Tengt Siglufirði
Mbl.is 27. október 2018 | Minningargreinar
Hilmar Rósmundsson fæddist á Siglufirði 16. október 1925. Hann lést á Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra í Vestmannaeyjum, 10. október 2018.
Foreldrar hans voru María Jóhannsdóttir húsfreyja, f. 23.7. 1891, d. 27.11. 1969, og Rósmundur Guðnason sjómaður, f. 6.3. 1900, d. 23.7. 1967.
Tvíburasystir Hilmars var
Systkini samfeðra voru
Hilmar eignaðist dótturina
Hilmar kvæntist 24.10. 1950 Rósu Snorradóttur, f. 3.9. 1927, d. 24.7. 2015. Þau slitu samvistir 1986. Dætur þeirra eru
Synir Hafdísar Hilmarsdóttir af fyrra hjónabandi eru:
Hilmar Rósmundsson lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskólanum á Siglufirði og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1950. Hilmar var skipstjóri á fiskiskipum frá árinu 1955 og útgerðarmaður frá árinu 1959.
Hilmar fór í útgerð árið 1960 á 50 tonna bát, sem nefndur var Sæbjörg. Bátinn misstu þeir 1964 þegar óstöðvandi leki kom að honum í róðri. Þá keyptu þeir Sigurfara frá Akranesi og nefndu hann einnig Sæbjörgu. Hilmar var aflakóngur Vestmannaeyja árin 1967 og 1968. Árið 1969 var Sæbjörg VE aflahæsti bátur landsins.
Hilmar var alla tíð ötull félagsmálamaður og var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Helgafells í Vestmannaeyjum. Hann sat í stjórn Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðandi í Vestmannaeyjum, var í Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja og framkvæmdastjóri þess um árabil. Einnig sat hann í stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og var varamaður í bankaráði Útvegsbanka Íslands hf.
Þá sat Hilmar í stjórn Norðlendingafélagsins í Vestmannaeyjum. Hann var varaþingmaður Framsóknarflokksins í Suðurlandskjördæmi og tók sæti á Alþingi haustið 1978. Hilmar var heiðraður ásamt fleiri öldruðum sjómönnum af sjómannadagsráði Vestmannaeyja á sjómannadeginum 1998.
Útför Hilmars fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 27. október 2018, klukkan 13.
Komið er að kveðjustund, elsku pabbi, nú ertu kominn í örugga höfn. Margar eru minningarnar og af mörgu að taka.
Ég ólst upp við að pabbi var sjómaður. Ég fór með honum í tvær siglingar erlendis á Sæbjörginni. Pabbi var frá Siglufirði. Við fórum þangað nokkrum sinnum meðan amma og afi voru á lífi. Ég á skemmtilegar minningar af bryggjurölti og síldarplani þar sem verið var að salta síld.
Pabbi var í Norðlendingafélaginu í Vestmannaeyjum. Fyrir þorrablót sem þar voru haldin var meðal annars steikt laufabrauð. Komu vinir pabba þá í heimsókn með skurðarbretti og vasahnífa og skáru þeir út falleg listaverk í brauðið. Mér fannst mjög gaman að fylgjast með þessu.
Pabbi hafði gaman af að syngja við ýmis tækifæri. Ég fór með honum nokkrum sinnum í kirkju þar sem hann söng manna hæst og ég var mjög hreykinn af honum. Pabbi var kraftmikill og fór hann t.d. í brúðkaup hjá yngsta syni mínum vestur á Þingeyri, þá orðinn 90 ára.
Við Ágúst fórum af og til að heimsækja pabba í Sólhlíðina. Við fórum með honum í bíltúra að skoða Eyjuna og í heimsóknir til ættingja. Þegar heilsan fór að versna og hann var kominn á Hraunbúðir hittum við hann þegar við gátum. Pabbi átti góðan vin sem kom til hans nánast daglega. Við þökkum honum og starfsfólki Hraunbúða og annarra sem önnuðust hann með virðingu og kærleika.
Ég kveð þig, elsku pabbi, með þökk í hjarta og veit að þér verður fagnað í himnanna sölum.
Hafdís Björg Hilmarsdóttir.
--------------------------------------------
Elsku pabbi minn er farinn í ferðalagið mikla, þetta sem enginn kemst undan.
Þó svo að ég hljóti að teljast nokkuð fullorðin, 58 ára gömul, þá finnst mér alveg ótrúlegt að eiga ekki lengur foreldra á lífi, en þetta er víst einn parturinn af öllu lífsferlinu.
Pabbi var merkur maður, a.m.k í mínum augum. Hann var mikil félagsvera og áræðinn en um leið varfærinn og mikið sem honum þótti gaman að spila. Bæði brids og félagsvist voru í uppáhaldi og var hann sko í essinu sínu þegar vel gekk enda stóð hann oft uppi sem sigurvegari. En pabbi var líka söngelskur og söng þessa fínu millirödd.
