans á söngfjöl um Karlakórsins Vísis, þegar stolt okkar Siglfirðinga lét í sér heyra. Ég minnist hans sem félaga í Lionsklúbbi Siglufjarðar. Ég minnist hans í veiðiferð um, við höfðum þegar áætlað eina á sumri komanda, en enginn má sköpum renna.

Gunnar var glæsimenni, vel vaxinn og sterkbyggður, hann var dulur og flíkaði ekki tilfinningum sinum, hann var sérlega hjálpsamur og tryggur vinum sinum, Siglufjörður hefur misst mikið. Starfsfólk Landsímans í Siglufirði sér nú bak þriðja félaga sín um á einu ári, öllum fyrir aldur fram, megi góður guð láta þessu linna. Það er sárt að sjá á bak góðum' vini, vinátta okkar Gunnars hefur varað um þá tíð að við vorum í Reykjavík, báðir við nám nýkvæntir bekkjarsystrum frá Siglufirði og áttum litið til annað en bjartsýnina og trúna á lífið.

Nú er því lokið, þessu er svo erfitt að trúa, svona skyndilega og snöggt. Við sem áttum svo margt ógert saman. Það er sagt að þeir sem guðirnir elska deyi ungir. Kæri vinur vertu sæll, ég sendi þér hinztu kveðju frá mér og fjölskyldu minni. Ég vona að algóður guð megi styrkja konu þína Guðnýju Hilmarsdóttur og börnin Hilmar 12 ára, Sigríði 7 ára og „augasteininn" Þórð, aðeins þriggja ára gamlan, í sorg þeirra.

Ég veit að fátækleg orð mega sín lítils, en hugur að baki þeim meir. Guðný, við sendum þér, börnunum og ættingjum innilegustu samúðarkveðjur, megi algóður guð gefa ykkur styrk og látnum ró, sem kallaður var burt svo snöggt, til annarra starfa í öðru lífi. Blessuð sé minning hans.
Sverrir Sveinsson.
-------------------------------------------------

Vísir - 27. nóvember 1970

Dauðaslys hjá Sauðanesvita
Siglfirðingur, Jón Gunnar Þórðarson, símaverkstjóri beið bana i gær, þegar bifreið hans fauk út af afleggjaranum hjá Sauðanesvita, skammt vestan við Strákagöngin, og valt fram af bjargbrúninni. Hrapaði billinn niður urðina tugi faðma og stöðvaðist ekki fyrr en niðri í fjöru. Gunnar var að koma frá því að ljúka viðgerð radíós hjá vitaverðinum á Sauðanesi og ók einn í bifreið sinni, en fast á eftir honum fylgdi símvirki í annarri bifreið.

Hvasst var á þessum slóðum í gær og gekk á með snöggum sviptibyljum annað veifið. Í einni vindkviðunni fauk bifreiðin um koll út af afleggjaranum, þar sem hann lá fremst við gilbrún, og skipti engum togum, að bifreiðin var samstundis horfin fyrir björgin. Jón Gunnar Þórðarson (f. 16. des. 1935) bjó að Hverfisgötu 34 á Siglufirði, og lætur eftir sig konu og þrjú börn. — GP
-----------------------------

Tíminn - 28. nóvember 1970

Maður beið bana er bíll hans fauk út af veginum
JÞ-Siglufirði, föstudag.
Jón Gunnar Þórðarson, símaverkstjóri, Hverfisgötu 34, Siglufirði, lézt af slysförum í gær. Jón Gunnar var að koma frá Sauðanesvita er bíll hans fauk út af veginum, er liggur frá vitanum upp á Siglufjarðarveg, skammt vestan Strákagangnanna. Fór bíllinn um 100 metra niður bratta brekku og alla leið niður í fjöru.

Var Jón Gunnar látinn er að var komið. Annar bíll var skammt á eftir og sá bílstjóri hans er slysið varð. Veðurhæðin var um þessar mundir níu til tíu vindstig á Siglunesi og hiti 12 stig. Vegurinn var alauður en miklir sviftibyljir meðfram fjöllunum. Bílstjórinn, sem ók á eftir Jóni Gunnari sá er bíllinn tókst á loft í hryðjunni og endasentist niður í fjöru. Jón Gunnar Þórðarson var 35 ára að aldri. Lætur hann eftir sig konu og þrjú börn.
----------------------------------------- 

Mjölnir - 04. desember 1970

Hörmulegt slys Það hörmulega slys varð um miðjan dag fimmtudaginn 26. nóv. s.l., að geysisterk stormhviða þeytti bifreið út af veginum við Sauðanes. Hrapaði bifreiðin niður í fjöru mikið fall. 1 bifreiðinni var einn maður, Jón Gunnar Þórðarson, símaverkstjóri, og beið hann bana. Þennan dag gekk á með sterkum stormhviðum. Símamenn höfðu undanfarið unnið að viðgerðum í fjarskiptastöðinni á Sauðanesi og var því verki lokið, aðeins eftir að ganga frá húsinu og þess háttar og fór Gunnar í símabílnum út eftir, ásamt viðgerðarmanni frá Akureyri, en sá ætlaði að aka beint heim á leið frá Sauðanesi.

Þeir voru á heimleið, komnir ofarlega á afleggjarann heim að vitanum, er sterk stormhviða gekk á, og stöðvuðu þeir bilana. En allt í einu herðir vindinn og símabíllinn, sem var Volvo fjallabíll, þeyttist út af veginum, en einmitt þar var skemmst fram á brúnina og síðan snarbratt niður í fjöru. Hjálparmenn frá Siglufirði komu á staðinn nokkru síðar og fundu Gunnar látinn. Mun hann hafa dáið strax. Jón Gunnar Þórðarson var á bezta aldri, 35 ára, og lætur eftir sig konu og þrjú börn. Þetta sviplega slys sló þungum harmi á bæjarbúa. Þarna fórst indæll maður, allra hugljúfi í umgengni og starfi sínu.