Halldóra Margrét Hermannsdóttir

mbl.is 27. maí 2007 | Minningargreinar 

Halldóra Hermannsdóttir fæddist á Hofsósi 11. október 1912. Hún lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 16. maí 2007.

Foreldrar hennar voru Elín Lárusdóttir, f. á Vatni á Höfðaströnd í Skagafirði 27. febrúar 1890, d. 26. mars 1980, og Hermann Jónsson, f. á Bíldudal 12. desember 1891, d. 30. september 1974.

Systkini Halldóru eru

 1. Lárus Hemannsson, f. 1914, d. 2007,
 2. Níels Hermannsson, f. 1915, d. 1997,
 3. Rannveig Hermannsdóttir, f. 1916, d. 1981,
 4. Hrefna Hemannsdóttir, f. 1918, Sæmundur, f. 1921, d. 2005,
 5. Haraldur Hemannsson, f. 1923, Georg, f. 1925, og
 6. Björn Hemannsson, f. 1928.
Halldóra Hermannsdóttir
-- ljósmyndari ókunnur

Halldóra Hermannsdóttir
-- ljósmyndari ókunnur

Halldóra giftist Friðrik Márussyni 1936.
Börn þeirra eru:

 • 1) Margrét Friðriksdóttir, f. 1940, maki Arngrímur Jónsson. Þau eiga tvo syni, níu barnabörn og tvö barnabarnabörn.

 • 2) Hermann Friðriksson, f. 1942, d. 1999, maki Agnes Einarsdóttir. Þau eiga fjögur börn og átta barnabörn. Einn sonur þeirra er látinn. Hermann átti einn son fyrir hjónaband og á hann fjögur börn.

 • 3) Ævar Friðriksson, f. 1948, maki Hjördís Júlíusdóttir. Þau eiga fjögur börn og sjö barnabörn. Einn sonur þeirra er látinn.

Halldóra fluttist þriggja ára með foreldrum sínum út í Málmey á Skagafirði þar sem þau bjuggu til 1918. Þá fluttu þau að Ysta-Mói í Fljótum. Halldóra gekk í barnaskóla í Haganesvík í Fljótum til fermingaraldurs en 1932 fór hún í Húsmæðraskólann á Staðarfelli og lauk þaðan prófi. Næstu árin dvaldi Halldóra í Reykjavík við vinnu á saumastofu en flutti síðan til Siglufjarðar þar sem hún vann við síldarsöltun á sumrin en í frystihúsum og við aðra fiskverkun þess á milli.

Útför Halldóru verður gerð frá Siglufjarðarkirkju á morgun, mánudaginn 28. maí, og hefst athöfnin klukkan 14.
---------------------------------------------------

Elsku amma mín, það eru margar góðar minningar sem koma upp í hugann þegar hugurinn leitar til þín.

Ég man hvað það var alltaf notalegt að koma til þín og afa á Sigló. Þar var ýmislegt brallað.

Ég man eftir ferðunum upp í Hvanneyrarskál þar sem við vorum nestuð upp með appelsín í flösku, sem var alltaf til í kjallaranum, og nammi, og áttum að borða það þegar við kæmum upp á topp. En við stoppuðum alltaf í miðri hlíðinni og gæddum okkur á nestinu, en þá stóðst þú út í glugga með kíki og fylgdist með öllu saman.

Ég man eftir ferðunum í Fljótin með ykkur afa í skódanum, þar sem stoppað var í Ketilási og keyptur ís, farið í hólmann og tíndur dúnn, veitt og svo auðvitað stússast í kringum dýrin.

Ég man eftir dúnsængunum og litlu svæflunum sem var svo gott að kúra í.

Ég man eftir öllum bænunum, vísunum og spilunum sem þú kenndir okkur. Ég man eftir jólapökkunum, sem alltaf var svo gaman að fá, í þeim voru ullarsokkar, fullt af nammi og peningur.

Ég man eftir hvað þú varst alveg sérstaklega gjafmild, vildir alltaf vera að gefa einhverjum eitthvað, en sjálfa vantaði þig aldrei neitt.

