Hlöðver Sigurðsson skólastjóri

Þjóðviljinn - 19. maí 1982  Minning

Hlöðver Sigurðsson fyrrverandi skólastjóri Siglufirði Fæddur 29. apríl 1906 — Dáinn 13. maí 1982

  • Mínir vinir fara fjöld
  • feigðin þessa heimtar köld.

Þessi orð Bólu-Hjálmars og framhald þeirra, komu mér i hug, þegar mér barst andlátsfregn æskuvinar míns, Hlöðvers Sigurðssonar fyrrum skólastjóra á Siglufirði. Fyrir tæpum þremur vikum var hann á ferð á Hornafirði, heimsótti þar vini og kunningja, tók i hönd þeirra og miðlaði okkur, sem þekktum hann hér ungan mann hlýju handtaki og mildu brosi, sem hann var ávallt örlátur á. Kom mér þá naumast i hug, að ævisól hans væri senn að hníga til viðar.

Í fyrra sumar tók hann hér þátt i göngu austfirskra herstöðvaandstæðinga frá herstöðinni á Stokksnesi til Hafnar, líkt og ungur fullhugi, léttur og kvikur i spori. Og nú þegar hann tók i hönd mína á skilnaðarstund, spurði hann mig, hvort við myndum ekki enn á ný efna til annarrar slíkrar mótmælagöngu gegn hersetu í landi okkar. Og nú þegar þessi eldheiti friðarsinni er fallinn frá, brennur sú spurning i hugum okkar, hvort íslensk æska sé svo i stakk búin, að taka upp merkið hans og verða þar að manni.

Hlöðver Sigurðsson - Ljósmynd Kristfinnur

Hlöðver Sigurðsson - Ljósmynd Kristfinnur

Hlöðver Sigurðsson var fæddur að Reyðará i Lóni 29. apríl 1906, sonur hjónanna, Sigurðar Jónssonar og Önnu Lúðvíksdóttur, konu hans. Að Hlöðver stóðu kjarnmiklar ættir. Faðirinn Sigurður á Reyðará var kominn af greindu ágætisfólki úr hornfirskri bændastétt. Hann var búfræðingur að mennt og gerðist ráðsmaður á búi séra Jóns á Stafafelli og uppskar þau laun fyrir starf sitt á prestsetrinu að hljóta fósturdótturina að launum.

Hann var mikilhæfur athafna- og hagleiksmaður og gerðist brátt mikill félagshyggju- og forgöngumaður i félags>og framfaramálum sveitar sinnar. Anna Lúðvíksdóttir var komin af miklum gáfu- og mannkostaættum, en hún og Einar skáld Kvaran voru systkinabörn að frændsemi, en til hliðar var ætt Matthíasar skálds og Ara Arnalds sýslumanns.

Um níu ára aldur missti Anna móður sina og var þá tekin i fóstur til prestshjónanna, séra Jóns Jónssonar fræðimanns frá Melum i Hrútafirði og konu hans Margrétar Sigurðardóttur frá Hallormsstað að Bjarnanesi, en siðar að Stafafelli i Lóni. Heimili séra Jóns var mikið ágætis heimili, þar sem bækur voru mikið dýrkaðar og lesnar. Anna erfði eðliskosti ættstofns síns, sem birtust i góðum gáfum og göfugri hugsun. Þessa eðliskosti og uppeldisáhrif frá menningarheimili tókst Reyðarárhjónunum að flytja inn á heimili sitt að Reyðará og úr þeim ágæta ranni eru Reyðarárbræður komnir.

Eins og þegar er sagt, var Sigurður á Reyðará mikil félagshyggju-og framfaramaður og því sjálfkjörinn til forgöngu i félagsmálum sveitarinnar. Um þær mundir sem synir Reyðarárhjóna voru að vaxa úr grasi, voru tvær félagsmálahreyfingar, ungmennafélög og samvinnuhugsjónin að gripa hugi og hjörtu allra landsmanna og fór sú þróun ekki fram hjá Reyðarárheimilinu. Ungmennafélag var stofnað i sveitinni og með félagslegu framtaki allra félagsmanna var efnt til byggingar samkomuhúss, sem síðan varð einskonar félagsheimili hreppsbúa.