Á góðum stundum söng hann hátt, sem mér líkaði oftast vel en þegar ég sem krakki heyrði hærra í honum en heilum kirkjukór Landakirkju á sunnudagsmorgnum þá seig sú stutta niður á kirkjubekknum rjóð í vöngum og lét lítið á sér bera. Reyndar áttum við það til að taka lagið saman seinna meir og þá var spurning hvort okkar tæki milliröddina, mér þótti pabbi betri.
Frá því barnabörnin komu í heiminn hvert á fætur öðru þá vildi pabbi alltaf vita hvernig þau hefðu það og hvort þeim vegnaði ekki örugglega vel í því sem þau voru að gera hverju sinni. Ekki minnkaði áhugi hans þegar langafabörnin komu til sögunnar, hann vissi allt um þau og nöfn þeirra vöfðust ekki fyrir honum þó hvert langafabarn beri tvö nöfn og séu sautján talsins.
Í seinni tíð voru íþróttir mikið áhugamál og horfði hann nánast á hverja einustu íþróttagrein í sjónvarpinu en fótboltinn var samt númer eitt og hann mætti á flesta heimaleiki ÍBV ásamt frænda sínum Didda Mar eða Sigursteini Marinóssyni, en þeir voru systkinasynir. Diddi lést á síðasta ári og sá pabbi mikið eftir sínum góða vini og frænda. Ætli þeir séu ekki búnir að hittast í sumarlandinu og jafnvel horfa á eins og einn leik eða svo?
Í heildina tel ég að pabbi hafi átt frekar góð 93 ár þrátt fyrir brim og boðaföll bæði til lands og sjávar en svo ótal margt er líka þakkarvert eins og að hafa góða heilsu, því má ekki gleyma. Þegar pabbi kom heim af sjónum í gamla daga þá tók ég á móti honum með faðmlagi, pabbi fékk mitt síðasta faðmlag rétt áður en hann lést.
Að lokum vil ég þakka frænda mínum Theodóri Ólafssyni fyrir einlæga vináttu og traust við pabba frá því þeir kynntust sem ungir menn og urðu síðan mágar og samstarfsfélagar til margra ára. Slík vinátta er ómetanleg. Einnig vil ég þakka bæði starfsfólki og heimilisfólki Hraunbúða í Vestmannaeyjum fyrir hlýju og alúð í garð pabba og fjölskyldunnar allrar. Þið eruð æði.
Karlinn í brúnni hefur kvatt í hinsta sinn. Þangað til næst, elsku pabbi minn.
Þín dóttir, Sædís María.
--------------------------------------------------
Hann tengdapabbi er lagður af stað í sína hinstu siglingu og stendur eflaust keikur við stýrið og rýnir skarpskyggn í átt að áfangastað. Það þarf ekki að vera stórt himinfleyið er hann stýrir, frekar en þau fley sem hann stjórnaði á hafinu í gegnum tíðina. Í þessari för siglir reyndur og farsæll skipstjóri, sem skilar fleyinu örugglega í höfn á góðum dvalarstað.
Hilmari kynntist ég fyrst af afspurn, sem ungur drengur í Eyjum, þegar fólkið í kringum mig ræddi dugnað og elju þessa skipstjóra og mikla sjósóknara. Það var hart sótt á Sæbjörginni og mikið kapp lagt á að afla sem mest, enda var Hilma aflakóngur Eyjanna í nokkur skipti. Fólkinu var tíðrætt um aflabrögðin hjá mannskapnum á þessum litla báti og þótti undrum sæta að hann aflaði mest allra og það jafnvel á landsvísu. Þrátt fyrir harðfylgni var hann farsæll skipstjóri, sem skilaði vel í þjóðarbúið.
Seinna kynntist ég Hilmari betur, þegar ég fór að gera mér dælt við dóttur hans og virtist hann taka því með jafnaðargeði. Fljótt myndaðist með okkur góður og traustur vinskapur enda víðsýnn og skemmtilegur karl þar á ferð. Það var ætíð stutt í glettnina hjá honum og húmorinn hárbeittur og beint í mark, sem mér líkaði einstaklega vel. Einhverju sinni var spjallað um komandi misseri og hvort erfiðari tímar væru fram undan. Hilmar hélt nú ekki og hann hefði engar áhyggjur, hann ætti allt lífið fram undan, þá kominn vel á níræðisaldur.
