Tengt Siglufirði
1. febrúar 2020 | Minningargreinar
Hanna Pétursdóttir fæddist á Siglufirði 19. febrúar 1939. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 18. janúar 2020.
Foreldrar Hönnu voru Pétur Friðrik Baldvinsson frá Dalvík, f. 14.4. 1909, d. 14.12. 1995, og Mundína Valgerður
Sigurðardóttir frá Vatnsenda í Héðinsfirði, f. 30.8. 1911, d. 2.8. 2000.
Bróðir Hönnu frá fyrra hjónabandi, föður var Tómas Pétursson,
f. 21.12. 1930, d. 9.4. 1963, maki Sigríður Hermannsdóttir, f. 23.3. 1934, d. 9.9. 2015. Bróðir Ásbjörn Pétursson, f. 2.9. 1937, d. 11.1. 2001. Systir Halldóra Ragna Pétursdóttir, f. 12.2.
1942, d. 20.5. 2019, maki Björgvin Jónsson, f. 9.2. 1942, d. 22.12. 2014.
Hinn 19.9. 1959 giftist Hanna Bjarni Þorgeirsson. Foreldrar hans voru Þorgeir Bjarnason frá Fáskrúðsfirði, f. 5.2. 1906, d. 5.11. 1960, og Ágústa Guðmundsdóttir frá Siglufirði, f. 22.9. 1906, d. 2.10. 1984.
Börn Hönnu og Bjarna eru:
Hanna Guðrún var fædd og uppalin á Siglufirði, hún stundaði nám við barna- og gagnfræðaskóla Siglufjarðar og lauk þaðan gagnfræða- og iðnskólaprófi. Hún starfaði við ýmislegt, lengst af vann hún sem endurskoðandi hjá Skattstofu Norðurlands vestra.
Útför hennar fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 1. febrúar 2020, klukkan 14.
Með mikilli sorg en þakklæti kveð ég mömmu mína Hönnu Guðrúnu. Mamma var góð vinkona mín, við áttum margt sameiginlegt og var söngurinn þar efst á blaði. Ég man hvað mér þótti gaman að fara með mömmu á kóræfingar þegar ég var lítil.
Þegar ég fór síðan sjálf að syngja með Kvennakór Siglufjarðar ásamt mömmu þekkti ég lögin. Mamma söng líka í mörg ár í kirkjukórnum, ásamt pabba. Mamma átti við veikindi að stríða í langan tíma en alltaf var svo stutt í húmorinn og sönginn. Hún kunni alla texta og tók alltaf undir þegar einhver byrjaði að syngja, þó svo að hún væri orðin veik. Á æskuheimili mömmu hjá ömmu og afa á Vetrarbrautinni á Sigló var mikið sungið, leikið og lesin ljóð.
Bakstur var líka okkar sameiginlega áhugamál, mamma bakaði þær allra fallegustu og bestu smákökur sem til eru. Ég hef reynt eftir minni bestu getu að feta í hennar fótspor, þar verð að viðurkenna að ég hef ekki náð fegurðinni á kökunum en bragðinu hef ég náð. Í fjölskyldunni eru þessi fleygu orð notuð frá henni um jólin: „Þetta heita smákökur“ en henni fannst við gera fullstórar kökur þegar verið var að móta þær á plöturnar.
Mamma var mikið náttúrubarn, hún var send í fóstur um tíma til Héðinsfjarðar, var þar í umsjón frændfólks síns, á bænum Grundarkoti. Mamma talaði mikið um veru sína þar og ljóst er að fegurð og náttúran í firðinum fagra hafði mikil áhrif á hana í lífinu.
Hún var mjög þakklát fyrir þann tíma, samvistir við fólkið, dýrin og fegurðina í náttúrunni. Við fjölskyldan fórum reglulega til Héðinsfjarðar á sumrin, þegar aðeins var hægt að komast þangað á sjó eða ganga yfir fjöll. Það er svo yndislegt að eiga þær minningar í fórum sínum, mamma þar í essinu sínu að njóta sín og fræða okkur um tímann sem hún átti þar þegar hún var ung.
Mamma var mikil fagurkeri, lagði mikið upp úr því að við börnin hennar værum alltaf fín, falleg föt og skór voru hennar áhugamál. Það er svo dásamlegt að fylgjast með barnabörnunum hennar í dag, þau hafa öll fengið þetta fegurðarskyn ömmu sinnar.
En við segjum stundum að þetta hafi nú allt byrjað hjá elsku ömmu Mundu sem alltaf var svo fín og allt svo fallegt í kringum hana.
Mamma var mjög stolt af okkur börnunum, barnabörnin voru henni svo kær, svo bættust barnabarnabörnin við sem glöddu hana mikið. Get ekki gleymt því þegar elsku Tinna mín fæddist, hún var mömmu og pabba fyrsta barnabarn, þvílík gleði og hamingja sem hún gaf þeim.
Þegar ég sjálf upplifði það að verða amma skildi ég svo vel hana mömmu.
Þau mamma og pabbi hafa verið lánsöm með sína afkomendur.
Erum við svo endalaust þakklát fyrir það að hafa getað hist öll saman nýliðin áramót og átt saman góðar stundir. Eins er þakklæti mér efst í huga til pabba sem hefur verið kletturinn hennar mömmu í gegnum veikindi hennar.
Ég vil þakka starfsfólki sjúkrahússins fyrir alla umönnun og hlýju í garð mömmu. Einstakt fólk sem hefur ávallt sýnt væntumþykju í verki.
Mamma mín, nú þegar við kveðjum þig vil ég þakka fyrir allt sem þú kenndir mér og allar ógleymanlegu stundir okkar saman.
Ég veit að litli drengurinn sem þið pabbi misstuð, amma og afi, Ásbjörn og Dóra taka vel á móti þér í „Blómabrekkunni“, ég sé þau fyrir mér syngjandi saman, afi að fara með hlutverk úr leikverkum og amma að fara með ljóð.
Þín dóttir, Mundý.
Læt hér fylgja með fallegt ljóð sem við sungum við saman í kvennakórnum.
Mundína Valdís Bjarnadóttir.