Á sunnudögum safnaðist fólkið saman til að hlýða á messugerð frjálshyggjumannsins séra Jóns i litlu sveitakirkjunni, sem enn stendur að Stafafelli. En eftir messu söfnuðust menn saman til kaffidrykkju á prestsetrinu. Þar upphófust umræður um þjóðmál, sjálfstæðisbaráttu og bókmenntir. Einnig vék Reyðarárbóndi tali sinu að félagslegu framtaki sveitunga sinna til að byggja upp bæi granna sinna eða gripahús þeirra. Og þegar til framkvæmdanna kom, var Reyðarárbóndi sjálfkjörinn til að framkvæma verkið með sinum högu höndum. 1 þessum félagshyggjuanda ólust synir Reyðarárhjóna upp.

Árið 1917 bar þá þungu sorg að ranni Reyðarárheimilisins, að heimilisfaðirinn lést og ekkjan stóð uppi með stóran barnahóp. Elsti sonurinn, Geir, tók þá við búsforráðum, en stjórnin var áfram i styrkum höndum Önnu. Úr þessum ágæta ranni var Hlöðver Sigurðsson vaxinn til þess manndóms sem ætið varð heimanfylgja hans. Um fermingaraldur fór Hlöðver i vinnumennsku að Stafafelli og dvaldist þar allt til tvítugsaldurs.

Eitt af skyldustörfum Hlöðvers á heimili Sigurðar á Stafafelli, var að lesa landsmálablöðin upphátt fyrir húsbónda sinn og ræða svo efnið við hann. Þegar Sigurður á Stafafelli átti fertugsafmæli, sem mun hafa verið veturinn 1926, efndi hann til gestaboðs á heimili sinu. A meðal gesta var einn aðkomumaður, sem þarna var á ferð. A meðal skemmtiatriða hófsins, fóru fram umræður um landsmál að hætti ungmennafélaga sveitarinnar. Gerðist það þá, að 19 ára vinnupiltur á heimilinu kvaddi sér hljóðs og hélt ýtarlega, vel rökstudda ræðu, sem eftir var tekið svo gesturinn spurði, hver þessi glæsilegi ungi maður væri, sem héldi svo eftirminnilega ræðu.

Var gestinum þá svarað því til, að þetta væri einn af sonum Önnu á Reyðará og héti Hlöðver. Veturinn áður hafði Hlöðver Verið i unglingaskóla á Djúpavogi og notið þar kennslu hjá Sigurði Thorlaciusi á Búlandsnesi, sem siðar varð skólastjóri barnaskóla i Reykjavik. Haustið 1926 hleypti Hlöðver heimdraga og settist i Kennaraskólann i Reykjavik. Naut hann þar frábærra r kennslu séra Magnúsar Helgasonar og annarra kennara þess skóla, og lauk þaðan kennaraprófi vorið 1928.

Haustið 1928 réðist Hlöðver barnakennari við farskólann i Nesjahreppi og Höfn. Þar kenndi hann uns hann réðist skólastjóri til Súðavikur og var þar veturinn 1931-1932. Þá um haustið fór hann i námsför til Danmerkur og Svíþjóðar og var þar til ársins 1933. Þegar hann kom heim úr námsför sinni, gerðist hann skólastjóri við barnaskólann á Stokkseyri og var þar næstu 10 ár, eða til ársins 1943, að hann varð skólastjóri við barnaskólann á Siglufirði.