Við ræddum ætíð málefni líðandi stundar og mér varð fljótt ljóst að Hilmar kunni skil og hafði skoðun á flestu sem samfélag okkar varðaði. Hann hafði sterkar skoðanir á stjórnmálunum og tjáði hug sinn á kjarnyrtan hátt, eins og sjóara er siður. Maður þurfti ekkert að geta í eyðurnar eða lesa á milli línanna. Hilmar sagði það sem honum bjó í brjósti, ekki með neinum látum eða gífuryrðum, en það var auðskilið.
Ætíð ræddi hann málefnin og minna um mennina. Aldrei heyrði ég hann tala um afrek sín eða sinna manna, þegar fjallað var um aflabrögð fyrri tíma. Ég fékk á tilfinninguna að hann liti á sinn þátt sem hvert annað skylduverk og ekki væri ástæða til að hreykja sér af því. Allir í kringum hann vissu þó að það sem áhöfnin á litlu Sæbjörginni skilaði á land vertíð eftir vertíð var næstum ofurmannlegt.
Í bili er komið að lokum samfylgdar okkar Hilmars en aldrei er að vita nema við hittumst yfir kaffibolla í spjalli um málefni nýja dvalarstaðarins. Virðing mín á tengdaföður mínum er fölskvalaus og sönn. Fyrir samfylgdina og vinskapinn vil ég þakka og frá mínum dýpstu hjartarótum sendi ég samúðarkveðjur til allra ættingja og aðstandenda.
Þinn tengdasonur, Guðlaugur.
---------------------------------------------------------
Þegar haustið heilsar og skammdegið breiðir húmdökka slæðu yfir haf og land hefur skipstjórinn lagt upp í sína hinstu för.
Að leiðarlokum streyma minningarnar fram og hugurinn reikar til æskuáranna á Illugagötunni, þar sem ég ólst upp hjá ykkur ömmu Rósu fyrstu tíu ár ævinnar. Sjómannslífið hafði óhjákvæmilega í för með sér að þú varst oft að heiman, en þegar þú varst í landi var iðulega fjör. Fótboltaleikir á svefnherbergisganginum, sandkassasmíði á veröndinni, grænmetisrækt í garðinum og bryggjurúntur á rauða pallbílnum. Ég var heldur ekki hár í lofti þegar þú kenndir mér mannganginn og í ófá skipti sátum við saman við eldhúsborðið og tefldum eða gripum í spil.
Ein af mínum fyrstu bernskuminningum er fyrir utan gömlu sjoppuna við Bárustíginn. Sólin skein og við höfðum labbað niður í bæ til að kaupa bland í poka. Þú hittir kunningja þinn og þið tókuð tal saman, en eitthvað fór mér að leiðast. Ég fór því að klifra upp á stæðilega steypuklumpa sem lágu við sjoppuna, en ekki vildi betur til en svo að ég datt beint á hausinn og fékk stærðarinnar skurð á ennið. Þá varst þú nú ekki að tvínóna við hlutina, vippaðir mér alblóðugum í fangið og labbaðir með mig upp á spítala þar sem saumuð voru þónokkur spor. Verst þótti mér þó að fá aldrei nammið.
Með árunum fækkaði því miður samverustundunum, þar sem þú bjóst áfram í Eyjum en ég og mín fjölskylda uppi á landi. Þó var aðfangadagsbíltúrinn hjá okkur feðgum til ykkar Dúnu þau jól sem þú dvaldir í Kópavoginum fastur punktur í jólahaldinu. Þá var glatt á hjalla. Jafnframt var alltaf gaman að heimsækja þig í Eyjum og spjalla um heima og geima.
Þess á milli heyrðumst við í síma og þrátt fyrir háan aldur varstu ávallt með á hreinu hvað allir mínir voru að gera, hvort sem var í leik eða starfi. Aldrei kom ég heldur að tómum kofanum hjá þér þegar kom að íþróttaúrslitum, stjórnmálum eða helstu þrætueplum þjóðmálaumræðunnar. Þó heyrnin hafi verið farin að daprast síðustu ár þá fylgdist þú svo sannarlega vel með mönnum og málefnum allt til hinsta dags.
Þú hafðir einnig gaman af mannamótum og áttir stóran hóp vina og kunningja. Mér er minnisstætt þegar ég heimsótti þig skömmu fyrir níræðisafmælið þitt og spurði af þessum sökum hvort þú ætlaðir ekki að slá upp veislu í tilefni áfangans. En þá stóð ekki á svari: „Nei, það geri ég sko ekki fyrr en í fyrsta lagi þegar ég verð hundrað.“
Við munum örugglega slá upp aldarafmælisveislunni þinni þegar þar að kemur, en þangað til höldum við fast í minningarnar um skipstjórann okkar sem ávallt stóð sterkur í lífsins ólgusjó. Á kveðjustund er mér efst í huga þakklæti fyrir öll árin sem ég bjó hjá ykkur ömmu í Eyjum, þakklæti fyrir leiðsögn þína og stuðning í gegnum lífið og fyrir ævarandi vináttu sem aldrei þvarr.
