Tengt Siglufirði
Mbl.is 26. janúar 2008 | Minningargreinar
Helgi Sigurðsson fæddist í Vestmannaeyjum 11. júní 1925. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Siglufjarðar að morgni fimmtudagsins 17. janúar 2008.
Foreldrar hans voru Sigurður Helgason, f. 11.12.1888, d. 24.7.1935 og Elínborg Guðný Ólafsdóttir, f. 8. 11.1893, d. 15.12.1944.
Helgi var yngstur í hópi fjögurra systkina. Hin eru
Helgi kvæntist 4.12.1948 Sara Símonardóttir frá Siglufirði, f. 30.8.1923, d. 27.8.2004. Foreldrar hennar voru Símon Sveinsson, f. 12.8.1884, d. 26.11.1960 og Pálína Sumarrós Pálsdóttir, f. 22.4.1881, d. 19.10.1952.
Helgi og Sara eignuðust fjögur börn, þau eru:
Helgi ólst upp í Vestmannaeyjum, en fluttist til Siglufjarðar árið 1948. Hann stundaði lengst af sjómennsku á skipum, bátum og togurum bæði frá Vestmannaeyjum og Siglufirði. Eftir að sjómennskuferlinum lauk, starfaði hann í nokkur ár hjá Húseiningum hf. á Siglufirði.
Útför Helga verður gerð frá Siglufjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.
Í dag verður tengdafaðir minn, Helgi Sigurðsson eða Helgi hennar Söru eins og Siglfirðingar hafa þekkt hann gegnum árin, kvaddur í hinsta sinn við útför í Siglufjarðarkirkju.
Helgi var fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum, hann missti föður sinn þegar hann var aðeins tíu ára gamall, yngstur í hópi fjögurra systkina. Hann byrjaði snemma að stunda vinnu og varð sjómennskan hans ævistarf. Helgi réðst í skiprúm með mági sínum Helga Bergvinssyni, skipstjóra á mb. Stíganda frá Vestmannaeyjum, og stunduðu þeir m.a. síldveiðar fyrir Norðurlandi.
Það var í Siglufirði sem leiðir þeirra Helga og Söru lágu fyrst saman. Þau hófu búskap fyrst í Eyjum í tvö ár en fluttust síðan
til Siglufjarðar 1948 og bjuggu þar alla sína búskapartíð. Helgi stundaði sjómennsku meðan honum entist heilsa til, fyrstu árin á bátum en eftir að togarar komu til sögunnar varð
það hans starfsvettvangur; Hafliði, Elliði, Dagný og Sigurey, allt togarar gerðir út frá Siglufirði.
--------------------------
Helgi og Sara eignuðust fjögur börn,
Þegar Sigurður Helgason var 22 ára, nýgiftur stoltur faðir lítils drengs og verðandi faðir annars barns, fór hann í sjóróður með félaga sínum og vini Helga V. Jónssyni á trillu frá Siglufirði, þeir komu ekki aftur úr þeim róðri.
Grun hef ég um að þetta hörmulega sjóslys og áfallið því tengt hafi sett sitt mark á þau hjón Helga og Söru alla tíð síðan.
Ég kynntist Helga og Söru fyrst fyrir rúmlega þrjátíu og þremur árum, kom í heimsókn til Siglufjarðar með unnustu minni til að hitta tilvonandi tengdaforeldra. Ég þurfti að aka frá Reykjavík, svo ekki komst ég nú hjá því að hafa nægan tíma til að kvíða fyrir komunni á Sigló og fyrstu viðkynningunni.
Þegar komið var á Háveginn, þar sem þau bjuggu, var ég drifinn inn og upp í eldhúsið þar sem þau hjónin sátu við eldhúsborðið við dauft ljós. Ég, skjálfandi af geðshræringu, gat ekki stunið upp einu orði, stóð þarna eins og illa gerður hlutur, varla hef ég nú litið út sem frambærilegt mannsefni fyrir dótturina, en hvað um það. „Blessaður, velkominn,“ sagði Helgi, einfalt og hnitmiðað, ekkert óþarfa orðskrúð.
Kannski eru þessi fyrstu kynni okkar Helga lýsandi fyrir hann, hann var einbeittur og ákveðinn, mjög metnaðarfullur og umhyggjusamur gagnvart fjölskyldunni sinni.