Það var alltaf gaman að spjalla við þig, þú fylgdist alltaf vel með öllu. Ég man sérstaklega eftir því þegar þú spurðir mig með hvaða liði ég héldi í handbolta, og ég sagðist ekkert fylgjast með handbolta, en þú áttir þér uppáhaldslið.

Sérstaklega fylgdistu með barnabörnunum og barnabarnabörnunum og barnabarnabarnabörnunum sem eru orðin ansi mörg og voru þér mjög kær. Þér þótt mjög leiðinlegt að ekkert af þeim bjó á Siglufirði, og komu því oft margir í heimsókn í einu, og svo enginn í langan tíma. Ég man hvað þú varst alltaf glöð þegar maður kom, og svo óskaplega leið stóðstu í glugganum og vinkaðir þegar maður fór.

Á Sigló áttirðu marga að, dóttur, tengdason, góða vini, nágranna og ættingja og var oft mjög gestkvæmt hjá þér. Það var gott að vita af Maddý, Adda, ömmu Mæju, afa Júlla og öllu þessu góða fólki í kringum þig sem hugsaði svo vel um þig, sérstaklega undir það síðasta þar sem sjónin var orðin ansi döpur og þú áttir erfitt orðið með að borða. Heima hjá þér vildirðu vera og alls ekki fara á elliheimili, sagðist alltaf frekar vilja fara á barnaheimili en elliheimili.

Elsku amma mín, ég veit að hvíldinni varstu fegin. Ég er þakklát fyrir að hafa átt þig sem ömmu, ég er viss um það að ef að það væri mynd í orðabókinni til að útskýra hugtakið amma þá væri þar mynd af þér. Hvíl þú í friði, þín

Harpa.
---------------------------------------

Með ömmu og alnöfnu eiginkonu minnar, Halldóru Hermannsdóttur eða Dóru, er gengin skarpgreind, fordómalaus og víðlesin kona sem lét sig menn og málefni miklu skipta. Þrátt fyrir háan aldur var annáluðu minni hennar og skarpskyggni ekkert farið að förlast. Hún bjó yfir mikilli frásagnargleði enda hafði hún frá mörgu að segja frá langri ævi. Hún var sérlega skemmtilegur viðmælandi og ávallt stutt í dillandi og ungæðislegan hlátur hennar.

Þótt líkami og sjón væru farin að láta undan síga var ekkert gefið eftir og hvergi undi hún sér betur en í sínu litla eldhúsi á Hvanneyrarbraut á Sigló með gesti og gangandi í kringum sig, hellandi upp á kaffi og berandi meðlæti á borð. Yfir Dóru var mikil reisn, hún var meitlaður og sterkur persónuleiki og barnagæla sem var með á hreinu hvað skipti máli í þessu lífi. Gjafmildi og höfðingsskapur einkenndi allt hennar viðmót og veraldleg gæði skiptu hana engu.

Samband eiginkonu minnar við föðurömmu sína var sérstakur og fallegur kapítuli. Milli þeirra var sterkur og tær strengur og vart leið sú vika að þær töluðust ekki við. Engin af heimferðum okkar til Íslands var fullkomnuð nema amma Dóra væri sótt heim á Sigló. Og skemmtilegri langömmu er vart hægt að hugsa sér.

Ég kveð þessa stórmerku og einstöku konu með miklum söknuði og kæru þakklæti fyrir samfylgdina.

Stefán Haukur Jóhannesson.
----------------------------------------------

Ég kvaddi Dóru mína með miklum trega fyrir þremur vikum á Sjúkrahúsi Siglufjarðar en þá var ljóst að hún átti skammt eftir ólifað. Hún var algjörlega æðrulaus, tilbúin að mæta örlögum sínum, klár í kollinum til hinsta dags. Ég ætlaði að þakka henni fyrir allt sem hún var okkur fjölskyldu minni en kom ekki upp orði, vitandi vits að ég væri að halda í höndina á henni í síðasta skipti og faðma hana í hinsta sinn.

