Tengt Siglufirði
Mbl.is 14. september 2004 | Minningargreinar
Hallgrímur Færseth skipstjóri fæddist á Siglufirði 5. ágúst 1936. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 6. september 2004
Hallgrímur var yngstur fjórtán barna hjónanna Ágústua Pálína Færseth, f. 6. ágúst 1897, d.
18. júlí 1979 og Einar Færseth, f. 15. jan. 1890, d. 27. nóvember 1955.
Systkini Hallgríms eru í aldursröð
Hallgrímur Færseth kvæntist 3. september 1960 Jónu
Sigríði Benónýsdóttur, f. 3. september 1934, d. 20. júlí 1984, dóttir hjónanna Sigríðar Katrínar Sigurðardóttir, f. 26. maí, d. 28. júní
1979 og Benóný Friðrikssonar frá Gröf í Vestmannaeyjum, f. 7. janúar 1904, d. 12. maí 1972. Hallgrímur og Jóna eignuðust átta börn.
Þau eru:
Hallgrímur fór ungur til sjós. Hann var háseti hjá tengdaföður sínum Binna í Gröf á Gullborginni í nokkur ár. Hallgrímur lauk skipstjórnarpófi frá Skipstjóra- og stýrimannaskólanum árið 1966. Hann var skipstjóri hjá útgerðarfélaginu Miðnesi í Sandgerði árum saman. Árið 1975 hóf hann útgerð á bátnum Binna í Gröf ásamt Kjartani Sigurðssyni vélstjóra. Árið 1987 hætti hann til sjós og síðustu árin vann hann hjá Netaverkstæði Suðurnesja.
Útför Hallgríms fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Haustið kom fyrr en ég átti von á í líf mitt og hreif þig frá mér. Fyrir ári greindist þú með illvígan sjúkdóm, sem að lokum bar þig ofurliði, þrátt fyrir mikinn baráttuvilja og lífslöngun. Þú kvartaðir ekki og varst þakklátur fyrir það, sem fyrir þig var gert.
Margs er að minnast frá ótalmörgum ferðum okkar innanlands og utan. Minningarnar munu lifa í hjarta mínu.
Sumarbústaðurinn þinn í Grímsnesi var aðaláhugamál þitt síðastliðin níu ár. Þú varst stöðugt með hugann við hann, vetur, sumar, vor og haust, og ófáar ferðir fórum við til að líta eftir að allt væri í lagi yfir veturinn.
Vorið og sumarið voru þinn tími, þá var bjartur dagur allan sólarhringinn. Þú rifjaðir stundum upp minningar frá æskuárunum á Siglufirði, er þú fékkst að vaka fram eftir og sjá sólina síga í sæinn og koma síðan upp aftur.
Þú fékkst aldrei nógu langan tíma í bústaðnum að þínu mati og hefðir viljað gróðursetja enn fleiri tré og hlúa enn betur að gróðrinum þínum. Liðið sumar dvöldum við eins mikið þar og heilsa þín leyfði.
Þú áttir langa og stranga starfsævi á sjónum. Mönnum ber saman um að þú hafir verið duglegur sjómaður og fengsæll skipstjóri.
Stundum nefndirðu að þú hefðir viljað vera meira heima hjá konu og börnum, en hefðir þurft að vinna fyrir þér og þínum. Það var aðalsmerki þitt að sjá vel fyrir fjölskyldunni.
Að leiðarlokum þakka ég samfylgdina og votta aðstandendum samúð mína og bið þeim blessunar Guðs. Minningin um góðan dreng lifir.
Óla Björk Halldórsdóttir.
----------------------------------------------------
Elsku Halli frændi, já Halli frændi eins og ég hef alltaf kallað þig alveg frá því ég man eftir mér. Ég kveð þig með þakklæti í huga, þakklæti að hafa verið tengdur þér. Ég vil þakka þér fyrir að hafa í gegnum árin gefið mér og fjölskyldu minni af þér sjálfum, fyrir að hafa haft jákvæð áhrif á barnæsku mína og unglingsár. Fyrir alla þá væntumþykju sem þú gafst af þér mér til handa alla tíð, ég tel mig betri mann fyrir vikið.
Hugur minn hefur síðustu daga leitað til þeirrar dagsferðar sem við fórum saman fyrir ekki svo löngu upp í bústaðinn þinn, þar sem þú undir hag þínum einna best. Sá dagur verður þegar fram líða stundir, sennilega einn eftirminnilegasti dagur ævi minnar, þar sem við keyrðum saman austur, helltum upp á kaffi og röbbuðum svolítið saman, áttum fínan dag upp í Grímsbæ.
Einnig sækja á mig þær minningar þegar Óskar og ég fengum að fara á sjóinn með þér á m/b Víði þegar við vorum smástrákar, drullusjóveikir og þú að stumra yfir okkur þegar færi gafst til þess, og þau voru sko ófá skiptin sem við fórum á sjóinn með þér. Fullt af minningum um þig og þínar velgjörðir mér og mínum til handa, mun ég varðveita og geyma í hjarta mínu um ókomna framtíð.
Það var alla tíð gott að eiga þig að sem fyrirmynd og ég trúi að hvar sem þú ert, sértu hjá góðum á góðum stað.
Megi góður Guð varðveita sálu þína um alla framtíð og veita Ólu þinni, börnum þínum og öðrum ástvinum styrk í sorg sinni og trega. Mikill er missir þeirra.
John S. Berry.
--------------------------------------------
Okkur langar að minnast látins félaga, Hallgríms Færseth, nokkrum orðum. Við gleymum því ekki hve vel hann tók á móti okkur þegar við fluttum í fjöleignahúsið á Vallarbraut 6 í Njarðvík. Við höfðum þá selt húsið okkar í Keflavík og keypt íbúð í þessu húsi. Hallgrímur var einn af þeim fyrstu sem keyptu íbúð í húsinu og einn af stofnendum húsfélagsins sem stofnað var 7. maí 1997. Lét hann sig málefni húsfélagsins miklu varða og bar ávallt hag íbúanna mjög fyrir brjósti. Hann var líka mjög vel liðinn í húsinu enda einstaklega ljúfur í allri framkomu.
Hann átti sínar þungbæru stundir en alltaf var stutt í brosið. Vallarbraut 6 er fjöleignahús í eigu eldri borgara. Flestir eigendanna höfðu áður átt einbýlishús og því vanir að ráða sínum málum sjálfir án afskipta annarra. Lyndiseinkunnir Hallgríms komu sér vel í þessu umhverfi. Við höfum um skeið fylgst með hetjulegri baráttu Hallgríms við illvígan sjúkdóm sem nú hefur lagt hann að velli og fyllst aðdáun á því æðruleysi sem hann hefur sýnt á þessum erfiðu stundum. Við vitum að við tölum fyrir hönd annarra í húsfélaginu þegar við þökkum samfylgdina og vottum Ólu, börnum hans og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Hallgríms Gísla Færseth.
Elísabet Vigfúsdóttir, Guðmundur Jóhannsson.