Hilmar Þorkelsson bakari

mbl.is  8. janúar 2020 | Minningargreinar

Hilmar Þorkelsson fæddist á Siglufirði 13. október 1928. Hann lést á líknardeild Landspítalans 31. desember 2019.

Foreldrar hans voru Þorkell Kristinn Sigurðsson Svarfdal, f. 1881, d. 1940, og Jóhanna Guðríður Kristjánsdóttir, f. 1892, d. 1986.

Systkini Hilmars eru:

 • Elenóra Þorkelsdóttir, f. 1911, d. 1976;
 • Sigurpáll Þorkelsson, f. 1914, d. 1996;
 • Kristján, f. 1917, d. 2007;
 • Margrét Þorkelsdóttir, f. 1918, d. 2006;
 • Axel Þorkelsson, f. 1920, d. 1993;
 • Albert Hólm Þorkelsson, f. 1922, d. 2008,
 • Sigurður Þorkelsson, f. 1924, d. 2007;
 • Júlíus Þorkelsson, f. 1925, d. 2013;
 • Hansína Þorkelsdóttir, f. 1927, d. 2005,
 • Sigríður Inga Þorkelsdóttir, f. 1930;
 • Elísabet Þorkelsdóttir, f. 1932, d. 2003, og
 • Jóhanna Aðalbjörg Þorkelsdóttir , f. 1933.
Hilmar Þorkelsson - -Ljósmynd Kristfinnur

Hilmar Þorkelsson - -Ljósmynd Kristfinnur

Hilmar kvæntist hinn 26.12. 1954 Sigríði Jakobínu Guðlaugsdóttur (Sísí), f. 5. ágúst 1929, d. 31. janúar 2007.
Sísí var dóttir Sigurbjargar Jakobsdóttur frá Gvendarstöðum í Bárðardal, f. 1900, d. 1973, og Guðlaugs Sigurðssonar frá Kóngsstöðum í Skíðadal, f. 1899, d. 1936.

Börn Hilmars og Sísíar eru:

1) Guðlaugur Ævar, smiður, f. 29.8. 1948. Dætur hans með Ragnhildi Hreiðarsdóttur eru:

 • a) Rósa Björg, f. 1971, og
 • b) Sandra Dögg, f. 1977.
Sonur hans með Kristjönu Hávarðardóttur er
 • c) Brynjar Ævar, f. 1982.2) Jóhannes Ævar, múrari, f. 9.8. 1954, maki Berglind Jóhannsdóttir, f. 1958. Þau eiga tvö börn:
 • a) Hilmar Ævar, f. 1978, d. 2012, og b) Jóhönnu Kristínu, f. 1989.
3) Sverrir Ævar, húsasmíðameistari, f. 20.8. 1955. Dóttir Sverris og Sigríðar Sigurðardóttur er:
 • a) Stella Ingibjörg, f. 1975. Sverrir var kvæntur Maríu Einarsdóttur en þau skildu.
  Sonur hennar er Sæþór Helgi Jensson, f. 1975, og þau áttu saman
 • b) Kristmund Ara, f. 1980. Maki Sverris er Steinunn Sigríður Jakobsdóttir, f. 1953. Fyrir átti hún dóttur,
 • Sigríði Soffíu Sigurjónsdóttur, f. 1981.

4) Jakob Ævar, lagerstjóri, f. 16.12. 1956, maki Kristín Þorsteinsdóttir, f. 1956. Þau eiga fjögur börn:
 • a) Margréti, f. 1974,
 • b) Sigurbjörgu, f. 1977,
 • c) Hreiðar Ævar, f. 1980, og
 • d) Aron Ævar, f. 1988.

5) Hilmar Ævar, kerfisfræðingur, f. 12.2. 1958, maki Anna Heiða Pálsdóttir, f. 1956. Börn þeirra eru:
 • a) Sigríður Ásta, f. 1983, og
 • b) Hilmar Ævar, f. 1988.

6) Kristinn Ævar, f. 26.7. 1960. Kristinn á tvær dætur með Önnu Kristbjörgu Hallgrímsdóttur:
 • a) Hafdísi Ósk, f. 1982, og
 • b) Evu Björk, f. 1984. Sonur Kristins og eiginkonu hans, Suwönnu Munthong, f. 1986, er
 • c) Aron Ævar, f. 2016.
  Barnabarnabörn Hilmars eru 27.

Hilmar ólst upp á Siglufirði og byrjaði snemma að læra bakaraiðn. Hilmar og Sísí hófu búskap hjá móður hennar og þaðan fluttu þau til Akraness og síðar í Barmahlíð í Reykjavík. Hjónin voru meðal frumbyggja Kópavogs og fluttu á Víghólastíg skömmu eftir 1960 og síðan á Hraunbraut, í Holtagerði og á Álfhólsveg 37. Síðustu árin bjuggu þau í Vogatungu 75.

