Óli Hákon Hertervig arkitekt

24. júlí 2001 | Minningargreinar 

Hákon Hertervig, fæddist á Siglufirði 20. júní 1932. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi að kvöldi 16. júlí 2001.

Foreldrar hans voru Óli Jakob Hertervig, bakarameistari, bæjarstjóri og framkvæmdastjóri SR á Raufarhöfn, f. 11.1. 1899, d. 9.6. 1977, og Abelína Guðrún (Sigurðardóttir) Hertervig húsmóðir, f. 8.7. 1897, d. 21.2. 1984.

Systur hans eru

 • Anna Lára Hertervig f. 25.6. 1923,
 • Bryndís Hertervig Eiriksson, f. 9.8. 1926,
 • Elsa María Hertervig, f. 9.12. 1927, d. í nóv 1994, og
 • Inga Dóra Hertervig, f. 8.12. 1930.

Hákon kvæntist 25. febrúar 1956 eftirlifandi konu sinni, Heba Hertervig bókaverði, f. 24.5. 1933. Hákon og Heba eignuðust þrjú börn:

1) Borghildur Guðrún bankamaður, f. 25.10. 1956, gift Ísleifi Friðrikssyni, f. 30.7. 1956, þeirra synir eru
Hákon Hertervig - Ljósmynd Kristfinnur

Hákon Hertervig - Ljósmynd Kristfinnur

 • Bárður, f. 25.8. 1991, og
 • Kári, f. 17.2. 1996.

2) Óli Jón byggingatæknifræðingur, f. 14.12. 1958, kvæntur Ingibjörgu Gunnarsdóttur, f. 8.9. 1958, þeirra börn eru
 • Svandís, f. 3.4. 1980,
 • Óli Hákon, f. 28.5. 1986, og
 • Jón Gunnar, f. 30.7. 1994.
3) Heba arkitekt, f. 21.7. 1963, gift Sigurði Jónssyni, f. 2.8. 1962, þeirra synir eru
 • Davíð, f. 8.10. 1985, og
 • Snorri, f. 28.8. 1989.

Hákon tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1952. Hann stundaði nám í arkitektúr við Technische Hochshule í Darmstadt, Þýskalandi 1952-55 og nám við University of Pennsylvania, School of Fine Arts, Department of Architecture í Philadelphia, Bandaríkjunum 1956-59. Lokapróf þaðan (Master of Architecture) 1959.

Hákon vann á Teiknistofu SÍS 1954 og 1955 á námsárunum og síðan 1959 til 1986. Hann var arkitekt og meðeigandi í Nýju teiknistofunni í Reykjavík frá 1986. Helstu verk: Ólafsvíkurkirkja, Ármúli 3, Holtagarðar og Osta- og smjörsalan, Bitruhálsi. Hákon fékk Menningarverðlaun DV fyrir byggingarlist árið 1981.

Útför Hákons fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem.)

Fyrir tæpum 25 árum kom ég í fyrsta sinn í fallegt og stílhreint einbýlishús, á Þinghólsbraut 74 í Kópavogi. Þetta hús teiknaði Hákon Hertervig og bjó í því ásamt fjölskyldu sinni. Hákon og Heba tóku mér strax opnum örmum og sýndu mér kærleik, sem var mikils virði fyrir sveitastelpuna sem var langt frá foreldrum sínum. Nú þegar komið er að kveðjustund flögra dýrmætar minningar í gegnum hugann. Minningin sem mér þykir vænst um er þegar Hákon hélt alnafna sínum undir skírn.

 • Far þú í friði,
 • friður Guðs þig blessi,
 • hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Ingibjörg Gunnarsdóttir.

Óli Hákon Hertervig fæddist á Siglufirði 20. júní 1932. Foreldrar hans voru Óli Jakob Hertervig, bak arameistari og eiginkona hans, Abel ína Guðrún Sigurðardóttir Hertervig. Ólst Hákon þar upp með 4 systrum sínum á glaðværu heimili þar sem mjög gestkvæmt var. Siglufjörður var þá miðstöð síldveiðanna. Fjölmargir leituðu sér þar vinnu á sumrin og erlendir síldveiðimenn voru tíðir gestir. Síld var söltuð á öllum plönum. Síldarverksmiðjur spúðu reyk og gufu og bræðslulykt út í loftið.