Skólastjórastarfi þar gegndi hann í þrjátíu ár eða til ársins 1973 að hann lét þar af skólastjórastarfi, en kenndi þar enn um skeið. Þann 12. ágúst 1944 kvæntist hann mikilhæfri ágætis konu, Katrín Guðrún Pálsdóttir frá Litlu-Heiði i Mýrdal. Hún lést nú fyrir stuttu síðan. Börn þeirra voru fjögur.
En þau eru þessi:

  • Páll Hlöðversson tæknifræðingur Akureyri, kvæntur Hannveiga Valtýsdóttir,
  • Anna Matthildur Hlöðversdóttir hjúkrunarkona Reykjavik,
  • Sigurður Hlöðversson tæknifræðingur Siglufirði, kvæntur Sigurlaugu Þorsteinsdóttur og
  • Þorgerður Heiðrún Hlöðversdóttir fóstra Siglufirði.

Hlöðver Sigurðsson var landskunnur maður fyrir störf sin að skóla- og uppeldismálum og svo af afskiptum af almennum þjóðmálum. Í nokkur skipti var hann í framboði til þings fyrir Sósíalistaflokkinn. Einnig var hann vel þekktur maður fyrir erindaflutning sinn i Ríkisútvarpið. Voru frumsamin erindi hans með miklum ágætum gerð, svo að eftir var tekið, enda mjög áheyrileg og oft rökstudd tilvitnunum i ljóð Stephans G. Stephanssonar, sem hann dáði umfram önnur ljóðskáld.

Einnig voru honum mjög tiltækar tilvitnanir í ljóð Þorsteins Erlingssonar og sögur Einars Kvaran frænda síns. Hann lét sér engin mannleg vandamál óviðkomandi, en var jafnan viðsýnn og tillögugóður um sérhvert vandamál, sem að höndum bar hverju sinni. Sumarið 1967 bar fundum okkar saman á landsfundi herstöðvaandstæðinga að Bifröst i Borgarfirði. Var hann þar kjörinn fundarstjóri, en meðal ræðumanna mótsins minnist ég m.a. Jóhannesar úr Kötlum, Guðmundar Böðvarssonar, Gunnars Benediktssonar og Arnórs Sigurjónssonar.

Nú hafa allir þessir mætu menn kvatt móður jörð og flust yfir móðuna miklu, sem byrgir okkur sýn. Mjög eru mér minnisstæð þau kynni sem nánust urðu á milli mín og Hlöðvers Sigurðssonar. Hann var þá að ljúka einhverjum haustverkum á Hornafirði, og ætlaði svo að taka til starfa við barnaskólann. Ég var þarna að afla mér aura til námsdvalar I héraðsskóla i öðrum landsfjórðungi. Höfn i Hornafirði var þá eins konar vasaútgáfa af þorpi með mikla fátækt manna á meðal og húsnæðisþrengsli.

Ég var þarna svo vel á vegi staddur, að eiga aðgang að eigin rúmstæði og okkur kom saman um að samrekkja i mínu rúmi og við gengum þar til einnar sameiginlegrar rekkju. Það var ekki venja okkar Hlöðvers að leita afþreyingar með áfengi en i þess stað dró Hlöðver upp úr tösku sinni nýlega útkomna bók, sem var Alþýðubókin eftir Halldór Laxness; Og nú tók þessi rekkjunautur minn að lesa mér nokkra valda kafla úr þessari nýútkomnu bók um misskiptingu auðs og valda i veröldinni.

Þegar hann hafði lokið þeim lestri, tók hann enn upp aðra bók, sem voru Andvökur Stephans G. og nú las hann mér ljóð skáldsins, þar sem brugðið er upp lífssýn þess úr iðnaðarhverfi stórborgar, þar sem skáldið sér opnast það eymdanna djúp, þar erfiðið liggur á knjám, en iðjulaust fjársafn á féleysi elst, sem fúinn i lifandi trjám. En hugstola mannfjöldans vitund og vild er villt um og stjórnað af fám.