Nú þegar þú hefur ýtt úr vör í hinsta sinn er ómetanlegt að hafa heimsótt þig um þjóðhátíðina og jafnframt að hafa náð að taka utan um þig og smella kossi á kinn daginn áður en þú skildir við. Þær minningar munu lifa.
Elsku afi, hafðu hjartans þökk fyrir allt og allt.
Sigurgeir Guðlaugsson.
-------------------------------------------------------
Elsku besti afi, kafteinn Hilmar Rósmundsson, hefur nú kvatt í hinsta sinn.
Sem betur fer áttir þú langa og viðburðaríka ævi og varst ávallt heilsuhraustur og svo vel að þér um málefni líðandi stundar, hvort sem var í pólitík eða nýjustu úrslitum í fótboltanum. Þú naust velgengni í hverju sem þú tókst þér fyrir hendur og áttir marga góða og trausta vini. Þú varst fæddur í þennan heim til að verða skipstjóri og inntir það starf af hendi af mikilli list. Duglegur, úrræðagóður, þrautseigur, lausnamiðaður og áræðinn eru aðeins örfá lýsingarorð sem lýsa þeim manni sem þú hafðir að geyma.
Minningarnar sem hellast yfir okkur á svona stundum eru margar, samverustundir í Eyjum, jól og áramót, þjóðhátíðir, vani þinn að hringla í klinkinu sem þú varst með í vasanum, bankið þitt með puttunum í borðið og margt fleira.
Ein minning sem hefur alltaf verið í uppáhaldi er þegar þér var falið að passa okkur tvíburana þegar við vorum sex ára gamlir. Að vissu leyti varst þú af gamla skólanum og hafðir kannski ekki ýkja mikla reynslu, hvorki af barnapössun né af því hvað elda skyldi fyrir barnabörnin. Þegar kom að kvöldmatartíma spurðir þú hvort það væri í lagi að panta pítsu. Við tvíburarnir vorum auðvitað sáttir með þá tillögu og borðuðum vel.
Þegar langt var liðið að miðnætti hafðir þú áhyggjur af því að við þyrftum að borða meira fyrir svefninn. Þá var brugðið á það ráð að sjóða pylsur í kvöldkaffi og voru þær borðaðar með bestu lyst um miðnætti. Þetta fannst okkur bræðrum æðislegt, enda óvanir tveimur slíkum veislum sama kvöldið. Á þessum tíma bjóst þú tveimur húsum neðar en við á Túngötunni og eftir þessa pössun var oft spurt hvort við mættum ekki frekar fara í mat til afa, það væri skemmtilegra að borða hjá honum.
Þó heyrnin hafi verið farin að segja til sín á efri árum, þá var hugurinn og meðvitundin í fullu fjöri og alltaf vissir þú upp á hár hvað var í gangi „í borginni“. Við höfðum svakalega gaman af því að hlusta á frásagnir þínar af sjómannslífinu og voru þær ótalmargar. Við vorum alltaf svo montnir af því að geta sagt að afi væri að vinna á Herjólfi, og hvað þá að hann hafi verið aflakóngur heil þrjú ár í röð.
Þér var margt til lista lagt og það er deginum ljósara hvaðan mamma fékk milliröddina þegar kemur að söng. Ekki má heldur gleyma öllum þeim góðu og skemmtilegu kaffistundum sem þú eyddir með okkur í Foldahrauninu. Alltaf komst þú sjálfur keyrandi, kominn hátt í nírætt, geri aðrir betur. Það var ætíð skemmtilegt að vera í návist þinni, en nú koma því miður minningar í stað félagsskaparins.
Elsku afi, kveðjustundir eru alltaf sárar, sérstaklega þær sem varanlegar eru. Það verður afar einkennilegt að heimsækja Vestmannaeyjar án þess að heimsækja þig. Við vonum hins vegar og trúum að þú hafir fengið hvíldina góðu og vakir yfir þínum hópi umvafinn vinum, kunningjum, fjölskyldu og öðrum englum. Takk fyrir samfylgdina í þessari sjóferð, höfðingi!
Hvíldu í friði, elsku afi Hilmar, við söknum þín.
Einir og Birkir Guðlaugssynir og fjölskyldur.
----------------------------------------------------
Hilmar Rósmundsson — Ég var sofandi, þegar konan sagði mér að það væri kominn upp jarðeldur, en ég náði ekki að vakna, ef til vill hefur mér þótt þetta of fráleitt til þess að taka þetta alvarlega, en svo ýtir hún við mér aftur og ég rauk á fætur og við horfðum bergnumin á eldbjarmann í austri, en svo flýttum við okkur að klæða okkur í föt og héldum út í nóttina, þar sem fólkið gekk hægum skrefum til hafnarinnar, þar sem bátaflotinn beið.
