Tengt Siglufirði
Mbl.is 19. desember 2001 |
Helga Pálmadóttir fæddist á Akureyri 19. desember 1921. Hún lést á Siglufirði 12. júlí 2000. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Jón Rögnvaldsson, f. 2. maí 1923, og þau eiga sex syni,
Útför hennar fór fram frá Siglufjarðarkirkju í kyrrþey 20. júlí 2000.
Í dag 19. desember, hefði amma mín orðið áttræð, en hún lést 12. júlí 2000. Hún var móðir sex drengja og var sá næstelsti pabbi minn. Mér skilst að það hafi oft verið mikð fjör á heimilinu á Siglufirði þar sem hún ól drengina sína upp og kom þeim til manns. Það tókst henni með prýði en ég veit að hún óskaði þess stundum, þegar strákapörin tóku völdin, að einhverjir þeirra hefðu verið stúlkur. Þetta átti sérstaklega við þegar skipti þurfti um alklæðnað á þeim öllum tvisvar á dag, tólf umganga af fötum, sem síðan þurfti að þvo í höndunum.
Ég var svo heppin að búa á Siglufirði í fjögur ár, frá fjögurra til átta ára, og þá var nábýlið við Helgu ömmu yndislegt og heimili hennar og Jóns afa okkur barnabörnunum öruggt skjól. Dyrnar voru alltaf ólæstar og gat maður valsað inn og út eins og manni sýndist. En þótt maður fengi hjá henni hlýju, athygli og ómælda ást var hún alltaf ákveðin. Hún tók þátt í því að ala okkur barnabörnin upp og sagði okkur óhikað ef henni mislíkaði eitthvað í fari okkar.
Þetta átti sérstaklega við þegar ég fór að eldast og eyddi oft hluta af sumrinu á Siglufirði hjá henni og afa. Þá kom það stundum fyrir að hugmyndir okkar um útivistartíma stönguðust á. Sumarið sem ég varð tólf ára var ég að vinna í bakaríinu á Siglufirði og bjó hjá ömmu og afa. Eins og gengur og gerist með tólf ára stelpur þá fannst mér ég vera orðin fullorðin og fannst hún stundum skammta mér naumt frelsið.
Ég kom eitt sinn heim á umræddum tíma en úti beið hópur af eldri krökkum eftir mér til að sjá hvað verða vildi. Þegar ég kom og ætlaði að fá að vera klukkutíma lengur, gneistaði úr grænu augum hennar og hún sagði mjög ákveðið að ég yrði ekki mínútu lengur úti, ég væri ekki einu sinni fermd.
Ég kom eftir þetta heim á umsömdum tíma og bað ekki aftur um að fá að vera lengur.
Eftir að ég varð fullorðin urðu heimsóknirnar færri en áður en ég man eftir einni ferð þegar við Benni bróðir ætluðum að koma henni á óvart 19. desember 1991, á sjötugsafmælinu. Við vorum á litlum bíl og enginn vissi af komu okkar nema Steingrímur frændi. Ferðin gekk ágætlega þangað til við komum fram hjá Ketilási, þá fór færðin að þyngjast og vorum við þrjár klukkustundir að komast þessa leið sem venjulega tekur 30 mínútur. Þegar við systkinin mættum í veisluna, allt of seint, varð ömmu svo mikið um að hún fékk næstum taugaáfall en grét af gleði. Þá tók hún af okkur loforð um að hringja næst þegar við ætluðum að koma henni á óvart og við stóðum við það.
Það eru margar minningar sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um ömmu, kleinurnar, kossarnir, kalda mjólkin sem ég þurfti oft að sækja niður í kjallara af því ég var svo létt á fæti, nýþvegin og straujuð sængurföt og kubbarnir inni í litla herbergi. Það var alltaf líf og fjör á Hlíðarveginum og þangað var gott að koma - en núna býr afi þar einn.
Ég elskaði ömmu mína heitt og ég veit að henni líður vel núna með Laufeyju systur sinni og hafa þær örugglega tekið vel á móti Benna bróður. Ég hlakka til að hitta þau, en það verður vonandi ekki strax. Ég þakka ömmu allt sem hún gerði fyrir mig, hún var alla tíð hreinskiptin og heiðarleg en það eru kostir sem ég hef reynt að taka mér til fyrirmyndar.
Helga Rún Viktorsdóttir.