Þótt ég ætti að heita gestgjafinn þetta kvöld var Hlöðver veitandi á þá andlegu fæðu, sem þarna var framreidd. Hugur minn var opinn fyrir innstreymi frá viðmælanda mínum. Og til þessa kvölds og uppfræðslunnar sem Hlöðver veitti mér, hefi ég jafnan rakið uppsprettu lífsskoðana minna. Það er auður íslenskri þjóð, að hafa átt slíka dáðadrengi, sem Hlöðver Sigurðsson var, til að missa og trega og bera nafn hans í sjóði minninga sinna. Hlöðver Sigurðsson leit jafnan á lífsönn sína, sem þjónustustarf við sannleikann. Kjörorð hans var:

  • Mig langar að sá enga lygi þar finni,
  • sem lokar að síðustu bókinniminni.

Börnum Hlöðvers, vinum hans og öðrum vandamönnum votta ég og kona mín hugheila samúð okkar. Blessuð sé minning hans.
Torfi Þorsteinsson.   
------------------------------------------------------------

Í dag er til moldar borinn Hlöðver Sigurðsson fyrrverandi skólastjóri á 77. aldursári. Hlöðver var fæddur að Reyðará I Lóni AusturSkaftafellssýslu hinn 29. apríl 1906.
Örlögin höguðu því svo til að um 10 ára skeið vorum við Hlöðver sveitungar, en hann gerðist skólastjóri við barnaskólann á Stokkseyri haustið 1933 og tók hann við skólastjórn af Jarþrúði Einarsdóttur sem þá hafði gegnt því starfi i tvö ár.

Þegar Hlöðver kom til Stokkseyrar sem skólastjóri haustið 1933 er ég á 22. aldursári. Félagslíf á Stokkseyri stóð þá i miklum blóma. Hér störfuðu ungmennafélag, kvenfélag, verkalýðsfélag, slysavarnafélag. leikfélag og taflfélag.. Fólk á mínum aldri var á þessum tíma meira og minna á kafi i félagsmálavafstri. Tómstundirnar fóru að mestu i ýmiskonar störf fyrir félögin, nefndarstörf og allskonar félagsmálaþátttöku.

Þeir, sem þungi félagsmálastarfanna hvíldi á haustið 1933 horfðu með nokkurri eftirvæntingu til þess, hver hugur hins nýja skólastjóra yrði til þeirra margþættu félagslegu verkefna er unga fólkið á Stokkseyri bar fyrir brjósti. Myndi hann loka sig af innan ramma skólastarfsins, eða ættum við þarna von á liðtækum félaga til þátttöku í almennum áhugamálum æskunnar? Og við urðum ekki fyrir vonbrigðum.

Hlöðver reyndist ekki aðeins hollur stuðningsmaður félagsmála unga fólksins á Stokkseyri, heldur gekk hann mjög fljótlega sem virkur félagsmaður i félögin, t.d. Ungmennafélagið og verkalýðsfélagið en i báðum þessum félögum vann hann mikið og óeigingjarnt starf þau 10 ár er hann átti heima á Stokkseyri. Hlöðver var mjög virkur i starfi fyrir börn og unglinga utan skólans.

Á aðfangadag jóla árið 1935 stofnaði hann skátafélagið „Svanir" og voru stofnendur auk hans 7 drengir úr efstu bekkjum barnaskólans. Hlöðver var formaður eða deildarforingi þar til hann flutti frá Stokkseyri. Félagið færði fljótt út kvíarnar og voru félagar innan skamms tíma orðnir 25. Farið var i gönguferðir á vegum félagsins um nágrennið eða á nálægustu fjöll, einnig skíðaferðir og um hvitasunnuhelgina á vorin var farið i útilegur.