Orðin mengun og því síður umhverfismat voru ekki til. Mengun kallaðist þá peningalykt. Afkoma þjóðarinnar byggðist þá í ríkum mæli á síldveiðum. Meðan á síldarvertíð stóð má því segja, að Siglufjörður hafi á þeim árum verið höfuðborg landsins. Hvergi á landinu var meira athafnalíf. Siglfirðingar voru þá sem nú þekktir fyrir að vera glaðværir og athafnasamir. Það var því engin lognmolla á æskuslóðum Hákonar.

Sem barn og á unglingsárum hafði Hákon mjög gaman af að teikna og mála og undi sér gjarnan við það. Hann var einnig mjög handlaginn og var listasmiður. Vann hann á unglingsárunum á sumrum við smíðar. Hákon stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem stúdent árið 1952. Hann teiknaði ásamt fleirum skopmyndir af öllum stúdentum sem útskrifuðust það ár frá MA og kennurum þeirra. Eru margar þessara mynda bráðsnjallar.

Að stúdentsprófi loknu 1952 hélt hann til Þýskalands til náms í arkitektúr við Technische Hochschule í Darmstadt, þar sem hann var til ársins 1955, en fór þá til Bandaríkjanna og lauk náminu við Háskólann í Pennsylvaníu, Fíladelfíu, 1959. Fékk hann með þessu góða yfirsýn yfir húsagerðarlist bæði austan hafs og vestan, sem eflaust hefur víkkað sjóndeildarhringinn og haft góð áhrif á starf hans.

Hann hafði unnið á námsárum sínum nokkuð hjá Teiknistofu SÍS. Að námi loknu starfaði hann þar árin 1959-1986, en stofnaði síðan ásamt fleirum Nýju teiknistofuna ehf. í Reykjavík, þar sem hann starfaði þar til hann varð að hætta störfum fyrir nokkrum árum vegna heilsubrests.

Arkitektar gegna mikilvægu starfi. Er mikið undir því komið að starfið sé vel unnið, bæði að því er snertir notagildi þeirra bygginga sem þeir teikna og ekki síður að útlit þeirra gleðji augað. Tel ég að Hákoni hafi tekist vel í starfi sínu að uppfylla báðar þessar kröfur. Meðal húsa þeirra sem hann teiknaði má nefna Ólafsvíkurkirkju, sem er mjög frumleg og formfögur.

Hús Osta- og smjörsölunnar á Bitruhálsi í Reykjavík, sem hann teiknaði í samvinnu við Gunnar Guðnason, vekur eftirtekt vegna útlits síns, sem á táknrænan hátt gefur til kynna hvaða starfsemi fer þar fram. Þá má ennfremur nefna húsið Ármúla 3, Reykjavík, sem er vel heppnað og fallegt hús. Standa þessar byggingar ásamt fleirum sem veglegir minnisvarðar um starf hans.

Hákon var listrænn að eðlisfari. Hafði hann lengi hugsað sér að taka aftur til við listmálun í ellinni. Því miður gat ekki af því orðið vegna veikinda hans. Síðasta árið var honum mjög erfitt, en aldrei kvartaði hann þrátt fyrir miklar þjáningar. Lækningatilraunir báru ekki árangur og hrakaði heilsu hans stöðugt.

Hann lést á gjörgæsludeild Borgarspítalans 16. þ.m. Undirritaður kynntist Hákoni, þegar ég tengdist fjölskyldu hans, er ég kvæntist systur hans, Ingu Dóru Hertervig. Vorum við nágrannar í 20 ár og kynntumst þá vel. Áttum við margar góðar stundir saman, sem við hjónin viljum nú þakka fyrir að leiðarlokum.

Fjölskyldu Hákonar, eiginkonu, börnum og barnabörnum, sem sjá á bak ástríkum eiginmanni, föður og afa, allt of fljótt, eru færðar innilegar samúðarkveðjur.

Agnar Gústafsson.
--------------------------------------

Okkur langar með örfáum orðum að minnast Hákonar afa. Hann bakaði kransakökur, ekki bara fyrir skírnar- eða fermingarveislur, heldur líka fyrir afmælin okkar. Ofan á kransakökunum var alltaf eitthvað fallegt, sem afi valdi af mikilli kostgæfni. Hann afi eldaði líka afskaplega góðan mat og við fengum alltaf eitthvað gómsætt þegar við heimsóttum hann.

Á páskunum bjó afi meira segja til páskaegg handa okkur. En afi var ekki bara snillingur við matargerð, hann málaði líka fallegar myndir meðal annars af okkur. Þessar myndir höfum við fyrir augunum á hverjum degi. Við söknum afa og biðjum guð að styðja ömmu.

