Guðvarður Jónsson málarameistari

Morgunblaðið - 29. desember 1996

Guðvarður Jónsson málarameistari á Akureyri, fæddist á Bakka í Sléttuhlíð í Skagafirði 23. nóvember 1916. Hann lést á Akureyri 22. desember síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Jón Jónsson f. 20.1. 1887, d. 22.11. 1961, og Anna Egilsdóttir, f. 10.8. 1882, d. 9.1. 1959.

Systkin hans eru:

  • Áslaug Jónsdóttir, f. 1913, býr á Dalvík,
  • Hólmfríður, f. 1914, látin,
  • Jóhannes Pétur, f. 1915, látinn,
  • Ingibjörg, f. 1917, látin, Sigvaldi, f. 1919, látinn,
  • Guðbjörg f. 1920, býr í Kópavogi, Marsibil, f. 1923, látin,
  • Þóra, f. 1926 býr á Akureyri.
Guðvarður Jónsson - Ljósmynd Kristfinnur

Guðvarður Jónsson - Ljósmynd Kristfinnur

Fósturforeldrar Guðvarðar voru Guðvarður Pétursson, f. 1895 (föðurbróðir) og María Ásgrímsdóttir, f. 1896, lengst af á Minni Reykjum í Fljótum.

Guðvarður lærði málaraiðn hjá Herberti Sigfússyni á Siglufirði, lauk sveinsprófi 1950.

Hann starfaði alla tíð sem sjálfstæður málarameistari.

Guðvarður kvæntist 23.9. 1942 Kristbjörgu Reykdal Traustadóttur, f. 12.6. 1920 á Akureyri.
Börn þeirra eru:

  • 1) Arnald Reykdal, (sonur Kristbjargar, fóstursonur Guðvarðar), f. 1938, maki Ásta Þórðardóttir.
  • 2) Gréta Kolbrún Guðvarðardóttir, f. 1943, maki Steinþór Oddsson.
  • 3) Trausti Reykdal , f. 1944, maki Helga Einarsdóttir.
  • 4) Guðfinna Guðvarðardóttir, f. 1948, maki Valgarður Stefánsson.
  • 5) Snorri Guðvarðarson, f. 1953, vinkona Auður Eyþórsdóttir.

Guðvarður átti 23 barnabörn og 21 langafabarn. Útför Guðvarðar fer fram frá Akureyrarkirkju á morgun, mánudaginn 30. desember, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Fyrir mörgum árum gekk ég með Guðvarði Jónssyni, Varða, tengdaföður mínum, inn á Glerárdal. Aðalmarkmið fararinnar var að leita að fallegum steinum og steingervingum. Varði naut þessarar ferðar og oft staðnæmdist hann í lotningarfullri hrifningu yfir náttúrufegurðinni og rósemd og tign fjallanna.

Hann kunni svo vel þá list að láta hrífast. Inni á Glerárdal fundum við marga fallega steina, reyndar þótti mér Varði finna þá allt of marga því bakpokinn hans varð á endanum margfalt þyngri en minn poki og þótti mér samt nóg um minn burð. í annað sinn fórum við saman upp í miðjar hlíðar Kerlingar, auðvitað líka til að sækja góðan slatta af sérvöldu grjóti sem hann svo smíðaði borðplötu úr.

Þessar gönguferðir koma nú upp í hugann þegar Varði hefur lagt af stað í sína hinstu fjallgöngu sem endar við Gullna hliðið. Vafalaust hefur Varði tínt upp nokkra fallega mola á þeirri göngu og laumað svo lítið beri á inn í himnaríki. Því ef Varði vissi af fallegum steinum einhvers staðar þá aftraði honum ekkert frá að nálgast þá. Til allrar hamingju, fjölskyldunnar vegna, þá eignaðist Varði aldrei fjallajeppa því þá hefði steinasöfnunin áreiðanlega farið úr böndunum. Hinsvegar þurfti Varði aldrei að fara langt til að láta hrífast af náttúrufegurð þessa lands. Hann ferðaðist ekki mikið.

