Haukur Magnússon kennari

Haukur Magnússon fæddist að Görðum í Önundarfirði hinn 5. febrúar 1932. Hann lést á Landspítala hinn 25. mars 2014.

Haukur var sonur hjónanna Guðmundu Sigurðardóttur, f. 1902, d. 1993, og Magnúsar Reinaldssonar, f. 1897, d. 1952.
Systkini hans eru

  • Anika, f. 1926,
  • Ólöf, f. 1927, d. 2012,
  • Unnur, f. 1928, d. 2006,
  • Brynhildur, f. 1929, d. 1999, og
  • Önundur, f. 1939.

Haukur kvæntist árið 1954 Erla Finnsdóttir, f. 1932, d. 2004.
Þau eignuðust börnin

  • Jóhanna Hauksdóttir, f. 1954,
  • Finnur Hauksson, f. 1955, d. 1986,
  • Bára Hauksdóttir, f. 1962, og
  • Bylgja Hauksdóttir, f. 1964.
Haukur Magnússon - Ljósmynd Kristfinnur

Haukur Magnússon - Ljósmynd Kristfinnur

Fyrir hjónaband eignaðist Haukur soninn

  • Ólaf Magnús Hauksson, f. 1952.

Barnabörn Hauks eru fimm. Haukur starfaði við kennslu lengst af.

Útför hans fór fram frá Áskirkju 2. apríl 2014.

  • Er vorið kemur sunnan yfir sund
  • með söng í hjarta, gneistaflug um brár,
  • þá breytast öll hin löngu liðnu ár
  • í ljósan dag, í heiða morgunstund.

(Davíð Stefánsson)
-----------------------------------------------------

Á meira en sextíu ára gamalli ljósmynd má sjá ungan pilt halda á nokkurra vikna gömlu stúlkubarni. Myndin er tekin á Flateyri við Önundarfjörð í byrjun sumars á hátíðisdegi sjómanna. Pilturinn ungi, sem er spariklæddur, horfir ábyrgðarfullur á litlu stúlkuna og karlmannleg hönd hans heldur tryggilega utan um hana. Ungi pilturinn, sem svo fallega hélt á mér kornungri, hefur nú kvatt okkur langt um aldur fram að mér finnst þó að árin hafi verið orðin rúmlega áttatíu.

Haukur Magnússon, móðurbróðir minn, lést hinn 25. mars 2009 eftir erfið veikindi og var útför hans gerð í kyrrþey. Hann fæddist og ólst upp í Önundarfirði, fimmti í röðinni af sex börnum móðurforeldra minna. Haukur ólst upp við venjuleg sveitastörf og sótti sjó með föður sínum fram eftir unglingsárum. Hann fór til náms við Héraðsskólann á Núpi í Dýrafirði og stundaði síðan nám við Kennaraskóla Íslands.

Í Reykjavík kynntist hann konuefni sínu, Erlu Finnsdóttur frá Siglufirði og ennþá, þó að ég hafi verið ung að árum og áratugir séu liðnir, minnist ég gleði hans og hamingju eftir að kynni þeirra hófust. Að loknu kennaraprófi fluttu hann og Erla til Siglufjarðar, þar sem hann hóf störf við kennslu og gat hann sér gott orð sem kennari. Saman reistu þau Erla sér myndarheimili þar sem ríkti mikil rausn og höfðingsskapur, en hún var mikilhæf í allri matargerð.

Við Haukur vorum lengst af ævi búsett í hvort í sínum landsfjórðungnum; samvistir okkar voru því strjálar og oft langt á milli samfunda. Þrátt fyrir það fannst mér hann alltaf vera nálægur mér og ævinlega urðu fagnaðarfundir þegar við hittumst. Í minningu minni var frændi minn ávallt góður, glettinn og glaður. Lífið fór þó ekki um hann mildum höndum. Hann veiktist ungur af berklum og síðar á ævinni, á besta aldri, fékk hann blæðingu í heila sem gerði það að verkum að hann varð að hætta störfum við kennslu.

Þá var sorgin þung þegar Finn, son hans og Erlu, ungan, efnilegan mann og föður tveggja ungra barna, tók út af fiskiskipi sem var við veiðar á hafi úti og leit að honum bar ekki árangur. Ég sá þá í fyrsta sinn frænda mínum brugðið og ég held að hann og fjölskyldan hafi í raun aldrei komist yfir þennan mikla missi. Einnig voru erfið veikindi Erlu og síðar andlát hennar frænda mínum mikið áfall. En hann æðraðist ekki og hélt áfram að lifa lífi sínu óbeygður og naut stuðnings og ríkulegrar umhyggju dætra sinna.

Eftir að í ljós kom á síðasta ári að hann væri haldinn ólæknandi meini nutum við meiri samvista en áður. Hann tókst á við veikindi sín af karlmennsku og mætti örlögum sínum af sama æðruleysi og einkennt hafði allt hans líf en sárt var að kveðja hann. Móðir mín Anika, elsta og eina eftirlifandi systir hans, kveður ljúfan og góðan bróður og ég kæran frænda. Við þökkum honum fyrir langa samfylgd sem aldrei bar skugga á og var okkur ávallt uppspretta gleði.

Áslaug Þórarinsdóttir.