Afabörn. Okkur langar með nokkrum orðum að kveðja félaga okkar og samstarfsmann í marga áratugi, Hákon Hertervig arkitekt. Þó að okkur væri kunnugt um veikindi hans um nokkurt skeið kom fréttin um andlát hans á óvart enda aldurinn ekki hár. Leiðir okkar félaganna lágu saman á Teiknistofu Sambandsins og síðar á Nýju Teiknistofunni þar sem hann var einn af stofnendum og nær samstarf sumra okkar allt aftur til ársins 1960. Óneitanlega koma margar minningar upp í huga okkar á þessum tímamótum, sem tengjast bæði starfi og leik og eru flestar þeirra á ljúfu nótunum.

Margar byggingar litu dagsins ljós á þessum tíma þar sem hans listræna handbragð fékk að njóta sín og nægir þar að nefna verk eins og Ólafsvíkurkirkju, VÍS húsið, Ármúla 3 og Osta- og smjörsöluna sem dæmi þótt ótal fleiri mætti nefna.

Áhugi hans á hvers konar listum var mikill og góð þekking hans á myndlist kom oft að góðum notum í starfi hans, enda leituðu margir álits hans í þeim efnum og sjálfur var hann liðtækur málari.

Við viljum að leiðarlokum þakka samstarfið og vináttuna og sendum Hebu, börnum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Samstarfsmenn á Teiknistofu Sambandsins og Nýju Teiknistofunni.

Ingibjörg Gunnarsdóttir.
------------------------------------------------

Óli Hákon Hertervig fæddist á Siglufirði 20. júní 1932. Hann lést í Landspítalanum í Fossvogi að kvöldi 16. júlí síðastliðins og fór útför hans fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík 24. júlí.

Skólabróðir okkar og fornvinur, Hákon Hertervig, er allur. Hann hefur undanfarið eitt og hálft ár ekki gengið heill til skógar en í samtali fyrir nokkrum vikum, lét hans þess getið, að sér liði skár og var vongóður, að í hönd færi betri tíð. En, eins og jafnan áður, fær enginn sköpum ráðið og nú sitjum við eftir hnípnir og hryggir og söknum vinar í stað. Yfir 50 ára samferð er á enda.

Aldrei verður framar tekið í spil, aldrei framar höfð í frammi gamanmál og minningar löngu liðinna daga rifjaðar upp. Hvílík umskipti, í einni andrá hefur allt breyzt, rúbertan búin og ekki verður aftur gefið! Og við, sem höfðum ákveðið að hittast og gleðjast við heimsókn svila hans, Ólafs Árna, ræðismanns Íslands í Texas, um mánaðamótin ágúst/september næstkomandi. Sá fundur mun samt fara fram, bara síðar, á öðrum stað, í öðru umhverfi.

Hákon var borinn og barnfæddur Siglfirðingur, yngstur 5 barna Óla Hertervigs, bakara, og konu hans Abilínu Guðrúnar Sigurðardóttur Hertervigs. Óli lét mikið til sín taka á Siglufirði um sína daga, sat í bæjarstjórn um árabil, var bæjarstjóri 1942-1946, en á þeim árum var Skeiðsfossvirkjun tekin í gagnið, en að byggingu hennar hafði hann unnið um langa hríð og sá þessa eign Siglufjarðarbæjar verða að veruleika.

Hákon var gjörvulegur að vallarsýn, rösk 6 fet á hæð, grannvaxinn framan af en þreknaði er leið á ævina, rauðbirkinn á hár og hörund, bjarteygur og kímileitur og ávallt var stutt í brosið. Hann var forkur duglegur, glaðsinna, dálítið stríðinn, áheyrilegur og sagði vel frá. Manni leið ávallt vel í návist hans.

Fyrstu kynni okkar hófust haustið 1948 á Akureyri, er Hákon og tveir fyrstnefndu okkar undirritaðra hófu nám við Menntaskólann á Akureyri. Árin á Akureyri voru ár gleði og ærsla, náms og þroska, og einhver yndislegustu ár ævinnar. Við útskrifuðumst stúdentar vorið 1952, þrír á Akureyri og einn í Reykjavík, og þá strax um haustið hélt Hákon til Darmstadt í Þýzkalandi og hóf nám í húsagerðarlist.

