Hannes Þorvaldur Sölvason

Neisti - 20. febrúar 1983

Hannes Sölvason f. 6. janúar 1903 f. 4 janúar 1983.
Hannes var fæddur að Kjartansstaðakoti í Lýtingsstaðahreppi i Skagafirði.
Hann lést á Borgarsjúkrahúsinu í Reykjavík þann 4. janúar og vantaði því aðeins tvo daga á áttatíu árin.

Foreldrar Hannesar voru hjónin Sigurlaug Björnsdóttir og Sölvi Jóhannsson. bóndi og landpóstur víðfrægur fyrir dugnað sinn og þrek í því starfi. Þau hjónin, Sigurlaug og Sölvi. eignuðust sextán börn. en ellefu þeirra komust upp.

Árið 1924 fluttu Sölvi og Sigurlaug til Siglufjarðar með fjölskyldu sína.

Fyrst eftir komuna hingað stundaði Hannes almenna verkamannavinnu. Hann var um skeið vörubifreiðastjóri og var hann með þeim fyrstu hér á Siglufirði. Í áraraðir var Hannes eftirsóttur verkstjóri við síldarsöltun og starfaði m. a. hjá Ingvari Guðjónssyni, Hafliða h.f., Kaupfélagi Siglfirðinga og Vigfúsi Friðjónssyni.

Í þessu erilsama starfi þótti hann með eindæmum laginn og hygginn verkstjóri. Hann var vammlaus maður í öllu sínu starfi og vel látinn dugnaðarforkur, eins og hann átti kyn til. Eftir að hann hætti verkstjórn hóf hann störf sem síldarmatsmaður hjá Síldarútvegsnefnd, en vann á vetrum í Tunnuverksmiðjunni.

Hannes Sölvason - Ljósmynd Kristfinnur

Hannes Sölvason - Ljósmynd Kristfinnur

Árið 1930 stofnaði Hannes heimili með konu sinni Olga Magnúsdóttir, Magnúsar Pálssonar og Þórunnar Sigurðardóttur frá Grund í Svarfaðardal.

Frá þeim er kominn stór ættstofn af dugnaðarfólki. Olga var dugleg og mikilhæf húsmóðir. Hún lést 24. janúar 1971.

Þau Olga og Hannes eignuðust fimm börn, þau eru:

  • Hörður Hannesson, ókvæntur, bjó með föður sínum síðustu árin,
  • Hulda Hannesdóttir, gift Valur Sigurðsson, búsett í Svíþjóð,
  • Júlía Hannesdóttir, gift Helgi Antonsson,
  • Guðrún Hannesdóttir, gift Gísli Antonsson og
  • Friðrik Hannesson, kvæntur Stefanía Guðmundsdóttir.
    Þau eru öll búsett hér í Siglufirði.
    Auk þess ólu Olga og Hannes, upp sem sitt eigið barn
  • Hauk Björnsson, en hann er kvæntur Ester Guðmundsdóttur.

Fyrir nokkrum árum brást heilsa Hannesar, en þá hafði hann skilað miklum og góðum vinnudegi og þá var loksins kominn tími til að sinna duldum áhugamálum. Tómstundaiðja hans var þá steinmyndagerð, sem bar vott um listrænan smekk hans og hæfni. Gerði hann myndir sinar úr íslensku bergi. Hljótt var um þessa tómstundaiðju, svo var og um ljóðagerð hans.

Hannes vann að þessum verkefnum án hávaða, en með rósemi hugans. Hann var einn af þessum gæfusömu alþýðumönnum, sem vann öll verk sín af samviskusemi, en án hávaða.

Með Hannesi Sölvasyni er til moldar hniginn mikill dugnaðar og sómamaður, sem Siglufjörður stendur í ómetanlegri skuld við.

Herði kunningja mínum og systkinum hans og öðrum ástvinum Hannesar eru fluttar dýpstu samúðarkveðjur við fráfall hins mæta manns.

Blessuð sé minning Hannesar Sölvasonar.

J.G.M.