Haukur Kristjánsson, vélstjóri á Siglufirði

mbl.is 5. apríl 2008 | Minningargreinar 
Haukur Kristjánsson, vélstjóri á Siglufirði, fæddist í Haganesi á Húsavík 7. apríl 1935.
Hann lést á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar 26. mars 2008.

Hann er sonur hjónanna Kristjáns Stefáns Jónssonar sjómanns frá Árbakka á Húsavík, f. 14.2. 1908. d. 21.10. 1959 og Ingibjargar Jósefsdóttur, f. á Kúðá 8.3. 1915.
Systkini Hauks eru

 • Erling Kristjánsson, f. 28.12. 1933,
 • Kolbrún Kristjánsdóttir, f. 20.2. 1938,
 • Dóra Guðný Kristjánsdóttir, f. 5.4. 1945, og
 • Lára Júlía Kristjánsdóttir, f. 25.10. 1952.

Hinn 17.11. 1956 kvæntist Haukur Hugborg Jónína Friðgeirsdóttir, f. 14.6. 1933.
Foreldrar hennar voru hjónin Friðgeir Árnason, f. 28.10. 1905, d. 18.6. 1984 og Ingibjörg Sigurlaug Skúladóttir, f. 23.12. 1904, d. 3.10. 1952.

Haukur Kristjánsson

Haukur Kristjánsson

Börn Hauks og Hugborgar eru:

1) Vigfús Ingi Hauksson
Börn þeirra eru:
rafmagnsiðnfræðingur, f. 18.12. 1955, kvæntist
Guðrún Guðmundsdóttir
(skilin).
 • a) Dagný stjórnmálafræðingur, f. 17.5. 1979, maki Kristinn Þrastarson vélstjóri, f. 2.12. 1976, sonur Reynir Örn, f. 4.9. 2005,
 • b) Linda Hrönn, f. 3.3. 1985, og c) Stefanía, f. 14.7. 1991. Sambýliskona Inga er Anna Jóhannsdóttir, f. 2.10. 1962.

2) Sigurlaug Jónína Hauksdóttir
Börn þeirra eru:
hárgreiðslumeistari, f. 2.5. 1958, gift
Hörður Júlíusson,
f. 21.7. 1958.
a) Hugborg Inga lyfjatæknir, f. 9.1. 1978, gift Kristjáni Sturlaugssyni stýrimanni, f. 25.1. 1972, börn þeirra eru
 • Haukur Orri, f. 16.9. 1999,
 • Hörður Ingi, f. 14.2. 2003 og
 • Sigurlaug Sara, f . 26.1. 2008.
 • b) Brynjar, f. 16.12. 1982, maki Dagmar Markúsdóttir, f. 7.9. 1983, sonur Haraldur Ágúst, f. 9.6. 2007.
3) Guðný Stefanía Hauksdóttir leiðbeinandi, gift Jóhanni Erni Jóhannssyni bifvélavirkja, f. 14.2. 1960. Börn þeirra eru:
 • a) Rögnvaldur Guðni f. 7.12. 1979, maki Guðlaug Jóhannsdóttir, f. 25.6. 1986, dóttir Guðna er
 • Emma Sól, f. 14.10. 2006,
 • b) Brynhildur hárgreiðslusveinn, f. 1.11. 1984, maki Harry Freyr Guðmundsson, f. 14.6. 1987, og
 • c) Karen, f. 22.1. 1993.

Sonur Hauks og Hlaðgerðar Gunnarsdóttur, f. 27.10. 1936, er Gunnar Helgi vélfræðingur, f. 5.11.1955, kvæntur Guðrúnu Björgu Einarsdóttur lyfjatækni, f. 15.1. 1956.
Börn þeirra eru

 • Rakel, f. 10.3. 1980,
 • Sara, f. 20.1. 1982 og
 • Arnar, f. 6.2. 1988.

Haukur var uppalinn á Húsavík en á síldveiðiárunum lá leið hans til Siglufjarðar þar sem hann bjó lengst af. Hann stundaði sjóinn á ýmsum síldveiðiskipum til ársins 1960 en þá hóf hann störf hjá Síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði ásamt því að leysa af á síldarflutningaskipinu Haferninum.

Árið 1983 réð hann sig sem vélstjóra á fraktskip hjá Nesi hf. og starfaði við það um nokkurra ára skeið.
Aftur lá leiðin í land og um tíma starfaði hann hjá Helgi Magnússon pípulagningameistara. Síðustu árin á vinnumarkaði starfaði hann sem vélstjóri hjá Rækjuvinnnslu Ingimundar hf., síðar Pólar hf., þar til starfsemi hennar var hætt í desember 2003.