Dóra var engin venjuleg manneskja, sterkur karakter, einstaklega barngóð, eðalframsóknarmaður sem hafði ákveðnar skoðanir á öllum málum og lét engan kúga sig til fylgilags ef henni var það á móti skapi. Hún hafði afburða dómgreind og ótrúlegt minni, gat rifjað upp sögur og ljóð sem hún hafði lesið fyrir tugum ára og sagt frá atburðum langt aftur í tímann um menn og málefni og skildi ekkert í þessu unga fólki nú til dags sem mundi ekki einu sinni atburði milli daga.

Á háskólaárum mínum þótti Dóru ekkert sjálfsagðara en að koma til okkar til að aðstoða með heimilið og börnin þegar tími prófa fór í hönd og var það ómetanleg hjálp. Aldrei féll henni verk úr hendi en allt var gert af yfirvegun, aldrei nein læti og leið henni best ef það var fullt hús af fólki og hún gat gefið öllum að borða. Ég man aldrei eftir því að hafa heyrt hana kvarta undan því að hún væri þreytt, það orð var ekki til í hennar orðaforða.

Á sumrin dvöldu Dóra og Friggi langdvölum hjá Georg bróður hennar á Ystamó í Fljótum þar sem foreldrar Dóru höfðu búið áður. Elstu börnin okkar eiga minninguna um berjaferðir, silungsveiði og síðast en ekki síst samverustundir í sveitinni þar sem frændur og frænkur hittust en Ystimór var samverustaður þar sem allur ættboginn hittist.

Systkini Dóru voru 8 og afkomendur þeirra eru æði margir eins og sést á ættarmótum sem haldin eru á tveggja ára fresti, Dóra bar velferð þeirra allra fyrir brjósti og fylgdist sérstaklega vel með þeim. Hún var sérlega stolt af börnum sínum Maddý, Hemma og Ævari og afkomendum þeirra og sagðist ekki skilja í því hvað hún ætti fallega og góða afkomendur.

Síðasti áratugurinn í lífi Dóru var ekki alltaf dans á rósum en alltaf var hún kletturinn í lífi okkar allra. Hún missti Frigga sinn í byrjun árs 1997, Hemmi elsti sonur hennar dó á sviplegan hátt tveimur dögum fyrir aldamótin og Friggi sem alltaf var kallaður Friggi litli, yngsti sonur Hemma og Agnesar, drukknaði í hörmulegu sjóslysi ásamt sambýliskonu sinni fyrir tveimur árum.

Bæði þessi dauðsföll voru reiðarslag fyrir fjölskylduna. Seiglan í þeirri gömlu var ótrúleg. Oft spurði ég hana að því hvernig henni liði og fékk þá svarið að það væri gott að gráta í koddann sinn á kvöldin en það þýddi ekkert að leggjast í volæði því lífið héldi áfram.

Við erum þakklát fyrir að hafa átt ömmu Dóru í öll þessi ár en það verður að viðurkennast að hún er fjölskyldunni mikill harmdauði og það verður skrýtið að koma til Siglufjarðar án þess að koma við á Hvanneyrarbrautinni. Eldhúsið hennar var gnægtabúr af alls kyns heimabökuðu góðgæti og Dóra sá til þess að allir borðuðu eins og þeir gátu í sig látið. Siglufjörður verður ekki samur án hennar. Að leiðarlokum vil ég þakka Dóru minni alla vináttuna, væntumþykjuna og umhyggjusemina sem hún sýndi fjölskyldu minni og kveð ég hana með miklum söknuði.

Guðrún Ó. Blöndal.
-------------------------------------------

Virðuleiki, höfðinglegt yfirbragð en umfram allt einstök hlýja í garð allra er það er mér fyrst dettur í hug er ég minnist "Drottningarinnar" Halldóru Hermannsdóttur.

