Hilmar Steinólfsson bifreiðastjóri

Mbl.is 14. janúar 2008 | Minningargreinar 

Hilmar Steinólfsson fæddist á Bergþórshvoli í Fáskrúðsfirði 17. júlí 1925. Hann lést á Droplaugarstöðum að morgni 7. janúar síðastliðins.

Foreldrar hans voru Sigurborg Jónsdóttir, f. 28. janúar 1899, d. 9. nóvember 1976, og Steinólfur Benediktsson, f. 1. ágúst 1892, d. 8. júlí 1972.

Hálfsystir Hilmars samfeðra er
Þorbjörg Steinólfsdóttir, f. 12. maí 1934, gift Val Ragnarssyni. Þau eiga fjögur börn.

Hilmar fluttist með móður sinni til Siglufjarðar sjö ára gamall, og gekk þar í skóla. Hann stundaði vörubílaakstur og sjómennsku framan af.

Kona Hilmars er Hulda Steinsdóttir, f. í Fljótum í Skagafirði 4. febrúar 1927. Hún er dóttir Elínbjargar Hjálmarsdóttur, f. 24. október 1888, d. 29. september 1964, og Steins Jónssonar, f. 12. maí 1898, d. 6. mars 1982.

Uppeldisforeldrar Huldu voru Sigríður Pálsdóttir og Gunnar Ásgrímsson.

Börn Hilmars og Huldu eru:

Hilmar Steinólfsson - Ljósmynd Kristfinnur

Hilmar Steinólfsson - Ljósmynd Kristfinnur

1) Sigurður Gunnar Hilmarsdóttir
, f. 8. maí 1951, kvæntur J
r, f. 16. ágúst 1952. Synir þeirra eru
ónínu Sigurborgu Gunnarsdóttu
 • Þórður Már, f. 1977,
 • Grétar Ingi, f. 1977,
 • Gunnar Rafn, f. 1983, og
 • Hilmar Smári, f. 1987.
  Sigurður eignaðist
 • Huldu Hrönn Sigurðardóttur, f. 7. ágúst 1972, með Elsu Kristjánsdóttur.

2) Sigurborg Jóna Hilmardóttir,
f. 22. júlí 1955, hún á synina
 • Hilmar, f. 1975, og
 • Árna Þór, f. 1987.

3) Elínborg Hilmarsdóttir,
f. 30. janúar 1958, gift Magnúsi Péturssyni, f. 20. febrúar 1956. Börn þeirra eru
 • Valur Yngvi, f. 1977,
 • Sigríður Selma, f. 1981,
 • Brynjar Helgi, f. 1987, og
 • Arnar Bjarki, f. 1994.

4) Iðunn Ása Hilmarsdóttir,
f. 22. maí 1961. Börn hennar eru
 • Ásta Huld, f. 1981,
 • Hjördís Gígja, f. 1986, og
 • Hreinn Orri, f. 1989.

  Langafabörnin eru 12.

Hilmar Steinólfsson og Hulda Steinsdóttir stofnuðu eigið fyrirtæki á Siglufirði 1957, Vöruflutninga Hilmars Steinólfssonar hf., og ráku það í yfir 25 ár. Hilmar var alla tíð mikill Siglfirðingur. Þau hjónin fluttu til Reykjavíkur 1983 og vann Hilmar hjá ÁTVR í mörg ár. Þau Hulda bjuggu í Álandi í Fossvogi lengst af.

Útför Hilmars fer fram frá Grafarvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveðjum við Hilmar tengdapabba minn með sorg og söknuð í huga og langar mig að minnast hans með nokkrum minningarbrotum.

Betri tengdapabba var varla hægt að hugsa sér því hann vildi allt fyrir mig gera sem ég lét mér detta í hug að fara fram á enda góður maður þar á ferð eins og allir vita sem til hans þekktu. Hilmar var mikill vinnuþjarkur og fannst ekki mikið mál að leggja nótt við dag við vinnu. Bóngóður var hann með afbrigðum eins og svo margir Siglfirðingar sem hann þekktu muna þegar þeir voru að biðja hann að skreppa eftir ýmsum smáum sem stórum varahlutum út um borg og bý á milli ferða en Hilmar rak vöruflutningafyrirtækið Hilmar Steinólfsson ehf. sem keyrði á milli Siglufjarðar og Reykjavíkur og Siglufjarðar og Akureyrar í mörg ár.