Útför Hauks fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.

Mig langar að minnast hans pabba míns í örfáum orðum. Það var í maí árið 2006 sem að við Höddi fórum til Reykjavíkur og þú, elsku besti pabbi minn, ákvaðst að koma með og fara til tannlæknis. En þú fórst aldrei til tannlæknis heldur fórst þú í mikla og erfiða rannsókn. Þú varst kominn með ólæknandi sjúkdóm, þú lagðir upp í erfiða baráttu, aldrei kvartaðir þú, svo sannfærður um að fá lækningu en því miður hafði sjúkdómurinn vinninginn.

Þakka þér fyrir allt sem þú hefur kennt mér, elsku pabbi, handlagnari maður er varla til. Alltaf ef eitthvað bilaði þá varst þú til staðar og hjálpaðir, sannkallaður þúsundþjalasmiður eins og mamma sagði alltaf, hann pabbi þinn, hann getur sko lagað þetta. Það er skrýtið að koma á Hlíðarveginn og enginn pabbi, nógu skrýtið var það þegar þú hættir að keyra og bíllinn var ekki lengur fyrir utan húsið. Þín verður sárt saknað. Minningin um traustan og góðan mann lifir í hjörtum okkar, nú hefur þú fengið hvíldina, elsku pabbi.

 • Lýs milda ljós, í gegnum þennan geim,
 • mig glepur sýn,
 • því nú er nótt, og harla langt er heim.
 • Ó, hjálpin mín,
 • Styð þú minn fót; þótt fetin nái skammt,
 • ég feginn verð, ef áfram miðar samt.

(Matthías Jochumsson.)

Þín dóttir, Sigurlaug.
--------------------------------------------

Elsku pabbi, nú ert þú horfinn á braut og kemur ekki aftur. Illvígur sjúkdómur hefur lagt mikla hetju eftir erfiða og langa baráttu. Ekki kom mér í hug eftir ferðina okkar suður í byrjun desember að hún yrði okkar síðasta saman. Góð skoðun hjá lækninum eftir atvikum og góð líðan, ekki að mæta aftur fyrr en í febrúar, kominn í jólafrí. En eins og oft er sagt var þetta lognið á undan storminum. Í mars var hann skollinn á og þú kominn á spítalann til að heyja síðustu orustuna.

Þegar við Guðný systir komum að sunnan til ykkar mömmu, Sillu systur og Boggu frænku á spítalann var stutt eftir hjá þér. Sorgin var átakanleg, en mitt í allri sorginni var þó mikið þakklæti að hafa getað verið með þér síðustu stundirnar og eins að þú þurftir ekki að kveljast of lengi. Þetta sama kvöld fékkst þú hægt andlát og fórst á vit feðra þinna. Þú hafðir barist lengi og með reisn og hélst henni allt til enda.

Þegar ég horfi með söknuði til baka á liðnar samverustundir og harma að þær verða ekki fleiri kemur margt upp í hugann. Eitt sinn áttir þú trillu og fékk ég þá stundum að fara í róður með þér. Í einum slíkum vorum við fyrir utan Siglunes, ég smápolli, er ég sá hval koma vel upp úr sjónum við hliðina á bátnum og varð skelfingu lostinn. Ekki haggaði það þér mikið heldur róaðir þú pollann á þinn einstaka og rólega hátt og sagðir að hann myndi ekkert skaða okkur, við værum öruggir.

Einnig eru minnisstæðar allar ferðirnar sem fjölskyldan fór á hvítu „bjöllunni“ að Höfða á Höfðaströnd til að tjalda, tína ber og veiða sjóbirting í fjörunni. Ekki gleymi ég því þegar mamma sendi mig með nesti til þín niður í síldarbræðsluna þegar þú þurftir að taka aukavaktir. Stóru þurrkararnir snerust hratt við hliðina á löngum stiganum, hitinn, hávaðinn og lyktin var yfirþyrmandi. Það var feginn snáði sem fann á endanum pabba sinn í verkstjórakompunni.

Elsku pabbi ég sakna þín svo mikið. Ég vona að þú hafir það gott hvar sem þú ert staddur.

Elsku mamma, systur mínar, amma og allir ættingjar, við höfum margs að minnast. Munum pabba eins og hann var, rólegur, hugsandi og yfirvegaður hvað sem á dundi.