Elsku Dóra, stundirnar í eldhúsinu hjá þér á Hvanneyrarbrautinni verða með mínum kærustu minningum, þar sem frásagnargleði þín naut sín best. Frásagnir þínar af liðnum tímum og ekki síst af ykkur Móssystkinunum er þið voruð að alast upp á Ysta-Mói. Einnig spurningar þínar af Mósurunum og mökum þeirra hvernig allir hefðu það. Það held ég að hafi verið þér kærast að öllum afkomendum og frændgarði liði vel.

Ætíð eftir heimsókn til þín elsku Dóra leið mér vel og allt virtist bjartara.

Í Hávamálum stendur:

 • Deyr fé,
 • deyja frændur,
 • deyr sjálfur ið sama.
 • Ég veit einn
 • að aldrei deyr:
 • dómur um dauðan hvern.

Minningin um þig mun ævinlega lifa, takk fyrir að hafa verið til elsku Dóra og hafa gert mig að betri manni.

Við Þórdís vottum öllum aðstandendum okkar dýpstu samúð

Níels.
-----------------------------------------------  

Fallin er frá alþýðuhetjan Halldóra Hermannsdóttir á nítugasta og fimmta aldursári.

Fædd á Hofsósi, alin upp á Yzta-Mói í Fljótum en bjó, lifði og vann sinn langa starfsaldur á Siglufirði. Brauðstrit hennar var mestmegnis við fiskvinnslu, hvort sem verkað var til söltunar, reykingar, niðursuðu eða í salt. Lífsbaráttuna mátti lesa í hnýttum og sterklegum höndunum.

Hún stóð uppi í hárinu á verkalýðsleiðtogum sem reyndu að skerða rétt hennar til atvinnuleysisbóta við síldarbrestinn 1960-70 vegna þess eins að hún var gift. Og það var hún svo sannarlega hamingjusamlega annarri alþýðuhetju, Friðriki Márussyni, einnig úr Fljótum, og stóð hjónaband þeirra í tæp sextíu ár þar til Friðrik lést fyrir um 10 árum.

Mér er til efs að Dóra hefði viljað kalla sig róttæka en alls staðar þar sem lítilmagninn átti undir högg að sækja þar var hún komin og tók málstað þeirra. Hjarta hennar sló með réttlætinu og í nærri heila öld hafði hún séð og reynt á sjálfri sér ýmislegt sem hún miðlaði í sögum sem voru svo vel sagðar að engu orði var ofaukið.

Hún sagði mér sögurnar úr Málmey þegar Hermann faðir hennar fór frostaveturinn mikla 1918 fótgangandi á ís að ná í vistir en fraus fastur við útihús þar sem hann hafði stuðst við að hvíla sig. Hún sagði mér sögur af álfkonunni í Málmey sem amma hennar gaf mjólk í barnsnauð en sú lofaði í staðinn að sjá til þess að ekkert illt henti sex ættliði hennar. Hún sagði mér sögur af alþýðufólki á Sigló í sorg og gleði.

Þegar Svenni Björns renndi sér á Siggu Gísla niður klakaðan Skriðustíginn í asahláku. Þegar Björn keyrari manaði hana, staka bindindismanneskjuna, til að taka sopa af vínflösku; að öðrum kosti hleypti hann henni ekki út úr húsinu; og hún stakk út úr flöskunni fyrir framan nefið á honum og rétt náði heim áður en hún sofnaði! Við Dóra sögðum hvort öðru sögur og ég sakna þess að geta ekki komið við á Hvanneyrarbrautinni hjá vinkonu minni og sagt henni einhverja mergjaða sjóarasögu og fengið á móti einhverja gamansögu úr Sigló eða Fljótum.

Sögurnar hennar báru með sér væntumþykju fyrir fólkinu sem hún hafði hitt á lífsleiðinni og átt samleið með og aldrei örlaði á öðru en góðmennsku og velvild.

Börnin áttu í Dóru vinkonu sem alltaf hafði tíma til að sinna þeim eða víkja að þeim mola. Hún kunni sögur af þeim öllum sem áttu að lýsa skapgerð og kostum. Við Dóra konan mín minnumst sögu sem ótal oft var sögð.