Þannig fórust Hilmari Rósmundssyni skipstjóra og aflakóngi á Sæbjörgu VE frá, þegar við spurðum hann um jarðeldinn í Vestmannaeyjum. Og hann hélt áfram: — Við gerðum út tvo báta, Sæbjörgu og Gjafar, sem við vorum nýbúnir að taka á leigu. Það var búið að ráða nýjan skipstjóra á Sæbjörgu og annan á Gjafar, en við fórum til lands með hinum síðarnefnda, ásamt 400 öðrum Vestmannaeyingum. Afganginn af þessari sögu þekkja svo allir.
— Hvað tók þá við? —
Þá fengum við inni í Hveragerði, síðan upp í Hraunbæ og víðar, en að lokum keyptum við hérna á Álfhólsvegi í Kópavogi og verðum hér a.m.k. að óbreyttu. Við seldum húsið okkar í Eyjum, en það varð fyrir litlum skemmdum í eldgosinu, eitt af fáum húsum. Það stendur upp af Friðarhöfninni.
— Þetta hefur verið röskun á högum. —
— Já . Eina nóttina, rétt eftir að við vorum flutt upp í Hraunbæ, var lamið harkalega á dyrnar. Við opnuðum ekki strax, héldum að þetta væru einhver drykkjulæti, en þegar barsmíðunum linnti ekki, fór ég til dyra og þá var það lögreglan, komin til þess að tilkynna mér að Gjafar hefði strandað í innsiglingunni í Grindavík, svo það var ekki ein báran stök. Hann náðist ekki út, heldur er þarna í fjörunni enn. Þetta var gott skip og frægt fyrir mannflutningana frá Vestmannaeyjum.
— En vertíðin. Hvernig fór hún? —
Fyrstu dagarnir fóru í að bjarga lausafé Vestmannaeyinga. Við vorum viku eða 10 daga að flytja innbú og önnur verðmæti til lands, síðan var að koma sér upp útgerðaraðstöðu á meginlandinu. Gjafar fór á loðnu og mestur tíminn fór í það að útvega skipinu loðnufrystingu. Ég ætlaði sjálfur að fara á loðnuna til þess að læra þessar veiðar, en til þess kom ekki, vegna strandsins. Ég fór aftur um borð í Sæbjörgu, og hefi róið síðan, með þorsknet á vetrum en troll á sumrin.
II.
Þetta var einn af þessum fögru haustdögum er við lögðum leið okkar suður í Kópavog til þess að hitta að máli Hilmar Rósmundsson á Sæbjörgu frá Vestmannaeyjum. Bátur hans SÆBJÖRG VE 56 hefur margar vertíðir orðið aflahæst Eyja báta. Hilmar hefur róið meira en 30 vertíðir frá Vestmannaeyjum og okkur langaði til þess að leggja fyrir hann fáeinar spurningar. Fyrst spurðum við um ætt og uppruna og fyrstu árin á sjónum. Honum sagðist svo frá:
— Ég byrjaði ungur þarna fyrir norðan að róa á trillu með honum pabba. Hann hét Rósmundur Guðnason og við áttum heima á Siglufirði. Svo fór maður að fara á síld á sumrin, eins og þá var siður. Vinna var lítil á Siglufirði á vetrum aðallega við að ganga frá og skipa út síldinni og síldarafurðunum. Menn fóru því annað í atvinnuleit á veturna, flestir á vertíð á Suðurlandi.
— Ég byrjaði með því að vinna í frystihúsi í Njarðvíkunum hjá Eggert á Nautabúi. Þar var ég þrjá vetur. Eftir það fór ég á vertíð til Vestmannaeyja, en það mun hafa verið árið 1945, og því hefi ég haldið áfram síðan.
—
Fyrstu árin var ég þó aðeins í Vestmannaeyjum á vetrarvertíð, en fór norður á sumrin. Þetta var svipað og hjá öðrum norðlenskum sjómönnum, þeir
fóru milli landshluta eftir árstíðum í atvinnuleit.
Svo var það, að Siglfirðingar eignuðust togara, Elliða. Þá fór ég þangað. Með þetta skip var
Vigfús Sigurjónsson og svo faðir hans Sigurjón Einarsson frá Hafnarfirði, sem síðar varð forstjóri Hrafnistu.
— Árið 1948 fór ég svo í Stýrimannaskólann og var þar einn vetur, 1948—1949. Þar lauk ég prófi um vorið 1949.
— Var mikið af aflamönnum í bekknum?
