Helga Torfadóttir

mbl.is 10. júní 2016 | Minningargreinar 

Helga Torfadóttir fæddist á Siglufirði 26. febrúar 1926. Hún lést 31. maí 2016.

Útför Helgu fer fram frá Fossvogskapellu í dag, 7. júní 2016, klukkan 13.

Ég vil minnast tengdamóður minnar, Helgu, í fáum orðum. Nú þegar komið er að leiðarlokum er margs að minnast, en leiðir okkar Helgu lágu saman fyrir rúmum 42 árum þegar hún, sem formaður Kvenfélagsins á Seyðisfirði, tók á móti mér, nýútskrifaðri fóstru, komin austur til að reka leikskóla yfir sumarmánuðina.

Við urðum strax vinkonur. Henni hefur eflaust fundist hún bera ábyrgð á fóstrunni sem Herdís Karlsdóttir, forstöðukona í Brákarborg, æskuvinkona hennar, hafði ráðið til starfans. Þetta sumar var ég tíður gestur hjá Helgu og fannst mér hún skemmtileg og var það gagnkvæmt

Helga Torfadóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Helga Torfadóttir - Ljósmynd Kristfinnur

Eftir að ég varð tengdadóttir hennar varð engin breyting á okkar vináttu og hef ég oft gantast með að best sé að kynnast tengdamóðurinni fyrst, þar sem þær geta jú verið erfiðar.

Helga bauð mér oft í mat og dekraði við mig á allan hátt þetta sumar. Hún vildi jú endilega að ég kynntist sonum hennar sem henni fannst að mættu alveg fara að festa ráð sitt. Og höfum við oft hlegið að því.

Helga var kona augnabliksins, hún naut þess að setja upp aðstæður til að skemmta sér og öðrum. Hún flutti oft á milli staða vegna atvinnu eiginmannsins. Þau bjuggu í Reykjavík, á Seyðisfirði og á Akureyri. Helga þurfti því að koma sér inn í samfélagið á hverjum stað og átti hún auðvelt með það, enda var hún fjörkálfur, sagði sögur, dansaði og söng og vildi hafa skemmtilegt fólk í kringum sig og eignaðist hún vini hvar sem hún fór.

Helga var Siglfirðingur með stóru s-i. Ekkert var fallegra en sólaruppkoman þar. Hún var óþreytandi að segja frá lífinu á Siglufirði og allri rómantíkinni sem fylgdi síldarárunum og eftir að hún settist að í Reykjavík fór hún norður á Siglufjörð til móður sinnar með eldri drengina sína þrjá til að fara í síld.

Hún unni umhverfinu, átti sína staði víða um landið þar sem hún áði á leið sinni um það.

Litlar lautir með lækjarnið voru hennar uppáhaldsstaðir til að borða nesti. Þegar hún byggði sér sumarhús austur á Héraði hugsaði hún fyrst og síðast um að hann stæði hátt svo að útsýni væri sem mest.

Helga eignaðist fjóra stráka og þrjá með þriggja ára millibili og sagði hún mér að oft hefði verið fjörugt á heimilinu. Einnig eignaðist hún dóttur sem hún missti í vöggudauða þá nokkurra mánaða. Í þá daga var ekki til áfallahjálp og talið best að gleyma sorgum sínum sem fyrst og sagði hún mér að í minningunni hefði enginn talað við hana um sorgina utan ein nágrannakona.

Helga var gæfukona, hún giftist Matthíasi Guðmundssyni, f. 1922, d. 1992, og seinna fékk hún lottóvinning eins og hún sagði þegar hún hitti Garðar Guðmundsson frá Ólafsfirði, f. 1930, eftir að hún var búin að vera ekkja í nokkur ár og með honum átti hún 19 ára samleið, en hann lést fyrir rúmu ári. Ég vil þakka fjölskyldu Garðars fyrir alla gæskuna sem þau hafa sýnt Helgu, ekki síst í veikindum hennar.

