Tengt Siglufirði
mbl.is 31. maí 2007 | Minningargreinar
Helgi Hallsson fæddist á Siglufirði 16. febrúar. 1931. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seli á Akureyri 19. maí síðastliðinn.
Foreldrar hans voru Hallur Garibaldason verkamaður, f. 24. júní 1893, d. 15. apríl 1988, og Sigríður Jónsdóttir, f. 15. desember 1897, d. 10. ágúst 1983.
Systkini Helga eru:
a) Garibaldi, f. 12. september 1918, lést tveggja ára úr barnaveiki.b) Pétur Garibaldason Hallsson, f. 2. apríl 1920, d. 24. nóvember 1991, kvæntur Inger Hallsson.Helgi Hallsson kvæntist 1. september 1956 Eddu Sigurlaugu Indriðadóttur, f. á Akureyri 24. október 1936, foreldrar hennar voru Indriði Jakobsson vélstjóri og verkamaður, f. 1. júlí 1909, d. 4. nóvember 1993 og Kristveig Magnea Hallgrímsdóttir húsmóðir, f. 21. júní 1911, d. 22. maí 1977.
Helgi og Edda eignuðust þrjú börn, þau eru:
Helgi ólst upp á Siglufirði og byrjaði ungur að vinna ýmis störf sem tengdust síld og fiskveiðum. Hann lauk prófi frá Iðnskólanum á Siglufirði en fór svo að stunda sjómennsku, fór til Vestmannaeyja og síðan til Ytri-Njarðvíkur og vann þá við fiskverkun. Þar kynntist hann konu sinni og fluttu þau til Siglufjarðar, þar sem þau hófu búskap og þá hóf hann nám í trésmíði, sem var framtíðarstarf hans.
Helgi hafði mikla unun af söng og tónlist, hann söng frá unga aldri í kirkjukór Siglufjarðar og karlakórnum Vísi, allt þar til hann flutti til Akureyrar 1974. Þar hóf hann smíðastörf í samvinnu við mág sinn Örn Indriðason, sem líka var smiður, þeir byggðu sér sitt hvort húsið við Eikarlund. Árið 1975 varð Helgi fyrir alvarlegu slysi er hann féll ofan af þaki á þriggja hæða húsi (gömlu Gróðrarstöðinni) og bar ekki sitt barr eftir það.
Hann keypti bát ásamt syni sínum, og ráku þeir hann saman þó svo Helgi gæti ekki mikið stundað sjóinn vegna afleiðinga slyssins, en hann hafði komið sér upp aðstöðu í bílskúr sínum og dundaði það við smíðar. Árið 1998 fluttu þau hjónin Edda og Helgi í Víðilund 24. Þá var heilsu Helga farið að hraka og sjúkdómurinn sem varð honum að aldurtila fór að gera vart við sig. Í janúar síðastliðnum flutti hann á Hjúkrunarheimilið Sel þar sem hann andaðist.
Helgi verður jarðsunginn frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.
Elsku pabbi, þú varst yndislegur faðir, afi og langafi.
Mig langar að minnast pabba míns í örfáum orðum. Vorið er að koma, fuglarnir eru farnir að búa sér til hreiður og ekki langt í að ungarnir komi. Það er með miklu þakklæti, hlýju og virðingu sem ég minnist pabba sem nú hefur kvatt þetta líf. Lífið sem hann lifði var bæði gott, ljúft og fallegt en í lokin strembið.
Pabbi var mikill listasmiður og tel ég hann hafa smíðað okkur systkinin með mestu ágætum, þar sem hendur pabba voru listfengar lét hann ekkert frá sér fara sem hægt var að finna að. Það rifjast margt upp frá því ég var lítil stelpa sem mér þykir svo vænt um, til dæmis minnist ég þess að veturinn 1967 hafði snjóað mikið á Siglufirði, en þar bjuggum við til 1974. Ég var ekki há í loftinu og átti erfitt með að komast í gegnum skaflana, tók þá pabbi það ráð að bera mig á hestbaki þegar þessir litlu fætur voru búnir að gefast upp.
