Heiðar Halldór Viggósson

mbl.is 18. nóvember 2008 | Minningargreinar 

Heiðar Viggósson fæddist á Akureyri 8. júlí 1931. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi þann 6. nóvember sl.

Heiðar var sonur hjónanna Guðlaug Steingrímsdóttir og Viggó Guðbrandsson verkamanns frá Siglufirði. Hann ólst upp á Siglufirði frá tveggja ára aldri.

Systkini Heiðars voru

  • Steingrímur Viggósson,
  • Jóhann Viggósson,
  • Sigurbjörg Viggósdóttir
  • Rósa Viggósdóttir,
  • Marheiður Viggósdóttir
    og fóstursystir
  • Jóhanna.
Heiðar Viggósson - ókunnur ljósmyndari

Heiðar Viggósson - ókunnur ljósmyndari

Marheiður lifir öll systkini sín.

  • Heiðar giftist 7. des. 1957 Sólveig Ástvaldsdóttir f. 15.3. 1935 dóttir hjónanna Halldóru Jóhannesdóttur og Ástvalds Bjarnasonar skipstjóra á Akranesi.
    Þau eignuðust tvær dætur,
  • Drífa Heiðarsdóttir. Maki Drífu er Jón Helgi Jónsson og eiga þau 4 börn og tvö barnabörn
  • Ásthildur Heiðarsdóttir Ásthildur á 4 börn og 5 barnabörn. Fyrir átti Heiðar son, Stefán Jón, sem á 2 börn og 3 barnabörn.

Heiðar lærði til rafvirkja hjá Ármanni Ármannssyni á Akranesi og þar byrjuðu hann og Sólveig sinn búskap. Árið 1970 fluttust þau til Reykjavíkur og síðan í Hafnarfjörð. Heiðar vann sem rafvirki og rak meðal annars eigið verkstæði í Hafnarfirði.

Hann fór að vinna hjá hernum á Keflavíkurflugvelli og þá fluttust þau í Sandgerði þar sem styttra var í vinnu. Í Sandgerði bjuggu þau í 11 ár og í Keflavík í 17 ár. Í febrúar sl. fluttust þau hjón að Hjallabraut 33 í Hafnarfirði.

Útför Heiðars fer fram í dag frá Víðistaðakirkju og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku pabbi minn.

  • Ég sendi þér kæra kveðju,
  • nú komin er lífsins nótt.
  • Þig umvefji blessun og bænir,
  • ég bið að þú sofir rótt.
  • Þó svíði sorg mitt hjarta
  • þá sælt er að vita af því
  • þú laus ert úr veikinda viðjum,
  • þín veröld er björt á ný.
  • Ég þakka þau ár sem ég átti
  • þá auðnu að hafa þig hér.
  • Og það er svo margs að minnast,
  • svo margt sem um hug minn fer.
  • Þó þú sért horfinn úr heimi,
  • ég hitti þig ekki um hríð.
  • Þín minning er ljós sem lifir
  • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Pabbi minn. Það verða erfiðir tímar framundan að hafa þig ekki nálægt okkur. Loksins þegar þið mamma voruð flutt svo nálægt. Öll árin sem þið bjugguð suður með sjó, hvað þið voruð alltaf dugleg að keyra í bæinn og kíkja í kaffi.

Og svo jólin okkar saman. Alltaf vorum við heppin með það að Reykjanesbrautin var fær á aðfangadag. Þau verða skrítin þessi jól þegar þú situr ekki á þínum stað með nammiskálina góðu, þessa sem þú skammtaðir úr, þú vildir nú helst fá að borða úr henni einn. Það er svo ótal margt sem ég gæti skrifað til þín, pabbi minn, en læt þetta duga. Ég lofa þér því að hugsa vel um hana mömmu sem hefur misst svo mikið að missa þig. Ég elska þig, pabbi minn.

Þín, Drífa.
----------------------------------------------

Hinsta kveðja

Langafi minn var mjög skemmtilegur. Hann sagði mér margar góðar sögur og kenndi mér margt og hann hefur kennt og sagt mér margt í lífinu sem enginn annar hefur kennt mér sem ég hefði kannski aldrei lært ef hann hefði ekki verið afi minn. T.d. kenndi hann mér að spila pútt og sagði mér margar skemmtilegar sögur af köllunum í púttinu í Keflavík.

Við áttum bát saman sem við vorum stundum að dunda okkur við. En nú er komið að kveðjustund og ég vona að hann geymi mig og alla fjölskyldu mína alla ævi.

Þinn Andri Orri.
-------------------------------------------

Elsku afi minn. Núna ert þú kominn til himna. Ég veit að þú pússar regnbogann og fægir stjörnurnar.

Ég elska þig afi minn.

Sitji guðs englar saman í hring, elsku afi minn, yfir sænginni þinni.

Þín Drífa Katrín.