Með þessu ljóði, sem Helga hélt mikið upp á, kveð ég mína kæru vinkonu:

 • Yfir flúðir auðnu og meins
 • elfur lífsins streymir.
 • Sjaldan verður ósinn eins
 • og uppsprettuna dreymir.

(Sigurður Nordal)

Anna Ólöf Sigurðardóttir.
-----------------------------------------------------
Sambýlismaður Helgu til 19 ára, var Garðar Guðmundsson, skipstjóri og útgerðarmaður, fæddist í Ólafsfirði 21. febrúar 1930. Hann lést á Dvalarheimilinu Hornbrekku í Ólafsfirði 1. apríl 2015.  heimild: mbl.is 11. apríl 2015   
Skemmtileg grein, frásögn úr síldinni á Siglufirði; eftir Helgu Torfadóttir  má lesa ef smellt er á tengilinn (sk)
-----------------------------------------------------

Elsku amma, núna er komið að leiðarlokum. Þegar við lítum til baka koma upp ótal minningar. Þar ber hæst sumarbústaðaferðirnar fyrir austan, en þar gátum við eytt heilu dögunum úti, sullandi í ánni, í gönguferðum, skoðandi blóm og fugla. En toppurinn var alltaf þegar þú færðir okkur heitt kakó og lummur upp í rúm fyrir svefninn og last fyrir okkur ævintýri.

Við vorum svo lánsamar að alast upp á Akureyri fram að unglingsárum og gátum því reglulega kíkt í heimsókn til þín og afa í Þórunnarstræti. Þar munum við eftir að hafa hjálpað þér að gera bestu franskar sem hægt var að fá og einnig voru bestu vöfflur í heimi oft á boðstólum. Þú sagðir okkur alltaf skemmtilegar sögur og sérstaklega frá síldarárunum á Siglufirði.

Þegar við fluttum suður hittumst við sjaldnar en skrifuðumst á eða töluðum saman í síma. Þú lagðir alltaf mikla áherslu á að halda sambandi og hafðir mikinn áhuga á því hvað við tókum okkur fyrir hendur.

Eftir að við stofnuðum fjölskyldur þá þótti okkur alltaf notalegt að koma í heimsókn til þín og Garðars, fyrst á Akureyri og síðar á Hornbrekku.

Það eru ótal minningar sem við eigum saman og munu aldrei gleymast.

Það var dýrmætt að við gátum kvatt þig nokkrum dögum áður en þú fórst, kysst þig góða nótt og beðið að heilsa afa. Takk fyrir allar minningarnar elsku amma

 • Ég leitaði blárra blóma
 • að binda þér dálítinn sveig,
 • en fölleit kom nóttin og frostið kalt
 • á fegurstu blöðin hneig.

 • Og ég gat ei handsamað heldur
 • þá hljóma, sem flögruðu um mig,
 • því það voru allt saman orðlausir draumar
 • um ástina, vorið og þig.

 • En bráðum fer sumar að sunnan
 • og syngur þér öll þau ljóð,
 • sem ég hefði kosið að kveða þér einn
 • um kvöldin sólbjört og hljóð.

 • Það varpar á veg þinn rósum
 • og vakir við rúmið þitt,
 • og leggur hóglátt að hjarta þínu
 • hvítasta blómið sitt.

 • Ég veit ég öfunda vorið,
 • sem vekur þig sérhvern dag,
 • sem syngur þér kvæði og kveður þig
 • með kossi hvert sólarlag.

 • Þó get ég ei annað en glaðzt við
 • hvern geisla, er á veg þinn skín,
 • og óskað, að söngur, ástir og rósir,
 • sé alla tíð saga þín.

