Jón Gunnar Möller

Morgunblaðið - 258. tölublað (10.11.1996)

Gunnar Möller fæddist á Siglufirði 27. júlí 1922. Hann andaðist á Landspítalanum 3. nóvember síðastliðinn.
Foreldrar hans voru hjónin Jóna Sigurbjörg Möller, fædd Rögnvaldsdóttir, f. 18 .mars 1885 á Þrastastöðum í Óslandshlíð, Skagafirði, d. 6. febrúar 1972 á Siglufirði, og Christian Ludvig Möller, f. 5. apríl 1887 á Blönduósi, d. 11. ágúst 1946 á Siglufirði.

Þau hjón eignuðust átta börn og var Gunnar þeirra yngstur. Systkini hans eru:

 • Alfreð, forstjóri á Akureyri, f. 1909, d. 1994;
 • William Thomas, kennari við Skógaskóla, f. 1914, d. 1965;
 • Rögnvaldur Sverrir, fv. kennari á Ólafsfirði, f. 1915;
 • Jóhann Georg, fv. verkstjóri og bæjarfulltrúi á Siglufirði, f. 1918;
 • Alvilda Friðrikka María, húsmóðir í Hrísey, f. 1919;
 • Unnur Helga, húsmóðir á Siglufirði, f. 1919; og
 • Kristinn Tómasson, búsettur í Kópavogi, fv. starfsmaður í Umbúðamiðstöðinni, f. 1921.
Gunnar Möller - Ljósmynd Krstfinnur

Gunnar Möller - Ljósmynd Krstfinnur

Hinn 9. júní 1963 kvæntist Gunnar Nönnu Þuríði Þórðardóttur, f. 30. apríl 1923 á Siglufirði.

Synir þeirra eru:

 • 1) Þórður Gunnarsson , f. 6. október 1960, BSc í stærðfræði, kerfisfræðingur hjá Kaupþingi. Kona hans er Ingibjörg Sigurrós Helgadóttir, f. 26. júní 1957 á Raufarhöfn og eiga þau þrjú börn.
 • 2) Rögnvaldur Gunnarsson, f. 10. mars 1965, dr. í stærðfræði, starfar við Háskóla íslands.

Fjölskyldan flutti frá Siglufirði til Reykjavíkur 1977 og eftir það vann Gunnar hjá Olíufélaginu hf. Útför hans verður gerð frá Háteigskirkju á morgun, mánudaginn 11. nóvember, og hefst athöfnin klukkan 13.30.
---------------------------------------------------- 

 • Við hlutum þá gæfu að gista
 • gróandi jörð um skamma stund,
 • en bíðum þar aðeins byrjar
 • um blikandi hnattasund.
 • Við finnum í eðli og anda útþrá,
 • sem bæði seiðir og knýr
 • til hugboðs um eitthvað horfið,
 • sem hinum megin býr.

(Davið Stef.)

Á morgun verður kvaddur hinstu kveðju föðurbróðir minn, Gunnar Möller. Minningar um hann eru að mörgu leyti samofnar bernskuminningum og sögum frá Siglufirði þar sem sumrin voru sólarfyllt og veturnir tunglskinsbjartir. Lífið var tiltölulega einfalt og maður var manns gaman.

Gunnar ólst upp í stórum systkinahópi og var litli drengurinn hennar ömmu Jónu sem við afkomendur hennar minnumst sem hláturmildrar, félagslyndrar konu sem hafði ríka samkennd með lítilmagnanum og fylgdist afskaplega vel með sístækkandi fjölskyldu sinni. Kristján afa þekki ég aðeins af sögum annarra en hann var góður söngvari, einn af stofnendum karlakórsins Vísis, og gleðinnar maður.

Heimili þeirra var á uppvaxtarárum Gunnars og þeirra systkina nokkurs konar félagsmiðstöð okkar tíma. Herskari af börnum og unglingum kom þangað til að tefla og spila og þeir sem ekki komust inn í húsið, sem var minna en hjartarými húsráðenda, fylgdust með spilamennskunni inn um gluggann. Jólaboðin voru ógleymanleg þeim sem þau sóttu. Afi var lögregluþjónn og stundum gat verið erfitt að vera sonur manns í slíku starfi.

Uppeldið var strangt, en gott, og æskan björt. Gunnar og Bassi (Kristinn), yngstu drengirnir á heimilinu, fylgdu oft föður sínum og minntust þess sérstaklega þegar þeir voru aðstoðarmenn hans við útburð á útsvarsseðlum. Afi stóð þá á miðri götu og sendi annan soninn til vinstri og hinn til hægri. Æskan leið við leiki og störf og Gunnar var innan við fermingu þegar hann var fastráðinn í sumarvinnu á síldarplan KEA.

Eitt af öðru fóru systkinin að heiman til náms og starfa og Gunnar hleypti einnig heimdraganum og stundaði nám í Reykholtsskóla á árunum 1943-1946. Hann hlaut góða greind í vöggugjöf og varð sérstaklega leikinn í stærðfræði. Taugin til föðurtúnanna var römm og hann settist að á Siglufirði að námi loknu. Bjó með ömmu Jónu og annaðist hana vel. Vann á sumrin í síldinni og á veturna í Tunnuverksmiðjunni.