— Já það voru þarna aflamenn eins og líklega er alltaf. Ég er nú samt búinn að gleyma hvað við vorum margir, en þarna kynntist ég fyrst mörgum ágætum sjómönnum, sem ég átti við ýms samskipti síðar á æfinni. Þeir voru þarna Guðmundur Kjærnested, Pétur sjómaður Sigurðsson, alþingismaður Eggert Gíslason, og fleiri. Ekki allir í mínum bekk, en um sama leyti. Líka Bjarki Elíasson, yfirlögregluþjónn.
— Um þetta leyti varð nokkur breyting á högum mínum. Um veturinn hafði ég trúlofað mig ungri stúlku úr
Vestmannaeyjum, Rósu Snorradóttur og við byrjuðum að búa um vorið.
Fyrst á Siglufirði, þar sem við vorum eitt ár, en fluttum svo alfarin til Eyja. Það var 1950. Þá
var ekki lengur nein ástæða til þess að vera að hlaupa á milli landshluta og bjuggum við í Vestmannaeyjum þar til jarðeldurinn kom upp, eða rúmlega tvo áratugi. Næg atvinna
var í Vestmannaeyjum, svo það var ekki nauðsynlegt að leita útfyrir byggðina eftir atvinnu.
III.
— Frá því að ég kom fyrst til Eyja 1945, er ég búinn að róa hverja einustu vertíð. Fyrst var ég háseti, en eftir að ég kláraði sjómannaskólann þá varð ég stýrimaður þar í sex ár, eða svo, en formennsku byrjaði ég árið 1956 og var þá með Gylfa, sem er 45 tonna bátur, smíðaður í Svíþjóð.
Með Gylfa var ég í
þrjú ár, en þá fór ég út í það með mági mínum og félaga Theódór Ólafssyni að kaupa 50 tonna bát. Theódór er bróðir
konunnar og er vélstjóri. Báturinn hét Sigrún, en við skýrðum hann Sæbjörgu.
— Við áttum þennan bát í þrjú ár, en þá misstum
við hann niður á trolli. Það kom að honum óstöðvandi leki og við misstum hann á botninn. Það var haustið 1963.
Við vorum að toga austur á Vík og ég var
einn uppi, þá þurfti ég að skjótast niður í vél, og þá var heldur ljót aðkoma þar. Vélarrúmið hálf fullt af sjó. Ég ræsti strákana
strax og við fórum að reyna að lensa skipið, en allt kom fyrir ekki og við urðum að yfirgefa bátinn, fórum við í gúmmíbát og bátur frá Vestmannaeyjum fiskaði
okkur upp en reyndi svo að draga bátinn til lands, en það tókst ekki og hann sökk til botns.
— Hann hefur líklega slegið svona rækilega úr sér. Báturinn sem bjargaði
okkur hét Gylfi, skipstjóri Hörður Jónsson. Varð engum meint af volkinu.
— Það sama haust keyptum við Sæbjörgu, þennan bát sem við eigum núna. Hann hét áður Sigurfari og var frá Akranesi. Þennan bát höfum við átt síðan og höfum gert á honum veigamiklar endurbætur, t.d. sett á hann hvalbak, nýjar vélar o.fl. Reyndar erum við að reyna að selja hann og höfum verið að því undanfarin tvö ár en hefur ekki tekist það, þar sem lánafyrirgreiðslur til kaupa á eldri fiskiskipum eru engar. Sæbjörg er 67 tonn.
— Á Sæbjörgu, eða þessum báti er ég búinn að róa síðan árið 1963. Á vertíðum á vetrum og á trolli á sumrum. Hann hefur reynst með afbrigðum vel, en er heldur lítill miðað við þær kröfur sem núna eru gerðar til báta sem stunda þessar veiðar. — Hvað um aflamagnið. Það hefur verið metafli?
— Aflinn fer minnkandi á miðunum hér við land, miðin eru ekki svipur hjá sjón. í vetur fengum við 670 tonn, vertíðina 1974 850 tonn. 1973 var ekki nein vertíð út af gosinu, en við fengum þó 500 tonn í netin á einum mánuði.
— Til samanburðar má nefna að árið 1969 fengum við 1654 tonn og við fengum 1200 tonn árið 1968 og 1000 tonn árið 1967.
— Nú færð þú 1654 tonn á vertíð 1969. Hvað ber báturinn?
— Þetta er auðvitað mikil afli á ekki stærri bát. Við komum fjórum sinnum með 67 tonn í ferð. Það er síldarhleðsla. Gera má ráð fyrir að þessi afli sé hliðstæður því að fylla bátinn af fiski a.m.k. 40 sinnum, og þá er hann vel hlaðinn, sem kalla má.
IV.