(Tómas Guðmundsson)

Þínar, Helga og Harpa Torfadætur.
-------------------------------------------------

Helga Torfadóttir var kona pabba, hans Garðar Guðmundssona, í hátt í tvo áratugi. Það var beggja gæfa að þau rugluðu saman reytum sínum því þau áttu margt sameiginlegt.

Þau kynntust í sólarlandaferð og því engin furða að þau fóru saman í fjölmargar slíkar. Minnisstætt er að þegar pabbi varð sjötugur var afmælishóf í Tjarnarborg og þar dönsuðu þau saman við Suður um höfin að sólgylltri strönd. Söngur og dans var þeirra yndi og gleðin einlæg.

En Helga kom líka inn í líf okkar Rjómafjölskyldunnar í Ólafsfirði, afkomenda Garðars og viðhengja og að ógleymdum Halldóri frænda. Tók hún virkan þátt í samverustundum okkar. Hún naut þeirra, jólaboða, afmæla, jeppaferða með Staðarhólsfjölskyldunni og fleiri og fleiri. Sjálf hafði hún margt til málanna að leggja enda vön að vera í þeirri stöðu að draga vagninn frekar en að setjast bara upp í og bíða eftir að aðrir puði.

Í Félagi eldri borgara á Akureyri var Helga ötul ásamt Bellu að skipuleggja og stjórna viðburðum í formi ferða og skemmtana. Þá var hún líka í góðum félagsskap nokkurra kvenna sem voru einstaklega uppátækjasamar og lífsglaðar. Dísa og Bella voru þar og hélt þeirra trausti vinskapur allt til enda. Þegar sporin fóru að þyngjast hjá Helgu yljaði hún sér við að draga fram myndaalbúm úr þessu félagsstarfi og eins myndabókina sem Muggur og fjölskylda sendu henni eftir Íslandsheimsókn þeirra. Lýsingar hennar voru leiftrandi og glampi kom í augun.

Við Helga áttum það sameiginlegt að vera skátar. Hún hafði verið í kraftmiklu skátastarfi í Siglufirði sem ung hnáta og var alveg ljóst að það veganesti fylgdi henni alla tíð. Um nokkurt skeið fór ég til vinnu til Ólafsfjarðar og borðaði ég í hádeginu hjá Helgu og pabba. Helga var ánægð með það því þá gat hún af og til leyft sér að fara stundum út fyrir hefðbundinn íslenskan kost sem hæfði matarsmekk pabba.

Halldóra og Maron, Ólöf og Barði og Guðmundur og Þura, systkini mín og mágfólk reyndust pabba og Helgu vel og hvort heldur sem var í Ólafsfirði eða á Akureyri gættu þau að velferð þeirra á ævikvöldi þeirra. Þegar Steinunn, kona mín, og Helga spjölluðu var það ósjaldan um sameiginlegt áhugamál þeirra, bækur. Helga hafði áhuga á fólki og til viðbótar við samskipti við samborgara sína fann hún í bókunum farveg fyrir samkennd sína.

Eitt af því sem trónir í minningasafninu er dálæti Helgu á rósum og færði hún gjarnan þeim sem henni þótti vænt um rós. Síðasta kvöldið sem hún lifði sat ég í þögninni hjá henni á Hornbrekku og minningarnar streymdu um góðar stundir. Mér varð starsýnt á heklað teppi sem breitt var ofan á sængina hennar og tók ég eftir því að dúllurnar 96 voru hver annarri frábrugðnar með þriggja lita rósum.

Teppi þetta mun alnafna hennar og sonardóttir hafa heklað og sent ömmu sinni og var hún gjarnan með það ofan á sér. Fyrir mér voru þessar rósir táknrænar fyrir líf Helgu þar sem þær mynduðu eina litríka heild þar sem hver rós var sérstök en einstakasta rósin sem ég horfði þó á var hún sjálf, Helga Torfadóttir.

Hannes Garðarsson.
------------------------------------------------------

Nú er elsku Helga frænka mín horfin úr þessum heimi södd lífdaga.