En Dóra yngri hafði verið fengin til að líta eftir Frigga syni Maddýjar. Hann togaði óþyrmilega í hárið á frænku sinni sem grét undan honum en þá sagði Dóra Hermanns: Hvað er að heyra þetta, nafna mín. Í þessu húsi hefur Dóra aldrei grátið undan Frigga!

Það fer vel á að ljúka þessum kveðjuorðum með vísu eftir Lárus, nýlátinn bróður hennar, sem hann orti til Dóru þegar hún varð áttræð:

 • Gæfuvegur genginn er
 • greiðfær vel og breiður.
 • Nú vinir þínir votta þér
 • virðingu og heiður.

Gunnar Trausti.
----------------------------------------------------------

Þegar ég fékk fregnir af andláti Halldóru Hermannsdóttur minntist ég lýsingar franska rithöfundarins Proust þegar hann leit í tebollann og sá fyrir sér barnæsku sína.

Það var einmitt á heimili hennar Dóru og Frigga frænda míns sem ég lærði fyrst að drekka te. Það var mikil kúnst. Við sátum við eldhúsborðið á Hvanneyrarbraut 34 á Siglufirði sem var næsta hús við okkar. Þar voru Maddý og Hemmi, systkini Ævars, frænda míns og æskuvinar.

Teið var borið fram í tekönnu því þá voru engir tepokar. Síðan var því hellt í glas og mikill sykur settur út í. Þá var teið látið renna hægt og rólega til kælingar í undirskálina. Þaðan var það drukkið sjóðandi heitt af mikilli list. Hvílík sæla! Allt þetta kom mér í hug þegar ég heyrði að Dóra væri öll. Hún var mér sem önnur móðir fyrstu átta árin. Þar til ég flutti frá Siglufirði átta ára var ég þar daglegur gestur.

Barnið er næmt á lífið. Það var ótrúlegt ævintýri fyrir barn að alast upp á Siglufirði. Samfelld sól allt sumarið og við Ævar alltaf í stuttbuxum. Leikvöllurinn var allur fjörðurinn, niðri á bryggjum að sveifla sér í köðlum, úti í síldarbátum sem báru silfur hafsins að landi, uppi í Hvanneyrarskál að horfa yfir sólgylltan fjörðinn eða inni í Fljótum sem var hátindur tilverunnar.

Heima fyrir voru mömmur okkar. Þær voru kannski ræstar út um miðja nótt til að vinna í síldinni. Svona mikil vinna bjó nefnilega til jafnrétti þegar hvert vinnuframlag verður dýrmætt og menn hætta að hugsa um hvort það er kona eða karl sem vinnur verkið.

Við Ævar vorum óaðskiljanlegir öll þessi ár. Dóra sagði mér síðar að samband okkar hefði ekki bara verið dans á rósum. Stundum var rifist, en aldrei leið nema hálftími þar til ég var kominn aftur með spurninguna "Er Ævar heima?". Þarna lærði ég fyrstu góðu lexíu lífsins. Að taka deiluna. Sættast síðan á ný og hægt var að hefja leik á ný.

Ég átti þess síðar kost að fá að dvelja á heimili Dóru og Frigga heilt sumar og vinna á síldarplani Ísafoldar. Það var stórkostlegt. Allan daginn á þönum í síldinni. Standandi á bílpalli heim í hádeginu þar sem maður borðaði hádegismatinn og lagði sig á gólfinu. Er til betra líf? Heimili Dóru og Frigga var fullt af fólki á þessum árum. Frændfólkið úr Fljótunum og vinir. Þarna var engin stéttaskipting. Börnin og unglingarnir fengu að vera með í umræðunni.

Ég minnist þess að þarna varð réttlætiskennd mín til. Dóra sagði einhverju sinni sögu af konunni í fiskinum sem var svo fljót að slægja að enginn hafði roð við henni. Hún vildi ekki viðvaninga við hlið sér sem drægju laun hennar niður í skítakaup. Samúð okkar var öll með ungu konunni sem lenti við hliðina á þessu skassi.

