Heba Hilmarsdóttir

 mbl.is 1. ágúst 1996 | Minningargreinar 

Heba Hilmarsdóttir fæddist í Siglufirði 11. september 1945. Hún lést á heimili Guðlaugar systur sinnar, að morgni 25. júlí 1996.

Heba var dóttir Marheiður Viggósdóttir frá Siglufirði, f. 6. ágúst 1926 og Hilmar Rósmundsson skipstjóri frá Siglufirði, f. 16. október 1925.

Marheiður giftist hinn 25. apríl 1953 Guðmundi Sævin Bjarnasyni frá Ökrum í Fljótum, f. 18. október 1928, og gekk hann Hebu í föður stað. Þau bjuggu sín fyrstu búskaparár á Ökrum, síðan í Siglufirði í 13 ár, en hafa búið í Hafnarfirði frá 1971.

Systur Hebu eru þær

Heba Hilmarsdóttir

Heba Hilmarsdóttir

  • Ásdís Guðmundsdóttir, f. 13. september 1953, gift Birgi Sigmundssyni,
  • Bjarney Guðmundsdóttir, f. 22. maí 1955, gift Bjarna Guðjónssyni, og
  • Guðlaug Guðmundsdóttir, f. 18. október 1958, gift Jóni Alfreðssyni.

Eru þau öll búsett í Hafnarfirði. Hinn 25. nóvember 1967 giftist Heba Guðmundur Björnsson vélvirkjameistara frá Siglufirði, f. 1. júní 1944.

Þau bjuggu í Siglufirði til ársins 1986, að þau fluttu í Kópavog, en síðustu 5 árin hafa þau búið á Hvolsvelli, þar sem þau hafa bæði starfað hjá Sláturfélagi Suðurlands.
Börn þeirra Hebu og Guðmundar eru:

Guðmundur Sævin Guðmundsson, f. 19. október 1966, kvæntur Gunnhildi H. Axelsdóttur, og eiga þau tvær dætur,
  • Rebekku og
  • Helgu Birnu.
Halla Birna Guðmundsdóttir, f. 17. apríl 1969, sambýlismaður hennar er Lárus Ingi Magnússon og eiga þau einn son,
  • Aron Gauta.

Auk húsmóðurstarfa vann Heba einkum við afgreiðslustörf og á Sjúkrahúsi Siglufjarðar þegar hún bjó þar.

Eftir að Heba flutti suður vann hún m.a. við skrifstofustörf, eftir að stundað nám í ritaraskóla Mímis veturinn 1988-1989 og lokið þaðan prófi. Síðustu árin á Hvolsvelli vann hún hjá Sláturfélagi Suðurlands.
Útför Hebu fer fram í dag frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði og hefst afhöfnin kl. 13.30. Jarðsett verður í Hafnarfirði.
----------------------------------- 

1. ágúst 1996 | Minningargrein

Heba Hilmarsdóttir. Heba systir. Heba og Bósi.

Þessi tvö hugtök hafa verið okkur systrunum svo töm alla tíð, að nú þegar Heba hefur kvatt okkur að sinni, svo alltof fljótt og fyrirvaralítið, situr tómið eftir. Stórt skarð er höggvið í tilveru fjölskyldunnar, skarð sem hefði átt að vera svo langt undan. Hebu höfum við systurnar átt, þekkt og elskað alla okkar ævi.

Þau Bósi, Guðmundur Björnsson, byrjuðu að vera saman 1966 og allt frá þeim tíma hafa þau verið órjúfanleg heild í okkar huga ­ Heba og Bósi. Bósi varð ekki bara kærastinn og síðan maðurinn hennar Hebu, hann varð líka stóri bróðir okkar systranna og hefur staðist þá þrekraun með prýði alla tíð.

Heba var stóra systir. Æskuminningar okkar systranna leiftra fram. Þegar Heba fór að vinna heima í Siglufirði, þá unglingur, nutum við litlu systur góðs af, því oftar en ekki á útborgunardegi, kom Heba færandi hendi. Um tvítugt var Heba þerna á Brúarfossi um tíma. Þess tíma minnumst við systur sem samfelldra jóla. Þá eignuðumst við okkar fyrstu Barbie dúkkur og fallegri föt en nokkru sinni.

Heba var góð við okkur sem börn, en sem unglingar eignuðumst við okkar besta trúnaðarvin, vin sem allt var hægt að segja og aldrei brást. Ósjaldan voru Hebu, fyrstri allra, sögð stærstu leyndarmálin. Heba og Bósi giftu sig og stofnuðu heimili í Siglufirði 1967 og þar bjuggu þau áfram þegar foreldrar okkar fluttu í Hafnarfjörð 1971, með okkur yngri systurnar.