Ég held að hann hafi farið í sínar lengstu ferðir í andanum því stundum fékk maður það á tilfinninguna að hann gæti látið hugann flytja sig til fjarlægra landa. Hann las alla tíð mjög mikið og var fjölfróður. Varði skrifaði niður suma drauma sína af mikilli nákvæmni og var áhugamaður um guðspeki og sálarrannsóknir. Hann var einnig virkur frímerkjasafnari og stóð í bréfasambandi við aðra safnara út um allan heim um langt árabil. Varði var mikill listunnandi og átti gott safn listaverkabóka. Á yngri árum nam hann útskurð og lætur eftir sig marga vandaða, vel út skorna muni.

Söngmaður var hann góður og söng í karlakórum á Siglufirði og síðar hér á Akureyri um tíma. Síðustu árin var hann veikur fyrir hjarta en enginn heyrði hann kvarta eða kveinka sér. Það var ekki hægt annað en að öfunda hann af þeirri sálarró sem hann var gæddur. Ég veit ekki fyllilega hvert leyndarmálið var en líklega var hann að þroska sig í andanum alla ævi. í þau 30 ár sem ég átti Varða að vini heyrði ég hann aldrei deila eða segja styggðarorð gegn nokkrum manni. Ekki einusinni gegn misvitrum stjórnendum þessa bæjar eða lands.

Samt leyndi hann ekki skoðunum sínum en hann kunni að setja þær þannig fram að ekki hallaði á nokkurn mann. Guðvarður var raunar lukkunnar pamfíll í lífinu, því hann eignaðist hinn besta lífsförunaut sem Kristbjörg var honum. Oft var glatt á hjalla í Berlín þegar börnin og síðar barnabörnin og barnabarnabörnin komu í heimsókn. Ég veit að þeim þótti öllum óskaplega vænt um afa sinn og ömmu. Ekki síst fyrir þá list þeirra að fá börnin til að tala um sín hugðarefni og hrósa þeim þegar þau áttu það skilið.

Hafi Varði átt sér eitthvert lífsmottó þá fólst orðið gleði áreiðanlega í því. Þegar fjölskyldan flutti frá Siglufirði til Akureyrar, laust fyrir 1960, tíðkaðist sá siður á Siglufirði að tendra ártal næsta árs á gamlárskvöldi í hlíðinni upp af bænum undir Hvanneyrarskál. Á Akureyri var þetta ekki gert. Þá sögðu börnin við pabba sinn: „Pabbi, þú átt að setja ljós í fjallið". Þá hófst Guðvarður handa við að útvega blys og stillti þeim þannig að þau mynduðu ártal næsta árs í Vaðlaheiði. Fjölskyldan sá um að viðhalda þessum sið nokkur ár á eftir. Nú er hann orðinn að ómissandi venju um hver áramót á Akureyri.

Þannig lét Guðvarður í raun ljós sitt skína strax við komuna til Akureyrar og til að gleðja aðra á gamlárskvöld lagði hann á sig mikla vinnu, oft við erfiðar aðstæður. Ég er eiginlega sannfærður um að þau þarna uppi í himnaríki hljóti að hafa tekið á móti honum með mikilli ljósadýrð og það kæmi mér ekki á óvart þótt ótal kyndlar hafi myndað nafn hans við komuna þangað, rétt eins og við hér á jörðu niðri sjáum logandi kyndla mynda nýtt ártal austur í heiði um hver áramót.

Valgarður Stefánsson.
---------------------------------------------- 

Það er svo margt sem kemur upp í hugann núna, fullt af góðum minningum en einnig stórt tómarúm. Þó er efst í huga mér þakklæti fyrir það sem þú hefur verið mér og kennt mér með þolinmæði þinni, bjartsýni og jafnaðargeði. Aldrei sýndir þú mér annað en jákvæðni, fannst góðu hliðarnar á öllu og aldrei heyrði maður þig tala illa um nokkurn hlut eða mann. Það voru ánægjulegar stundir sem við áttum með þér á áttræðsafmæli þínu nú í nóvember, stundir sem verða vel geymdar.

Það var líka líkt þér að vera búinn að skrifa öllum jólakort og þakka fyrir afmælið og spyrja mig aðeins klukkustundu fyrir andlát þitt hvort ég væri búin að fá kortið frá þér. Þú vildir aldrei gleyma neinum. Elsku afi, með þessum fátæklegu orðum vil ég þakka þér fyrir allt. Mér finnst eins og þú sért ekki farinn heldur sért enn á meðal okkar. Þú átt stórt pláss í hjarta mínu og dætra minna og svo verður alltaf.