Þinn elskandi sonur, Vigfús Ingi Hauksson.
----------------------------------------------------------

Í dag kveðjum við höfðingjann og heiðursmanninn Hauk Kristjánsson. Haukur var kvæntur Boggu systur minni. Hann var því mágur minn en var mér í raun svo miklu, miklu meira. Þegar þau Haukur og Bogga hófu búskap á Hlíðarvegi 34 á Siglufirði fylgdi ég húsinu. Þar hafði ég búið ásamt systrum mínum, Boggu og Árnýju, og föður okkar eftir að móðir okkar systranna dó. Aldursmunur okkar systra er tólf og þrettán ár og ég því litla stelpan á heimilinu.

Við komu Hauks inn á heimilið óttaðist ég að missa prinsessusæti mitt. Þegar von var á þeirra fyrsta barni fylltist ég öfund, enda var barnið skyldara Boggu en ég. Allur minn ótti var ástæðulaus. Haukur reyndist mér vel eins og hans var von og vísa. Eflaust hefur hann reynt að siða mig til, enda ekki vanþörf á, en ekki man ég eftir neinum árekstrum. Ólst ég upp hjá þeim hjónum ásamt börnum þeirra, Inga, Sillu og Guðnýju, sem ein úr fjölskyldunni.

Allt sem Haukur sagði og gerði var rétt og gott. Hann var traustur, laginn og vandvirkur. Systur minni reyndist hann yndislegur eiginmaður og börnum sínum góður faðir. Þegar ég eignaðist mín eigin börn, Gunnar, Hauk og Sunnu, reyndist hann þeim líka vel. Sérstaka virðingu báru synir mínir fyrir honum, fylgdu honum hvert fótmál þegar hann var að bardúsa í kjallaranum. Með mikilli virðingu kölluðu þeir hann „Stórauk“, sem á máli fullorðinna er Stóri-Haukur.

Þegar við hjónin hófum búskap í Reykjavík heimsóttum við Hauk og Boggu á sumrin. Þangað var alltaf gott að koma. Hauki og manni mínum, Pálma, varð vel til vina. Saman stofnuðu þeir, ásamt fleirum, skipafélagið Nes 1974. Starfaði Haukur þar um tíma af sömu trúmennsku og annars staðar.

Nú hefur fækkað á Hlíðarveginum, höggvið skarð sem ekki verður fyllt. Elsku Bogga, missir þinn er mikill. Megi Guð styrkja þig, börn þín og barnabörn, og aðra aðstandendur í sorginni. Við Pálmi og börn kveðjum Hauk Kristjánsson með söknuði og virðingu. Blessuð sé minning hans.

Soffía, Pálmi Pálsson og fjölskylda.
----------------------------------------------------

Mikið sem ég sakna þín, afi minn. Alltaf vorum við velkomin til ykkar á Hlíðarveginn enda vorum við nánast daglegir gestir. Þú varst ætíð boðinn og búinn að hjálpa mér með strákana og núna síðasta mánuðinn með litlu dömuna. Hún kemur til með að fá að heyra sögur af afa sem hún missti því miður af að kynnast. Afa sem rúllaði litlar kaldar hendur eftir útiveru. Afa sem kvaddi alltaf svo innilega litlu bræður hennar.

Afa sem gat lagað ótrúlegustu hluti. Tengsl okkar afi minn hafa alltaf verið sterk, ég gat alltaf talað við þig og ömmu um allt milli himins og jarðar, með þér þurfti ég aldrei að þykjast. Það er svo skrýtið að koma í sæta húsið ykkar ömmu og enginn afi sem tekur á móti mér. Enginn afi að horfa á sjónvarpið. Enginn afi sem situr við eldhúsborðið í kaffi. Enginn afi niðri í kjallara að brasa eitthvað eða jafnvel í sólbaði á pallinum ykkar.

Þínir síðustu dagar, afi minn, voru erfiðir en þrátt fyrir það kvartaðir þú aldrei. Ég hugga mig við það að þar sem þú ert, ertu ekki með neina verki, með fullkomna sjón og vel hlýtt, ég er alveg sannfærð um það. Ég lofa þér því, afi minn, að ég og mín fjölskylda verðum áfram daglegir gestir á Hlíðarveginum hjá ömmu. Minningin mun lifa um yndislegan afa og langafa.

Guð geymi þig. Þín afastelpa, Hugborg Inga.
---------------------------------------------------------

Elsku afi.