Alltaf gaf Hilmar sér tíma með sínum löngu vinnudögum til að sinna smáum sem stórum bónum fyrir mig og afadrengina sína, enda var Hilmar afburða barngóður maður. Ekki skorti mig heldur barnfóstru meðan ég var að ala synina upp þar sem Hilmars naut við. Eitt símtal og ekkert vandamál, barnfóstrumálin voru leyst hvort sem var í stuttan eða langan tíma.

Voru nokkrar ferðirnar sem skroppið var erlendis og tengdapabbi tók þá heimilið á meðan og fannst ekki stórmál þótt drengirnir væru orðnir fjórir og gæludýrin þeirra jafnvel fleiri. Stundum slógust hann og tengdamamma með í ferðir með fjölskyldunni til sólarlanda og var þá mikið fjör í þeim ferðum. Leitaðir voru uppi sem flestir leikja- og dýragarðar og ekki lét Hilmar sig vanta á kvöldvökurnar og í dansinn með börnunum, því sérstaka ánægju hafði Hilmar af dansi enda góður dansherra þar á ferð.

Langar mig sérstaklega að minnast ferðar sem farin var austur á land í tilefni fertugsafmælis míns. Leigður var bústaður á Silungalæk og var margt gert sér til gamans, þar á meðal fórum við saman á árabát út á Lagarfljót. Ennfremur var keyrt um æskustöðvar hans á Austurlandi og fannst okkur það öllum mjög skemmtilegt.

Hilmar var alla tíð mjög heilsuhraustur maður en heilsunni hrakaði hratt á árinu 2002 og var hann vistaður á Droplaugarstöðum árið 2003 þar sem hann síðan andaðist hinn 7. janúar sl.

Um leið og ég þakka Hilmari fyrir allar samverustundirnar sendi ég nánustu ættingjum innilegar samúðarkveðjur með þessum línum.

 • Ég sendi þér kæra kveðju,
 • nú komin er lífsins nótt.
 • Þig umvefji blessun og bænir,
 • ég bið að þú sofir rótt.

 • Þó svíði sorg mitt hjarta
 • þá sælt er að vita af því
 • þú laus ert úr veikinda viðjum,
 • þín veröld er björt á ný.

 • Ég þakka þau ár sem ég átti
 • þá auðnu að hafa þig hér.
 • Og það er svo margs að minnast,
 • svo margt sem um hug minn fer.

 • Þó þú sért horfinn úr heimi,
 • ég hitti þig ekki um hríð.
 • Þín minning er ljós sem lifir
 • og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Þín tengdadóttir, Ninna.
----------------------------------------------

Elsku afi. Hinn 6. janúar hitti ég þig í seinasta skipti. Það er sárt að vita að ég muni ekki njóta nærveru þinnar á næstunni. Það er svo margs að minnast, öll þessi lífsgleði, öll þessi leikgleði. Gleðin sem ég fann þegar ég fékk að gista hjá ykkur ömmu í Álandinu, elsku afi og ég vil þakka fyrir það. Það voru ómetanlegir tímar sem ég gleymi seint. Mamma var oft orðin svoldið þreytt á hávaðanum í okkur, þegar þú varst að henda okkur upp í loftið og grípa, kitla okkur sundur og saman eða með öðrum orðum að gera okkur hringspólandi vitlausa! Mikið gátum við bræðurnir skemmt okkur með þér, afi.

Ég hef hugsað mikið til þín upp á síðkastið og mundi þá eftir einum degi í lífi 13 ára drengs á Mallorca. Ég, Doddi bróðir og þú afi erum staddir í stórum vatnsleikjagarði og ég og Doddi höfum rekið augun í stærstu rennibraut sem við höfum nokkurn tíma séð og erum í óðaönn að sannfæra þig um að koma með okkur í hana (urðum að vera í fylgd með fullorðnum).