— Nú ertu fluttur frá Eyjum. Er ekki meiningin að flytjast þangað út aftur?
— Það er nú ekki fyrirhugað. Annars verð ég líklega að róa þaðan áfram, ef ekki tekst að selja bátinn. Það er ekki um annað að gera ,eða gefa þetta bara alveg frá sér.
— Muntu þá róa frá Eyjum, eða t.d. frá Grindavík?
— Ekki litist mér á það að róa frá Grindavík. Það er annað. Þekking á vertíðarfiskiríi er staðbundin. Þótt mið Vestmannaeyinga og Grindvíkinga liggi saman, þá róa bátarnir ekki á sömu mið, að er miklu fremur að það sé sambærilegt að róa frá Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum.
— En framtíðin er semsagt nokkuð óráðin hjá okkur núna. — Nú eru blikur á löfti í útgerð og fiskveiðum. Skipin hafa siglt í land til þess að mótmæla fiskverði og sjóðakerfi sjávarútvegsins?
—. Við á Sæbjörgu höfum stórtapað fé á sjóðakerfinu, höfum orðið að greiða 51 krónu fyrir olíulíterinn, í stað þess að raunverulegt olíuverð er kr. 20.00 pr. lítra, eða olían er skattlögð um rúmar 30 krónur líterinn vegna sjóðakerfisins og sumir hafa orðið að greiða á annað hundrað krónur fyrir olíulítrann, eins og ég veit dæmi um. Það gerði bátur sem veiddi eingöngu í þorskanet, og var allur aflinn saltaður.
— Hvernig kom þetta út síðast.
— Þá voru úthaldsdagarnir 203 og aflaverðmæti bátsins upp úr sjó var um 25 milljónir króna, en útflutningsverðmætið um 50 milljónir króna. Í
viðtali sem ég átti við Morgunblaðið segir frá þessu sem hér greinir, hvað okkur varðar: „Hilmar Rósmundsson sagði, að útflutningsgjaldið væri að meðaltali
um 17% eða 8.5 milljónir kr.
Útflutningsgjaldinu væri ráðstafað á margvíslegan hátt. 21.5% fer í tryggingasjóð fiskiskipa eða 1.827.500.00 kr., 7.9% fara til Fiskveiðasjóðs
íslands eða 671.500.00 kr., 7.6% fara til Aflatryggingasjóðs eða 646.000.00 kr., 9.15% fara til Aflatryggingasjóðs, áhafnadeild eða 777.750.00 kr. og 51.81% fara til olíusjóðs fiskiskipa eða
alls kr. 4.403.850.00.
Báturinn er tryggður hjá Bátaábyrgðarfél. Vestmannaeyja fyrir kr. 21.840.000.00. Iðgjald 8.5% eða kr. 1.856.400.00. Bátafúatryggingin væri 9.850.000.00, iðgjaldið 1.95% eða 192.075 krónur. Samkvæmt útreikningi fengi Tryggingasjóður af afla bátsins kr. 1.827.500.00.
En þar sem úthaldstíminn væri aðeins 203 dagar og því miklar hafnarlegur væri raunverulegt iðgjald til Bátaábyrgðarfélags Vestmannaeyja um 1.3 milljónir kr. og iðgjald til Bráðafúasjóðs 192 þús. kr.
Úr Tryggingasjóði
greiddust 70.5% af iðgjaldi í 203 daga eða 984 þús. kr. og úr sama sjóði 57.75% af fúagjaldi eða 83.400 kr. Á sérreikning færu 25% af 1827 þús. kr. eða 456.875 krónur.
Samtals yrðu því greiðslur úr Tryggingasjóði kr. 1.525.275.00 en iðgjöldin væru samtals 1.492.075 kr.
Á reikning eigenda bátsins í Stofnfjársjóði ætti
því að koma kr. 32.200.00 krónur og samkvæmt því ættu 303.225.00 kr. að verða eftir.
Þá sagði Hilmar, að samkvæmt útreikningi fengi Fiskveiðasjóður kr. 571.500.00 af útflutningsgjaldi því, sem greitt væri af afla bátsins 1975.
— Ef ég nú bæti þessu framlagi bátsins til Fiskveiðasjóðs þetta ár, við
vextina af þeim lánum, sem báturinn skuldar umræddum sjóði, verður útkoman ekki 5.5% vextir, heldur ekki 11% , heldur nálægt 42%.
Það má vel vera að það sé
þess virði, að fá að vera með í keríinu, ekki kann ég samt að meta það, og það hlýtur að vera sanngirniskrafa okkar, sem eigum þessa eldri báta, að Fiskveiðasjóður
veiti einhverja fyrirgreiðslu, þegar þeir eru seldir.