Elsku pabbi minn, það er mér næstum því um megn að skrifa minningarorð um þig. Söknuðurinn er mikill og hjartað mitt er fullt af sorg. Ég vil fá að þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum saman, og þau mörgu skipti sem þú gættir dætra minna þegar ég fór utan, alltaf þótti þeim jafnvænt um þig. Ég veit að þú munt vaka yfir þeim og gæta þeirra vel ásamt börnum þeirra um ókomna framtíð.
Ég mun ekki gleyma því þegar ég sagði þér frá því að ég ætlaði að fara aftur í skóla og virkja listina sem hefur ekki fengið að njóta sín lengi, hve þú varst stoltur af stelpunni þinni. Ég veit að þú situr mér við hlið þegar ég er að vinna að verkunum mínum og þú leiðbeinir mér áfram í lífinu þó svo þú sért farinn frá mér, en eins og þú sagðir oft við mig: Stattu þig stelpa. Ég var alltaf mikil pabbastelpa og mun sakna þín, en nú eru veikindin búin og nú hefur þú fengið hina hinstu hvíld.
Elsku pabbi minn, þakka þér fyrir alla ást og umhyggju sem þú gafst mér.
Elsku mamma, megi guð vaka yfir þér og gæta þín.
Þín dóttir, Helga Sigríður.
-------------------------------------------------
Helgi Hallsson mágur minn er látinn eftir baráttu við erfiðan og illskeyttan sjúkdóm. Helgi var fæddur og alinn upp á Siglufirði og þar hófu þau búskap Edda systir mín og hann árið 1956. Ég varð fljótlega eftir það fastur sumargestur á Siglufirði og naut þeirrar lífsreynslu að vinna við sumarsíldina sem þá var örlagavaldur í lífi svo margra sem þangað sóttu.
Það var bæði framandi og lærdómsríkt fyrir ungling að dveljast á Siglufirði á þessum árum. Náin samskipti voru við fullorðið og lífsreynt fólk, sem gaf sér tíma til að kenna og miðla. Ég kynntist fjölskyldu Helga sem var stór og samheldin, en stundum háværari en ég hafði kynnst í friðsældinni við botn Eyjafjarðar. Málefni hinna vinnandi stétta voru Halli Garibaldasyni og fjölskyldu hans ærið tilefni til umræðna. Skoðanaskipti og rökræður bárust þá oft út í fjarðarlognið og blönduðust reyknum frá síldarbræðslunni á kyrrum sumarkvöldum.
Vinnan á þessum björtu sumrum var heimamönnum bæði lífsbjörg og gleði. Eftir langan vinnudag við síldarútveginn var farið fram á Fjörð að heyja, en margir Siglfirðingar sem aðstöðu höfðu til voru með heimilisbúskap á þessum árum. Þess vegna voru hænur og nokkrar kindur í bakhúsi við Hvanneyrarbraut 23. Sigga móðir Helga átti hænurnar og umgekkst þær af engu minni nærgætni og kærleika en heimilisfólkið.
Þessi minningarbrot frá Siglufirði bernsku minnar koma upp í hugann þegar Helgi er horfinn á braut. Oft og svo oft eftir að Helgi og Edda fluttust til Akureyrar rifjuðum við upp atburði og málefni löngu liðinna stunda frá Siglufjarðarárunum.
Að geta sótt í sjóð minninganna eru verðmæt lífsgæði. Illskeyttur sjúkdómur Helga varð til þess að hann átti sífellt erfiðara með að ylja sér við minningar frá liðnum tíma. Í veikindum sínum dvaldi Helgi lengst af heima, en síðustu mánuðina var hann á Seli við Sjúkrahúsið á Akureyri og naut þar góðrar þjónustu hjúkrunarfólks. Edda var þó aldrei langt undan og studdi Helga af einstöku æðruleysi og elsku allt til loka.
Eddu systur minni og öðrum ástvinum Helga Hallssonar frá Siglufirði sendi ég mínar kærustu samúðarkveðjur.
Hallgrímur Indriðason.