Þannig að þú sannfærðist loks og kemur með okkur, en þá kemur babb í bátinn, sundlaugarverðinum líst ekki á blikuna að hleypa þér þetta gömlum og okkur þetta ungum niður brautina, við létum það nú ekki stoppa okkur frekar en annað, því á meðan ég reyni að tala um fyrir sundlaugarverðinum skellir þú þér bara niður brautina án þess að spyrja kóng né prest og ég segi við gapandi vörðinn: „Þetta er allt í lagi, hann afi verður alltaf 17 ára!“

Já, það eru margar minningar tengdar þér, afi minn, og ég vil þakka þér fyrir þær allar og allt sem þú hefur gefið mér og kennt. Það er skrýtið hvað maður getur skrifað og hugsað þegar fólk er á lífi en þegar það fellur frá verða orðin svo innantóm, svo lítil í samanburði við heila lífstíð af minningum, ást, vináttu og sorg. Líf þitt var viðburðaríkt og minnisvert, eflaust efni í heila bók.

Það munu eflaust margir minnast þín sem þess vinnusama og eitilharða bílstjóra sem ég hef heyrt svo margar sögur af og vekur ennþá aðdáun hjá þeim sem þekkja til. Það er eitt sem mig hefur lengi langað að segja þér þó svo að ég viti að þú hafir vitað það. Fyrirgefðu, ég elska þig. (Þú veist hvað ég á við.)

Grétar.
-------------------------------------------------

Elsku pabbi minn.

Þó að við vitum alltaf að á einhverri stundu komi að leiðarlokum erum við alltaf jafn óviðbúin því og eigum erfitt með að trúa að einhver svo nákominn okkur sé horfinn á braut. Eftir lifa góðar og kærar minningar sem gott er að líta til.

Í minningunni um þig sit ég í flutningabílnum með þér á leið til Akureyrar. Fyrir litla stelpu voru svona ferðir ógleymanleg ævintýri. Á Akureyri var mjólkin fyrst sótt í KEA, þaðan farið í Kaffibrennsluna svo í Akra, til Valda Bald., Valgarðs Stefáns og síðast stoppað í Bögglageymslunni. Leiddumst við hönd í hönd eftir götunni að Kaffiteríu KEA í hádegismat áður en farið var heim til Siglufjarðar aftur.

Á þessum tíma var ekki auðvelt að keyra flutningabíl milli Akureyrar og Siglufjarðar. Mánaskriðurnar, Lágheiðin og Ólafsfjarðarmúlinn, allt voru þetta vissar hindranir en alltaf fórst þú þessa leið í hvaða veðri sem var, þó oft hafi dansinn orðið erfiður komst þú alltaf á leiðarenda.

Í minningunni var upphaf jólanna alltaf það að þú komst með kassa af mandarínum og fleiri ávöxtum frá Reykjavík í byrjun desember. Viku síðar komstu með annan kassa af mandarínum því þú vissir eins og var að ég væri búin með þann fyrri!

Elsku pabbi, ég á eiginlega engin orð yfir þakklæti mitt fyrir allan stuðninginn sem þú veittir mér þegar ég var ein með þrjú lítil börn. Alltaf varst þú boðinn og búinn að hjálpa til, s.s. að sækja krakkana í skóla og leikskóla svo ég gæti unnið lengur. Ég er þakklát fyrir að hafa verið hjá þér þínar síðustu stundir, þú hélst í hönd mína eins og þú hefur gert í gegnum mitt líf.

 • Vertu alltaf hress í huga
 • hvað sem kann að mæta þér.
 • Lát ei sorg né böl þig buga.
 • Baggi margra þungur er.

 • Treystu því, að þér á herðar
 • þyngri byrði' ei varpað er
 • en þú hefir afl að bera.
 • Orka blundar næg í þér.

 • Grafðu jafnan sárar sorgir
 • sálar þinnar djúpi í.
 • Þótt þér bregðist besta vonin,
 • brátt mun lifna önnur ný.

 • Reyndu svo að henni' að hlynna
 • hún þó svífi djarft og hátt.
 • Segðu aldrei: „Vonlaus vinna“!
 • Von um sigur ljær þér mátt.

(Erla skáldkona.)

Hvíl í friði, elsku bestu pabbi minn.

Þín Ása.
----------------------------------------------------------

Elsku afi, ég held að það hafi ekki verið nein tilviljun að ég var staddur á Öxnadalsheiðinni þegar mamma hringdi og sagði mér að þú hefðir kvatt okkur í síðasta sinn.

Þó svo að ég hafi vitað að þú varst orðinn mjög veikur og að við þessu mátti búast, þá var sársaukinn og söknuðurinn óbærilegur.