Alls þessa minnist ég nú við ferðalok. Hún Dóra er eins og margir af hennar kynslóð. Hún gaf okkur það sem mest er um vert á fyrstu árunum. Hlýju og góðvild í garð annars fólks. Fyrir þetta verð ég henni ævinlega þakklátur.

Ég sendi fjölskyldu okkar á Siglufirði bestu kveðjur og þakkir.

Þráinn Hallgrímsson.
-----------------------------------------------------

Elsku Dóra.

 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt.
 • Þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér.
 • Og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer.

 • Þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð.
 • Þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Elsku Dóra, takk fyrir allar stundirnar sem við höfum átt saman í gegnum árin og allt sem þú hefur gert fyrir mig og börnin mín. Þeim á eftir að finnast skrítið að geta ekki farið niður til ömmu Dóru og fá uppáhaldssmákökurnar sínar og knúsið sitt.

Guð geymi þig.  Þín Berglind (Bella).
------------------------------------------------

Það var alltaf gaman að fara til ömmu Dóru. Hún var alltaf svo hress, hún var stundum búin að baka vöfflur eða smákökur. Þegar ég var á Sigló hjá ömmu Maddý og afa Adda fór ég á hverjum degi til ömmu að heilsa upp á hana. Vanalega komu margir til hennar á hverjum degi. Það sem ég gerði oft þegar ég var í heimsókn hjá ömmu var að byggja spilahús og fara í fótbolta í stóra garðinum hennar.

Agla Sól, langalangömmustelpa.
-----------------------------------------------

Í öll þessi ár hef ég verið svo heppin að eiga langömmu og það enga smá langömmu. Amma Dóra var einstök kona, ótrúlega skemmtileg og alltaf stutt í húmorinn, brosið og hláturinn. Það eru margar dýrmætar minningar sem ég á um ömmu Dóru og fer hugurinn alltaf inn í Fljót þar sem ég og Harpa frænka áttum ógleymanlega tíma með ömmu þegar við vorum litlar.

Það komu allir saddir frá ömmu Dóru því það var einfaldlega ekki annað í boði, alltaf fullt borð af heimabökuð bakkelsi og maður sótti sér með því Vallas í kjallarann á Hvanneyrarbrautinni. Það verður undarlegt að koma til Sigló og geta ekki skroppið úteftir til ömmu Dóru.

Einnig verður furðulegt að fara á næsta Mósara ættarmót og hitta ekki ömmu Dóru sem var ávallt fremst í flokki og stolt af þessari flottu ætt sinni. Amma var mikil vinkona og fylgdist hún alla tíð vel með öllum í fjölskyldunni og mundi endalaust af sögum frá því að ég og Addi bróðir vorum lítil.

Það var alltaf gaman að taka upp símann og heyra í ömmu en það var bara eitt skilyrði ef maður hringdi og það var að segja henni eitthvað skemmtilegt.

 • Nú legg ég augun aftur,
 • Ó, Guð þinn náðarkraftur
 • Mín veri vörn í nótt.
 • Æ, virst mig að þér taka
 • Mér yfir láttu vaka
 • þinn, engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Elsku amma Dóra hefur kvatt þennan heim og fengið vængina sína sem hún var að bíða eftir síðast þegar við hittumst. Ég er þakklát fyrir að hafa átt svona frábæra langömmu og verður himnaríki heppið að fá hana til sín.

Margrét Lára.
------------------------------------------------------------

Hinsta kveðja

Elsku langamma.

Við munum þegar við sátum alltaf saman og gáfum fuglunum á sumrin og töluðum um allt mögulegt. Við áttum alltaf mjög góða tíma saman og þú bauðst okkur alltaf uppá heitt súkkulaði og piparkökur sem er best þegar þú býrð það til.

Og svo munum við aðallega eftir því að þú varst mjög góð við allt og alla.

Ást og kossar,

Ragnar, Ævar og Eva.