Ári síðar hófum við undirritaðir nám í Þýzkalandi, Ólafur í Darmstadt en við hinir tveir í Mannheim og því aðeins vík á milli vina og var mikill samgangur á milli okkar. Þessi ár voru ekki síður ógleymanleg en árin á Akureyri, vináttan ræktuð og efld, við vorum sem fóstbræður og tengdumst þarna órjúfanlegum böndum. Við ferðuðumst vítt og breitt um Evrópu á þessum árum, m.a. til Telemark í Noregi en einmitt þar liggja rætur Hákonar í föðurætt hans.

Hákoni gekk vel í námi sínu, enda skarpgreindur, vel lesin í fagurfræðilegum efnum, listfengur, afburða dráttlistarmaður og frábær smiður. Á vettvangi smíða vafðist ekkert fyrir Hákoni Hertervig. Hann lauk fyrri hluta prófi vorið 1955, fór heim til Íslands, kvæntist sinni heittelskuðu Hebu og hélt með henni til Fíladelfíu í Bandaríkjunum og lauk þaðan prófi 1958.

Þegar heim kom réðst hann til Teiknistofu Sambandsins og vann þar sem arkitekt, þar til hún var lögð niður um miðjan níunda áratuginn. Hákon teiknaði og átti þátt í hönnun fjölda húsa, stórra og smárra, fyrir Samvinnuhreyfinguna. Nefna má t.d. stórhýsin í Ármúla 3, sem nú hýsir VÍS, hús Osta- og Smjörsölunnar á Bitruhálsi og hið gríðarmikla hús í Holtagörðum, sem þá var stærsta verzlunarhús, sem nokkurn tíma hafði verið byggt á Íslandi. Hákon sýndi mikla útsjónarsemi við breytingu gamalla húsa og hönnunar viðbygginga við þau, eins og t.d. þau, sem Samvinnubankinn keypti og tók sér samastað í við Bankastræti í Reykjavík á sjöunda áratugnum. Þar þótti vel að verki staðið og var það jafnan einkunnin, sem Hákon fékk fyrir störf sín.

Á fyrstu búskaparárunum og meðan verið var að koma sér þaki yfir höfuðið, var vinnudagur Hákonar oft langur og teiknaði hann á þeim árum fjölda einbýlishúsa fyrir einkaaðila. Eitt mannvirki, kirkjan í Ólafsvík, sem vígð var 1967, á væntanlega eftir að halda nafni Hákonar lengst á lofti, því hún þótti mjög framúrstefnuleg og var ein fyrsta kirkjan á Íslandi, sem ekki var byggð í hinum hefðbundna, þjóðlega stíl. Hákon lagði mikla alúð í hönnun kirkjunnar og hafði að fyrirmynd og ívafi lífsbaráttu íbúa Ólafsvíkur, annarsvegar sjósóknina og hinsvegar meginafurð hennar, hinn flatta saltfisk.

Hákon og félagar hans keyptu rekstur Teiknistofu SÍS og stofnuðu Nýju teiknistofuna ehf. og unnu áfram fyrir Sambandið, kaupfélögin og dótturfélög þeirra, auk þess að sinna verkefnum á hinum almenna markaði. Talsverð lægð var í efnahagslífinu á þessum tíma, en Hákoni og félögum tókst að byggja upp fyrirtæki sitt hægt og bítandi og nýtur það í dag mjög góðs orðs fyrir ábyrgðarfull og vönduð vinnubrögð.

Eins og áður segir, kvæntist Hákon eftirlifandi konu sinni, Hebu, dóttur Ottós J. Ólafssonar, kaupsýslumanns, og Borghildar Ólafsdóttur, snemma árs 1956. Hjónaband þeirra var mjög ástríkt og mikið jafnræði ríkti með þeim hjónum. Hákoni og Hebu varð þriggja barna auðið, þeirra Borghildar, málfræðings og kennara, f. 1956, Óla Jóns, byggingatæknifræðings, f. 1958 og Hebu, arkitekts, f. 1963, sem öll eru vel gift og hafa alið Hákoni og Hebu yndisleg barnabörn, eina telpu og sex drengi.

Við ótímabært fráfall vinar okkar Hákonar Hertervigs, er mikill harmur að þessari yndislegu fjölskyldu kveðinn og biðjum við undirritaðir algóðan Guð að veita þeim huggun sína og styrkja þau í sorg þeirra og harmi.

Guð blessi minningu Hákonar Hertervigs.

 • Ólafur Árni Ásgeirsson MA52
 • Gunnar Gunnarsson MA52
 • Gylfi Guðmundsson MR52.
 • Ólafur Árni Ásgeirsson MA52
 • Gunnar Gunnarsson MA52
 • Gylfi Guðmundsson MR52.