Minningar um okkur tvo og flutningabíla eru ófáar. Þess er skemmst að minnast, þegar ég var kominn með þessa bíladellu mjög ungur að árum, þegar ég fór ekki með þér í mat því að ég var svo hræddur um að fá ekki að koma með í útkeyrsluna aftur eftir matinn. En svo þegar ég fór sjálfur að keyra á milli landshluta þá hringdir þú á hverju einasta kvöldi og sagðir mér fréttir af veðri og færð og kenndir mér hvernig þetta virkaði allt saman.

Nú í seinni tíð, eftir að þú fluttist á Droplaugarstaði, höfum við látið nægja að fá okkur kaffi úr glasi og segja sögur.

Elsku afi, ég vil þakka þér fyrir allt og segja þér að ég verð duglegur að heimsækja ömmu og hjálpa henni. Þegar þú kemur þarna upp, viltu þá klappa afa Leifi á öxlina fyrir mig og hafið það gott! Guð blessi þig, elsku afi minn, og mundu að þú getur setið í hjá mér hvenær sem er.

Þinn Hilmar Tómason.
--------------------------------------

Elsku afi minn, núna ertu farinn, þó að maður hafi vitað að þetta mundi gerast þá er þetta alltaf erfitt.

Maður man alltaf eftir því hvað þú stjanaðir við okkur krakkana, ef eitthvað vantaði þá raukst þú alltaf til og reddaðir öllu fyrir alla, allt frá því að kaupa mjólk og upp í heilu búslóðarflutningana. Ég man líka að þú varst alltaf að leika við okkur krakkana. Ég man sérstaklega hvernig við hömuðumst í þér þegar þú varst að vaska upp. Við krakkarnir gáfumst aldrei upp og heldur ekki þú en skapið í ömmu var auðvitað löngu farið en þér var alveg sama, hugsaðir alltaf um okkur krakkana og vildir skemmta okkur og láta okkur líða vel.

Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín og ömmu, ég fékk alltaf að vaka fram eftir, horfa á þig afi leggja kapal, spila við mig og borða appelsínur með sykurmolum í, þú kenndir mér það og geri ég það enn í dag og hugsa til þín.

Elsku afi minn, takk fyrir allar minningarnar og allt sem þú gerðir fyrir mig, þín verður sárt saknað.

Þinn Árni Þór.
-----------------------------------------------------

Elsku afi, Með þessum orðum langar okkur að þakka þér fyrir allar þær stundir sem við áttum saman.

Afi var mikill barnavinur, hann var glettinn, jafnvel stríðinn, börn hændust að honum. En það sem við höfðum fram yfir önnur börn var „hann var afi okkar“. Við barnabörnin áttum hug hans allan. Með afa fannst okkur við vera ein í heiminum.

Ófáar stundirnar sat hann með okkur við eldhúsborðið í Álandinu, þá var spilað olsen olsen eða veiðimaður, oftast leyfði hann okkur að vinna þessi spil. Þar sást best hversu mikla væntumþykju og þolinmæði hann hafði við okkur.

Takk fyrir allt, elsku afi, þín verður sárt saknað.

Elsku amma, megi góður Guð gefa þér styrk til að takast á við brotthvarf afa. Minning hans lifir í huga okkar allra.

 • Kallið er komið,
 • komin er nú stundin,
 • vinaskilnaðar viðkvæm stund.
 • Vinirnir kveðja
 • vininn sinn látna,
 • er sefur hér hinn síðsta blund.

(Vald. Briem.)

Ásta Huld, Hjördís Gígja og Hreinn Orri.
----------------------------------------------------------------

 • Yfir fjöll og breiða byggð
 • bíllinn hraðann eykur.
 • Burtu víkur böl og hryggð.
 • Bros á vörum leikur.

(Benedikt Valdimarsson.)

Afi var skemmtilegur karl. Sköllóttur og léttur í lund. Hláturmildur með kónganef. Með sígarettupakka í brjóstvasanum og húfupottlok. Lengst af starfsferlinum keyrði afi flutningabíla milli Siglufjarðar og Reykjavíkur. Það var eftirsótt að fá að vera með afa í flutningabílnum. Á leiðinni, sem gat nú oft tekið langan tíma, benti hann á sögustaði og sagði sögur. Sumar rifjast enn upp fyrr mér þegar ekið er norður.

