Þórður G. Björnsson

Morgunblaðið - 17. maí 1980
Þórður Björnsson - Minningarorð Fæddur 14. júní 1911. Dáinn 7. maí 1980.

Hinn 16. 1980 var til moldar borinn góðvinur okkar, Þórður Guðni Björnsson, Aðalstræti 6, Akureyri. Hann vann lengst af ævinni við síldarverkun, fyrst á Siglufirði og síðar á Vopnafirði, en eftir að síldin brást, gerðist hann verkstjóri hjá Vatnsveitu Akureyrar. Honum var ætíð falin ábyrgðarstaða í starfi, enda með afbrigðum traustur og samviskusamur.

Hann missti aldrei sjónar á, að saman færu hagsmunir allra, verkamannsins, seljandans og kaupandans og tókst honum ætíð að sætta alla aðila. Þórður var alinn upp við kröpp kjör þeirrar kynslóðar er ól hann og átti því ekki kost á langskólagöngu, þó honum hefði vafalítið skilað vel á þeirri braut, eins og í þeim störfum sem hann tók sér fyrir hendur.

Við biðum þess alltaf með eftirvæntingu að hann gisti heimili okkar því hann var aufúsugestur. Þá var jafnan setið fram eftir síðkvöldum og rifjaðar upp gamlar endurminningar um menn og málefni, því sögu- og ljóðamaður var hann góður, enda hagmæltur vel og hafði góða kímnigáfu. Síðustu ár ævinnar gekk hann ekki heill til skógar, en þrátt fyrir langvarandi veikindi og missi konu sinnar, sem var honum allt í lífinu, kvartaði hann aldrei. Þórður var fæddur að Sigríðarstöðum í Fljótum Skagafirði hinn 14. júní 1911 og var hann yngstur 9 systkina.

Þórður Björnsson verkstjóri- Ljósmynd Kristfinnur

Þórður Björnsson verkstjóri- Ljósmynd Kristfinnur

Hann fluttist um fermingu ásamt fjölskyldu sinni til Siglufjarðar og bjó og starfaði þar um árabil.

Þar kvæntist hann 3. okt. 1934, hinni mestu sæmdarkonu, Þorbjörg Guðmundsdóttir.

Þeim varð ekki barna auðið, en hann gekkst syni Þorbjargar;
Hinrik Hinriksson húsgagnabólstrara, í föður stað og reyndist honum sem bezti faðir.

Seinna ólu þau hjón upp son Hinriks, Þórð pípulagningarmeistara á Akureyri, og var mjög kært með þeim nöfnum. Þórður stóð ekki einn í lífsbaráttunni, við hlið hans stóð ætíð hans indæla kona og voru þau sem einn maður, bæði á heimilinu og í starfi á meðan henni entist líf, en Þorbjörg andaðist fyrir nokkrum árum.

Þau voru höfðingjar heim að sækja og voru ætíð boðin og búin að veita lítilmagnanum lið og greiða veg hans ættu þau þess kost.
Var þá ekki spurt hvort kjör væru kröpp, þau vildu alltaf vera veitendur en ekki þiggjendur og voru bæði fædd með beint bak og beygðu sig ekki fyrr en sláttumaðurinn mikli tók völdin. Við þökkum kynni okkar og vináttu við þessi heiðurshjón og teljum það eitt af okkar gæfusporum að hafa átt samleið með þeim. Blessuð sé minning þeirra.

Vinir.