Ársskemmtanir hélt skátafélagið fyrir skátana og foreldra þeirra. Einnig stundum opinberar skemmtanir t.d. 11. okt. 1939, en þá sýndu félagarnir sjónleikinn „Vekjaraklukkan" og höfðu nokkrar tekjur af. Forusta og það mikla starf er þetta félag innti af hendi hvíldi að langsamlega mestu leyti á Hlöðver. Með slíku starfi beindi hann hugum og starfskröftum barnanna að hollum og heilbrigðum lífsháttum, er efldu þroska þeirra og framtíðaráform.

Hlöðver var mikill félagsmálamaður. Opinn fyrir hverri nýbreytni er gera m ætti þau félög er hann starfaði í líklegri til frekari afreka og ávinninga. Lagði hann fram I þeim efnum mikla vinnu i tómstundum sinum og hafði greinilega ánægju af hverjum þeim ávinningi æskumönnum til heilla og framfara, er þeim tókst að ná, oft við hinar erfiðustu aðstæður. Hlöðver hafði lifandi áhuga á þjóðmálum og skrifaði margar greinar um þau málefni. Komu þar fram fastmótaðar skoðanir hans.

Hann var einlægur vinstri sinni og sósíalisti og skipaði sér ótrauður i fylkingu róttækra verkalýðssinna i hverju því máli, sem verkalýðshreyfingin barðist fyrir verkafólki til bættra lífskjara. Við Hlöðver héldum við kynnum okkar þó hann færi á fjarlægar slóðir. Samfundir urðu að sjálfsögðu færri, en við hittum þó nokkrum sinnum í Reykjavik og i Keflavíkurgöngum.

Til Siglufjarðar fór ég ásamt nokkru venslafólki mínu 14 árum eftir að Hlöðver fór frá Stokkseyri. Þá heimsóttum við Hlöðver og nutum ánægjulegrar móttöku þeirra hjóna en

Hlöðver kvæntist 12. ágúst 1944, Katrínu Pálsdóttur frá Litlu-Heiði i Mýrdal og hafði ég ekki áður séð þessa geðþekku konu, er þarna tók okkur tveim höndum.

Nokkrum árum siðar hittist svo á að leiðir okkar lágu saman I vikutíma i Reykholti i Borgarfirði en þau hjónin dvöldu þar i sumarorlofi á sama tíma og ég hafði fengið þar dvalarstað. Siðast, sem ég vissi til kom Hlöðver til Stokkseyrar 22. janúar 1977. Þau hjónin dvöldu þá a heilsuhæli  Náttúrulækningafélagsins i Hveragerði., Félagasamtökin á Stokkseyri höfðu þennan dag opið hús fyrir eldra fólk og ákváðu að bjóða þeim hjónum að koma á skemmtun þessa og dvelja hér þennan dag.

Það gladdi mig mjög að Hlöðver hafði mikla ánægju af veru sinni á Stokkseyri þennan dag, þar sem hann hitti ótal kunningja og m.a. nokkra fyrrverandi nemendur sína. Stokkseyringum var einnig mikil ánægja að hitta hann, en margir sem þarna voru höfðu ekki hitt hann síðan hann flutti frá Stokkseyri 1943. Hlöðver helgaði Stokkseyri sjötta hluta starfsævi sinnar á þeim aldri, þegar hugurinn er ferskastur og lífskraftur óskertur til fangbragða við margvísleg viðfangsefni samtíðarinnar.

Hann gekk alltaf óhikandi að hverju verki, ávallt heill og sannur. Stokkseyringar kveðja því Hlöðver að leiðarlokum með virðingu og einlægri þökk fyrir það mikla starf er hann lagði fram æskufólki staðarins til aukins manndóms og þroska. I hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps var Hlöðver kjörinn 1942 og formaður Kennarafélags Arnessýslu var hann frá 1937 þar til hann flutti burt. Það er því engum vafa bundið að hefði hans dvöl orðið hér lengri hefðu hlaðist á hann margvísleg opinber störf. Ég votta aðstandendum samúð mína.
Björgvin Sigurðsson Stokkseyri
------------------------------------------------------------

Hlöðver Sigurðsson fyrrverandi skólastjóri á Siglufirði lést á Landakotsspítala í Reykjavik 13. maí sl. Útför hans fer fram i Reykjavik i dag.
Útför konu hans, Katrínar Pálsdóttur, sem dó 10. apríl sl., fór einnig fram þar, fyrir rúmum mánuði.