Hún var hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom. Ég var svo heppin að eiga tvær sérstakar frænkur sem mér þótt afskaplega vænt um og voru mér sem systur, það voru þær Helga og Dísa. Ég var litla frænkan sem þær fengu lánaða til að fara með í göngutúra um götur Siglufjarðar á síldarárunum. Þær voru ungar dömur þegar ég var enn barn að aldri og höfðu þær gaman af að spóka sig með litlu frænkuna. Helga og Dísa voru góðar vinkonur. Ég minnist þess þegar Helga þurfti að liggja á spítala um tíma að hafa farið og sungið fyrir hana og fengið eina krónu að launum.

Helga frænka var hugmyndarík og uppátækjasöm á yngri árum. Hún sagði mér frá því að eitt kvöld sem oftar var ball í bænum og langaði hana mikið að fara en hún átti enga silkisokka, sem lágu ekki á lausu í þá daga, en Helga dó ekki ráðalaus. Hún hafði séð silkisokka hanga úti á snúru skammt frá. Hún fékk þá lánaða, fór á ballið og skilaði þeim aftur á snúruna á leiðinni heim.

Helga fluttist til Reykjavíkur þegar ég var enn lítil og man ég hvað mér þótti gaman þegar hún kom í heimsókn. Það var eins og allt lifnaði við með kátínu hennar og persónuleika.

Helga var bæði falleg og skemmtileg kona. Hún giftist Matthíasi Guðmundssyni, bankamanni og síðar bankastjóra á Seyðisfirði og Akureyri, glæsilegum og skemmtilegum manni. Þau eignuðust fjóra drengi og eina dóttur, sem lést á fyrsta ári og var það þeim erfið reynsla.

Helga var mikill Siglfirðingur og dvaldi nokkur sumur þar á síldarárunum með syni sína hjá mömmu sinni og vann í síldinni.

Þegar ég fór suður í nám átti ég alltaf athvarf hjá þessum yndislegu frænkum mínum sem ég nýtti mér óspart.

Þegar Helga og Matti fluttu til Seyðisfjarðar áttu þau sumarbústað uppi á Héraði sem þau dvöldu í löngum stundum. Eitt sumarið buðu þau mér og fjölskyldu að dvelja í bústaðnum um tíma.

Það vildi ekki betur til en svo að á leiðinni austur veiktist annar sonur okkar af mislingum þannig að þau hjónin sátu uppi með okkur og veikan drenginn í lengri tíma en til stóð, en það var ekki vandamál, við vorum alltaf velkomin.

Þegar Helga og Matti fluttu til Akureyrar vann Helga hjá Félagsmálastofnun og fór oft í ferðir sem leiðsögumaður með eldri borgara. Hafði hún mikla ánægju af því og sagði mér síðar að hún hefði gjarnan vilja gerast leiðsögumaður.

Mér er minnisstæð ferð okkar norður í land á slóðir forfeðranna í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu með Tótu systur, sem komin var frá Kaliforníu, og Dísu frænku. Sú ferð var okkur öllum ógleymanleg. Mikið var sungið, hlegið og sagðar sögur, enda líflegar konur á ferð.

Eftir að Matthías lést flutti Helga suður en flutti aftur norður nokkrum árum síðar til Ólafsfjarðar og síðar til Akureyrar með sambýlismanni sínum, Garðari Guðmundssyni útgerðarmanni, ljúfum og góðum manni, sem lést fyrir um ári.

Helga og Garðar áttu mörg góð ár saman og bjuggu síðustu árin á Hornbrekku í Ólafsfirði, þar sem þeim leið vel. Helga sagði mér oft hve starfsfólkið væri yndislegt og gott á Hornbrekku.

Við Helga áttum margar góðar stundir saman eftir að hún fluttist aftur norður og er ég mjög þakklát fyrir að hafa náð að kveðja hana áður en hún lést.