Afi var vinsæll hjá öllum krökkum því hann gantaðist og gaf sér tíma til að hlusta á krakka og leika við þá. Hann leyfði líka yfirleitt allt, það þurfti ekki einu sinni að suða. Hjálpsemi og velvild einkenndu afa í því sem hann tók sér fyrir hendur.

Blessuð sé minning afa Hilla.

Hulda Hrönn Sigurðardóttir.
---------------------------------------------------

Nú þegar tími er kominn til að kveðja hann afa minn, sem mér fannst einstakt góðmenni og dugnaðarforkur, sækja að mér margar ljúfar minningar. Hann afi minn var alltaf mjög góður við okkur og mér er margt minnisstætt sem hægt væri að rita niður. Það var alltaf gaman að heimsækja ömmu og afa í Álandið. Um helgar fengum við stundum að fara með afa á haugana að henda rusli og oftar en ekki lá við að við kæmum með meira til baka en við fórum með. Ömmu ekki til mikillar hrifningar, því þetta fór allt í skúrinn, þar sem bíllinn hennar átti að standa.

Afi er sá sem kenndi mér að keyra. Man eftir mér á svona á áttunda ári þar sem farið var innst inn í Siglufjörð og svo fékk maður að taka í. Það besta við það var að einhver smávægileg mistök við stýrið eða það að mæta laganna vörðum skipti afa nú ekki miklu máli, hann var ætíð jafnrólegur.

Það var alltaf hægt að hringja í afa, sama hvað mann vantaði, á þeim árum sem ég var að alast upp. Afi átti Lödu sportara sem hann ferðaðist á, þess vegna norður í land, og fleiri en eina. Afi var sko alltaf til í að skutla manni og oft hjólaði ég úr Árbænum niður í Áland og fékk svo far heim. Enda miklu betra að fara á Lödunni upp í móti.

Svo var það á afmælinu mínu þegar ég beið eftir að fá meiraprófið, það var svo mikið að gera hjá Siglufjarðarleiðinni og bíllinn sem ég átti að keyra beið eftir mér. Þá spurði ég afa hvort hann gæti bjargað mér og það var nú ekki málið. Hann vildi allt fyrir alla gera og það var nú ekki vandamál fyrir hann þar sem bæði vegir og bílar voru mun betri en hér áður. En afi var farinn að eldast og úff hvað ég var hræddur stundum á leiðinni. En hann var með húfuna sína og góða skapið og kom okkur alltaf á leiðarenda.

Ég gæti hugsanlega skrifað endalaust um góða tíma og hjartfólgnar minningar. En nú kveð ég hann afa minn. Þó ég grafi djúpt man ég ekki eftir neinu nema góðu í hans fari. Ég veit að hann fær góðar viðtökur þar sem hann er núna því hann á það svo skilið.

Bless, afi minn, og takk fyrir allar góðu stundirnar.

Þórður Már Sigurðsson.
------------------------------------------------------

Það var einfaldlega enginn gæddur slíkum lífskrafti og fjöri sem Hilli frændi. Móðir okkar og hann voru systkinabörn frá Siglufirði og þegar hann hóf vöruflutninga suður, fyrst á sumrin yfir Siglufjarðarskarð og síðan allt árið með tilkomu Strákaganga, gisti hann hjá okkur meðan verið var að losa og lesta eins og hann kallaði það.

Okkur bræðrum varð oft starsýnt á Hilla við morgunverðarborðið: hann sötraði kaffið af undirskál í gegnum sykurmola skorðaðan milli framtannanna, reykti Camel með sixpensarann á hárlausu höfðinu og talaði ósjaldan á innsoginu. Hann gat endalaust gert að gamni sínu við okkur, fleygt okkur hátt í loft upp og gripið aftur í loftinu, tekið okkur endalaust í bóndabeygju og kleinu svo okkur lá við að sundla – fullorðnum þótti nóg um en við dýrkuðum hamaganginn í Hilla, fannst ekkert skemmtilegra en að vera í návist hans, hvort heldur á vetrum heima í Kópavogi eða á Siglufirði á sumrin.

Þegar voraði biðum við þess að fara með Hilla frænda norður á Siglufjörð til ömmu, sitja við hlið hans í stýrishúsinu, heyra hann segja „Gufunesradíó, skipti“ í talstöðina, hlusta á óskalögin í útvarpinu, stoppa í Staðarskála og fá franskar með tómatsósu, finna átökin þegar hann tvíkúplaði í Mánárskriðum, silast upp brekkuna á hraða snigilsins og finna bílinn stritast á móti svo hann steyptist ekki ofan skriðurnar á leiðinni niður aftur, renna loks í hlað í lognkyrri sumarnóttinni; þannig hófst ævintýri sumarsins fyrir norðan.

