Gunnar Símonarson

Morgunblaðið - 19. desember 1982

Gunnar Símonarson  -  Hinn 11. desember 1982. lézt í Landspítalanum í Reykjavík Gunnar Símonarson, verkstjóri, 66 ára að aldri. Hann var fæddur á Siglufirði 17. febrúar 1916.

Foreldrar hans voru Símon Sveinsson, ættaður úr Skagafirði, og kona hans Pálína Pálsdóttir frá Ólafsfirði. Á ég góðar minningar um þau ágætu hjón frá bernskudögum mínum nyrðra.

Gunnar Símonarson ólst upp í foreldrahúsum á Siglufirði. Hann stundaði þar nám í barna- og unglingaskóla, en vann síðan við ýmis störf tengd síldarútgerð og síldariðnaði. Síðustu árin á Siglufirði var hann verkstjóri á síldarsöltunarstöðvum þar.

Árið 1937 kvæntist Gunnar eftirlifandi konu sinni, Þóra Einarsdóttir frá Efri Brú í Grímsnesi, greindri og mætri konu.
Þau eignuðust sex börn, þrjá syni og þrjár dætur.

Gunnar Símonarson - Ljósmynd Kristfinnur

Gunnar Símonarson - Ljósmynd Kristfinnur

(sk = veit aðeins um nöfn þeirra: Pálínu Gunnarsdóttur f 2 Apríl 1937 og Símon Gunnarsson f 26. mars 1941)

Á Siglufirði bjuggu þau lengst af í litlu húsi skammt utan við Bakka, þar sem útsýni yfir utanverðann fjörðinn og til hafs er óvenju fagurt, ekki sízt þegar miðnætursólin gyllir umhverfið. Er síldin fjarlægðist hefðbundin mið við Norðurland varð atvinnuástand á Siglufirði ótryggt. Flutti þá fjöldi Siglfirðinga búferlum til annarra staða á landinu, þar sem atvinnuástand var betra, einkum þó til Reykjavíkur. Í þeim hópi voru þau Þóra og Gunnar ásamt börnum sínum. Það var ekki sársaukalaust fyrir vin minn Gunnar að yfirgefa æskustöðvarnar.

Oft minntist hann á hina gömlu góðu tíma, þegar Siglufjörður var að sumrinu eins konar stórborg á íslenzkan mælikvarða, þar sem stundum hundruð eða jafnvel þúsundir manna af ýmsu þjóðerni spásseruðu um göturnar og hljómsveitir, margar hverjar skipaðar landsþekktum hljómlistarmönnum, léku á þéttsetnum veitinga- og kaffihúsum, en frá skipunum, sem lágu í höfninni eða úti á kyrrum firðinum, barst við og við hljóðfæraómur eða söngur á ólíkum tungum. Þessi stemmning var Gunnari ekki síður minnisstæð en hið mikla athafnalíf.

Minningar um þessa daga gleymast þeim seint, sem upplifðu þá. „Ég held jafnvel að snjórinn á Siglufirði hafi verið hreinni og fallegri en hér syðra," var eitt af því síðasta sem Gunnar vinur minn sagði við mig, er ég heimsótti hann á sjúkrahúsið skömmu áður en kveðjustundin rann upp. Slíkar voru tilfinningar hans og minningar um æskustöðvarnar. En það var ekki aðeins hin mikla athafnasemi í sambandi við síldina, sem einkenndi Siglufjörð fyrri hluta þessarar aldar, heldur blómgaðist þar sérstætt menningarlíf, ekki sízt, þegar kyrrð færðist yfir bæinn að vetrinum.

Að vaxa upp og þroskast við þessar kringumstæður jók víðsýni manna. Nokkrum árum eftir að suður kom réðst Gunnar Símonarson til Síldarútvegsnefndar sem aðstoðarverkstjóri og síðar verkstjóri. Hafði hann m.a. yfirumsjón með lestun saltsíldar frá hinum ýmsu stöðum á landinu. Var það erilsamt og erfitt starf.
 Á þessum ferðum sínum eignaðist hann fjölda vina meðal áhafna flutningaskipanna, afgreiðslumanna þeirra og starfsmanna söltunarstöðvanna.

Höfðu þessir aðilar oft orð á því hve ósérhlífinn Gunnar væri við þessi störf. Nú þegar leiðir skiljast er margs að minnast. Gunnar Símonarson var drengur góður. Hann hafði sterka réttlætiskennd og bar ætíð fyrir brjósti hag þeirra, sem minna máttu sín. 

Við hjónin þökkum áratuga vináttu hans og tryggð og flytjum öllum aðstandendum hans innilegar samúðarkveðjur.  - Gunnar Flóvenz