Helga var frábær frænka og mun ég sakna hennar en er um leið þakklát fyrir að hafa átt hana að. Fyrir hönd okkar hjóna og sona vil ég senda sonum og fjölskyldum Helgu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, elsku Helga mín.

Sveinbjörg frænka.
-----------------------------------------------

Við fráfall Helgu Torfadóttur, okkar kæru vinkonu, streyma fram minningar frá liðinni tíð. Minningar fullar af hlýju og gleði. Á síðustu öld stofnuðum við nokkrar hressar konur göngu-, menningar- og ferðaklúbb á Akureyri og kölluðum við okkur Bæjarins-bestu. Leiðir okkar flestra lágu saman í Málfreyjunum.

Við fórum í margar gönguferðir um Akureyri og nágrenni. Svo kom að því að við fórum að ferðast um landið okkar. Þessar ferðir voru menningar- og skemmtiferðir. Lífskraftur Helgu og gamansemi varð í öllum okkur ferðum að leiðarljósi. Ein ferð stendur upp úr öllum okkar ferðum, það var þegar við heimsóttum forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur að Bessastöðum, konuna sem við allar dáðum.

Að morgni dags fór hún með okkur í gönguferð um nesið og tókum við nokkrar teygjuæfingar að lokinni göngu. Þessi ferð var alla tíð efst í huga Helgu. Nú þegar Helga hefur hafið sína hinstu ferð stöndum við eftir fullar þakklætis fyrir alla þá hlýju og þann kærleika sem hún gaf okkur.

Við sendum fjölskyldu Helgu innilegar samúðarkveðjur og biðjum þeim allrar blessunar.

Fyrir hönd gönguklúbbsins,

Björg Þórðardóttir, Ásdís Árnadóttir og Jóna Fjalldal.
-------------------------------------------------------------------------

 • Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,
 • hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.
 • Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,
 • og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Í dag kveð ég mína kæru vinkonu sem ég er þakklát fyrir að hafa átt samfylgd með í leik og starfi í áratugi. Helga átti stórt hjarta og var trygglyndi hennar og vinátta við mig og fjölskyldu mína mér ómetanleg.

Hvíl í friði, elsku vinkona. Guðbjörg. 
------------------------------------------------- 

Helga Torfadóttir fæddist 26. febrúar 1926. Hún lést 31. maí 2016.

Útför Helgu fór fram 7. júní 2016.

Í dag er æskuvinkona mín kvödd, Helga Torfadóttir. Tólf ára gömul fór ég til Siglufjarðar til þess að vera þar í vist um sumarið. Þá kynnist ég Helgu, þessari fallegu og skemmtilegu stelpu.

Síðan skildi leiðir og við höfðum ekkert samband í mörg ár. Einn daginn hringir dyrabjallan hjá mér og úti stendur kona með lítinn strák og segir: „Komdu blessuð og sæl, ég heiti Helga Torfadóttir.“ Hún var þá nýflutt til Akureyrar ásamt eiginmanni sínum, Matthíasi Guðmundssyni, sem þá var ráðinn útibússtjóri Útvegsbankans. Þar með endurnýjuðum við okkar gömlu kynni.

Helga var mikil félagsvera, var í stjórn Málfreyjufélagsins Rúnars og stofnaði gönguklúbb. Þegar ég var formaður Félags eldri borgara þá var hún formaður ferðanefndar og skipulagði og fór í margar ferðir á vegum félagsins. Í einni slíkri tilkynnti Helga að hún ætlaði að flytja til Reykjavíkur, þá varð þessi vísa til:

 • Illa fregn er illt að fá
 • eins og dæmin sýna.
 • Helga ekki missast má,
 • mun þá gleðin dvína.