Á veturna gafst einnig tími til að sinna tómstundastörfum, en Gunnar var frímerkjasafnari, bridsspilari og síðast en  ekki síst góður ljósmyndari. Við síðasttöldu iðjuna minnist ég hans sérstaklega, en filmurnar framkallaði hann í eldhúsinu hjá ömmu og fyrir tíma litfílmanna litaði hann myndirnar einnig. Slíkar myndir af Siglufirði eru til eftir hann. Gunnar var á fertugsaldri þegar hann stofnaði heimili með Nönnu en við krakkarnir fylgdumst vel með því þegar þau voru að draga sig saman. Nanna bjó í næsta húsi við Gunnar og ömmu ásamt Þórunni móður sinni og þar hófu þau búskap.

Heimili þeirra var með einstökum myndarbrag. Nanna myndarleg húsmóðir og mikil hannyrðakona. Gunnar var fremri flestum karlmönnum þess tíma við að elda og baka. Synir þeirra voru sannkallaðir gleðigjafar. Árið 1977 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur, en þá var eldri sonurinn kominn í framhaldsskóla. Síðustu árin á Siglufirði vann Gunnar í Kaupfélaginu, og í Reykjavík fékk hann einnig starf sem hann var ánægður með og rækti af þeirri samviskusemi sem honum var í blóð borin. Áfram léku hússtörfin í höndum hans og sú leikni hefur reynst notadrjúg þar sem Nanna hefur átt við heilsu brest að stríða í allmörg ár. Hann annaðist hana af kostgæfni og taldi ekkert eftir sér á því sviði.

Hann var stoltur af sonunum sem báðir erfðu stærðfræðihæfíleika föður síns og menntuðu sig á því sviði. Barnabörnin þrjú Helgi, Nanna og Gunnar voru honum yndisauki í mótlæti síðari ára en nokkuð er síðan hann fór að kenna veikinda sem hann tók af æðruleysi þess sem veit að mennirnir áætla en guð ræður. Hann dvaldi heima lengur en stætt var með aðstoð hjálparfólks og dvöl hans á sjúkrahúsi var stutt.

 • Eilífð var öllum sköpuð
 • áður en til voru jarðnesk spor.
 • Síðasta guðagjöfin
 • er gleðinnar ljósa vor.

(Davíð Stef.)

Góður drengur er genginn. Blessuð sé minning hans.
Jóna Möller.
----------------------------------------------------------------------

Nú þegar við kveðjum Gunnar frænda okkar, viljum við minnast með nokkrum orðum góðra stunda sem við áttum með honum þegar við vorum að vaxa úr grasi á Siglufirði. Gunnar var yngsti bróðir hennar mömmu. Það var stutt fyrir okkur systkinin að fara í heimsókn í „gamla húsið", þar sem amma Jóna og Gunnar frændi bjuggu: Niður túnið og yfir götuna, enda heimsóknirnar margar á þessum árum og alltaf vorum við velkomin. Ekki munum við eftir öðru hjá Gunnari en góðu skapi, hlýju brosi og þolinmæði við okkur krakkana. Gunnar hafði mikinn áhuga á frímerkjasöfnun og ljósmyndun.

Hann framkallaði og stækkaði ljósmyndirnar sjálfur og nutum við krakkarnir góðs af. Björgvin sem er elstur okkar var sérstaklega hændur að honum og fékk hann sína fyrstu kassamyndavél að gjöf frá honum. Gunnar frændi átti forláta kubba, sem líktust helst Lego kubbum en þó minni. Úr þeim reistum við hallir og hús undir handleiðslu Gunnars. Við gleymdum okkur líka við að skoða gömlu blöðin hans, bæði dönsk og íslensk. Ávallt var hann tilbúinn að hjálpa okkur við stærðfræðina, ef við þurftum þess með. Þá settist hann með okkur inn á „kontórinn", og þar var dæmið leyst.

Hann gerði lítið úr þessari hjálp sinni, leyfði okkur að halda að við hefðum leyst gátuna sjálf, bara með því að hugsa aðeins meira. Við litum með lotningu til Gunnars, hann gat allt og vissi allt. Umhyggjusamur, hlýr og alltaf tilbúinn að hjálpa. Við biðum með eftirvæntingu eftir jólagjöfunum frá ömmu Jónu og Gunnari, þótt við vissum að Ævintýrabækurnar væru fastur liður. Amma Jóna hélt alltaf fínt jólaboð fyrir öll barnabörnin sem áttu heima á Siglufirði og þá sá Gunnar ekki síst til þess að allir skemmtu sér konunglega og tók svo ljósmyndir af hópnum.

Gunnar flutti frá ömmu þegar hann var kominn á fertugsaldurinn og stofnaði heimili. Um svipað leyti fer Björgvin að búa, og svo skemmtilega vildi til að elstu börnin þeirra fæddust með aðeins tveggja daga millibili. En Gunnar flutti ekki langt frá ömmu, bara í næsta hús, til hennar Nönnu, sem varð lífsförunautur hans. Mikið vorum við ánægð og glöð fyrir þeirra hönd og gaman var að sjá hversu hamingjusöm og glæsileg þau voru.

Með árunum minnkaði sambandið við Gunnar og fjölskyldu hans, eftir að þau fluttu suður. Enn þann dag í dag þegar við hugsum um ömmu Jónu, kemur Gunnar upp í huga okkar, og við systkinin vitum hvers vegna. Minningarnar um góðar stundir lifa. Um leið og við þökkum Gunnari fyrir þær, sendum við ástvinum hans og aðstandendum innilegustu samúðarkveðjur.
Megi Guð vera með ykkur.

Björgvin, Steinunn, Brynja og Salbjörg.