Hlöðver var fæddur 29. apríl 1906 að Reyðará i Lóni, Austur-Skaftafellssýslu, sonur Sigurðar Jónssonar bónda þar og konu hans, Önnu Hlöðversdóttur kennara.

Faðir hans dó 1917, en Anna hélt búskapnum áfram með sonum sinum sex, sem þá voru á aldrinum frá fjögurra til átján ára, og kom þeim öllum til þroska og nokkurra mennta. Fjórir þeirra urðu kennarar. Hlöðver ólst þó ekki að fullu upp í foreldrahúsum. Hann var i nokkur ár í Stafafelli i Lóni hjá Sigurði Jónssyni bónda þar, sem var uppeldisbróður Önnu Hlöðversdóttur, en hún ólst upp á Stafafelli hjá sr. Jóni Jónssyni frá Melum i Hrútafirði og Margréti fyrri konu hans, sem ég hygg að hafi verið eitthvað skyld Önnu.  Sigurður i Stafafelli var merkur bóndi, sveitarhöfðingi og heimilið menningarheimili.

Nítján ára gamall fór Hlöðver til eins vetrar náms i unglingaskóla, sem Sigurður Thorlacius hélt á Djúpavogi, en síðan lá leið hans i Kennaraskólann. Lauk hann kennaraprófi 1928 eftir tveggja vetra nám i skólanum. Þetta þykir eflaust stuttur námsferill nú, þegar kennarapróf útheimtir minnst 7 ára nám að loknu skyldunámi. En Íslendingar voru fátækt fólk á þessum tíma og reyndu að sniða sér stakk eftir vexti. Skólar i landinu voru fáir, litlir og fátæklega að þeim búið, en þó taldist skólanám að loknu skyldunámi til forréttinda.

Sá ytri búnaður, sem Kennaraskólinn bjó við á þessum tíma þætti óviða boðlegur nú. Samt tókst þessum skóla að útskrifa marga farsæla kennara. Skólastjóra og kennurum skólans var ljóst að á þessum stutta námstíma varð aðeins komist yfir mjög takmarkað námsefni. Þeir lögðu því ekki mesta áherslu á fræðslu um staðreyndir, sem hver maður með vilja til að afla sér slíks getur orðið sér úti um, heldur að innræta nemendum sinum vilja til góðra verka og metnað til að leysa þau vel af hendi.

Skólavist Hlöðvers, þótt hún væri ekki löng, opnaði honum sýn til margra átta, enda mun hann hafa metið Sigurð Thorlacius, sem hann var hjá i unglingaskólanum á Djúpavogi, og Magnús Helgason skólastjóra Kennaraskólans meira en flesta aðra og minntist þeirra alltaf með miklum hlýhug og virðingu. Að kennaraprófinu loknu gerðist Hlöðver kennari i Nesjahreppi i Austur-Skaftafellssýslu i þrjú ár, síðan skólastjóri i Súðavik einn vetur.

Veturinn 1932 - 1933 var hann við nám og kynnti sér skólamál i Danmörku og Svíþjóð. Haustið 1933 varð hann skólastjóri á Stokkseyri og var þar i 10 ár, en 1943 varð hann skólastjóri barnaskólans á Siglufirði og gegndi því starfi i 30 ár, eða til loka skólaárs 1973. Ein ástæðan, til þess að hann lét þá af starfi, var sú, að nýju grunnskólalögin voru þá að koma til framkvæmda. Hann fýsti ekki að standa fyrir þeim breytingum, sem þau útheimtu, í sínum skóla, og taldi raunar að breytingarn væru sumpart ótímabærar eða gengju of langt, margt af þeim hefði auðveldlega mátt framkvæma innan ramma fræðslulaganna frá 1946, en þau lög og tilgang þeirra þekkti hann mjög vel frá starfi sinu i nefnd þeirri, sem samdi þau.