Ég þakka fyrir það að börnin mín fimm skuli öll hafa erft þessa eiginleika afa síns.
Þegar kemur að kveðjustund koma oft upp hugsanir um lífið og tilveruna, hver sé tilgangurinn með þessu öllu saman. Þegar okkur tekst að skila börnunum okkar til manns getum við stolt litið yfir farinn veg og þakkað þeim sem öllu ræður fyrir.
Helgi og Sara þurftu eins og svo margir aðrir að taka áföllum, en nutu þess líka að sjá stóran barnahóp komast til manns.
Við sem áttum þau að þökkum fyrir fylgdina.
Fyrir tæpu ári flutti Helgi inn á dvalarheimilið Skálarhlíð á Siglufirði, þar leið honum vel, var í góðum félagsskap. Fjölskylda hans þakkar öllum íbúum Skálarhlíðar innilega.
Guðmundur Þór Kristjánsson.
------------------------------------------------
Mig langar til að minnast fyrrverandi tengdaföður míns með nokkrum orðum. Fyrsta minningin sem kemur upp í hugann er þar sem Helgi stendur við eldavélina og er að steikja kjöt á pönnu
og sósan var svo góð. Að sjá karlmann vera að elda í þá daga var eins sjaldséð og hvítir hrafnar. Hornið fyrir framan kaupfélagið er einnig minnisstætt þar sem
sjómennirnir stóðu og röbbuðu saman í landlegum.
Helgi ólst upp í Vestmannaeyjum. Hann fór ungur að stunda sjóinn til að hjálpa móður sinni. Föður sinn missti hann um 11 ára aldur en hann hrapaði við bjargsig. Sigurður Helgason, sonur Helga og minn fyrrverandi maður, hét í höfuðið á honum afa sínum og lést einnig ungur í sjóslysi. Helgi bjó mestan sinn aldur á Siglufirði með Söru.
Þar hélt sjómennskan áfram. Hann var harðduglegur og eftirsóttur starfskraftur. Myndarlegur og svipsterkur og er gaman að sjá hvað margir afkomendur hans bera svipeinkenni hans. Hress var hann og þorði að segja sína meiningu og þurfti ekki vín til því að hann var reglumaður. Heyrði ég sagt að gott hefði verið að hafa Helga þegar siglt var út með fiskinn.
Þá var gjarnan slett úr klaufunum eins og ungra manna er siður. Var þá gott að hafa Helga til að líta eftir. Já hann Helgi var sannkallaður sjómaður og dáðadrengur. Hann var heimilismaður og hugsaði vel um sína og síðustu ár. Söru heimsótti hann á hverjum degi í veikindum hennar þar til yfir lauk.
Í dag verður Helgi jarðsettur sama dag og dótturdóttir hans var jarðsett, Þórey, ung og efnileg stúlka sem lést í bílslysi. Er það tilviljun eða eins konar ábending til okkar frá æðri mætti?
Ég á margar góðar minningar um Söru og Helga og afkomendur þeirra. Siglufjörður verður þó aldrei samur í mínum huga að þeim horfnum.
Innilegar þakkir fyrir allt. Guð veri með ykkur öllum.
Jóhanna Antonía Sigsteinsdóttir.
----------------------------------------------
Helgi Sigurðsson, vinnufélagi minn
Smá viðbót, er þetta er skrifað og sett hér inn, árið 2020. Ég kynntist Helga Sigurðssyni mjög
vel eftir að hafa unnið með honum undir stjórn Páls G Jónssonar byggingameistara hjá Síldarverksmiðjum ríkisins í nokkur ár á Trésmíðaverksstæði SR.
Helgi var einstakur og góður vinnufélagi.
Hann var oftar en ekki frekar hlutlaus í umræðum vinnufélaga sinna, en hlustaði vel, en átti þó það stundum til, að
skjóta hnittmiðuðum setningum á félaga sína er höfðu gaman af, því það voru ekki skammyrði sem frá honum komu, heldur frekar hvatning til betri verka.
Hann var ætíð
rólegur og yfirvegaður og hægt var að treysti því 100% sem honum var falið að gera, Það var fátt sem kom honum úr jafnvægi og ekki steytti hann skapi í orði,
þegar honum mislíkaði eitthvað, en augnaráð hans sagði meira en mörg orð.
Flottur og góður karl, setning sem mér er
stundum tamt að segja um menn sem mér líkar við.
Steingrímur Kristinsson