Hilmar vann sem bakari m.a. í Björnsbakaríi og Grensásbakaríi og hjá varnarliðinu í Keflavík. Um 1964 þegar Hilmar gat ekki lengur stundað sína iðn vegna bakmeiðsla, fékk hann vinnu hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og vann þar í um þrjátíu ár við mælaálestur og innheimtu. Meðfram vinnunni hjá RR var hann í áratugi dyravörður í Austurbæjarbíói.

Hilmar og Sísí festu kaup á sumarbústað í landi Miðfells við Þingvallavatn árið 1984. Hilmar undi sér best úti á báti á Þingvallavatni við veiðar og hann gat lesið ástand vatnsins eins og bók. Eftir andlát Sísíar fækkaði dvalarstundum Hilmars í bústaðnum sem hann seldi árið 2017.

Útför Hilmars fer fram frá Lindakirkju í dag, 8. janúar 2020, klukkan 13.

Hilmar Þorkelsson, tengdafaðir minn, kom inn í líf mitt þegar ég kynntist næstyngsta syni hans, Hilmari Ævari, árið 1981. Þá bjuggu Hilmar og Sísí eiginkona hans á Álfhólsvegi 37, í einbýlishúsi sem þeim hafði tekist með mikilli elju að eignast, þrátt fyrir að hagur þeirra hafi ekki alltaf verið vænn. Heimilið var fjölmennt og mikill gestagangur, bæði fjölskyldu og vina þeirra hjóna.

Á þeim tíma gegndi Hilmar tveimur störfum. Á daginn ók hann um á bíl fyrir Rafmagnsveitu Reykjavíkur og heimsótti fólk til þess að lesa af mælum, innheimta skuld eða loka fyrir rafmagnið. Honum fannst í lagi að gera þetta síðastnefnda hjá fyrirtækjum og vel stæðum einstaklingum en hjarta hans blæddi ef um var að ræða einstæða móður eða aldraðan, eignalausan einstakling. Þá reyndi hann að miðla málum með því að biðla til yfirmanna sinna.

Á kvöldin stóð Hilmar svo teinréttur í anddyri Austurbæjarbíós og tók á móti aðgöngumiðum. Synirnir hans sex voru þar eins og heimalningar og allir þeirra hafa á einhverju tímabili unnið þar við hlið föður síns. Vinnufélagar Hilmars í bíóinu voru eins og stór fjölskylda og þau deildu gleði sinni og sorgum.

Ekki löngu eftir að við Hilmar Ævar kynntumst keyptu Hilmar og Sísí bústað í Miðfellslandi við Þingvallavatn. Þar dvöldu þau yfir allt sumarið og oft líka á veturna, með opinn faðm fyrir barnabörnin sem fjölgaði ört. Einar bestu minningar barna minna eru frá þessum stað, úti á vatni að veiða með afa eða „vísitera“ vini í bústöðunum þar í kring. Ég get aldrei þakkað tengdaforeldrum mínum nóg fyrir ást þeirra, alúð og umhyggju fyrir börnunum okkar.

Árið 1988 réðumst við Hilmar Ævar í að byggja einbýlishús. Húsið var ekki tilbúið og við á götunni en Hilmar og Sísí buðu okkur að flytja inn í stofuna hjá þeim á Álfhólsveginum með Sísí Ástu sem var fimm ára. Þar bjuggum við þegar Hilmar Ævar yngri kom í heiminn í ágúst 1988 og dvöldum fram á gamlársdag. Þetta hálfa ár hjá þeim var yndislegt. Hilmar Þorkelsson var árrisull og kominn á fætur klukkan sex að morgni en þá var ég gjarnan að sinna litla nafna hans. Við áttum góðar umræður í morgunsárið.

Hilmar hafði mjög gaman af því að segja sögur frá æskuárum sínum á Siglufirði, þegar hann buslaði í sjónum og eða elti rottur sem komu upp úr hveitisekkjum í bakaríinu. Þá talaði hann um hernámsárin og árin sem hann var hjá varnarliðinu, með blik í augum.

Á undanförnum árum, eftir að Hilmar varð ekkill, hefur hann ferðast með okkur Hilmari Ævari á suðrænar slóðir, til Torremolinos, Torrevieja, Kanaríeyja og nú síðast til Almeríu 2018 með börnum okkar, tengdabörnum og barnabörnum, sem nú sakna „langa“. Einnig fór hann til Danmerkur með Hilmari Ævari og Hilmari Ævari syni okkar til að heimsækja Möggu systur sína sem lést ári síðar.

Við fjölskyldan kveðjum tengdaföður minn með trega en einnig þeirri góðu trú að nú dvelji hann með Sísí eiginkonu sinni og Hilmari Ævari Jóhannessyni, barnabarni sínu, á grænum grundum drottins. Hafðu þökk fyrir allt og allt, kæri tengdafaðir.

Anna Heiða Pálsdóttir.