Þrátt fyrir aukna fjarlægð var Heba áfram vinurinn besti. Það hefur líklega verið 1973, að Bidda fékk að heimsækja Hebu í nokkra daga. Sú heimsókn stóð í 2 ár. Þannig var Heba. Guðlaug og Ásdís áttu báðar eftir að flytjast til Siglufjarðar um árabil, þar átti Heba sinn þátt.

Bósi var framan af búskap þeirra Hebu á sjó og því lítið heima. Hún varð því strax í upphafi að taka meginábyrgð á uppeldi barna þeirra og árangur þess hefur fyrir allnokkru komið í ljós, þrjú vel gerð börn sem bera Hebu fagurt vitni. Þau sakna nú móður, en ekki síður síns besta vinar og félaga. Sem óharðnaður unglingur varð Heba fyrir því að ofreyna sig í baki og þau veikindi hrjáðu hana alla tíð.

Enginn veit allt um þær þjáningar sem hún mátti líða, því ekki var kvartað meir en þörf var á. Þessi bakmeiðsli hindruðu Hebu hvað vinnu varðar. M.a. hafði hún mikla ánægju af starfi sínu á Sjúkrahúsi Siglufjarðar og hefði vafalítið lært til starfa á þeim vettvangi, ef heilsan hefði leyft. Þrátt fyrir að heilsan væri ekki alltaf sem best, var dugnaðurinn ómældur. Hún saumaði föt á sig og börnin og var ómissandi ef veislu skyldi halda, hjá fjölskyldu eða vinum.

Síðustu 5 árin hafa þau Heba og Guðmundur búið á Hvolsvelli, en þangað fluttu þau þegar Sláturfélag Suðurlands flutti rekstur sinn úr Reykjavík. Guðmundur hafði starfað hjá SS í Reykjavík frá því 1986, þegar þau fluttu suður, og á Hvolsvelli hóf Heba þar einnig störf.

Á Hvolsvelli áttu þau góð ár og Hebu leið þar vel. Þau eignuðust jeppa og höfðu bæði mikla ánægju af ferðum um fjöll og firnindi. Þá keyptu þau hús, sem með ómældri vinnu beggja ásamt aðstoð góðra vina, var orðið að fallegu og persónulegu heimili þeirra. Á Hvolsvelli rættust margir draumar.

Einmitt þá, þegar framtíðin brosti við þeim Hebu og Bósa, kom reiðarslagið í febrúar sl., hún greindist með krabbamein á alvarlegu stigi. Undanfarna mánuði hefur best komið í ljós hvílíkan innri styrk Heba hafði að geyma. Veikindum sínum tók hún með æðruleysi og raunsæi og nýtti tímann, sem hún vissi að yrði ekki mjög langur, til að undirbúa fjölskyldu sína undir það sem ekki yrði umflúið.

Undanfarna mánuði gat Heba að mestu verið heima, bæði á Hvolsvelli og einnig átti hún sitt annað heimili hjá Guðlaugu og Jóni, sem við hin fáum aldrei fullþakkað. Guðlaug hefur verið stoð og stytta allrar fjölskyldunnar á þessum erfiða tíma.

Undir það síðasta kom best í ljós hve ríkur kærleikur var milli þeirra Hebu og Bósa. Hann vék vart frá rúmi hennar, hvorki dag né nótt, og sýndi slíka ást og umhyggju, að betur varð ekki gert.

Síðasta sjúkrahússlega Hebu stóð aðeins rúma viku og varð þá ljóst hvert stefndi. Hennar hinsta ósk var að fá að fara heim, heim til Guðlaugar. Á þriðjudegi var Heba flutt heim til Guðlaugar og varð hún sátt og ánægð þegar þangað var komið. Á fimmtudegi sofnaði hún svefninum langa, á ljúfan og átakalausan hátt. Hjá henni voru þau Bósi og Guðlaug.

Á kveðjustundinni er okkur systrunum hugleikið, hve alla tíð var alveg sérstaklega kært milli Hebu og móður okkar. Þær voru ekki bara mæðgur, heldur eitthvað miklu meira. Við vitum með vissu að Hebu var þessi kærleikur þeirra sérstaklega hugleikinn síðustu vikur og mánuði, þegar vitað var að hverju dró. Þess skal ekki síður minnst, hve góður faðir pabbi okkar reyndist Hebu alla tíð. Hún var á margan hátt, í jákvæðasta skilningi, hans uppáhaldsdóttir.

Við vitum að Heba á góða heimkomu og erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast henni. Við biðjum guð að vernda og styrkja Bósa og börnin, mömmu og pabba og okkur hin, sem eftir stöndum.

Systur og mágar.