Svo tók við margra daga gleðitíð við útkeyrslu með Huldu á rauða Willis-jeppanum, að flokka vörurnar í Rauðu myllunni, henda inn appelsín- og maltkössum í búðina hjá Nönnu Franklíns, auðvitað með húfurnar frá henni á höfðinu. Nönnuhúfur: bestar í heimi.

Örlögin höguðu því þannig til að Hilmar ólst upp hjá einstæðri móður sinni í húsi afa og ömmu á Hvanneyrarbraut fram að fermingu en þá fluttust þau mæðgin í eigið húsnæði. Og þegar Hilmar og Hulda hófu sinn búskap fann Bogga sér stað í eldhúsinu hjá þeim og galdraði fram hvern veisluréttinn á fætur öðrum. Þegar aldur færðist yfir fluttust Hilmar og Hulda í Fossvoginn. Þá var gott að eiga þau að. Ef meta þurfti bíl til kaups var Hilli kominn eins og hendi væri veifað. Eða þegar búslóðaflutningar stóðu fyrir dyrum. Þá var sá gamli í essinu sínu. Alltaf boðinn og búinn til að aðstoða, jafnt á nóttu sem degi. Áhuginn og lífsorkan virtust takmarkalaus.

Sagan segir að þegar Hilli velti bílnum eitt sinn í fljúgandi hálku í Mánárskriðum hafi hann fyrst gefið sér góðan tíma til þess að leita að sixpensaranum áður en hann forðaði sér út. Nú þegar lagt er í hinstu för gefst ekki tími til þess að gá að því ágæta höfuðfati. Frændi verður að mæta skapara sínum berhöfðaður, hvort sem honum líkar betur eða verr. Mér kæmi samt ekki á óvart að hann gæfi sér tíma til að opna fyrir talstöðina á leiðinni og tæki veður og færð. Og kannski hann fái sér sopa í Fornahvammi. Þar mun víst enn heitt á könnunni.

Gunnsteinn Ólafsson.
-------------------------------------------------------

Mér þótti nokkuð súrt í broti að eiga engan afa í barnæsku en báðir afar mínir voru látnir þegar ég fæddist. Á móti kom hins vegar að það var ekki lítil upphefð að eiga frænda sem keyrði flutningabíl milli Siglufjarðar og Reykjavíkur, frænda sem þar að auki var öðrum mönnum skemmtilegri. Þannig varð Hilli frændi mér eins konar afi.

Þegar amma giftist Gunnsteini afa fylgdu með í pakkanum Bogga systir hans, Hilli sonur hennar og Jón faðir þeirra. Saman bjuggu þau fyrst um sinn öll á Hvanneyrarbraut 19 á Siglufirði. Seinna átti Hilli sér svo athvarf í forstofuherberginu á æskuheimili mínu þegar hann var í ferðum syðra.

Það var mikið ævintýri að fara á vorin með Hilla á flutningabílnum norður til ömmu og fá að taka þátt í því að keyra út vörur með honum – ekki síst gos – í allar þær fjölmörgu verslanir og sjoppur sem þá voru á Siglufirði; Verzlunarfélagið, Verzlun Gests Fanndal, Kaupfélagið, Nönnubúð, Söluturninn og hvað þær hétu nú allar. En þótt maður hefði ekki orð á því, þá var óneitanlega þægilegra fyrir mjóa handleggi að eiga við kassana með tómu glerjunum.

Hafi þetta stúss okkar með Hilla verið á skjön við tilskipanir Evrópusambands nútímans varðandi vinnu barna þá er ég smeykur um að Lýðheilsustöð hefði gert athugasemdir við ferðir okkar bræðra með honum á milli Kópavogs og Siglufjarðar. Malt, Appelsín, Spur, Sinalco, Miranda, Seven-Up og kók eins og maður gat í sig látið, blandað fagurbláum reyk úr filterslausum Camel og hæfilegum skammti af fíflaskap.