Þá vissi hann af fenginni reynslu, hve algengt það er að íslenskir stjórnmálamenn gleymi að fylgja góðum og þörfum lagasetningum eftir með því að veita það fé sem þarf til að framkvæma þær með sæmilegri reisn. Hér að framan var að því vikið á þeim tíma sem  Hlöðver ólst upp og mótaðist voru Íslendingar fátæk þjóð. Líf flestra var samfelld barátta um að bjargast eða farast. Menntun var munaður og forréttindi en ekki leiðinlegt skyldustarf. Viðhorf Hlöðvers til skólamála voru að nokkru mótuð af þessu; hann varfremur íhaldssamur i skólamálum, tók öllum nýjungum með mikilli varúð og fórnaði engu, sem hann taldi hafa gefist vel fyrr en hann hafði af eigin raun sannfærst um að hið nýja væri betra.

Skóli var í hans augum vinnustaður og námið vinna. Uppáhalds kennslugrein hans var íslenska. Hygg ég, að ekki hafi margir kennarar á sama skólastigi náð betri árangri i íslenskukennslu en hann. Til þess bar margt. Hann hafði mikla ást á móðurmálinu og bar fyrir því virðingu, var ágætlega að sér i íslenskri málfræði og málssögu og hélt stöðugt áfram að auka þekkingu sina á því sviði. Siðast en ekki síst var hann mjög vel að sér i íslenskum bókmenntum, bæði fornum og nýjum.

Segja mætti með allmiklum sanni að Ísland, saga þjóðarinnar, tunga, menning og náttúra Íslands hafi verið sérgrein hans; þannig var þekking hans á íslenskri landafræði, jarðfræði og flóru talsvert umfram venjulega kennaraþekkingu. Hlöðver fylgdist alltaf með því, sem efst var á baugi á hverjum tíma í þjóðmálum og félagsmálum og tók afstöðu til þess. Hann var mjög pólitískur og lá ekki á skoðunum sinum. Hann kynntist ungur ungmennafélagshreyfingunni og starfaði allmikið fyrir hana um skeið. Einnig starfaði hann um tíma innan skátahreyfingarinnar og i bindindissamtökum mun hann hafa starfað meira og minna frá æskuárum fram á síðustu ár.

Siðast en ekki síst skal talin þátttaka hans i starfi Samtaka hernámsandstæðinga, en hann átti sæti i miðnefnd þeirra i meira en tvo áratugi, sat marga landsfundi þeirra og tók þátt i mótmælaaðgerðum gegn hersetunni þegar hann gat komið því við. Mörgum fleiri trúnaðarstörfum gegndi hann, var i miðstjórn Sósíalistaflokksins um skeið og i framboði fyrir hann i nokkur skipti, bæjarfulltrúi á Siglufirði, i stjórn og fulltrúaráðum flokksfélaga, umboðsmaður Máls og menningar og Þjóðviljans um langt árabil, fulltrúi i stjórnum kennarasamtaka, fulltrúi á kennaraþingum o.fl., sem of langt yrði upp að telja. 011 störf, sem hann tók að sér, rækti hann af samviskusemi og skyldurækni, hélt á loft þeim málstað sem hann taldi réttan af fyllstu einurð og taldi sér jafnframt skylt að þegja ekki við því, sem hann taldi rangt.