En höfuðmarkmið sjóðsins virðist vera, að þyngja okkur stöðugt róðurinn, með því að lána stanslaust út á ný skip. sem þegar eru orðin of mörg, bæði fyrir miðin, fiskstofnana og þann mannafla, sem hægt er að tæla til þess að stunda fiskveiðar á Íslandi, sagði Hilmar.
Þá sagði hann, að af útflutningsgjaldi af afla bátsins þetta ár fengi Fiskimálasjóður kr. 425.000.00 og bætti við: Ekki veit ég til að sá sjóður láni til útgerðar, en þar sem hann mun að einhverju leyti aðstoða fiskvinnsluna með lánum, læt ég þennan póst liggja á milli hluta, enda ekki afgerandi.
Hilmar Rósmundsson sagði, að 25.500 krónur af útflutningsgjaldinu færi til byggingar Hafrannsóknaskips, en sér reiknaðist til að í þennan póst færu samtals rúmar 18 milljónir króna á árinu. Það væri að vísu ekki stórt framlag til kaupa á rannsóknaskipi, en safnaðist þegar saman kæmi, og þar sem þetta ákvæði hefði verið í gildi í nokkur ár þá væri fróðlegt að fá upplýst hve mikið fé væri í þeim sjóði og hvernig það væri ávaxtað.
Smá framlög væru til bygginga rannsóknaraðstöðu í sjávarútvegi, svo og til samtaka sjómanna og útvegsmanna, en þau væri það lítil að tæpast skipti það máli, hvoru megin þessar fjárhæðir væru látnar liggja.
— Í Aflatryggingasjóð fara 646.000.00 af útflutningsgjaldinu, sagði Hilmar, en til baka kemur ekkert.
Í
áhafnadeild Aflatryggingasjóðs fara 777.500.00 kr., upp í fæðiskostnað skipverja kr. 568.000.00 og þar yrðu því eftir 209.500 kr.
Hilmar kvað 74.800.00 krónur vera greiddar í svonefnd ferskfiskmatsgjald, sem þýddi að um 50 miljónir kr. af heildarútflutningsgjöldunum færu í þann sjóð. Trúlega ætti ferskfiskmatið rétt á sér. En flestum fyndist nóg um kostnaðinn.
— Og þá erum við komnir að stóra málinu, sem er Olíusjóður fiskiskipa, sagði Hilmar.
Í þann mikla sjóð þarf
Sæbjörgin að greiða rúman helming alls útflutningsgjaldsins, eða kr. 4.403.850.00. Olíueyðsla bátsins hefði hins vegar verið á árinu alls 95.695 lítrar. Eigin olíukaup
útgerðarinnar hefðu hins vegar verið umgetinn lítrafjöldi sinnum 5.80 kr., sem væri alls kr. 555.031.00.
Samtals hefði útgerðin því þurft að greiða á árinu
kr. 4.958.881.00 til olíukaupa. Ef olíunotkuninni væri síðan deilt í þessa tölu, kæmi í ljós að raunverulegt olíuverð pr. lítir væri kr. 51.82.
—
Hefði olíusjóðurinn ekki verið til og útgerðin greitt fyrir olíuna það sem hún kostar í raun eða kr. 20.20 pr. lítra liti dæmið þannig út að olía
bátsins hefði kostað kr. 1.933.039.00.
Þannig hefði útgerðin og áhöfnin um leið tapað alls kr. 3.025.84200 í sjóðinn.
En hver er svo útkoman úr heildardæminu,
sagði Hilmar. Tryggingasjóður fiskiskipa, eftirstöðvar, þegar iðgjöld eru greidd, nema alls kr. 303.225.00, beint framlag til Fiskveiðasjóðs Íslands er 671.500 krónur, hreint framlag til Aflatryggingasjóðs
er 646.000 þús. kr.
Í áhafnadeild Aflatryggingasjóðs, þ.e. eftirstöðvar þegar fæðisframlag er greitt, 209.500 krónur, og í Olíusjóð fiskiskipa, þ.e.
mismunur á framlagi bátsins og fullu olíuverði, 3.025.842.00 kr.
— Við höfum tapað 4.856.067 krónum á sjóðakerfinu á þessu ári," sagði Hilmar að lokum
— Svo vikið sé aftur að sjómennskunni. Hvað er framundan?
— Ja, eins og ég gat um áðan, þá erum við að reyna að selja bátinn. Það þýðir þó ekki að ég sé hættur til sjós. Ég vil þó aðeins draga i land núna, draga saman seglin. Ég mun þó halda eitthvað áfram að róa á vertíðum, það er stór hluti af mér sjálfum, en hvort það verður á eigin skipum, eða annarra, verður framtíðin að skera úr, sagði Hilmar Rósmundsson, skipstjóri og aflakóngur að lokum.
— JG