Í Staðarskála brast síðan á með enn frekari veisluhöldum; Hilli sveiflaði sér inn í eldhús og kom til baka með hrokaða diska af frönskum handa ungviðinu – og gos – uns maður stóð á blístri. Og alltaf mátti vona að það yrði stoppað líka í Haganesvík, Hofsósi, Varmahlíð eða í Hvalfirði. Þessar ferðir eru í minningunni ein samfelld hátíð.

Síðar kynntist maður öðrum hliðum Hilla og bar þar greiðviknina hæst. Hann var ævinlega boðinn og búinn að rétta fram hjálparhönd. Mér er mjög minnisstætt þegar við Ragnheiður fluttum fyrir rúmum áratug og höfðum fengið stóran sendiferðabíl að láni. Kjarkur heimilisföðurins brast þegar kom að því að aka bifreiðinni og var þá hóað í frænda. Hann birtist á stundinni og mætti með hæfilegri einföldun segja að hann hafi tekið búslóðina í fangið einn og sjálfur og flutt milli Reykjavíkur og Kópavogs.

Því miður get ég ekki fylgt Hilla síðasta spölinn en við Ragnheiður sendum Huldu, börnum þeirra, barnabörnum og barnabarnabörnum okkar innilegustu samúðarkveðjur héðan frá Brussel.

Pétur Már Ólafsson.
-------------------------------------- 
 

Hilmar Steinólfsson fæddist á Bergþórshvoli í Fáskrúðsfirði 17. júlí 1925. Hann lést á Droplaugarstöðum að morgni 7. janúar síðastliðins og fór útför hans frá Grafarvogskirkju 14. janúar.

Jæja elsku afi, það er víst kominn tími til að kveðja. Þú varst yndislegur maður og ég á eftir að sakna þín mikið. Ég á ótrúlega margar góðar minningar af okkur saman og mér finnst ég einstaklega heppin að hafa átt svona frábæran afa.

Það var oft mikið stuð í fjölskylduboðum þegar við krakkarnir vorum yngri og þar varst þú alltaf aðalmaðurinn. Eitt kvöld í sveitinni er mér sérstaklega minnisstætt. Þar varst þú að sýna okkur systkinunum vasagaldur. Við sátum allt kvöldið og hreinlega gátum ekki skilið hvernig þú fórst að þessu. Galdurinn gekk alltaf upp og það kvöld sannfærðist ég um að þú værir í raun og veru töframaður. Ég komst reyndar að því síðar hvernig þú fórst að þessu en ég dáist enn að því hvernig þér tókst að plata okkur upp úr skónum.

Afi var sjaldan einn, með honum í för voru yfirleitt húfan hans góða og vindillinn. Ég man hvað mér þótti fyndið þegar hann var eitt sinn að reyna að fela vindilinn fyrir ömmu. Í stað þess að henda vindlinum frá sér stakk afi honum beint í vasann svo reykurinn steig upp úr vasanum.

Þegar ég var yngri fékk ég oft að koma suður á sumrin og vera hjá ömmu og afa í Álandinu. Þegar ég flutti svo suður fékk ég að vera hjá þeim á meðan ég var að finna mér íbúð og koma mér fyrir. Allan þann tíma sem ég var hjá þeim stjanaði afi við mig og gerði allt sem í hans valdi stóð til að mér liði sem allra best. Það mætti í raun segja að hann hefði stjanað við mig dag og nótt. Þegar ég keypti mér bíldruslu var hann alltaf til í að koma og hjálpa mér þar sem ég var annaðhvort bensínlaus eða með sprungið dekk.

Bíllinn átti það til að eyða meiri smurolíu en bensíni og þótti mér afi vera aðeins of duglegur að tékka á bílnum og sagði við hann að ég yrði nú bara að fara að hugsa um þetta sjálf. Hann tók það gott og gilt en eina nóttina heyrði ég að einhver fór út og þegar ég leit út um gluggann stóð afi yfir bílnum að tékka á olíunni. Þetta er alveg lýsandi dæmi um hversu hjálpfús hann var og hversu vel hann hugsaði um alla í kringum sig.

Elsku afi, þegar ég hitti þig um jólin kvaddir þú mig svo fallega og því vil ég kveðja þig með sömu orðum – Við sjáumst í næturlaginu.

Selma
-------------------------------------------------------

Margs er að minnast og margt að þakka.

Hann pabbi minn kvaddi þennan heim að morgni 7. janúar sl.