Hafðu hjartans þakkir.
Ragnheiður Valgarðsdóttir og fjölskylda.
---------------------------------------------- 

Afi kvaddi fyrir jól. Sjálfsagt hefur himnaföðurinn vantað röddina hans í himnakórinn fyrir hátíðarmessuna og verðum við að virða þá ósk hans. Núna hefur afi líka örugglega rifjað upp kunningsskapinn við gamla kórfélaga og aðra samferðamenn í gegnum lífið. Hann hefur fundið sinn stól að sitja á og rifjar upp sögur af mönnum og málefnum. Umræðurnar enda vafalaust með ættfræðilegum bollaleggingum sem afi botnar með, „Já, ég málaði nú hjá honum".

Afi var málari í ein 40 ár og ekki nóg með að hann myndi líklega alla staði sem hann hafði málað heldur mundi hann einnig liti og litbrigði á mörgum þessara staða. Okkur barnabörnunum birtist afi sem einn geðbesti maður sem við þekktum, stundum jafnvel þannig að foreldrum okkar þótti nóg um. Þeim fannst að við ættum e.t.v. frekar skilið að fá ofanígjöf en ástúð. Einu sinni brutum við systurnar t.d. óvart einn af dýrgripum afa og bjuggumst sjálfar við að verða skammaðar ærlega en afi var bara hinn rólegasti því hann skildi vel heim okkar barnanna.

Þannig ávann hann sér líka gegnheila virðingu okkar og elsku. Þótt afi sé nú farinn í sitt lengsta ferðalag er hann samt hér hjá okkur. Þegar við finnum til streitu eða erum niðurdregin fitlum við, við „þægðarsteininn", sem hann slípaði í og mörg okkar bera daglega í vasanum og hugsum til afa. Af hans sálarró og geðprýði getum við hin margt lært. Við sjáumst síðar, afi. Kidda systir kveður þig í huganum frá Angóla. Rut Valgarðsdóttir. Það er erfitt að trúa því að afi sé farinn burt frá okkur. Þegar ég var lit.il var ég mikið hjá afa og ömmu.

Minningarnar sem ég á um hann afa eru margar og væru efni í heila bók ef ég myndi skrifa þær allar. Afi var alltaf svo ljúfur og góður og skeytti aldrei skapi sínu á öðrum. Hann var alltaf boðinn og búinn til að hjálpa öðrum, og launin sem hann vildi var gleði í hjarta. Betra er að gefa en þiggja. Ef ég gerði eitthvað fyrir hann afa, hversu lítið sem það var, stóð aldrei á þakklætinu. Við afi áttum nokkrar góðar stundir saman, þær voru bara allt of fáar. Maður gefur sér aldrei tíma fyrr en það er orðið of seint. En þessar fáu stundir sem við áttum saman eftir að ég eltist töluðum við mest um ýmsa söfnun. Það hef ég erft frá honum afa mínum að safna ýmsum hlutum að mér.

Eitt safnið er mér þó dýrmætast og það er spilasafnið mitt sem hann afi minn gaf mér þegar ég fermdist. Já, alltaf fannst mér gott að koma til afa og ömmu. Og eftir að ég eignaðist sjálf fjölskyldu var alltaf farið til afa og ömmu í Afastræti. Fyrst að afi átti heima þar hlaut gatan að heita Afastræti en ekki Aðalstræti. Það var aldrei leiðrétt hjá börnunum, þau kölluðu götuna Afastræti þangað til þau fóru sjálf að lesa. Minningin mun alltaf lifa hjá bæjarbúum þegar þeir horfa austur í Vaðlaheiði um áramót og sjá ártalið. Og stolt er ég af því að geta sagt: Það var hann afi minn sem gerði ártalið í heiðinni fyrst.
Elsku afi minn, ég kveð þig nú með söknuði og vona að þér líði vel þar sem þú ert nú staddur.

Harpa.

Arnald Reykdal, (sonur Kristbjargar, fóstursonur Guðvarðar málara)f. 1938 - Kristbjörg Reykdal - Snorri Guðvarðarson, f. 1953 - Guðvarður Jónsson málari - Trausti Reykdal, f. 1944 og Guðfinna Guðvarðardóttir, f. 1948