Margar voru ferðirnar sem við Helga fórum ásamt vinkonu okkar Ásdísi Árnadóttur. Að hittast eftir á, rifja upp, skoða myndir og hlæja saman voru dýrmætar stundir. Í einni utanlandsferðinni kynntist hún sambýlismanni sínum, Garðari Guðmundssyni frá Ólafsfirði. Þar kynnist hún hans ágætu fjölskyldu og átti með þeim mörg góð ár.

Helga var frábær leiðtogi, sem átti auðvelt með að virkja fólk með sér.

Ég kveð mína kæru vinkonu með virðingu og þökk fyrir allar góðar samverustundir.

Sendi öllum ættingjum Helgu innilegar samúðarkveðjur.

Björg Finnbogadóttir (Bella).
------------------------------------------------

Fyrstu minningar um Helgu, frænku mína, eru frá því hún var líklega um tólf eða þrettán ára gömul, ég er fimm árum yngri. Hún hafði fengið að gjöf litla eldavél og gat varla beðið eftir að nota hana.

Býður hún Rúnu, systur minni, og mér upp í fjallið sem var rétt fyrir ofan húsið okkar á Hlíðarveginum á Siglufirði. Það var boðið upp a hafragraut og kakó. Þetta var svo spennandi fyrir okkur systurnar. Þegar Helga var búin að velja stað fyrir eldavélina þá tók hún upp litla pokann með góðgætinu. Vatn og haframjöl var sett í lítinn pott og kakó, sykur og vatn í annan. Næst setti hún dagblöð inn í vélina og kveikti í, það kom þessi svaka reykur sem við áttum ekki von á.

Helga lét það ekkert á sig fá, hélt áfram að elda og gaf okkur á litlum diskum. Maturinn smakkaðist bara vel, sérstaklega kakóið. Hún kallaði okkur litlu frænkurnar sínar. Annað atvik kemur mér í hug sem lýsir Helgu vel. Einn dag fór ég að heimsækja þær mæðgurnar, Helgu og mömmu hennar Dísu, sem var systir Auðar mömmu minnar.

Við vorum bara þrjár í húsinu og sátum við líklega yfir klukkustund meðan Helga reytti af sér brandara. Ég man ekki um hvað hún talaði en líklega hefur það verið um nágrannana eða hvernig mamma hennar hristist þegar hún hló. Hún sá spaugilegu hliðar tilverunnar og sagði vel frá. Helga var alltaf hress og kát. Við hlógum vel og lengi.

Helga var sérstaklega glæsileg sem ung stúlka og kona með ljóst hár, allt í krullum. Það var verulega ánægjulegt að vera í návist hennar. Siglufjörður var yndislegur staður að alast upp á, enda talaði hún oft um það. Helga gaf mjög góða lýsingu á bæjarlífinu á Siglufirði í erindi hjá Toastmasters, þar sem hún var meðlimur. Yfir sumarið fylltist þessi litli bær af fólki frá öllum hlutum landsins. Síldin var í hámarki á þessum árum.

Á veturna voru stundaðar skíðaíþróttir og svo komu blessuð jólin sem voru alltaf tilhlökkunarefni, því allir í stórfjölskyldunni hittust í matarveislum hvert hjá öðru. Ekki má gleyma kirkjuklukkunum sem hringdu inn hátíðina klukkan sex á aðfangadag á hverju ári. Var hægt að heyra í þeim yfir allan fjörðinn. Svo giftist Helga og flutti til Reykjavíkur. Okkar leiðir lágu aftur saman þegar ég fluttist til Reykjavíkur. Alltaf var opið hús hjá Helgu og Matthíasi. Litla fjölskyldan mín var á hverjum jólum hjá þeim á meðan við bjuggum á Íslandi. Okkar innilegustu þakkir fyrir þann yndislega tíma.

Það var alltaf ljós í kringum Helgu og nú er hún komin í eilífðarljósið, tími hennar hér á þessari jörð er búinn. Sjáumst, Helga mín.

Sigþóra (Tóta) og Ed.