Það er alltaf högg þegar einhver manni nákominn fellur frá, ég vissi svo sem að hverju dró en eins og svo oft áður þá hélt maður að jafn sterkur maður og hann var myndi rífa sig upp úr þessum veikindum.

En pabbi minn, það er svo ótalmargs að minnast sem mér finnst ég þurfa að þakka fyrir.

Þegar ég hugsa til baka dettur mér fyrst í hug ein af okkar mörgu Akureyrarferðum. Ég var sex ára. Við lögðum af stað upp úr klukkan fimm að morgni. Fyrirfram varst þú búinn að búa um mig á gólfinu í bílnum með teppi og kodda en ég var of spennt til að leggjast til svefns því ég þurfti að fylgjast með bílunum sem við mættum og heilsa þeim að bílstjórasið! Svo liðu árin og ég var enn að þvælast með þér þegar ég var tólf ára.

Á þeim tíma átti ég hvert bein í Valda Bald, Valgarði Stefáns, hjá þeim í Lindu og Akra smjöri. Þeir leystu mig allir út með einhverju nammi. Eitt atvik man ég sem gerðist hjá Valda Bald. Þá var flutningabíllinn ekki rétt staðsettur og þú sagðir mér að bakka honum svolítið. Ég ætla ekki að lýsa upplitinu á starfsmönnunum þegar ég stökk upp í bílstjórasætið og bakkaði bílnum eins og þú vildir.

Og enn leið tíminn og þegar Jóna systir eignaðist dreng á 50 ára afmælinu þínu og skírði hann í höfuðið á þér pabbi hafðir þú eignast „nafna“. Hilmar átti eftir það alltaf vissan stað í hjarta þínu. Hilmar hefur líka staðið vel undir nafninu og fannst þú alltaf vera aðalkarlinn. Alltaf gladdist þú yfir hverju barnabarninu sem fæddist.

Valur minn fæddist 1977 og bjuggum við fyrstu mánuðina heima á Suðurgötunni. Þér þótti nú ekki leiðinlegt að koma heim og geta kitlað strákinn! Haustið 1981 þurfti ég að fara í aðgerð til Reykjavíkur og amma Sigga tók að sér að passa Selmu, þá nokkurra mánaða, meðan ég var að jafna mig. Amma Sigga sagði mér seinna að hún hefði verið í mesta basli með þig pabbi því þegar þú komst í hádegismat þá ólmaðist þú svo mikið í stelpunni að amma var rétt búin að róa hana niður þegar þú komst í kaffi. Amma talaði um, að þú héldir að það væri einhver takki á börnum sem kveikt væri á og síðan slökkt. En þetta varst þú, þú gerðir þetta við öll börn sem þú náðir í.

Eftir að þið mamma fluttuð suður fórst þú að vinna hjá ÁTVR í útkeyrslu. Þú kunnir alltaf vel við þig hjá því fyrirtæki og eignaðist marga góða vini. Þú hafðir líka hlutverki að gegna hjá fjölskyldunni, alltaf varstu tilbúinn þegar einhvern vantaði hjálp. Vinnan hjá ÁTVR var milli átta og fjögur en það var ekki sá vinnutími sem þú varst vanur, dagurinn var rétt byrjaður þegar þú varst kominn heim aftur! Þú varst jafnvel að bjóða fólki að taka til í bílskúrnum hjá því eftir vinnu. Ekki má gleyma að minnast á dansinn, þú hafðir einstaklega gaman af því að dansa, gast hreinlega dansað alla nóttina bara ef einhver var í fangi þér.

Elsku pabbi minn, það er ótal margt sem við Maggi eigum þér að þakka, t.d. þegar við vorum að byggja íbúðarhúsið á Hrauni og þú fluttir allt efni og öll tæki til okkar endurgjaldslaust og keyrðir jafnvel yfir nóttina eins og þegar þú komst með heyhleðsluvagninn norður og renndir í hlað klukkan 8 um morguninn vegna þess að þú vildir ekki að svona splunkunýr vagn yrði fyrir grjótkasti.

Valur, Selma, Brynjar og Arnar Bjarki sakna afa síns og þakka honum fyrir alla hlýjuna sem hann veitti þeim. Við Maggi þökkum fyrir okkur.

Hvíldu í friði, elsku pabbi minn. Góður Guð styrki mömmu og systkini mín í þessari miklu sorg.

Þín dóttir, Elínborg.