Hlöðver kvæntist 12. ágúst 1944 Katrínu Pálsdóttur frá Litlu-Heiði i Mýrdal.
Eignuðust þau fjögur börn. Elstur er

  • Páll Hlöðversson, tæknifræðingur hjá Slippstöðinni á Akureyri, f. 1945. Þá er
  • Anna Matthildur Hlöðversdóttir, hjúkrunarfræðingur, f. 26. nóv. 1947, síðan
  • Sigurður Hlöðversson, tæknifræðingur hjá Húseiningum h/f á Siglufirði, f. 23. júlí 1949 og yngst er
  • Þorgerður Hlöðversdóttir, fóstra, f. 3. ág. 1955, forstöðumaður barnadagheimilisins á Siglufirði.

Svo sem fyrr var nefnt var Hlöðver mjög áhugasamur um stjórnmál. Hann var einn af stofnefndum Félags ungra jafnaðarmanna i Reykjavik og starfaði talsvert i þeim samtökum meðan hann var i Kennaraskólanum. Í Sósíalistaflokkinn gekk hann 1939, þegar honum þótti sýnt, að afturhaldið ætlaði að nota Finnlandsstríðið að skálkaskjóli til að þjarma að verkalýðshreyfingunni. Sjaldan hefur pólitísk barátta á Íslandi orðið illskeyttari en þá og síst voru svona viðbrögð til þess fallin að verða Hlöðver til persónulegs framdráttar. En þetta lýsir honum vel. Hann lifði alla ævi eftir hinu gamla kjörorði: Gjör rétt, þol eigi órétt.

Stjórnmálasamtök íslenskra sósíalista, fyrst og fremst flokksdeildin hér á Siglufirði, á Hlöðver mikla þökk að gjalda fyrir langt, heiðarlegt og óeigingjarnt starf. Sambýli mitt og fjölskyldu minnar við þau Hlöðver og Katrínu hefur staðið  á fjórða áratug og á það hefur aldrei borið skugga. Ein ástæðan fyrir því er sú, að i persónulegum samskiptum var þessi vígreifi maður, sem alltaf var tilbúinn til að berjast fyrir skoðunum sinum, flestum öðrum tillitssamari  og umburðarlyndari, og svo hreinskiptinn og heiðarlegur i öllum viðskiptum að af bar. Fyrir þessi góðu kynni og vináttu skal nú þakkað að skilnaði. Börnum og barnabörnum þeirra hjóna votta ég samúð mína og fjölskyldu minnar. Benedikt Sigurðsson
---------------------------------------------------------------------------------

Þjóðviljinn - 14. maí 1982

Hlöðver Sigurðsson er látinn Hlöðver Sigurðsson, fyrrverandi skólastjóri á Siglufirði andaðist á Landakotsspítala i gær 76 ára að aldri. Hlöðver var fæddur 29. apríl 1906 á Reyðará I Lóni i Austur-Skaftafellssýslu. Hann lauk kennaraprófi árið 1928, og hafði síðan kennslu og skólastjórn að ævistarfi. Hlöðver var skólastjóri á Stokkseyri 1933-1943, en þá gerðist hann skólastjóri barnaskólans á Siglufirði og gegndi því starfi uns hann lét af störfum fyrir aldurssakir.

Hlöðver tók lengi mjög virkan þátt i störfum stjórnmálasamtaka íslenskra sósíalista og gegndi þar mörgum trúnaðarstörfum. Hann lét önnur félagsmál einnig verulega til sin taka og var jafnan einn traustasti liðsmaðurinn í baráttu herstöðvaandstæðinga. Kona Hlöðvers var Kristin Pálsdóttir, en hún andaðist fyrir fáum vikum. Börn þeirra fjögur lifa. Hlöðver Sigurðsson var til hinsta dags umboðsmaður Þjóðviljans á Siglufirði og hafði gegnt því starfi með miklum sóma lengur en flestir aðrir. Þjóðviljinn á Hlöðver mikið að þakka og vottar aðstandendum hans samúð nú við andlát hans.