Núna er þessari erfiðu baráttu lokið. Hún var löng og ströng en þú gafst aldrei upp og barðist eins og hetja alveg til síðasta dags, þú varst svo sterkur og lést aldrei bilbug á þér finna.

Ég á svo margar yndislegar minningar um þig og okkar tíma, elsku afi minn. Þessar minningar ylja mér um hjartarætur þegar ég hugsa um þig og til þessa góða tíma sem við áttum saman.

Ég man allar stundirnar sem við áttum saman niðri í kjallara að vesenast. Allar heimsóknirnar mínar í verksmiðjuna til þín, þegar þú varst að hjálpa mér að laga hjólið mitt, kenna mér að sjóða og brýna hnífa. Þegar við fórum til Spánar saman, ég, þú og amma ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum. Þú varðst alltaf svo brúnn, en ég brann til kaldra kola á skallanum.

Alla hádegis- og kaffitímana sem við áttum saman á Hlíðarveginum í litla kotinu þínu og ömmu, svo ég tali nú ekki um allar sunnudagssteikurnar sem þú eldaðir handa okkur. Ég gat alltaf komið til ykkar ömmu á sunnudögum og alltaf var steik í matinn í hádeginu. Þú hafðir aldrei mikinn áhuga á fótbolta, en alltaf hafðir þú áhuga á því hvernig mér gekk og mundir alltaf eftir því að spyrja mig útí leikina mína. Þú varst svo hjálpsamur, afi minn, alltaf fyrstur á staðinn til þess að aðstoða, ef fjölskylduna vantaði aðstoð. Þú varst sannkallaður þúsundþjalasmiður. Svona gæti ég lengi talið upp.

Allar þessar minningar lifa áfram og ég mun aldrei gleyma þeim.

Þú varst einstakur maður afi minn. Það voru forréttindi að læra af þér og upplifa þennan góða tíma með þér. Minningin um ljúfan, duglegan, kláran og skemmtilegan mann lifir það sem eftir er. Ég elska þig, afi minn.

Guð geymi ömmu og vaki yfir henni. Við hjálpumst að og stöndum saman í gegnum sorgina, elsku amma mín.

Þinn, Brynjar. 
---------------------------------------------------

Í dag kveðjum við Hauk afa með söknuði. Við trúum varla ennþá að þú sért farinn. Þegar við hugsum til baka er svo stutt síðan allt lék í lyndi og ekki hvarflaði að okkur að þú ættir eftir að ganga í gegnum þennan erfiða sjúkdóm.

Eftir stendur aragrúi af minningum um þig elsku afi sem eru okkur svo dýrmætar. Hvort sem við hugsum um heimsóknirnar til Siglufjarðar eða utanlandsferðirnar til Spánar. Þar varstu í essinu þínu. Best munum við eftir þér með speglagleraugun í sólbaði, syndandi baksund í lauginni, eða á vindsænginni, langt úti á sjó.

Það var alltaf svo hlýlegt og gaman að koma í heimsókn til ykkar ömmu á Sigló. Það eru svo margar góðar minningar sem við eigum um þig sem við geymum vel í hjörtum okkar.

Við horfum á eftir þér með tár í augum, en um leið erum við þakklát fyrir að hafa átt þennan yndislega tíma með þér og eftir sitjum við stolt af því hversu sterkur þú varst á síðasta sprettinum.

 • Hver minning dýrmæt perla að liðnum
 • lífsins degi,
 • hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
 • Þinn kærleikur í verki var gjöf,
 • sem gleymist eigi,og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sig.)

Takk fyrir allt elsku afi. Einstakur er orðið sem lýsir þér best.

Rögnvaldur Guðni, Guðlaug Líney, Emma Sól, Brynhildur, Harry Freyr og Karen.
--------------------------------------------------

Elsku besti afi.

Við söknum þín og allra góðu stundanna sem við áttum saman. Mesta sportið var að fá að fara með þér niður í kjallara að leika, fara upp á loft fyrir ykkur ömmu að ná í gos og svo var auðvitað frábært að fá að hjálpa þér að slá í sumar þegar þú varst orðinn lasinn, við vorum svo duglegir saman nafnarnir.

Við ætlum sko að passa að ömmu Boggu leiðist ekki og vera duglegir að hjálpa henni. Svo auðvitað ætlum við, þegar Sigurlaug Sara er orðin nógu stór, að segja henni hvað þú varst flottur og góður afi og frá ferðalögunum sem við fórum í saman. Við eigum sko til myndir til að sýna henni.

Við elskum þig. Þínir langafastrákar,

Haukur Orri og Hörður Ingi.